Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Bjarni Benediktsson, Kristján Þór Júlíusson, Sindri Sigurgeirsson og Oddný Steina Valsdóttir við undirritunina.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Bjarni Benediktsson, Kristján Þór Júlíusson, Sindri Sigurgeirsson og Oddný Steina Valsdóttir við undirritunina.
Mynd / TB
Skoðun 17. janúar 2019

Endurskoðun sauðfjársamnings í höfn

Höfundur: Einar Ófeigur Björnsson í stjórn Bændasamtaka Íslands, einar@lon2.is

Síðastliðinn föstudag var skrifað undir samkomulag um endurskoðun sauðfjársamnings. Þar með er lokið endurskoðun eins af fjórum samningum, hina þrjá þarf að klára á næstu mánuðum.

Þessi vinna hefur tekið nokkra mánuði eins og algengt er með slík verkefni. Samningsaðilar höfðu hvor um sig sín sjónarmið og væntingar meðan á því stóð.

Niðurstaðan er að lokum sameiginleg og allir standa saman að henni þó auðvitað sé það þannig að hvorugur aðilinn hafi náð öllum sínum áherslum fram.

Breytingar á sauðfjársamningi litast mjög af því alvarlega ástandi sem hefur verið í greininni með gríðarlegu verðfalli á afurðum bænda og erfiðleikum í sölu á kjöti.

Þess vegna er reynt að draga úr framleiðsluhvata stuðningsgreiðslna á síðari hluta samningstímans og opnað á að sauðfjárbændur geti í einhverjum mæli farið út í aðra atvinnustarfsemi á jörðum sínum og haldið tímabundið stuðningi úr sauðfjársamningi. Skilyrði fyrir slíkum samningum er veruleg fækkun á fé viðkomandi og að settar séu fram trúverðugar áætlanir um aðra atvinnustarfsemi á viðkomandi jörð.

Lokað fyrir frjáls greiðslumarksviðskipti 

Þá er lokað fyrir frjáls viðskipti með greiðslumark og settar verða leikreglur sem miða að því að þeir sem eiga lítið greiðslumark miðað við fjárfjölda verði í forgangshópi þegar kemur að kaupum. Það verður útfært í reglugerð. Verðið verður fyrirfram ákveðið þannig að bæði þeir sem eru að kaupa og selja vita að hverju þeir ganga.

Einnig er nýmæli í samningnum að fundinn er farvegur fyrir fjármagn til að styðja við markaðsfærslu sauðfjárafurða ef afurðastöðvar lenda í viðlíka ástandi og árin 2016 og 2017 þar sem fór saman hátt gengi á íslensku krónunni, lágt verð á kjötmörkuðum erlendis og miklar launahækkanir innanlands.

Hagræðing hjá afurðastöðvum

Mikilvæg bókun er í samningnum um hagræðingu hjá afurðastöðvum. Það er gagnkvæmur skilningur samningsaðila að möguleikar séu til staðar til aukinnar hagræðingar sem geti skilað sér hærra afurðaverði til bænda ásamt betra vöruúrvali og hagstæðara verði til neytenda.

Kolefnisverkefni á vegum sauðfjárbænda

Síðast en ekki síst er vert að nefna að í þessum samningum var rætt um kolefnisverkefni á vegum sauðfjárbænda. Við treystum að þau hefjist á næstu misserum. Þau munu skapa atvinnu til sveita og um leið auka tekjumöguleika sauðfjárbænda. Það eru æ fleiri sem gera sér grein fyrir því að sá tími sem við höfum til að bregðast við loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar styttist hratt. Markmið bænda er alltaf að skila náttúrunni í betra horfi en þeir tóku við henni. Þetta er stór liður í því og örlítið lóð á vogarskál þess að leysa þetta stóra vandamál sem alheimurinn stendur frammi fyrir. Landrými er lykilatriði til að ná árangri við kolefnisbindingu. Sauðfjárbændur eiga mikið af landi sem hægt er að nýta í þessi verkefni og búa einnig yfir mikilli þekkingu og tækjakosti til að takast á við þessi verkefni.

Nauðsyn að hækka afurðaverð

Það er samt þannig að okkur er nauðsyn að hækka afurðaverð verulega til bænda á næstu árum ef þessi atvinnugrein á að eiga sér framtíð. Sauðfjársamningurinn sem slíkur hefur ekki úrslitaáhrif á framtíð greinarinnar. Markmið bænda hlýtur að vera að sem stærstur hluti af heildartekjum greinarinnar komi frá afurðaverðinu. Framtíð þessarar atvinnugreinar veltur á hvernig þar tekst til en ekki á því hvernig skipting fjármuna í búvörusamningi er. Núna er ýmislegt sem fellur á þann ás að það geti verið fært að hækka afurðaverð. Útflutningur gengur betur en síðustu misseri og það eru góðar vísbendingar um að það sé að nást árangur á erlendum mörkuðum sem geti skilað okkur sama verði eða hærra en hér heima. Þannig að ég trúi því að botninum sé náð og við séum byrjuð að feta okkur upp á við. Þó svo að leiðin sé löng að því marki að afkoman sé ásættanleg, er þó jákvætt ef við erum að fara í rétta átt.

Nú mun hefjast vinna við að endurskoða hina þrjá samningana. Niðurstaða þarf að liggja fyrir sem fyrst um framtíð kvótakerfis í mjólk. Það er víða verið að byggja fjós sem hafa mikla framleiðslugetu og ég sé ekki annað en það þurfi þá að leggja af nánast jafnmikla framleiðsluaðstöðu og verið er að byggja upp. Það verður mikil áskorun að ná jafnvægi að þessu leyti þar sem ekki virðist raunhæft að flytja út mjólkurafurðir svo neinu nemur.

Varðandi garðyrkjusamning og ramma-samning held ég að það sé ekki að vænta stórra breytinga. Þó þarf að taka til umræðu í tengslum við rammasamninginn innflutning á landbúnaðarvörum og tollamál. 

Mögulegur stóraukinn innflutningur 

Umhverfi landbúnaðarins er alltaf að breytast og stærsta ógnin nú er mögulegur stóraukinn innflutningur á kjöti og mjólkurvörum. Þessi umræða er ekki auðveld, en okkar sterkasta vopn er og verður að halda á lofti hreinleika okkar afurða. Þar þyrftum við að ná samstarfi við verslunina á Íslandi um að hampa okkar sérstöðu að þessu leyti. Að því er unnið meðal annars með hugmyndum um skýrari upprunamerkingar. 

Við verðum að hafa skilning á því að íslenskir neytendur beri saman verð á íslenskum og erlendum landbúnaðarafurðum. Þess vegna eigum við að halda á lofti sérstöðu og gæðum okkar afurða.

Ríkisstuðningur við íslenskan landbúnað er sennilega nokkuð mikill miðað við aðrar þjóðir. Það á ekki síst við um sauðfjárræktina. En menn verða að muna að það fæst meira fyrir þennan ríkisstuðning en matvara fyrir neytendur. Þar má nefna íslenskar ullarvörur og gærur sem eru vinsæl ferðamannavara. Það er gríðarlegur áhugi þéttbýlisbúa og ferðamanna að fylgjast með og taka þátt í göngum og réttum. Sauðfjárræktin er líka og verður undirstaða  byggðar í einstökum landshlutum. Sums staðar standa og falla mjög stór svæði með þessari atvinnugrein en á öðrum stöðum eru áhrifin kannski minni en þó aðalatvinna í einstökum sveitum.

Að styrkja íslenskan landbúnað

Mér hefur þótt lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt í vinnu við endurskoðun búvörusamninga. Við sem tökum slíkt að okkur höfum það alltaf að meginmarkmiði að styrkja íslenskan landbúnað, og gera hann færari um að standast samkeppni, þó svo að bændum sýnist sitt hverjum um árangurinn. Þannig er það alltaf. Nú liggur fyrir að fara um landið á nokkra fundi og kynna endurskoðaðan sauðfjársamning. Ég vil að lokum þakka samninganefnd ríkisins og atvinnuvegaráðherra samstarfið við endurskoðun sauðfjársamnings.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...