Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Rannsóknir sýna að notkun skordýraeiturs í ávaxtarækt er enn mjög útbreidd þó reynt hafi verið að banna slíkt í Evrópu og Bandaríkjunum á síðustu árum.
Rannsóknir sýna að notkun skordýraeiturs í ávaxtarækt er enn mjög útbreidd þó reynt hafi verið að banna slíkt í Evrópu og Bandaríkjunum á síðustu árum.
Fréttir 1. júní 2022

ESB notar stríðið í Úkraínu sem afsökun fyrir að leyfa notkun á skordýraeitri

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í landbúnaði er hvergi notað meira af skordýraeitri en í ávaxtarækt. Evrópuríki hafa reynt að berjast gegn slíkri eiturefnanotkun og bönnuðu m.a. notkun klórpýrifors (Chlorpyrifos) skordýraeiturs í janúar 2020. Ástæðan var rannsókn EFSA sem gaf til kynna að eitrið ylli heilaskaða í börnum. Bandaríkin settu svipaðar reglur í ágúst 2021.

Nú hafa ESB ríkin gefið undanþágu á þetta bann og er stríðið í Úkraínu notað sem afsökun.

Þrátt fyrir yfirlýst bann við notkun skordýraeiturs hafa framleiðslufyrirtæki og inn­flutnings­­aðilar reynt að fara í kringum þessar reglur. Í sumum tilfellum flutt framleiðsluna til Afríkuríkja þar sem laun og annar framleiðslukostnaður er mun lægri. Þar eru heldur engar hömlur við notkun eiturefna.

Spánn er stærsti framleiðandi og útflutningsríki á appelsínum í Evrópu. Þar hefur verið útbreidd mikil notkun skordýraeiturs við ræktun sítrusávaxta. Ljóst var að bann ESB við slíkri notkun kæmi illa við þarlenda bændur sem hafa þurft að keppa við innflutning þar sem ekkert bann ríkir.

Framkvæmdastjórn ESB krafði Spánverja um skýringar

Í frétt í blaðinu Politico á Spáni í mars síðastliðinn er greint frá því að framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins vilji að Spánn útskýri strax hvers vegna þar hafi verið ákveðið að flytja inn ávexti sem úðaðir hafi verið með skordýraeitri sem bannað er að nota í ríkjum ESB. Í bréfi sem Politico hafði undir höndum er talið að skordýraeitrið sé krabbameinsvaldandi og að þessi innflutningur geti verið skaðlegur börnum. Þessi ofanígjöf við Spánverja hélt þó ekki lengi og framkvæmdastjórnin hvarf á braut með skottið á milli lappanna.

Stríðið í Úkraínu notað sem afsökun fyrir afléttingu á eiturefnabanni

Í viðleitni til að létta þrýstingi á landbúnaðargeiranum í samkeppni við innflutning frá Afríku ákvað framkvæmdastjórn ESB í mars að gefa eftir í banninu við eiturefnanotkuninni.

Þá var heimilað að aðildarlönd gætu sett sínar eigin tímabundnu reglur um magn „varnarefnaleifa“ sem finnast í innfluttum landbúnaðarafurðum.

Var stríðið í Úkraínu notað sem afsökun í málinu og sagt að þetta væru viðbrögð við ótta spænskra sauðfjárbænda um að verða uppiskroppa með fóður fyrir sauðfé. Ástæðan var sögð sú að dregið hafi úr kornsendingum frá Úkraínu.

Spænskir appelsínubændur telja að sér vegið með innflutningi á ódýrum appelsínum frá Afríku.

Stöðu Spánar sem stórframleiðanda á appelsínum ógnað

Málið er þó flóknara en þetta og hart er nú tekist á um innflutning á appelsínum frá Afríku. Staða Spánar sem stórframleiðanda á appelsínum er nefnilega ógnað vegna innflutnings á ódýrum appelsínum sem lúta engum mengunarreglugerðum frá Afríku.

Þau viðskipti fara fram samkvæmt viðskiptasamningum sem gerðir voru í Brussel. Því fóru spænsk yfirvöld fram á það í fyrra að ESB endurskoðaði samninga um innflutning á sítrusávöxtum frá ríkjum utan sambandsins eins og frá Afríku.

Spænskir appelsínubændur segjast lepja dauðann úr skel

Appelsínubændur í samtökunum Asaja á Alecante-svæðinu á Spáni kvörtuðu undan því í janúar að markaðsverð á appelsínum hafi hrunið í landinu vegna innflutnings á ódýrum appelsínum frá Afríku.

Þannig hafi heildsöluverð á Nevelia appelsínum af svæðinu fallið úr 20 evrusentum á kílóið 2021 í aðeins 7 sent.

Stórmarkaðir skila gargandi gróða

Segja Asaja samtökin að samkeppnin sé orðin mjög ósanngjörn og stórmarkaðir séu með allt að 1.900% hagnað af sölu á appelsínum frá Afríku. Formaður samtakanna bendir á að við venjulegar aðstæður geti bændur framleitt hvert kíló af Nevelia appelsínum fyrir 15 sent og selt það til verslana fyrir 20 sent. Stórmarkaðirnir hafi síðan selt þær fyrir 80 sent á kílóið. Nú séu bændur að fá 7 sent fyrir kílóið sem stórmarkaðir selji síðan í smásölu á 1,50 evrur.

Á vefsíðu Eurofruit var fjallað um þessi mál þann 21. apríl síðastliðinn. Þar segir að spænskir sítrusframleiðendur krefjist þess að Brussel flýti fyrir áætlunum um að setja strangari reglur um innflutning á appelsínum frá Afríku sunnan Sahara. Meðal spænskra ávaxtabænda er vaxandi ótti um að þær nýju ráðstafanir sem kynntar hafa verið verði ekki til staðar áður en ný sítrussöluherferð hefst á suðurhveli jarðar.

Íslendinga skortir D-vítamín, en lítið talað um eiturefnainnihald í appelsínum

Lítið er vitað um eiturefnainnihald í appelsínum og öðrum sítrus­ávöxtum sem fluttir eru til Íslands. Áður hefur þó verið upplýst að tækjabúnaður til slíkra rannsókna hafi verið mjög takmarkaður hjá íslenskum eftirlitsaðilum.

Landlæknisembættið á Íslandi segir Íslendinga skorta mjög D-vítamín og hvetur því m.a. til að almenningur borði meira af ávöxtum, eins og appelsínum, sem séu góðar fyrir heilsuna. Í síðasta Bændablaði var greint frá niðurstöðum landskönnunar Embættis landlæknis og Rann­sókna­stofu í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, sem kynnt var þann 10. mars síðastliðinn. Hún sýndi að um 50–75% Íslendinga eru með of lítið af D-vítamíni í blóði.

Í úttekt Evrópusambandsins um innflutning á appelsínum til 27 ESB landa á árunum 2011 til 2021 kemur fram að langmest var flutt inn frá Suður-Afríku og þar á eftir komu Egyptaland og Marokkó. Simbabve, Túnis og Tyrkland voru einnig ofarlega á listanum. Á árunum 2019 til 2020 voru flutt inn rúmlega 75 þúsund tonn af appelsínum frá Marokkó til ESB landa. Þar er ekkert bann í gildi við notkun skordýraeiturs við ræktun á appelsínum.

Næstum allar tegundir vínberja og appelsína innihalda „kokteil af skordýraeitri” samkvæmt rann­sóknum á menguðum ávöxtum og grænmeti í breskum stórmörkuðum.
Árlegar prófanir í Bretlandi

Næstum allar tegundir vínberja og appelsína innihalda „kokteil af skordýraeitri“ samkvæmt rann­sóknum á mest menguðu ávöxtunum og grænmetinu í stórmörkuðum í Bretlandi. Á hverju ári prófa stjórnvöld í Bretlandi sýnishorn af matvöru með tilliti til efna og til að sjá hvort ummerki sé að finna í matvælum þar í landi.

Í september á síðasta ári var greint frá því að opinberar tölur sem greindar voru af Pesticide Action Network (PAN), sýndu 122 mismunandi varnarefni í 12 mest menguðu vörunum. Margt af þessu var sagt hættulegt heilsu manna. Um 61% af efnunum sem fundust eru flokkuð sem mjög hættulegt skordýraeitur (highly hazardous pesticides – HHPs), hugtak sem Sameinuðu þjóðirnar nota til að bera kennsl á þau efni sem eru skaðlegust heilsu manna eða umhverfis.

Sérhver ávöxtur eða grænmeti á listanum innihélt tvær eða fleiri tegundir skordýraeiturs, þar sem sumar innihéldu allt að 25 tegundir eiturs. Þó að magn einstakra varnarefna sé innan lagalegra marka, óttast menn að samsetning margra efna geti verið sérstaklega skaðleg heilsu fólks.

Fyrst þetta er niðurstaðan í Bretlandi og vitað að sömu niðurstöður hafa fengist úr rannsóknum í ESB-ríkjunum er trúlega óvarlegt að leiða líkum að öðru en að nákvæmlega sama staða sé varðandi ávexti og grænmeti sem flutt er til Íslands.

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...