Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Vænlegast þykir í nánustu framtíð að horfa til notkunar á verkuðu heyi til nýtingar á graspróteini hér á landi, fremur en vinnslu og einangrun á sjálfu próteininu.
Vænlegast þykir í nánustu framtíð að horfa til notkunar á verkuðu heyi til nýtingar á graspróteini hér á landi, fremur en vinnslu og einangrun á sjálfu próteininu.
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýtingar á graspróteini hér á landi, fremur en vinnslu á próteindufti úr fersku grasi.

Það er niðurstaða vísindamanna sem unnið hafa að samstarfsverkefni um möguleika á framleiðslu á graspróteini til fóðrunar búfjár.

Stuttur vaxtartími

Verkefnið er unnið í samvinnu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Matís Landbúnaðarháskóla Íslands og Bændasamtaka Íslands en verkefnið er styrkt af Matvælasjóði. Hluti af verkefninu var að kynna sér vinnslu próteins úr grasi í Danmörku.

Ditte Clausen.

Ditte Clausen, ráðunautur hjá RML, er í teyminu sem kom að rannsóknunum og segir hún að verkefnið um grasprótein á Íslandi sé enn eingöngu á hugmyndastigi. Til að það geti orðið raunhæft þurfi að leysa ýmsar áskoranir, sérstaklega hvað varðar stutt vaxtartímabil grasa á Íslandi og mun styttra en í löndum eins og Danmörku. Ísland henti þó vel til grasræktar og hér sé talsvert mikið land sem ekki er nýtt til ræktunar.

„Þróun framleiðslu á graspróteini hefur verið hröð erlendis og ljóst er að mikill áhugi er fyrir því af ýmsum ástæðum. En vegna hins stutta vaxtartíma hér á Íslandi þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að eiga slægt gras, eða sem getur flokkast sem mjólkurkúafóður, í nema 17–18 vikur á sumri, meðan erlendis er verið að miða við 30–35 vikur. Það hefur neikvæð áhrif á rekstur graspróteinverksmiðju ef hún stendur ónotuð í um 8 mánuði á ári. Því er lykilatriði að skoða kosti varðandi notkun slíkrar verksmiðju við aðra framleiðslu samhliða graspróteinframleiðslu. Einnig er mikilvægt að finna not fyrir allar hliðarafurðir sem falla til við framleiðslu graspróteins til að tryggja tekjustreymi,“ segir Ditte og vísar þar til brúna safans, sem hefur áburðargildi, og hratsins sem fellur til við framleiðslu á graspróteini.

Próteinsafi fyrir svín

„Það er mikil þróun í gangi og margt sem er áhugavert að skoða,“ heldur Ditte áfram spurð um hversu raunhæft sé að á næstu árum verði komin alvöru graspróteinframleiðsla á Íslandi. „Það verður spennandi að fylgjast með rannsóknum í Finnlandi og Svíþjóð, á notkun verkaðs votheys í framleiðslunni en það gæti verið lausn sem myndi á endanum mögulega henta betur hérlendis í nánustu framtíð. Þar hafa verið gerðar rannsóknir á pressun verkaðs votheys og notkun á próteinsafa fyrir svín.“

Ditte segir að við verkun votheys verði hluti próteinsins óaðgengilegt og því ekki hægt að ná því úr vökvanum. „Þess vegna er hugmyndin að nota safann í blautfóður eins og hann kemur fyrir. Þá er framleiðslan kannski komin niður á minni skala og ekki í stórskala eins og í Danmörku. Safinn virðist hafa notagildi fyrir svín en geymsluþol og próteingæði eru áskoranir sem fylgja notkun á grænum safa beint í fóðrið, sem þarf að skoða betur.“

Ávinningur danskra svínabænda

Að sögn Ditte er framleiðslan erlendis ekki arðbær sem stendur, sé miðað við notkun annarra fóðurefna. „Helst er að svínabændur í lífrænni ræktun í Danmörku hafi ávinning af því að nota graspróteinið vegna krafna um óerfðabreytt fóður og tiltölulega hás verðs á lífrænu soja.

Erlendis er verið að þróa vinnsluferli fyrir grasprótein til manneldis, sem hluta af framleiðslu á fóðurpróteini. Það er hins vegar dýrt ferli og þörf fyrir aukið fjármagn til að gera það raunverulegt.“

Ýmis tækifæri á Íslandi

Ditte telur þó að ýmis tækifæri séu á Íslandi til lengri tíma litið. „Nýjum aðferðum og hugsunarhætti geta fylgt margvíslegar áskoranir. Hindranir sem snúa að vinnslu á graspróteini eru miserfiðar að fást við en eiga það sameiginlegt að til að komast yfir þær þarf tíma og peninga. Það er eitthvað sem þó gæti tekið tíma og fjármagn.

Nægjanlegt ræktarland er til staðar hér á landi ef það er verndað fyrir annarri notkun en ræktun. Við höfum ódýra og sjálfbæra orku til þurrkunar og annarra hluta próteinframleiðslunnar ef slíkt er haft að leiðarljósi við staðsetningu. Mikilvægt er í því sambandi að velja stað einnig út frá nálægð við ræktarland og búfjáráburð (svínabú) til að hagkvæmnin verði sem mest.

Sjálfbær ræktun með bættri hringrás næringarefna sem um leið er skref í átt að fæðuöryggi og fæðusjálfstæði þjóðarinnar verður að teljast jákvæð þróun og eitthvað sem mikilvægt er að stuðla að. Líklegt er að próteinframleiðsla úr grasi á Íslandi þurfi stuðning eða þolinmótt fjármagn á sínum fyrstu skrefum en tækifærin sem þessu fylgja eru þess eðlis að full ástæða er til að hvetja til þess að allir afleiddir þættir, svo sem umhverfis- legir og þeir sem snúa að fæðuöryggi, séu metnir til tekna.“

Skylt efni: grasprótein

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...