Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Salt til manneldis kallast matar- eða borðsalt og á það að vera hreinna en iðnaðarsalt sem stundum er notað til matvælaframleiðslu.
Salt til manneldis kallast matar- eða borðsalt og á það að vera hreinna en iðnaðarsalt sem stundum er notað til matvælaframleiðslu.
Á faglegum nótum 11. júní 2021

Salt jarðarinnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Salt er steinefni sem að mestu er samsett úr natríum og klóri, NaCl, og finnst víða í bergi og jarðvegi víðs vegar um heim sem bergkristall eða halite. Salt er eitt elsta kryddið sem þekkist og söltun matvæla er ævaforn geymsluaðferð. Tvær saltvinnslur er starfræktar hér á landi.

Áætluð heimsframleiðsla á salti árið 2018 var um 300 milljón tonn og um 6% af því fer til manneldis en megnið er notað til iðnaðar, meðal annars til framleiðslu á plasti, pappamassa og öðrum iðnaði. Salt er einnig notað til að afísa vegi og í landbúnaði.

Ólíkar gerðir af salti frá ólíkum heimshlutum.


Kínverjar eru stórtækastir þjóða þegar kemur að framleiðslu salts og var framleiðslan þar í landi um 68 milljón tonn árið 2018. Sama ár var framleiðslan í Bandaríkjum Norður-Ameríku 42 milljón tonn, 29 milljón á Indlandi, 13 í Þýskalandi og Kanada og 12 milljón tonn í Austurríki.

Þekkt frá alda öðli

Salt er tengt menningarsögu þjóða um allan heim og hefur verið hluti af daglegu lífi fjölda fólks langt aftur í aldir. Elstu minjar benda til að fólk, sem var búsett þar sem Rúmenía er í dag, hafi soðið leysingavatn til að vinna úr því salt fyrir rúmum sex þúsund árum fyrir upphaf okkar tímatals. Í Kína hafa einnig fundist minjar um saltvinnslu frá svipuðum tíma. Þjóðir til forna eins og íbúar býsanska veldisins, Hittítar, Hebrear, Egyptar, Grikkir og Rómverjar, þekktu til saltgerðar og notkunar þess við geymslu á mat og til að bragðbæta hann.


Elsta skráða heimild um salt er kínversk og frá því um 2700 fyrir upphaf okkar dagatals. Þar er sagt frá ríflega 40 ólíkum gerðum af salti og ólíkum vinnsluaðferðum sem sumar hverjar eru enn í notkun. Kínverski keisarinn Hsia Yo, sem var uppi um 2200 fyrir Krist, er talinn hafa verið fyrstur til að skattleggja salt og Markó Póló segir frá því í ferðasögu sinn að íbúar í Tíbet hafi notað litlar saltkökur með mynd af þjóðhöfðingja sínum sem gjaldmiðil.


Grikkir notuðu salt mikið þegar verslað var með þræla og til er orðtæki sem segir að einhver sé ekki saltsins virði og vísar til þeirrar verslunar.

Khewra-náman í Pakistan er ein af stærstu saltnámum heims og talið að miðað við núverandi framleiðslu eigi hún að endast í 350 ár.

Salt er enn í dag notað sem gjaldmiðill meðal hirðingja í Eþíópíu. Enska orðið salary eða laun er dregið af latneska orðinu salarium. Hermönnum í her Rómverja var iðulega greitt fyrir þjónustu sína með salti, sem er sal á latínu.


Þjóðir háðu stríð um saltnámu auk þess sem það var notað í tengslum við margs konar trúarlegar athafnir ólíkra trúarbragða. Grikkinn Heródótus, sem kallaður er faðir sagnfræðinnar, segir frá verslun og flutningum á salti í Líbíu á fimmtu öld fyrir Krist. Salt var snemma verslunarvara sem var flutt sjóleiðina milli landa við Miðjarðarhafið, eftir svonefndum saltleiðum á landi og á kameldýrum yfir Sahara-eyðimörkina.


Borgin Solnitsata í Búlgaríu, sem er talin elsta borg Evrópu, byggðist upp í kringum saltnámu og saltvinnslu sem rakin er sjö þúsund ár aftur í tímann. Heiti borgarinnar Solnitsata þýðir saltvinnsla. Fólksfjölgun og uppbygging borgarinnar er rakin til verslunar með salt og þess að íbúar áttu ofgnótt af salti til að geyma mat.


Aðrar borgir sem byggst hafa upp í kringum saltframleiðslu eða verslun með salt eru Salzburg í Austurríki en orðrétt heiti hennar er Saltborg og Salt Lake City í Utah-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku sem stendur við stóra salttjörn.


Vatnið í Dauðahafinu, vatnið sem Jesús gekk á, er með 30% seltu og mettað af salti. Af þeim sökum er eðlismassi vatnsins svo mikill að fólk sekkur ekki í því.

Salt og gull

Á sjöttu öld lögðu Márar salt og gull að jöfnu í þyngd. Feneyingar og íbúar borgarinnar Genúa háðu stríð vegna framleiðslu og verslunar með salt. Sagt er að leiðangur Kristófers Kólumbusar, sem leiddi til fundar Ameríku, hafi að mestu verði fjármagnaður með saltskattspeningum og að ein ástæða frönsku byltingarinnar hafi verið saltskattur sem lagður var á Frakka.


Saltskattur sem lagður á Englendinga í lok 18. aldar varð til þess að svartamarkaðsbrask með salt margfaldaðist og hátt í 10.000 manns voru handteknir árlega vegna smygls á hvíta kristallinum meðan skatturinn var í gildi.


Innfæddir í Norður-Ameríku, allt frá Kanada til Mexíkó, og á eyjum í Karíbahafi, verkuðu salt þegar fyrstu evrópsku landkönnuðirnir komu þangað. Englendingar, Frakkar, Portúgalar og Spánverjar, sem veiddu við Nýfundnaland við lok 15. aldar, verkuðu saltfisk bæði á landi og á sjó. Portúgalar og Spánverjar verkuðu blautfisk um borð í skipum sínum en Frakkar og Englendingar verkuðu svokallaðan þurrfisk sem var lagður til þerris á klöppum og staflað í stæður á landi.


Salt hefur verið notað til að sótthreinsa opin sár og orðtakið að hella salti í sárið dregið að sviðanum sem því fylgir. Talið er að þúsundir hermanna í her Napóleons hafi látist vegna ígerðar í sárum sínum á flótta frá Rússlandi vegna skorts á salti til að sótthreinsa sárin.

Orðtakið á liggja í salti þýðir að bíða og að vega salt þýðir að eitthvað sé sambærilegt.


Árið 1930 leiddi Gandhi mótmælendur í svonefndri Saltgöngu þar sem um hundrað þúsund Indverjar gengu til sjávar og bjuggu til sitt eigið salt til að andmæla saltskatti Breta á Indlandi.

Bergkristall, sjór og saltvinnsla

Natríumklóríð er efnasamband sem tilheyrir stórum hópi bergkristalla sem kallast halite. Auk þess að finnast í bergi og jarðvegi í mismiklu magni víða um heim og það eru um 35 grömm af salti í einum lítra að sjó og sjór þar með um 3,5% saltur. Salt í sjó stafar af uppleystu salti í bergi sem safnast hefur saman í hafinu frá fornsögulegum tíma.


Salt er annað hvort unnið úr bergi í saltnámum á svæðum þar sem það finnst í stórum stíl, eimað úr sjó eða saltríku vatni á landi.

Saltvinnsla í fjöllum Perú.

Salt í trúarbrögðum

Salt var hluti helgiathafna tengdum greftrunarsiðum Egypta og saltaðir fuglar og fiskar hafa fundist í grafhýsum þeirra frá því á þriðju öld fyrir Krist.


Á miðöldum var salt notað í inn­sigli mikilvægra samninga og má líklega rekja uppruna þess siðar til Fjórðu Mósebók 18:19 þar sem segir: „Allar helgigjafir, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hef ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Þetta er ævarandi ákvæði, ævarandi sáttmáli, helgaður með salti, við þig og niðja þína fyrir augliti Drottins.“

Salt var líka notað í hernað til að eyðileggja ræktarland andstæð­inganna. Í Fimmta Mósebók 29: 21-22 segir í sterkum orðum hver refsing þeirra, gyðinga, verður sem dýrka hjáguði: „Komandi kynslóð, börn ykkar sem á eftir ykkur koma og útlendingar frá fjarlægu landi, munu segja þegar þeir sjá eyðingu landsins, plágur þær og sóttir sem Drottinn hefur látið geisa þar: „Allur jarðvegur þess er orðinn að brennisteini og salti, allt er sviðið. Engu verður þar sáð, ekkert sprettur þar, ekkert grær þar, fremur en í Sódómu og Gómorru, Adma og Sebóím sem Drottinn gereyddi í heift sinni og reiði.“


Hindúar, Hittítar og Semetíar notuðu salt við helgiathafnir og hátíðarhöld og Grikkir tengdu það nýju tungli og köstuðu salt á eld til að fagna því og hindúar tengja salt við nýbyggingar og brúðkaup. Janistar færa guðum sínum saltfórnir og blanda salti við ösku látinna áður en hún er grafin og Mahayana-búddistar segja salt bægja frá illum öndum og frá þeim er kominn sá siður að kasta salti aftur fyrir sig yfir öxlina til að halda frá illum öndum.


Egyptar, Grikkir og Rómverjar til forna fórnuðu salti og vatni til guðanna og talið að hugmyndin um vígt vatn í kristni sé uppruninn í þeim sið. Í Róm var til siðs að nudda salti á börn átta dögum eftir fæðingu til að bægja burt djöflum og illum öndum.

Vatnið í Dauðahafinu, vatnið sem Jesús gekk á, er með 30% seltu og mettað af salti.


Í shintó-sið í Japan er salt sagt hreinsandi og litlar hrúgur af salti hafðar í húsum, bæði til að bægja frá illum öndum og laða að góða anda. Samkvæmt guðfræði Astekar í Suður-Afríku var frjósemisgyðjan Huixtocihualt með salt og vatn á sínum snærum. Puebloan-Indíánar í suðvesturhluta Norður-Ameríku lögðu átrúnað á gyðju sem kallaðist Saltmóðir og meðal ólíkra hópa Indíána voru mismunandi siðir um hver innan hópsins mætti neyta salts og hvenær.


Salt er nefnt til sögunnar yfir 30 sinnum í Gamla og Nýja testamenti Biblíunnar og í Fjallræðu Nýja testamentisins, Matteusarguðspjall 5:13, notar Jesú salt í líkingamáli sínu þegar hann mælir til fylgjenda sinna: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“


Árið 1933, þegar þáverandi Dalai Lama lést, var hann jarðaður sitjandi á saltbeði.


Í sumum Evrópulöndum er til siðs að kasta hnefafylli af salti á líkkistur áður en mokað er yfir þær. Saltið er tákn um hreinleika og ódauðleika sálarinnar og um leið notað til að bægja djöflunum frá hinum látna. Skotar bættu, fyrr á tímum, lúkufylli af salti við bjórbruggun til að varna því að lögunin spilltist vegna bölvunar frá nornum og illum öndum.

Matarsalt

Salt til manneldis kallast matar- eða borðsalt og á það að vera hreinna en iðnaðarsalt sem stundum er notað til matvælaframleiðslu.


Þrátt fyrir að salt sé manninum nauðsynlegt til lífsviðurværis getur of mikil neysla þess valdið æða- og hjartasjúkdómum. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni ætti fólk að neyta innan við 2,5 gramma af salti á dag. Joði er oft bætt við salt til að koma í veg fyrir joðskort hjá almenningi. Aðeins þarf örlítið magn af joði til að hindra joðskort en alvarlegustu einkenni joðskortur er greindarskortur. Sums staðar er flúori einnig eða eingöngu bætt við til að koma í veg fyrir tannskemmdir, og járni til að koma í veg fyrir blóðleysi.


Saltkristallar eru ferhyrndir og virðast vera hvítir og með eilitlum bláum lit en eru í raun gegnsæir.

Framleiðsla á salti

Salt er ein elsta framleiðsluvara mannkyns þar sem það er eimað úr leysingarvatni eða sjó eða þá að því var safnað þar sem sjór og saltvatn gufaði upp og saltið sat eftir. Einnig var salt og er enn unnið úr jarðlögum þar sem það hefur safnast fyrir í aldanna rás.

Saltvinnsla í Taílandi.


Framleiðsluaðferðirnar hafa breyst mikið og í dag er hrásalt til manneldis hreinsað og betur unnið en áður var og á markaði salt sem blandað er með ólíkum kryddum eins og hvítlauk, lakkrís og sítrónu svo dæmi séu tekin.


Khewra-náman í Pakistan er ein af stærstu saltnámum heims og það voru hermenn Alexander mikla sem fundu hana 320 fyrir Krist. Náman er 19 hæðir og ellefu þeirra eru neðanjarðar með yfir 400 metrum að göngum. Salt sem fæst úr námunni kallast Himalajasalt og er bleikt á litinn. Árleg framleiðsla námunnar er um 285 þúsund tonn og miðað við það framleiðslumagn er talið að saltið í námunni endist í 350 ár eða til ársins 2371.

Salt á Íslandi

Ísland var lengi saltlaust land og matvæli til geymslu þurrkuð eða sett í súr. Eftir landnám eru heimildir um að landnámsmenn hafi notað svartsalt en það er salt sem er unnið með því að brenna bóluþang.

Saltvinnsla hjá Saltverki.

Það var ekki fyrr en Englendingar og Þjóðverjar fóru að salt fisk hér á landi á 15. og 16. öld að Íslendingar lærðu söltun. Í framhaldi af einokunarverslun Dana fóru kaupmenn að salta fisk í tunnur og flytja út og laust fyrir miðja 18. öld var svipað mikið flutt út af þurrkuðum og söltum fiski. Salt var innflutt á þessum tíma og dýrt. Jón Vídalín biskup og Skúli Magnússon fógeti bentu báðir á þann möguleika að sjóða sjó á pönnum ofan á hverum og framleiða þannig salt sem mátti nota til að salta fisk til útflutnings. Á 18. öld var sett á laggirnar konungleg saltverksmiðja hér á landi þar sem jarðhiti var notaður til að þurrka sjó og vinna úr honum salt.


Í dag framleiða tvö fyrirtæki á Íslandi salt, Saltverk og Norðursalt.


Saltframleiðsla Norðursalts fer fram á Karlsey við Reykhóla í Breiðafirði og fer eftir danskri aðferð frá árinu 1753. Nýttur er jarðhiti á svæðinu við framleiðslu á saltflögum fyrirtækisins. Nokkrar bragðtegundir eru í boði, eins og bláberja-, lakkrís-, rabarbarabragð og reykt salt. Vörur Norðursalts eru seldar í tíu löndum.


Starfsemi Saltverks er á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og vinnur fyrirtækið saltflögur úr sjó með jarðvarmaorku sem dælt er af 30 metra dýpi. Sjórinn sem notaður er við vinnsluna er að meðaltali 3,5% saltur en saltkristallarnir byrja ekki að myndast fyrr en búið er að gufa upp tæplega 90% af vatninu svo að pækillinn verði 28% saltur. Pækill í þeim styrk er hleypt úr forsuðutanki inn á svokallaðar saltpönnur þar sem kristallarnir byrja að myndast og eru síðan handuppskornir. Saltið frá Saltverk fæst í sex bragðtegundum. Lakkríssalt blandað með lakkrísdufti, blóðbergssalt blandað með íslensku blóðbergi, birkireykt salt, lava salt blandað með koladufti og þarasalt blandað með söl og beltisþara. Saltið er selt um allt land auk þess sem það er flutt út til Bandaríkjanna og Danmerkur og veitingahúsa um allan heim.

Gamalt box undan borðsalti.

Skylt efni: salt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...