Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fimm áburðartegundir stóðust ekki kröfur
Fréttir 18. febrúar 2016

Fimm áburðartegundir stóðust ekki kröfur

Höfundur: smh
Niðurstöður áburðareftirlits Matvælastofnunar fyrir síðasta ár voru birtar nú á dögunum. Fimm áburðartegundir voru með efnainnihald undir vikmörkum samkvæmt ákvæðum reglugerða. Þar af voru fjórar með of lítið af köfnunarefni, tvær með of lítið af brennistein og ein með of lítið af bór. Í einu tilfelli voru fleiri en eitt næringarefni undir leyfðum vikmörkum. Þessar tegundir hafa verið teknar af skrá Matvælastofnunar. 
 
Eiríkur Loftsson.
Bændablaðið fékk Eirík Loftsson, ráðunaut í jarðrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, til að bregðast við niðurstöðum áburðareftirlitsins, en athygli vekur að ekki eru gerðar athugasemdir ef gildi eru yfir leyfðum vikmörkum. Einnig var athyglisvert hversu oft selen var undir uppgefnu magni en í þeim tilvikum eru gerðar athugasemdir vegna viðkomandi áburðartegundar.
 
Eiríkur segir að áburðareftirlit Matvælastofnunar sé mikilvægt fyrir bændur og veitir innflytjendum og söluaðilum áburðar aðhald og hvetur þá til að vanda sem best innflutning sinn. „Það er einnig jákvætt fyrir áburðarsalana að fá staðfestingu á því að þeir séu að gera vel.  Árlega eru samt einhverjar áburðartegundir sem ekki standast leyfð frávik á innihaldi einstakra næringarefna sem reglugerðir kveða á um,“ segir Eiríkur.
 
Bændur þurfa að vera meðvitaðir
 
„Það er ekki ásættanlegt að innihald áburðartegunda bregði mikið frá uppgefnu og auglýstu efnainnihaldi. Ef áburðartegund sem á að innihalda 25 prósent N en inniheldur aðeins 23 prósent N þá vantar átta kg N á hektara, ef ætlunin hefur verið að bera á 100 kg N. Það má einnig segja að köfnunarefnið í viðkomandi áburði sé átta prósent dýrara en reiknað var með. Þegar innihald næringarefna mælist undir viðmiðunargildum er viðkomandi áburðartegund tekin af skrá hjá Matvælastofnun og má söluaðili hennar ekki endurskrá hana eða dreifa til kaupenda fyrr en Matvælastofnun hefur tekið sýni úr henni og mælingar þeirra sýni niðurstöður innan vikmarka. Bændur þurfa að vera meðvitaðir um hvaða tegundir þetta eru og ef þeir panta þær að hafa vissu fyrir að fá þær afgreiddar í tæka tíð fyrir vorið,“ segir Eiríkur.
 
„Áburðartegundir eru teknar af skrá Matvælastofnunar þegar innihald næringarefna fer undir ákveðin gildi, en mælingar stofnunarinnar sýna einnig í sumum tilvikum nokkurt frávik þannig að meira er af einstökum næringarefnum en innihaldslýsing segir. Þó svo að það kunni að hljóma vel að fá meira af einhverju efni en gert var ráð fyrir, geta slík frávik verið óheppileg. Stundum þarf áburðargjöfin að vera mjög nákvæm sem og hlutföll áburðarefna. Þá skiptir miklu að innihaldslýsing áburðarins standist án frávika.“
 
Tegundum með seleni fjölgar
 
Að sögn Eiríks hefur tegundum af áburði sem inniheldur selen fjölgað á síðustu árum. „Selen er ekki nauðsynlegt plöntum nema þá í mjög litlu magni og þarf ekki að blanda því í áburð þeirra vegna. Selen er hins vegar nauðsynlegt efni fyrir búfé og er styrkur þess oftast lágur í grasi og heyi nema þegar selen er borið á, þá vex það. Það hefur vakið athygli í áburðarskýrslu Matvælastofnunar hve oft selen mældist lægra, stundum mikið lægra, en var uppgefið í áburðinum. Heyefnagreiningar sýna mjög breytileg gildi á selen í sýnum þar sem það var mælt. Fróðlegt væri að skoða selen í heyjum með tilliti til selen áburðargjafar. Hafa verður í huga að of mikið selen getur valdið eitrun svo mikilvægt er að innihald þess í áburði sé hæfilegt.  
 
Það eru fleiri þættir sem segja til um gæði áburðar en þeir sem Matvælastofnun skoðar. Nefna má eðliseiginleika eins og kornastærð og rúmþyngd sem hafa áhrif á rennsli áburðarins við dreifingu hans og brotstyrk korna sem getur haft áhrif á hversu vel dreifist. Mikilvægt er að bændur séu meðvitaðir um þessa þætti við áburðardreifingu og að áburður sem í boði er standist almennar kröfur hvað þetta varðar.“
 
Matvælastofnun skoðaði 39 áburðarsýni
 
Á síðasta ári fluttu 26 fyrirtæki inn áburð og jarðvegsbætandi efni, alls 290 tegundir. Alls voru flutt inn 50.572 tonn af áburði og jarðvegsbætandi efnum. Innlendir framleiðendur eru 15 á skrá Matvælastofnunar.
 
Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá fimm innflutningsfyrirtækjum og voru alls 39 áburðarsýni af jafnmörgum áburðartegundum tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar. 
 
Fáar athugasemdir voru gerðar við merkingar, en helstu gallar voru vegna misræmis milli skráninga og merkinga, en einnig voru merkingar máðar í nokkrum tilfellum. Þá voru gerðar athugasemdir ef merkingar voru ekki á íslensku.
 
Áburðarskýrsla Matvæla­stofnunar er aðgengileg á vefnum www.mast.is.

2 myndir:

Skylt efni: Áburðareftirlit

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...