Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tyrfingur Sveinsson, bóndi í Lækjartúni, og holdakúahjörðin hans.
Tyrfingur Sveinsson, bóndi í Lækjartúni, og holdakúahjörðin hans.
Mynd / smh
Fréttir 9. febrúar 2021

Framúrskarandi árangur í Lækjartúni hvað varðar vaxtarhraða ungneyta

Höfundur: smh

Í lok nóvember á síðasta ári var nautahópi slátrað frá Lækjartúni í Ásahreppi. Nautin, sem voru við slátrun 16‑18 mánaða gömul, slógu öll met þar á bæ hvað varðar flokkun og meðalvigt sem fór í 373,5 kíló. Ekki einasta er þarna um að ræða persónulegt met Lækjartúnsbænda, heldur er árangur þeirra, samkvæmt skýrsluhaldi nautgriparæktar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), sá langbesti á landsvísu á síðasta ári, þegar tölur um vaxtarhraða og daglega þyngingu eru skoðaðar. Tyrfingur Sveinsson sér að mestu um nautaeldið á bænum og þakkar hann þremur lykilþáttum árangurinn; fóðruninni, aðbúnaðinum og ræktunarstarfinu. Gott kornræktarár 2019 hafi þó líklegast gert gæfumuninn að þessu sinni.

Níu nautkálfum var slátrað í lok nóvember frá bænum og eru fimm þeirra á topp tíu lista RML, fjórir í efstu fimm sætunum og einn í því áttunda. Tyrfingur segir kornræktarárið 2019 og gæði kornsins það ár hafi verið með því allra besta – en hlutfall byggs í fóðri Tyrfings er nálægt 20 prósentum.

Meðalstór holdanautarækt í Lækjartúni

Tyrfingur segir búið vera í meðalstærð yfir landið í holdanautarækt; 24 kýr og svolítil stækkun með árunum. „Hópurinn, sem var slátrað núna, voru allt kálfar sem fæddust vorið 2019, á tímabili frá 15. maí til 17 júlí. Alls fæddust 22 kálfar það vorið, 12 naut og 10 kvígur. Ein kvíga drapst við fæðingu, einn nautkálfur innan viku, líklega með einhvers konar E.coli-sýkingu og tvær kýr voru geldar. Allar kvígurnar nema ein þroskuðust vel og voru því átta kvígur settar á. Alls komust 11 naut til nytja og voru tvö þeirra seld sem þarfanaut á aðra bæi. Eftir standa því þessi níu naut sem var slátrað 16 til 18 mánaða gömlum,“ segir Tyrfingur.

Óvenju gott kornár

Tyrfingur segist hafa komist að því í samtölum við fólk á svæðinu, sem hefur skoðað mjólkurgæðin í fyrra hjá kúabændum með eigin kornrækt, að þau hafi verið talsvert meiri en er að jafnaði annars. „Ég held þannig að þetta eigi við bæði um mjólkina og eldið, að byggið var óvenju gott árið 2019,“ segir Tyrfingur en þvertekur fyrir að hann sé einhver sérstakur sérfræðingur. „Ég fylgi hins vegar vel þeim leiðbeiningum sem ég fæ frá sérfræðingunum og svo er ég auðvitað dálítill grúskari.

Kýrnar bera á vorin og kálfarnir ganga undir mæðrum sínum á beit fram á haust. Kúnum er gefið hey þangað til túnið sem þær eru á fer að hafa undan beitinni, en svo eru þær færðar á úthagabeit á 40 ha mýri um mánaðamótin júní-júlí. Þar eru þær næstu tvo mánuðina fram að mánaðamótum ágúst-september. Ég hef ræktað um 1,5 ha með blöndu af káli, rýgresi og höfrum sem ég byrja að randbeita þá um haustið bæði kýr og kálfa ásamt annarri beit, t.d. þar sem gripirnir eru látnir hreinsa endurvöxt af túnum.

Það er hins vegar alveg hægt að setja spurningarmerki við þessa kálrækt eftir síðastliðinn september sem var ákaflega rigningarsamur og spildan var fljót að vaðast upp í drullu við umgang dýranna.

Um það leyti sem kálið og önnur beit klárast byrja ég heygjafir, oftast um miðjan okóber. Þá hef ég verið með lítið gerði sem aðeins kálfarnir komast í og gefið þeim þar gott hey í gjafagrind, en kýrnar fá miðlungsgott þar til kálfarnir eru teknir undan. Yfir vetrartímann fá þær svo viðhaldsfóður. Undanfarin ár var kúnum gefið í gjafagrindur 4 rúllur í einu á 2 daga fresti. Þessu gjafafyrirkomulagi fylgdi talsverður slæðingur, uppsöfnun á skít á litlum bletti og kýrnar virtust éta meira en þær þurftu og voru því of feitar. Núna í vetur hef ég svo verið að prófa að gefa með því að rúlla út 1 rúllu á dag meðfram randbeitistreng sem ég færi í hvert skipti svo þær eru alltaf að éta á hreinum stað. Það líkar mér mun betur þar sem þessi aðferð virðist spara mikið hey miðað við fyrri aðferðir, þær dreifa jafnt úr skítnum yfir svæðið og holdafar kúnna er mun eðlilegra en áður,“ segir Tyrfingur um fóðurfyrirkomulagið á bænum.

Nokkur af þeim nautum sem þyngdust hvað hraðast á síðasta ári í Lækjartúni.

Velferðargólf

Eitt atriði í aðbúnaði kálfanna segir Tyrfingur að vegi einnig þungt þegar kemur að vexti og viðgangi gripanna, en það eru svokölluð velferðargólf sem hann segir að séu fljót að borga sig upp.

„Kálfarnir eru teknir undan kúnum og settir inn um leið og árgangurinn á undan er farinn í sláturhús í lok nóvember, þá orðnir um sex mánaða gamlir. Við höfum tekið inn bæði naut og kvígukálfa. Kvígukálfarnir fara svo út í apríl og þá fá nautkálfarnir meira pláss. Það virðist vera lykilatriði að taka kvígukálfana inn til að venja þá við umgengni mannsins, en hjörðin hefur gjörbreyst í hegðun síðan við byrjuðum á þessu.

Rýmið sem kálfarnir hafa er í hlöðu sem breytt var að hluta í „hefðbundna“ eldisaðstöðu með fóðurgang í miðju og stíur með rimla fóru til hliðanna. Stíupláss er 38 fermetrar og allir steinbitar klæddir með grænu velferðargólfunum sem Grétar Hrafn Harðarson dýralæknir selur. Gólfgerðina tel ég að skipti sköpum í velferð og þar með vaxtarhraða gripanna, en gripunum virðist líða ákaflega vel á þessum renningum og haldast vel hreinir.

Ég veit svosem ekki hvað svona velferðargólf er verðlagt á í dag en þegar við keyptum grænu gólfin fyrir um fimm árum síðan kostuðu þau um 600 þúsund krónur. Ef maður deilir þeirri upphæð á 10 ára fyrningartíma þá gerir það um 60 þúsund krónur á ári. Við höfum slátrað að meðaltali 10 gripum á ári og ef maður deilir þessum 60 þúsund á 10 gripi þá gerir það 6.000 krónur á grip. Samkvæmt núverandi verðskrá fást 796 krónur á kílóið fyrir R-flokk í sláturhúsinu á Hellu. Ef maður deilir kílóverðinu í 6.000 krónurnar kemur út að hver gripur þarf að bæta við sig 7,5 kílóum á innieldistímanum til að borga fyrir grænu gólfin á þessum 10 árum. Ég tel að grænu gólfin geri talsvert betur en það fyrir þyngdaraukningu gripanna.“

Holdakýr í Lækjartúni.

Úrvalshey og fiskimjöl

Að sögn Tyrfings fá kálfarnir úrvalshey þegar inn í hlöðu er komið – slegið kringum 20. júní – ásamt heimaræktuðu byggi, fiskimjöli og steinefnablöndu í duftformi. „Fiskimjölið er gefið á tímabilinu frá því þeir eru teknir inn fram á vorið á meðan próteinþörfin er mest.
Það ræðst svo af bygguppskeru hvers árs hversu mikið og hversu lengi gripirnir fá korn. Við höfum ræktað korn á þremur hekturum á hverju ári og valsað það í stórsekki með mjólkursýrugerlum og pakkað svo sekkjunum inn í rúlluplast. Ef uppskeran er góð fá þeir korn allan eldistímann en ef það er takmarkað magn dreg ég úr korngjöfum yfir sumartímann og eyk svo skammtinn aftur í september, sem er um þremur mánuðum fyrir slátrun.“

Flokkun þeirra níu ungneyta sem slátrað var seint á síðasta ári frá Lækjartúni. Reiknað er með 20 kílóa fallþunga við fæðingu.

Þarfanautið Moli

Tyrfingur telur að ætterni föðurins hafi einnig haft sitt að segja varðandi árangurinn í eldinu á síðasta ári. „Þarfanautið 2018 var nautið Moli nr. 1935 frá Móeiðarhvoli. Hann var 50 prósent limousine, 25 prósent Angus og 25 prósent íslenskur. Móðirin var undan Angusnautinu Álfi 95401 og íslenskri kú. Faðirinn var Ljómi 95451,“ segir hann.

Þrátt fyrir frábæran árangur á síðasta ári sér Tyrfingur fyrir sér að enn megi gera betur í eldinu á ýmsum sviðum. Ætlunin er að taka nýja erfðaefnið frá Stóra-Ármóti inn í ræktunarstarfið fljótlega og hann er byrjaður á að reisa gerði með steyptri gólfplötu, fóðurgangi og flórgryfju sem mun þjóna hjörðinni á ýmsan hátt. Hann segir að þetta verði fyrsta gerði sinnar tegundar á Íslandi. „Þarna verður hægt að gera ýmislegt sem getur minnkað stress, sem til dæmis skapast hjá kálfunum þegar þeir eru teknir undan og teknir á hús. Það verður þá hægt að flokka þá frá mæðrum sínum og gefa þeim í nokkra daga í gerðinu eða hólfi við hliðina á kúnum. Þá yrðu umskiptin minni þegar þeir eru teknir á hús þar sem ekki er verið að taka þá frá mæðrum sínum í sömu aðgerð. Þarna verður einnig hægt að snyrta klaufir og gefa lyf með minna streituálagi á gripina.

Einnig mætti bæta fóðrun kálfanna seinnipart sumars og fram á haust með því að hafa hjá þeim fóðurtrog sem aðeins kálfarnir komast að og gefa þeim þar fóðurbæti.

Ég stefni líka á að taka beitarmálin mun fastari tökum á komandi sumri, en þar tel ég að við holdanautabændur á Íslandi eigum mikil ónýtt tækifæri sem felast í því að hólfa niður beitarhólf og gefa þeim lengri friðunartíma með markvissri skiptibeit,“ segir Tyrfingur.

Tyrfingur er að reisa gerði sem mun þjóna holdanautahjörðinni með ýmsum hætti, meðal annars minnka stress.

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Hundrað hesta setningarathöfn
12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn