Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Zebu kýr mjólkuð í Senegal. Þar hafa stjórnvöld lagt áherslu á það undanfarna áratugi að efla þarlendan landbúnað til að gera landið óháð innflutningi og hefur hér sérstaklega í því sambandi verið horft til mjólkurframleiðslunnar. 
Zebu kýr mjólkuð í Senegal. Þar hafa stjórnvöld lagt áherslu á það undanfarna áratugi að efla þarlendan landbúnað til að gera landið óháð innflutningi og hefur hér sérstaklega í því sambandi verið horft til mjólkurframleiðslunnar. 
Fréttir 14. desember 2020

Fagleg ráðgjöf og nýtt erfðaefni hefur gjörbreytt kúabúskapnum í Senegal

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Þróunaraðstoð hefur margs konar birtingarform og algengt er að þeir sem þurfa á aðstoð að halda fái matargjafir, tæki og tól eða annað slíkt sem hefur verið keypt fyrir fjármagn sem hefur tekist að safna. Slík þróunaraðstoð á klárlega rétt á sér í ákveðnum tilfellum en stundum hentar annars konar aðstoð betur. 

Undanfarna áratugi hafa  verið ótal þróunarverkefni í gangi í Afríku og hefur árangurinn ekki alltaf verið góður. Ágætt dæmi má nefna frá Túnis þar sem bændum í norðurhluta landsins voru færð tæki og tól til akuryrkju fyrir nokkrum áratugum en verkefnið var fjármagnað af frönskum aðilum. Bændurnir voru auðvitað þakklátir fyrir gjafirnar en það láðist að kenna þeim almennilega að nota tækin og viðhalda þeim og í dag má sjá þessar græjur víða um sveitirnar í Túnis, standandi óhreyfðar vegna vankunnáttu og viðhaldsleysis. Þetta eina verkefni, sem er líklega bara eitt af mörgum, sýnir að þróunarverkefnum þarf að fylgja eftir og vinna upp með annars konar hætti og líklega myndi ekki nokkrum detta í hug að gera svona í dag eins og gert var í Túnis hér á árum áður.

Ráðgjöf skilvirkasta þróunaraðstoðin

Ein skilvirkasta leiðin til að veita þróunaraðstoð er að veita ráðgjöf og kenna verklag til að nýta þær aðstæður sem eru til staðar á þeim stað þar sem verið er að veita þróunaraðstoðina. Þetta er sú leið sem langoftast er farin í dag þegar verið er að þróa mjólkurframleiðslu í þróunarlöndunum og nýverið birtist einmitt um þetta einkar áhugaverð grein, í fagtímaritinu Journal of Dairy Science, um það hvernig staða kúabænda í Senegal hefur gjörbreyst í kjölfar þróunarverkefnis þar í landi.

Kýr af afrískum uppruna mjólka oftast afar lítið og oft ekki nema í kringum 10 kíló á dag. Sem kunnugt er mjólka t.d. kýr af Holstein kúakyninu um og yfir 30 kíló á dag og allt upp í rúmlega 50 kíló á dag.

Stóraukin eftirspurn eftir próteinríkri fæðu úr dýraríkinu í Afríku

Senegal er í Vestur-Afríku og eitt af 54 löndum þessarar heimsálfu sem er hvorki meira né minna en 294 falt stærri en Ísland enda næststærsta heimsálfa í heimi! Senegal er land sem er flokkað sem lág- og meðaltekjuland og er eitt margra landa í Afríku sem eru flokkuð þannig, en með batnandi efnahag í þessum löndum er því spáð að eftirspurn eftir landbúnaðarvörum og þá sérstaklega kjöti og mjólk muni aukast verulega á komandi áratugum. Í dag er eftirspurninni eftir bæði kjöt- og mjólkurvörum í þessum löndum að mestu sinnt af hálfgerðum örbúum og smáframleiðendum innan landanna og svo með innflutningi. Segja má að flest löndin sem búa við þessar aðstæður, þ.e. að sjá fram á stóraukna eftirspurn eftir próteinríkri fæðu úr dýraríkinu, stefni að því að auka verulega framleiðsluna heima fyrir svo löndin verði síður háð innflutningi.

Í Senegal er lögð áhersla á að gera landið óháð innflutningi

Stjórnvöld í Senegal eru gott dæmi um þetta. Þar hefur verið lögð áhersla á það undanfarna áratugi að efla þarlendan landbúnað til að gera landið óháð innflutningi og hefur hér sérstaklega í því sambandi verið horft til mjólkurframleiðslunnar. Þetta hefur m.a. verið gert með því að heimila innflutning á erfðaefni úr afurðamiklum kúakynjum í þeim tilgangi að auka tekjuflæði smábúa, en kýr af afrískum uppruna mjólka oftast afar lítið og oft ekki nema í kringum 10 kíló á dag. Sem kunnugt er mjólka t.d. kýr af Holstein kúakyninu um og yfir 30 kíló á dag og allt upp í rúmlega 50 kíló á dag að meðaltali. Þetta átak stjórnvalda í Senegal hófst árið 1994 með því að heimila innflutning á erfðaefni en lítið hefur verið gert í því að skoða hvaða áhrif þessi innflutningur hefur haft á afkomu þarlendra kúabúa og fyrir lágu því svo til engar upplýsingar eða tilraunir í landinu um ágæti erfðainnblöndunarinnar og segja má að stjórnvöld hafi einfaldlega tekið áhættuna á því að verkefnið myndi ganga upp og skila sér í bættri stöðu þarlendra kúabúa. Vegna þessarar óvissu var ráðist í sérstakt verkefni til þess að afla nauðsynlegra gagna svo þarlendir bændur gætu tekið upplýsta ákvörðun um uppbyggingu búa sinna með framtíðar hagkvæmni þeirra í huga.

Í þessu verkefni var skoðað sérstaklega hvernig hin mismunandi kúakyn og blendingar hefðu staðið sig á liðnum árum og náði verkefnið til búa sem voru bæði með hreinræktaða gripi og til annarra með blendinga af ýmsum gerðum. Þá var skoðað hvernig ráðgjöf bændurnir hefðu fengið og hvernig bústjórn búanna hefði mögulega breyst í kjölfar ráðgjafarinnar s.s. varðandi notkun og heppilega nýtingu gripanna svo hámarka mætti afurðasemi þeirra. Til þess að fylgjast með árangrinum var í þessu verkefni fylgst náið með 220 kúabúum sem voru með samtals 3.000 kýr, þ.e. hvert bú var með um 14 mjólkurkýr að meðaltali, og náði gagnasöfnunartímabilið til tveggja ára.

Blendingar af Zebu-stofni gefa bestan árangur

Í ljós kom að með því að kynbæta kúakynið sem bændur nota almennt í landinu, kyn sem er af Zebu stofni, með öðrum og afurðameiri kúakynjum náðist mestur árangur að jafnaði. Þetta kann að koma á óvart því mörg erlend kúakyn eru mun afurða- og afkastameiri og því hefði mátt búast við að hrein erlend kúakyn hefðu reynst betur en blendingar.

Skýringin fólst í því að bændurnir sem tóku þátt í verkefninu áttu erfitt með að víkja langt frá fyrri hegðun við bústjórn, sem er nokkuð sem þarf til þegar skipt er algjörlega um kúakyn. Þau bú sem fóru þannig „hálfa leið“ ef svo má að orði komast stóðu sig því best afkomulega séð og náðu að 7,4 falda framleiðni búanna í samanburði við hefðbundin kúabú og hefðbundna bústjórn á kúabúum í Senegal. Þá sýndi það sig í þessu verkefni að þeir bændur sem notuðu hrein erlend kúakyn eða nánast hreinræktaða gripi voru með mestar afurðir en ekki mestan hagnað og var skýringin á því hærri fóðurkostnaður þessara búa í samanburði við þau bú sem notuðu blendinga.

Nýir bústjórnarhættir bættu árangur

Það vakti einnig athygli og ætti raunar ekki að koma á óvart að þeir bændur sem tileinkuðu sér nýja bústjórnarhætti náðu allir bættum árangri og það óháð því hvort þeir voru enn með hið gamla landkyn eða eitthvert af hinum kúakynjunum eða blendingum. Þessi bú juku hagnað sinn frá 2,2 til 2,9 falt á við bú þar sem notuð var hefðbundin bústjórn. 

Niðurstöðurnar sýna þannig að bætt fagleg ráðgjöf skilaði sér alltaf í auknum hagnaði búanna sem undirstrikar nauðsyn þess að ekki er nóg að skipta einungis um framleiðslutækin sem slík ef þannig má að orði komast um að skipta um kúakyn heldur einnig að með því að efla almenna þekkingu á kúabúskap skilar það sér beint í bættri afkomu. Fullyrða má að þessi niðurstaða eigi við um allan kúabúskap um allan heim óháð því hvaða kúakyn sé verið að nota eða við hvaða aðstæður.

Heimild: 

Journal of Dairy Science Vol. 103 No. 9, 2020.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...