Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Stjörnualdin, Averrhoa carambola, er vinsælt aldin í Suðaustur-Asíu og eftirspurn eftir aldininu er vaxandi á Vesturlöndum. Aldinið er annað slagið í boði hér á landi.
Stjörnualdin, Averrhoa carambola, er vinsælt aldin í Suðaustur-Asíu og eftirspurn eftir aldininu er vaxandi á Vesturlöndum. Aldinið er annað slagið í boði hér á landi.
Á faglegum nótum 21. júlí 2020

Stjörnualdin finnst ekki í náttúrunni nema sem slæðingur frá ræktun

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fá ef nokkurt aldin hefur jafn svip­mikla lögun og sum afbrigði stjörnualdina. Sé aldinið skorið í sneiðar myndar það fallega fimm arma stjörnu. Aldinsins er mikið neytt í Suðaustur-Asíu og vinsældir þess eru smám saman að aukast á Vesturlöndum. Stjörnualdinstré finnast ekki villt í náttúrunni en hafa víða gert sig heimakomin sem slæðingur frá ræktun.

Aldinið myndar áberandi stjörnu sé það skorið í sneiðar.

Þrátt fyrir að stjörnualdin sé vel þekkt og mikið ræktað í Suðaustur-Asíu fundust ekki tölur um árlega ræktun aldinsins í heiminum. Malasía, Kambódía og Taíland eru þau lönd sem mest rækta af stjörnualdini, en einnig er talsvert ræktað af því í Kína, Ástralíu, Ísrael, Taívan, Víetnam og í Flórídaríki Bandaríkjanna Norður-Ameríku.

Ekki fundust tölur um innflutning stjörnualdina til Íslands enda innflutningurinn lítill og aldinið því líklega flokkað með öðrum aldinum í innflutningstölum Hagstofunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá einum innflutningsaðila nemur innflutningur hjá þeim nokkur hundruð kílóum á ári.

Ættkvíslin Averrhoa og tegundin carambola

Tegundir innan ættkvíslarinnar Averrhoa, sem tilheyrir ætt súrsmæra, eru á bilinu sjö til tíu og finnast flestar villtar í Suðaustur-Asíu. Tvær tegundir, A. bilimbi og A. carambola, eru ræktaðar vegna aldinanna og kallast sú síðari stjörnualdin á íslensku.

Uppskera af einu tré er milli 90 til 180 kíló á ári eftir yrkjum og vaxtar­skilyrðum.

A. carambola er hægvaxta sí­grænt tré eða runni með trefjarót og nær milli sex og tólf metra hæð þar sem það hefur sáð sér út í náttúruna en er yfirleit lægra í ræktun.

Krónan er breið, sex til átta metrar í þvermál, með mörgum slútandi greinum sem eru hvítar í fyrstu en verða rauðleitar með aldrinum. Laufið ljósgrænt, 15 til 20 sentímetrar að lengd, samsett með tíu stakkstæðum, egglaga eða ílöngum og heilrenndum smáblöðum og einu endablaði, smáblöðin 3 til 9 sentímetrar að lengd og 2 til 4 að breidd, efriborð blaðanna mjúkt viðkomu en hvít smáhærð á neðra borði. Blöðin missa safaspennuna á nóttunni og í miklum vindi. Blómin tvíkynja, bleik eða fjólublá og vaxa á stuttum rauðum stönglum út úr greinunum eða við laufstilka. Blómin, sem eru nokkur saman í hnapp, eru ekki sjálffrjóvgandi og sjá flugur að mestu um að bera frjó milli plantna. Bjöllulaga með fimm krónublöðum og um sex millimetra að þvermáli. Aldinið 5 til 15 sentímetrar að lengd og 9 sentímetrar að þvermáli með djúpum, yfirleitt fimm en getur verið breytilegt, grópum eða kömbum á langveginn og myndar áberandi stjörnu sé það skorið í sneiðar. Aldinið, sem er ber, er með þunna og vaxkennda aldinhúð sem er í fyrstu græn en verður gul við aukinn þroska. Aldinkjötið gult, safaríkt, eilítið súrt og stökkt undir tönn. Í hverju aldini eru 10 til 12 ljósbrún fræ, sem eru hálfur til einn og hálfur sentímetri að lengd, en til eru afbrigði sem mynda ekki fræ. Líftími trjánna er um 40 ár.

Til er fjöldi yrkja sem eru ólík að lit, stærð, lögun og bragði, súr eða sæt. Má þar nefna 'Maha' sem er nánast hnöttótt, ljósgult og sætt og yrki 'Kwang Tung' sem gefur af sér fremur stór og mjög sæt aldin sem eru ljósgul. Yrkið 'Yang Tao' er mest ræktað í Taívan en 'Ma fueng' á Taílandi og 'Demak' í Indónesíu.

Blómin eru bleik eða fjólublá og vaxa á stuttum rauðum stönglum við axlir á greinum eða við blaðstilka.

Heimkynni og útbreiðsla

Stjörnualdintré hafa aldrei fundist villt í náttúrunni nema þar sem þau hafa slæðst út frá ræktun. Það gefur til kynna að plantan hafi verið lengi í ræktun og ræktunartegund sem eingöngu er til af mannavöldum.

Ekki er vitað fyrir víst hvaðan A. carambola eru upprunalegt en yfirleitt er plantan talin vera komin frá Srí Lanka, Mólukaeyjum eða Indónesíu og að hún hafi breiðst þaðan út um stóran hluta Suðaustur-Asíu þar sem plantan er víða ræktuð og hefur gert sig heimakomna. Auk þess sem hún hefur náð fótfestu víða í Ástralíu, Mið- og Suður-Ameríku og hluta Afríku eftir að hafa slæðst úr frá ræktun, hvort sem er til átu eða sem stásstré í görðum. Í dag telst tegundin vera innlend á Filippseyjum, í Malasíu og í Víetnam. 

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Averrhoa er í höfuðið á múslímska lækninum, stjörnufræðingnum, dómaranum og heimspekingnum Abu 'l-Walid Mu?ammad bin A?mad bin Rushd, sem gekk almennt undir nafninu Ibn Rushd og var uppi 1126 til 1198. Ibk Rushd bjó og starfaði í Andalúsíu á Spáni og kaus sjálfur að kalla sig Averroes upp á latínu. Portúgalar voru fyrstir til að nota tegundarheitið carambola árið 1598 og er talið að það heiti sé komið úr indverska málinu marathi, karambal, en upphaflega úr sanskrít, karamaphala, sem þýðir forréttur.

Á ensku kallast aldinið carambola eða star fruit. Víða í Suðaustur-Asíu kallast það belimbing eða ma fueang en í Taílandi kallast aldinið maak fueang og kh? í Víetnam. Víðast í Suður-Ameríku og á eyjum í Karíbahafi kallast aldinið carambola eða karanbol. Þjóðverjar kalla það karambole eða sternfrucht, Finnar segja tähtihedelmä en Svíar karambåla og stjärnfrukt. Á dönsku kallast aldinið stjernefrugt og á íslensku þekkjast heitin stjörnualdin og stjörnuávöxtur.

Blöðin missa safaspennuna á nótt­inni og í miklum vindi.

Saga

Talið er að stjörnualdintré hafi borist með Portúgölum eða Spánverjum á Flórídaskaga í Bandaríkjunum Norður-Ameríku árið 1887 frá Indlandi. Í fyrstu var það ræktað sem forvitnilegt skrauttré eða runni og útbreiðsla þess takmörkuð.

Það var ekki fyrr en í kringum 1970 sem stjörnualdin fóru að sjást í verslunum í Bandaríkjunum að einhverju ráði. Vaxandi vinsældir aldinsins þar eru að mestu áhugagarðyrkjumanninum Morris Arkin að þakka. Arkin, sem bjó í Flórída, var mikil áhugamaður um ræktun stjörnualdins og prófaði sig áfram með ýmis yrki á árunum 1960 til 1970. Arkin æxlaði einnig saman ólíkum yrkjum og datt að lokum niður á blending sem varð gríðarlega vinsælt. Yrkið sem um ræðir kallast 'Arkin' í höfuðið á skapara sínum og er miðlungs stórt, dökkgult að lit, er sætt á bragðið og mest ræktaða yrki í Bandaríkjunum í dag.

Vinsældir stjörnualdins á Vesturlöndum hafa smám saman verið að aukast undanfarna áratugi og er aldinið ræktað til manneldis í Flórída, á Havaíeyjum og Púertó Ríkó til að fullnægja eftirspurninni í Bandaríkjunum Norður-Ameríku. Stjörnualdin sem seld eru í Evrópu koma aftur á móti yfirleitt frá Asíu.

Ræktun

Stjörnualdinstré eru sígrænar og hitakærar plöntur sem gefa af sér aldin allt árið við bestu skilyrði. Fullþroskaðar plönturnar þola heita og þurra eyðimerkurvinda vel og allt að -2,8° á Celsíus í stuttan tíma en ungplöntur eru viðkvæmari.

Aðaluppskerutíminn í Taílandi er frá október til desember en í Indónesíu er aldinið uppskorið tvisvar á ári, í janúar til febrúar og júlí til ágúst. Í Flórída er uppskerutími stjörnualdina frá í desember og fram í mars.

Ólík yrki.

Hægt er að rækta tréð í allt að 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem skilyrði leyfa. Plantan kýs mikla og beina sól og að minnsta kosti 1.800 millimetra úrkomu á ári en miklar rigningar geta skemmt fyrir aldinmyndun. Trén eru ekki kræsin á jarðvegsgerð og þrífast vel í grýttum og gljúpum jarðvegi. Yfirleitt eru trén vökvuð reglulega í ræktun, en þau þola ekki vatnsósa jarðveg og eru gefinn áburður þrisvar á ári.

Trjánum er fjölgað með ágræðslu eða toppgræðlingum til að viðhalda yrkjum. Þar sem stjörnualdintré eru með víðfeðma og fyrirferðarmikla krónu er þeim í ræktun plantað út með að minnsta kosti sex og upp í níu metra millibili. Trén eru hraðvaxta og eru yfirleitt byrjuð að mynda aldin á fjórða til fimmta ári.Uppskera af einu tré getur verið á milli 90 til 180 kíló á ári eftir yrkjum og vaxtarskilyrðum.

Eitthvað er um að trjánum sé fjölgað af fræi. Fræin hafa þann ókost að þau lifa stutt og verður þroski aldina að vera réttur svo að fræin séu fullþroskuð. Best er að sá í raka svarðmosamold og það tekur fræin um 14 til 18 daga að ála við rétt skilyrði. Rótarkerfi fræplantna er seinvaxið og ungplöntur viðkvæmar og þurfa ástríka umönnun eigi þær að lifa og dafna.

Þrátt fyrir að stjörnualdin séu laus við ýmsa óværu í ræktun er líkt með þeim og öðrum aldintegundum að á trén leggjast ýmsar pöddur, sveppir, vírusar og bakteríur og er beitt bæði lífrænum og efnahernaði í baráttunni við óværuna. Vegna sjúkdómavarna er bannað að flytja inn stjörnualdin frá Malasíu til Bandaríkjanna Norður-Ameríku.

Þar sem er ekki gætt að trjánum í ræktun og aðstæður eru þeim hagfelldar geta þau sáð sér út í náttúruna og eru sums staðar talin með ágengum tegundum sem leggja undir sig stór svæði á skömmum tíma.

Stjörnualdin eru yfirleitt tínd á meðan þau eru græn og óþroskuð og látin þroskast í flutningi. Aldinin skemmast hæglega við hnjask og hafa stuttan hillutíma í verslunum. Í lokuðu íláti geta þau geymst í kæli í um tvær vikur. Ofþroskuð aldin fá á sig brúna bletti, verða saggaleg og óvæn viðkomu.

Stjörnualdin eru yfirleitt tínd á meðan þau eru græn og óþroskuð og látin þroskast í flutningi.

Nytjar

Stjörnualdin beint af trjánum er 91% vatn, 7% kolvetni og 1% prótein. Aldinið inniheldur litla sem enga fitu og í hverjum 100 grömmum er að finna 31 kaloríu. Það er ríkt af C- og B-vítamínum og inniheldur talsvert af stein- og andoxunarefnum en lítið af trefjum.

Yfirleitt er aldinanna neytt ferskra á meðan þau eru stinn, safarík og stökk undir tönn en þau eru einnig talsvert notuð til matargerðar í Asíu og víðar. Auk þess sem aldinið er pæklað og notað í sósur, sultur og safa.

Í Suðaustur-Asíu eru aldinin skorin í sneiðar eða strimla og léttsteikt á pönnu ásamt negul, sykri og stundum eru eplaskífur hafðar með. Kínverjar eru hrifnir af stjörnualdininu með fiski og á Taílandi þykja þau gott meðlæti með rækjum en á Jamaíka er algengt að aldinin séu þurrkuð og borðuð sem snakk eða millimál. Einnig er gott að hafa þau fersk í salat og stjörnualdin fer vel með avakadói og roast beef.

Aldinið er sagt þvagauk­andi, slímlosandi og hósta­stillandi auk þess sem það á að auka hárvöxt og lina timburmenn og draga úr líkum á sykursýki. Það á einnig að græða magasár, draga úr bólgum, auka mjólkurmyndun nýmæðra og blóðflæði í æðum, drepa iðraorma, lægja höfuðverk og auka frískleika húðarinnar.

Ungplöntur af fræi eru viðkvæmar og þurfa ást og umhyggju í uppeldi.

Samkvæmt alþýðuspeki á lauf trjánna að stöðva uppköst séu þau lögð á ennið og mulin fræ að hafa róandi áhrif séu þau blönduð vatni og drukkin.

Þar sem aldinið inniheldur talsvert af oxalsýru er ekki gott að neyta mikils af því í einu og ofneysla getur leitt til eitrunareinkenna, sér í lagi hjá fólki sem á við vandamál í nýrum að stríða.

Seinni tíma rannsóknir benda til að í stjörnualdinum sé að finna bólgulægjandi efnasambönd og efnasambönd sem draga úr húðþurrki.

Viður stjörnualdintrjáa eru ljós en fær á sig rauðleitan blæ eftir að hann er þurrkaður. Viðurinn er þokkalega harður í sér og notaður til húsagerðar og til að búa til húsgögn. Safi aldinanna er sagður vera góður blettahreinsir og til að hreinsa ryð af járni og fægja kopar.

Stjörnualdin á Íslandi

Fyrst er getið um stjörnualdin eða stjörnuávöxt, eins og aldinið er stundum kallað, í íslenskum fjölmiðli í Morgunblaðinu árið 1990 en þar segir í dálki, sem kallast Á förnum vegi, undir fyrirsögninni Skrítið grænmeti og framandi ávextir, um stjörnualdin: „Þessi ávöxtur er yfirleitt borðaður hrár til dæmis í salati, með fuglakjöti eða skelfiski, en Indverjar súrsa hann. Hann er C-vítamínauðugur.“

Tveimur árum síðar birti Hagkaup auglýsingu með myndum af ýmsum áhugaverðum framandi ávöxtum og þar á meðal, papaja, rambútan og stjörnualdini.

Í Fréttablaðinu árið 2009 er að finna lýsingu á hvítvíni sem heitir Villa Antinori þar sem segir að það sé fölsítrónugult með létta fyllingu, þurrt og ferskt og að bragðið einkennist af sítrus, ljósum ávexti, stjörnuávöxtum og steinefnum.

Stjörnualdin sést ekki oft í grænmetisborðum stórmarkaða hér á landi en er í boði annað slagið. 

Léttsteikt stjörnualdin með indverskum kryddum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...