Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Framtíð mjólkurframleiðslu – okkar val
Mynd / BBL
Lesendarýni 31. janúar 2019

Framtíð mjólkurframleiðslu – okkar val

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir

Endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgripa-ræktar-innar fer fram á þessu ári og er því loksins komið að því að atkvæðagreiðsla fari fram meðal mjólkurframleiðenda um hvort framleiðslustýring verði afnumin eða ekki.

Herdís Magna Gunnarsdóttir.

Það er ekki laust við að bændur hafi tekist nokkuð á um þessi mál bæði fyrir og eftir að samningurinn var undirritaður árið 2016. Endurskoðunarákvæði samningsins hefur skapað óþægilega óvissu í mjólkurframleiðslu síðustu ár og skiptar skoðanir hafa verið meðal framleiðenda.

Íslenskir kúabændur hafa á síðustu árum sýnt hvað í þeim býr og landsframleiðslan farið langt umfram það sem spár sögðu til um.

Hvað vilja bændur?

Sem stjórnarmaður í Lands-sambandi kúabænda lít ég fyrst og fremst á það sem hlutverk mitt að starfa fyrir bændur og vinna að málum sem félagsmenn koma sér saman um.

Á aðalfundi LK 2018 ályktuðu bændur þess efnis að þeir vilji viðhalda framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu og að þeir vilji áfram eiga viðskipti með greiðslumark. 

Nú síðast ályktuðu ungir bændur á ársfundi SUB 2019 að þeir telji hagsmunum sínum best varið með áframhaldandi framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu og vilja þá að viðskipti fari fram á endurbættum innlausnarmarkaði.

Í stefnumótun LK í mjólkurframleiðslu kemur fram um starfsumhverfi greinarinnar að tryggt verði fyrirkomulag mjólkursöfnunar sem jafnar flutningskostnað kúabænda hvar sem þeir búa. Einnig eigi dreifing búa um landið að halda sér hlutfallslega og fjölbreytileiki í stærð og rekstrarformi búa.

Hvert er valið?

Ég ætla ekki að fara leynt með skoðun mína en ég tel að hagsmunum íslenskra kúabænda sé best gætt með að viðhalda framleiðslustýringu. 

Það er erfitt að sjá fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér en við höfum þó nokkur fordæmi fyrir því hverjar afleiðingarnar eru af því að gefa framleiðsluna frjálsa. Þá ber helst að líta til Evrópusambandsins þar sem kvóti var lagður af árið 2015 og í kjölfarið fór fjöldi kúabænda á hausinn. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá hvaða áhrif stjórnlaus framleiðsla hefur haft hjá sauðfjárbændum.

Sú reynsla sem komin er á útflutning mjólkurvara hefur sýnt að það er mjög erfiður markaður og vandfundnir staðir þar sem ásættanlegt verð fæst fyrir okkar vörur.

Ég sé fyrir mér að ef kvóti verður afnuminn hér á landi stóraukist framleiðslan með þeim afleiðingum að verð til bænda lækkar. Það mun hafa þær afleiðingar að minni framleiðendur gefast upp og hætta þannig að búum mun fækka og þau munu stækka. 

Ef framleiðslan fer langt umfram það sem mjólkuriðnaðurinn ræður við að koma út get ég ekki séð að hægt verði að leggja söfnunar- né kaupskyldu á iðnaðinn áfram og velti fyrir mér hvort jöfnun á flutningskostnaði muni þá ekki heyra sögunni til.

Þá verður framleiðsluumhverfið orðið gjörbreytt og þessi starfsskilyrði stuðla varla að því að mjólkurframleiðsla fari fram um land allt.

Framleiðslan færist yfir á fáa en stóra aðila og nýliðun verður mun erfiðari.

Þetta er mynd sem mér líst ekki á og þá má einnig velta fyrir sér hver ímynd mjólkurframleiðslu verður hjá neytendum og stjórnvöldum. Þetta væri andstætt því sem komið hefur fram meðal almennings í landinu sem er jákvæður fyrir fjölskyldureknum landbúnaði.

Við skulum ekki vanmeta þetta því það er okkur lífsnauðsyn að halda jákvæðri ímynd og velvild landsmanna í garð landbúnaðarins.

Ég tel að stýring hafi nú þegar sannað sig og eigi stóran þátt í því hversu öflug atvinnugrein mjólkurframleiðsla hefur orðið á landinu.

Fyrri framleiðslustýringakerfi hafa ekki verið gallalaus og þau þurfa stöðugt að vera til endurskoðunar og taka endurbótum eftir kröfum tímans og verður það gert í kjölfar kosningar ef framleiðslustýring verður kosin áfram. Ég tel að við séum betur í stakk búin að takast á við áskoranir mjólkurframleiðslunnar með áframhaldandi framleiðslustýringu.

Ef valið stendur um framleiðslu-umhverfi sem miðast við að vera á alþjóðlegum markaði sem fyrst og fremst byggist á sem ódýrastri framleiðslu eða umhverfi sem byggir á innanlandamarkaði og setur samfélagið og vörugæði í forgang er ekki spurning hvorn kostinn ég vel – mér hugnast síðari kosturinn mun betur.

Þá þurfum við líka að njóta tollverndar enda er eðlilegt að bændur njóti þeirrar verndar rétt eins og launþegar á landinu eru varðir fyrir innflutningi ódýrs vinnuafls. Við eigum að vera ófeimin við að gera þá kröfu.

Styrkurinn liggur í samstöðu

Nú fara línurnar að skýrast um hvaða stefnu bændur taka í þessum málum.  Því segi ég, loksins er komið að kosningu.

Í kosningunni verður aðeins spurt hvort bændur vilji framleiðslu-stýringu áfram eða ekki. Allir mjólkurframleiðendur hafa kosningarétt, eitt atkvæði verður fyrir hvern innleggjanda. 

Ef stýring verður kosin áfram er svo annað mál hvernig eigi að hátta viðskiptum með greiðslumarkið en það liggur mikið á að koma hreyfingu á viðskiptin.

Hver svo sem niðurstaða kosninganna verður munu kúabændur halda áfram að mæta nýjum áskorunum og verkefnum af ýmsum toga. Því er gríðarlega mikilvægt að bændur sýni styrk sinn með samstöðu og taki virkan þátt í þeirri umræðu sem fer fram innan okkar hagsmunafélags. Hægt er að takast á um mál innan félagsskaparins og mikilvægt að fólk komi skoðunum sínum á framfæri og komist að niðurstöðu sem hægt er að berjast fyrir og standa saman um. 

Með samstöðu stöndum við sterkust út á við gagnvart þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér.

 

Herdís Magna Gunnarsdóttir

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...