Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson.
Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson.
Mynd / ghp
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti formanns Bændasamtaka Íslands (BÍ).

Sá fyrrnefndi hefur gegnt embætti formanns Bændasamtakanna frá 2020 og var sá síðarnefndi formaður deildar sauðfjárbænda frá 2022 þangað til hann steig til hliðar núna nýlega. Þegar þetta er ritað hafa ekki borist framboð frá fleirum, en framboðsfresturinn rennur út í dag, 22. febrúar.

Kosningin verður rafræn og hefst hún á miðnætti 1. mars og stendur yfir til miðnættis 2. mars. Slóð á kosningasíðuna verður gerð aðgengileg á heimasíðu Bændasamtakanna, bondi.is, og send félagsmönnum í tölvupósti. Alls 2.449 einstaklingar eru á kjörskrá, en til að öðlast kosningarétt þurfti að greiða félagsgjöld fyrir 31. desember á síðasta ári og er nauðsynlegt að geta skráð sig inn með rafrænum skilríkjum. Fleiri en einn geta haft kosningarétt frá sama búi. Hver og einn getur kosið oftar en einu sinni, en einungis síðasta atkvæðið gildir. Nái enginn frambjóðandi meira en fimmtíu prósent atkvæða þarf að kjósa aftur 5. og 6. mars.

Garðyrkjubóndi í Ártanga

Gunnar Þorgeirsson er garðyrkju­ bóndi í Ártanga í Grímsnes­ og Grafningshreppi, en hann stofnaði gróðrarstöðina ásamt eiginkonu sinni, Sigurdísi Eddu Jóhannesdóttur, árið 1986. Hann var kosinn í embætti formanns Bændasamtakanna á Búnaðarþingi í mars 2020, en hann var einnig formaður Sambands garðyrkjubænda á árunum 2013 til 2021. Gunnar sat í sveitarstjórn Grímsneshrepps frá 1994 til 1998. Eftir sameiningu sveitarfélaga sat hann í sveitarstjórn í Grímsnes­ og Grafningshreppi á árunum 1998 til 2018, þar af sem oddviti í 16 ár. Hann var formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga frá 2003 til 2007 og aftur 2012 til 2018.

Gunnar hefur verið virkur í starfsemi björgunarsveita, en hann var formaður hjálparsveitarinnar Tintrons frá 1989 til 1995. Þá sat hann í stjórn Landsbjargar frá 1991 til 1999 og í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá stofnun þess 1999 til 2018. Gunnar er sextíu ára gamall, fæddur í júlí 1963. Hann útskrifaðist sem offsetprentari frá Iðnskólanum í Reykjavík 1984 og lauk gráðu í garðyrkjumenntun frá Søhus Gartnerskole í Óðinsvéum árið 1985.

Hans helstu áherslur eru að vinna áfram að hagsmunamálum bænda og þar segir hann almenn kjör, nýliðun, bætt lánakjör til framleiðslu matvæla og tollamál vera sér efst í huga. Gunnar vill vinna áfram að þróun á félagskerfinu með það að leiðarljósi að bein aðild að Bændasamtökunum nýtist félagsmönnum sem best. Þá segir hann nauðsynlegt að berjast fyrir samkeppnishæfni innlends landbúnaðar á móti stórauknum innflutningi og gera þurfi sömu kröfur um aðbúnað og lagðar eru á íslenska framleiðslu.

Jafnframt þurfi að skilgreina fæðuöryggi til framtíðar með sem sjálfbærustum hætti.

Sauðfjárbóndi í Austurhlíð

Trausti Hjálmarsson er sauðfjárbóndi í Austurhlíð í Biskupstungum ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Sigríði Magnúsdóttur. Eins og áður segir var hann formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands en sóttist ekki eftir endurkjöri í það embætti þegar kosið var á deildarfundi í síðustu viku. Hann hefur verið í aðalstjórn Bændasamtakanna frá 2022. Trausti var í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda frá 2017 þangað til að þau gengu inn í Bændasamtök Íslands. Þá sat hann einnig í fagráði sauðfjárræktarinnar frá 2017 til 2022 og hefur frá síðasta ári verið í framkvæmdanefnd búvörusamninga.

Að auki við þetta hefur Trausti verið varamaður í sveitarstjórn Bláskógabyggðar og setið í fjallskilanefnd. Þá er hann í fagnefnd skóla­ og velferðarþjónustu Árnesþings fyrir hönd síns sveitarfélags. Hann útskrifaðist með búfræðipróf frá Hvanneyri 2003 og hefur alla tíð starfað í landbúnaðartengdum störfum, eins og við rúning, tamningar og á sláturtíð á Selfossi. Jafnframt hefur hann gripið í smíðavinnu inn á milli. Hann er fæddur í desember 1982 og er því 41 árs.

Aðspurður um helstu áherslumál svarar Trausti: „Ég vil efla samtal, samstarf og samstöðu bændahreyfingarinnar með því að hlusta á grasrótina og framkvæma vilja hennar.“

Hann bætir við að þaðan komi valdið og að verkefni stjórnar Bændasamtakanna sé að standa vörð um það sem hreinskiptin umræða sem flestra bænda geri. „Þetta er í mínum huga ekki flókið. Grasrótin á að ráða för.“

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.