Fallegt og snyrtilegt er að Stóru-Ökrum 2 sem fengu nýlega umhverfisverðlaun. Fjós, útihús og íbúðarhús eru römmuð inn með trjám og lággróðri og fallegt samræmi í litavali húsa.
Fallegt og snyrtilegt er að Stóru-Ökrum 2 sem fengu nýlega umhverfisverðlaun. Fjós, útihús og íbúðarhús eru römmuð inn með trjám og lággróðri og fallegt samræmi í litavali húsa.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 15. október 2024

Fagurt heim að líta

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Stóru-Akrar 2 liggja við þjóðbraut í Skagafirði. Býlið fékk umhverfisverðlaun Skagafjarðar á dögunum.

Á Stóru-Ökrum 2 er rekið kúabú, stunduð hestamennska og ræktun á sauðfé. Eigendur eru Ragnhildur Jónsdóttir og Agnar Gíslason. Þau tóku við búi af Huldu Ásgrímsdóttur og Jóni Sigurðssyni, foreldrum Ragnhildar, vorið 2013 og eru fjórða kynslóð ábúenda. Stóru-Akrar 2 eru um 110 ha jörð.

„Við erum með 66,6 árskýr og róbótafjós,“ segir Ragnhildur, aðspurð um bústofninn. „Sauðfé er áhugamál elsta sonarins; þær eru 35 kindurnar. Að auki eru 30 hross og þau eru líka áhugamál,“ segir hún.

Á Stóru-Ökrum 2 er rekið kúabú, stunduð hestamennska og ræktun á sauðfé. Eigendur eru Agnar Gíslason og Ragnhildur Jónsdóttir.

Þakkar móður sinni

Býlið hlaut umhverfisverðlaun Skagafjarðar á dögunum og voru þau þá veitt í tuttugasta sinn. Í greinargerð með verðlaunum sagði að þangað væri „fagurt heim að líta þegar ekið er um sveitina, fjós, útihús og íbúðarhús vel og fallega römmuð inn með trjám og lággróðri og fallegt samræmi með litaval húsa“.

„Ég þakka þetta foreldrum mínum. Móðir mín heitin var svona smekkleg,“ segir Ragnhildur. „Henni var mjög umhugað um að ásýnd bæjarins, sem stendur við þjóðveg 1 og er því í alfaraleið, væri falleg. Við höfum svo reynt að halda í horfinu og sett okkar svip aðeins á.“

Aspir standa meðfram vegi og ramma inn milli t.d. fjóss og bæjar og garðurinn er gróinn með birki og fleiri tegundum. Húsum hefur öllum verið vel við haldið. „Þau voru mjög dugleg í þessu, foreldrar mínir,“ bætir Ragnhildur við. Nóg sé að gera við að halda í horfinu og sífellt einhver verkefni þar að lútandi.

Fimmta kynslóð gæti tekið við

Þau Ragnhildur og Agnar, sem er úr Álftagerði handan Héraðsvatna, eiga þrjú börn; 19 og 18 ára drengi og 13 ára stúlku. Hjónin vinna bæði á búinu og elsti sonurinn einnig, en hann hefur lokið vélvirkjanámi og ætlar sér í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri eftir ár. Því gæti mögulega fimmta kynslóð fjölskyldunnar tekið við búinu einn góðan veðurdag. „Ja, það er spurning, maður veit aldrei,“ segir Ragnhildur hlæjandi.

Mannlífið í sveitinni er gott að hennar sögn. Hún hitti konurnar í kvenfélaginu og þau hjónin syngi í kirkjukórnum. „Félag kúabænda er svo ágætlega duglegt að vera með pöbba-hittinga og fleira, svo það er alltaf eitthvað í gangi.“

Hún segir þau komast þokkalega af. „Auðvitað er þetta erfitt meðan vaxtastigið er svona hátt, það er bara þannig. En við erum bjartsýn á að þetta fari að lagast. Það þýðir ekkert annað fyrst maður er kominn í þetta,“ segir Ragnhildur að endingu.

Steinullarmoltan fékk viðurkenningu

Umhverfisverðlaun Skagafjarðar voru veitt sveitabýli með hefðbundinn búskap, sveitabýli án slíks, lóð í þéttbýli, lóð við fyrirtæki og fyrir einstakt framtak, sem að þessu sinni féll í skaut steinullarmoltu Steinullar á Sauðárkróki. Fyrirtækið hefur verið í þróun slíkrar moltu allt frá árinu 2009. Notast er við steinullarúrgang, hrossaskít og gras sem gefur hitastig sem dugar til að brjóta niður formaldehýð í hratinu. Steinullarmolta fékk árið 2021 staðfestingu frá MAST sem jarðvegsbætandi efni og Steinull hefur síðan í fyrra haft ótímabundið starfsleyfi fyrir moltuframleiðslunni.

Sjónum beint að fiskauganu
Fréttir 12. nóvember 2024

Sjónum beint að fiskauganu

Ekki hefur enn fundist flötur á því hér á Íslandi að nýta fiskaugu sérstaklega ú...

Ný Hrútaskrá og hrútafundir
Fréttir 12. nóvember 2024

Ný Hrútaskrá og hrútafundir

Von er á prentaðri útgáfu Hrútaskrárinnar mánudaginn 18. nóvember, þar sem 54 sæ...

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti
Fréttir 12. nóvember 2024

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti

Í íslenska sauðfjárstofninum finnast ótal litaafbrigði sem Karólína Elísabetardó...

Hækkun á minkaskinnum
Fréttir 12. nóvember 2024

Hækkun á minkaskinnum

Björn Harðarson, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir ...

Land tryggt undir vindmyllusvæðin
Fréttir 11. nóvember 2024

Land tryggt undir vindmyllusvæðin

Skipulagsstofnun hefur fengið fyrirhugaðan vindorkugarð í Fljótsdalshreppi inn á...

Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt
Fréttir 11. nóvember 2024

Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt

Erfðarannsóknir í íslenskri kornrækt sækja í sig veðrið um þessar mundir, ekki s...

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...