Elsta starfandi lífrænt vottaða garðyrkjustöðin
Gróðurhúsið Bjarkarás í Fossvoginum í Reykjavík var byggt af Ási styrktarfélagi 1991 og tekið í notkun 1993. Það fékk lífræna vottun frá Túni árið 1996 en það tekur að jafnaði 3 ár í aðlögun að fá slíka vottun. Gróðurhúsið var með fyrstu stöðvunum til að fá slíka vottun.
Eftir að Sólheimar gáfu vottunina upp á bátinn árið 2023 er Bjarkarás elsta starfandi lífrænt vottaða garðyrkjustöðin. Nú er stefnt að stækkun stöðvarinnar.
Margar tegundir í skiptiræktun
Gróðurhúsið er ekki stórt, um 180 fermetrar, en þar eru þó í ræktun þrjú tómatayrki, tvö gúrkuyrki, paprika, chili og svo ýmislegt annað í smáum stíl eins og maís, kúrbítur, eggaldin, melónur og baunir. Að sögn Svövu Rafnsdóttur, sem er garðyrkjufræðingur og hefur gegnt stöðu ræktunarstjóra frá 1. maí 2015, er stunduð skiptiræktun þannig að misjafnt er eftir árum hvað er ræktað.
Einnig er um 320 fermetra útisvæði fyrir grænmetisræktun og þar hafa ýmsar tegundir verið í ræktun enda skiptiræktun þar einnig. Meðal tegunda má nefna gulrætur, hnúðkál, fennel, sellerí, grænkál, hvítkál, gulrófur, pak choi, rauðrófur, blaðlaukur, vorlaukur, salat og kryddjurtir.
Enginn tilbúinn áburður og engin eiturefni
Í lífrænni vottaðri ræktun er farið eftir settum reglum sem gilda um slíka ræktun og Vottunarstofan Tún sér um að votta framleiðsluna. Enginn tilbúinn áburður er leyfilegur, en í Gróðurhúsinu í Bjarkarási er notaður hrossaskítur, þörungamjöl og fljótandi þörungaáburður. Einnig áburður sem unninn er úr gerjuðum sykurreyr og vínberjahrati.
Engin eiturefni eru notuð né önnur hefðbundin varnarefni, heldur lífræn sápa og lífrænar varnir, til dæmis ránsvespur. Allt sem fellur til í ræktuninni fer í safnhaug sem verður svo að góðri gróðurmold sem er notuð á stöðinni.
Afurðirnar seldar á nokkrum stöðum
Grænmetið frá Gróðurhúsinu í Bjarkarási er selt á nokkrum stöðum; í Hygge-bakaríinu í Grímsbæ sem áður hét Brauðhúsið, í Fjarðarkaupum, í Melabúðinni og í áskriftasölu beint frá gróðurhúsinu. Þá kaupir Ás styrktarfélag grænmeti af stöðinni til nota í eldhúsinu þar sem útbúnar eru máltíðir fyrir starfsmenn Áss.
Starfsmenn gróðurhússins auk Svövu og Ragnhildar eru Sigrún Hallgrímsdóttir tómstundafræðingur og Hartmann Antonsson þroskaþjálfi. Einnig er starfsfólk í vinnu og virkni frá Ási styrktarfélagi enda er gróðurhúsið í Bjarkarási fyrst og fremst hugsað sem vinnustaður fyrir fólk með þroskahömlun.
