Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fengitími sauðfjár og notkun hrúta
Á faglegum nótum 4. janúar 2019

Fengitími sauðfjár og notkun hrúta

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Nú á jólaföstu, þegar verið er að sæða nær tíundu hverja á í landinu og tilhleypingar eru að hefjast á hinum árstíðabundna fengitíma, er tímabært að hugleiða nokkur atriði sem skipt geta máli á fjárbúum, stórum sem smáum.
 
Bráðþroska lömb og frjósamt fé
 
Á meðal einkenna íslenska fjárins er bráður kynþroski lamba af báðum kynjum. Þannig verða lambgimbrarnar kynþroska um sjö mánaða aldur þegar þær hafa náð 55–65% af fullorðinsþunga og lambhrútarnir þegar þeir eru um fjögurra mánaða gamlir við 40–50% af fullorðinsþunga, all löngu fyrir fengitímann. Þessir frjósemiseiginleikar skipta vissulega máli þegar verið er að auka afurðir eftir hverja vetrarfóðraða kind. Nú er svo komið að hleypt er til um 90% ásetningsgimbranna í landinu. Þótt fanghlutfallið sé breytilegt eftir árum og búum, og lægra en hjá ám, er það samt talið vera um 86% að meðaltali og lítið vantar á að hver lembdur gemlingur skili einu lambi. 
 
Önnur veruleg breyting frá fyrri tíð er vaxandi notkun lambhrúta á fengitíma þannig að nú er áætlað að um 30% áa og lambgimbra í landinu fái við lambhrútum. Mælt er með enn meiri notkun þeirra til að stytta ættliðabilið og hraða erfðaframförum. 
 
Árstíðabundinn fengitími áa og lambgimbra
 
Þótt fengitíminn hér á landi tengist mjög skammdeginu, enda undir stjórn dagsbirtu, og flestar ærnar og lambgimbrarnar séu látnar fá fang um það leyti sem dagurinn er stystur, er hinn eðlislægi fengitími mun lengri. Rannsóknir hafa sýnt að séu ær ekki látnar fá fang eða hafi misst fóstur geta þær verið að ganga fram í maí. Því er það í sjálfu sér ekkert undrunarefni þegar stöku ær bera fyrir eða um réttaleytið á haustin hafi hrútum verið sleppt í þær fanglausar og geldar í kring um sumarmál. 
 
Ólafur R. Dýrmundsson.
Sjaldgæft er að ær sinni hrútum á tímabilinu frá júní til ágúst en það kemur þó fyrir stöku sinnum og reyndar eru þekktir burðir einstöku áa í öllum mánuðum ársins. Athyglisvert er að það eru fremur mislitar en hvítar ær sem fá fang og bera á óvenjulegum árstímum. Af þessum sökum eru dæmi þess að ær beri tvisvar á einu ári, t.d. í ágúst/ september og aftur í apríl/maí. 
 
Hvað með hrútana?
 
Þótt fram hafi komið árstíðabundnar breytingar á eistnastærð íslenskra hrúta er eitt víst að þeir geta lembt ær á öllum tímum árs, standi það til boða. Þeir eru ekki aðeins virkir á hinum hefðbundna fengitíma frá jólaföstu og fram yfir áramót. Þarna hefur dagsbirtan áhrif þótt minni séu en hjá ánum. Þannig hafa þvermálsmælingar á pungi, sem endurspegla vel eistnaþunga, sýnt, að eistun eru smæst á vorin, fara stækkandi á sumrin og eru stærst á haustin, þ.e.a.s. skömmu fyrir fengitíma, þegar sáðfrumumyndunin er örust. Samkvæmt þessum mælingum voru eistun 15% stærri á haustin en á vorin. 
 
Hvað kynhvöt hrúta varðar er hún sennilega sterkust í skammdeginu en athuganir hafa þó sýnt að hún er óaðfinnanleg utan þess tíma, jafnvel  á sumrin. Í athugunum reyndust hrútar sem voru mjög virkir á venjulegum fengitíma að vetrinum  það líka þegar sól var hátt á lofti. Hugsanlega eru þó einhver árstíðabreytileiki í sæðismagni og gæðum. 
 
Lambhrútar eða fullorðnir hrútar
 
Flestir lambhrútar eru vel virkir og gagnast bæði lambgimbrum og ám skömmu eftir að lífeðlisfræðilegum kynþroska er náð á haustin. Eistun eru þó miklu smærri en hjá veturgömlum og eldri hrútum. Sem dæmi má nefna að októbervigtanir á eistum( hægra + vinstra) gáfu meðatölin 270 gr. hjá lambhrútum, 425 gr. hjá veturgömlum og 500 gr. hjá þeim fullorðnu. Breytileiki innan hvers hóps var verulegur. Sú almenna viðmiðunarregla að ætla lambhrútum 20-30 ær og þeim eldri 30-50 ær á venjulegum þriggja vikna fengitíma er því skynsamleg þótt vitað sé að margir hrútar geti annað fleiri ám með góðu móti. 
 
Eftir því sem næst verður komist lækkar hið háa fanghlutfall ánna ekki, og frjósemi þeirra að öðru leyti ekki heldur, þótt lambhrútar fremur en eldri hrútar séu notaðir. Jafnvel hefur komið fram vísbending um að betra sé að nota lambhrúta fyrir jafnöldrur sínar enda er algengt að hafa þann háttinn á. Þetta getur m.a. skýrst af því að fullorðnir hrútar sýna lambgimbrum að jafnaði minni áhuga en ám vegna veikara beiðslis og einnig getur stærðarmunur við pörunina komið við sögu.
 
Aðferð við tilhleypingar
 
Fyrr á árum var algengast að hrútur væru leiddir til ánna einu sinni eða tvisvar á dag þannig að vel var fylgst með því hvaða ær væru að ganga en þær eru blæsma í tvo sólarhringa að jafnaði. Þá er þægilegt að skrá fangdag og reikna síðan út væntanlega burðardag hverrar ær miðað við miðlungs meðgöngutímann 143 daga. Einnig kemur strax í ljós ef hrút tekst ekki að lemba, tímabundið eða jafnvel varanlega. 
 
Sums staðar voru þó hrútar látnir ganga stöðugt með ánum allan fengitímann, einkum á beitarhúsum, sérstaklega þar sem fé lá við opið. Enn er slíkt þekkt. Einnig að hleypt sé til áa, hverrar fyrir sig, einkum í sumum smærri hjörðum. Eftir því sem búin hafa stækkað er algengast að hrút sé sleppt í hverja kró/garða, fylgst með því að hann sinni hlutverki sínu með eðlilegum hætti og hann látinn vera með ánum eða gimbrunum allan fengitímann. Oftast gefst þetta vel nema í þeim fáu tilvikum þegar hrúturinn hefur reynst ófrjór þótt hann hafi sýnt óaðfinnaleg tilþrif við pörun. 
 
Athugað hefur verið hvort tilhleypingaraðferðin skipti máli. Í tilrauninni var annars vegar hleypt til einu sinni á dag og hverri  blæsma gimbur haldið en hins vegar sami tveggja vetra hrútur hafður með samanburðarhópi sex klukkustundir samfellt á dag, án afskipta, og engum haldið. Alls enginn munur kom fram, fanghlutfallið var 92,6 %  og að meðaltali fæddist 1,1 lamb um vorið í báðum hópunum. 
 
Lokaorð
 
Eftir því sem næst verður komist virðist ekkert mæla því í mót að nota lambhrúta við tilhleypingar í æ ríkari mæli, hvort sem er fyrir lambgimbrar eða ær. Þá virðist aðferð við tilhleypingar ekki skipta máli.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
oldyrm@gmail.com
 
Höfundurinn er áhugamaður um sauðfé og sauðfjárrækt, er sjálfstætt starfandi búvísindamaður og hefur m.a. sinnt ýmsum æxlunarlífræðilegum rannsóknum og athugunum.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...