Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Björgvin Jóhannesson stýrir Hótel Kötlu rétt austan við Vík. Hann er nýkjörinn formaður Félags ferðaþjónustubænda.
Björgvin Jóhannesson stýrir Hótel Kötlu rétt austan við Vík. Hann er nýkjörinn formaður Félags ferðaþjónustubænda.
Mynd / smh
Fréttir 18. júlí 2017

Ferðamenn sólgnir í upplifun á sögunni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson
Björgvin Jóhannesson stýrir Hótel Kötlu, rétt austan Víkur í Mýrdal. Hann var á dögunum kjörinn formaður Félags ferðaþjónustubænda. Hann telur að ferðaþjónustan á Íslandi sé á réttri leið en vaxtarverkir hafi verið óhjákvæmilegir í því að fylgja eftir þeirri miklu aukningu ferðamanna sem komið hafa til landsins á síðustu tveimur árum.
 
Björgvin segir að eitt af verkefnum ferðaþjónustunnar í landinu og Félags ferðaþjónustubænda sé að koma ferðamönnunum meira út á land – í sveitirnar. „Ég held að ferðaþjónustan á Íslandi sé á réttri leið í flestum málum en vissulega fylgja ákveðnir vaxtarverkir þessari miklu fjölgun ferðamanna undanfarin ár. Vinsælustu staðirnir eru orðnir ansi þétt setnir á álagstímum og væri gaman að sjá einhverja betri stýringu þar, til að dreifa álaginu yfir daginn,“ segir hann.
 
Nauðsynlegt að ríkið komi að stuðningi
 
„Það ætti að vera mögulegt með góðu skipulagi og samvinnu rútufyrirtækjanna. Eins þyrftu sveitarfélög í samvinnu við ferðaþjónustuaðila á hverju svæði að vera sneggri til við að koma upp viðunandi salernisaðstöðu og tryggja gott aðgengi og stýringu að vinsælum stöðum svo náttúran láti ekki á sjá.
 
 
Ég held að það sé nauðsynlegt að sveitarfélögin fái meira fjármagn frá ríkinu til uppbyggingar á vinsælum ferðamannastöðum, því eins og staðan er núna er útsvar starfsfólks og fasteignagjöld einu tekjurnar til að standa undir kostnaði. Ríkissjóður hefur gífurlegar tekjur af ferðaþjónustunni í dag, sem er frábært fyrir þjóðarbúið, en ég myndi vilja sjá stjórnvöld duglegri í að skila fjármagni til baka til greinarinnar til uppbyggingar,“ segir Björgvin um hvernig helst þurfi að bæta innviði íslenskrar ferðaþjónustu. 
 
Ferðaþjónustubændur hafa staðið sig vel
 
En hvernig skyldu ferðaþjónustu­bændur hafa mætt þessari aukningu – margir hafa vafalaust þurft að fara í uppbyggingu?  „Ferðaþjónustubændur hafa staðið sig mjög vel í að auka flóruna í afþreyingu úti á landi. Það er gaman að sjá hversu margir möguleikar eru nú í boði fyrir ferðamenn miðað við hvernig staðan var fyrir um tíu árum. Þetta á bæði við um gistingu, afþreyingu og veitingasölu. 
 
Margir ferðamenn eru sólgnir í að upplifa söguna og tengjast nærumhverfinu og þar koma ferðaþjónustubændur sterkir inn. Mikil eftirspurn er eftir afurðum beint frá býli og upplifun gestanna verður yfirleitt meiri og betri þegar eitthvað sem kallast „local“ er á boðstólum.“
 
Fjölbreytt afþreying í boði við Vík
 
Björgvin er sem fyrr segir hótelstjóri á Hótel Kötlu, sem er í eigu foreldra hans. Hann hefur verið viðloðandi ferðaþjónustuna þar allt frá því að búskapur með sauðfé og hross var aflagður í kringum 1990 og rekstur bændagistingar hófst. Byrjað var að leigja út tvö til þrjú herbergi en nú telja þau 103 og starfa 40 manns á Hótel Kötlu yfir sumartímann.
 
Vík er meðal vinsælustu áningarstaða ferðamanna á Íslandi og segir Björgvin að heimamenn hafi haldið ágætlega í við fjölgunina að undanförnu. „Já, mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína í Mýrdalinn og hefur uppbygging í ferðaþjónustu verið umtalsverð á síðustu árum. Reynisfjara og Dyrhólaey hafa mikið aðdráttarafl og fjölbreytt afþreying er hér í boði, til dæmis jeppaferðir, ísklifur, jöklagöngur, hestaleiga, svifvængjaflug og veiði. 
 
Þessi fjöldi ferðamanna hefur haft þau jákvæðu áhrif á samfélagið að hægt er að velja úr fjölda veitingastaða, afgreiðslutími verslana er rýmri og vöruúrval meira. Við viljum fá fleiri gesti í Mýrdalinn, en ekki endilega alla á sama tíma.
 
Innleiðing Vakans leiðir til aukinnar fagmennsku
 
Að sögn Björgvins eru spennandi tímar fram undan fyrir Félag ferðaþjónustubænda, sem telur um 180 félaga, og ýmis áhugaverð verkefni í pípunum.
 
„Vakinn er til dæmis gæðakerfi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem verið er að innleiða. Ferðamálastofa hefur umsjón með verkefninu. Nokkur fyrirtæki eru þegar komin með vottun hjá Vakanum og enn fleiri í umsóknarferli. Ég held að það séu allir sammála um það að auka þurfi gæði og fagmennsku í ferðaþjónustu á Íslandi og Vakinn er klárlega verkfæri sem ferðaþjónustuaðilar geta nýtt sér til þess. Félag ferðaþjónustubænda stefnir á að fjölga meðlimum í Vakanum á næstu misserum. Ég held að Vakinn geti verið gott verkfæri til markaðssetningar en ég vildi samt sjá meiri aðgreiningu á milli þeirra sem eru meðlimir og þeirra sem kjósa að vera fyrir utan Vakann, til dæmis varðandi gjöld og starfsleyfi.“
 
Eitthvað virðist hafa hægt á fjölgun þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja Ísland, miðað við sama tíma í fyrra. Fleiri afbókanir eru nú, að sögn Björgvins, en áður og einnig hefur dregið úr sölu á ferðum og gistingu.
 
„Þrátt fyrir þetta er útlitið ágætt núna. Aukningin undanfarin ár hefur verið óeðlilega hröð og þarf ekki að koma á óvart að aðeins dragi úr henni, en ég hef samt áhyggjur af því að þróun gengismála – styrking krónunnar – geti hægt enn meira á vextinum.  Íslandsferð erlendra ferðamanna er í dag um 25–30 prósent dýrari en fyrir tveimur árum. Þetta leiðir til þess að fólk kaupir styttri ferðir og verslar minna. Ef að svo við bætist hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu um mitt næsta ár líst mér ekki á blikuna – sérstaklega fyrir dreifbýlið og aðila í Félagi ferðaþjónustubænda. Ég er nú þegar farinn að verða var við auknar afbókanir fyrir þetta sumar, eitthvað sem við höfum ekki upplifað síðastliðin ár. Ferðaþjónustan á Íslandi þarf því að aðlagast fljótt breyttu rekstrarumhverfi,“ segir Björgvin.
 
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...