Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eiríkur Þórkelsson við sýnatökur úr áburðarsekkjum.
Eiríkur Þórkelsson við sýnatökur úr áburðarsekkjum.
Mynd / Matvælastofnun
Fréttir 12. febrúar 2020

Ekki hægt að flýta birtingu niðurstaðna áburðareftirlits

Höfundur: smh
Áburðarmálin eru mál málanna um þetta leyti árs hjá þeim bændum sem rækta tún. Tilbúinn áburður er bæði stór útgjaldaliður og eins er mikilvægt að velja réttan áburð. Innihald áburðategunda er hins vegar ekki alltaf í fullu samræmi við innihaldslýsingu vörutegundanna. Átta tegundir, sem ekki stóðust skilyrði áburðareftirlits Matvælastofnunar frá síðasta ári, er ekki heimilt að selja á þessu ári. Almennt taka áburðarsalar tillit til eftirlitsniðurstaðna og gera viðeigandi ráðstafanir varðandi þær tegundir sem ekki standast skilyrðin. 
 
Auk þess að skoða hvort tiltekin áburðarefni séu undir eða yfir leyfilegum vikmörkum athugar Matvælastofnun hvort í áburðinum séu óæskileg efni eins og þungmálmurinn kadmíum, en leyfilegt er að hann finnist í undir 50 milligrömmum á hvert kíló fosfórs. Matvælastofnun og forverar hennar hafa sinnt áburðareftirliti frá 1994, en árið 2010 var sett reglugerð  um birtingu niðurstaðna úr eftirlitinu fyrir árslok hvert ár í skýrslu.  Auk þess sem það ber að tilkynna strax um það ef rökstuddur grunur er um að áburður hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna eða dýra. 
 
Valgeir Bjarnason hefur umsjón með áburðareftirliti Matvælastofnunar.
Valgeir Bjarnason hefur haft umsjón með áburðareftirliti Matvælastofnunar um árabil. Hann kannast ekki við að það tíðkist meðal áburðasala að setja áburðartegundir sem falla á prófinu aftur í sölu ári seinna undir öðru vörumerki. „Það má segja að þegar við fórum að birta niðurstöður eftirlitsins á hverju ári hafi komist sjálfkrafa á ákveðið aðhald. Við erum þó með eitt tilfelli af því tagi til skoðunar,“ segir Valgeir.
 
Ýmsar leiðir til fyrir áburðarsala til að bregðast við
 
„Þegar áburður fellur vegna næringarefnainnihalds, er hann tekinn af skrá og hann síðan endurskráður ef fyrirtækið óskar þess. Skilyrði eru að honum verði ekki dreift til bænda fyrr en að lokinni sýnatöku og efnagreiningum og að áburðurinn standist þá efnamælingu,“ segir Valgeir og tekur fram að frávikin séu frá þeim gildum sem gefin eru upp í merkingum og markaðssetningu áburðarins. 
 
„Fyrirtækið getur brugðist við með ýmsum hætti; hætt við viðkomandi áburðartegund, breytt merkingum á efnainnihaldi þannig að það standist þær mælingar sem Matvælastofnun lét gera, eða komið fyrr með áburðinn svo unnt sé að taka sýni tímanlega þannig að niðurstöður verði komnar nógu snemma.
Matvælastofnun sér um að endurskrá áburðinn og setur jafnfram skilyrði fyrir dreifingu hans til notenda sé þess þörf.“
 
Ekki hægt að hraða eftirlitinu
 
„Það er rétt að það er ekki unnt að setja fram niðurstöður áburðareftirlits fyrr,“ segir Valgeir. „Í fyrsta lagi þarf að taka sýnin, það verður ekki gert fyrr en áburðurinn er kominn á hafnarbakka, sem er yfirleitt í apríl og jafnvel í maí. Sýnin eru ekki tekin nema í þurru og hægu veðri og því þarf að sæta lagi til að það sé hægt.
 
Útbúa þarf sýnin til sendingar og svo bíða niðurstaðna í þrjár til fjórar vikur. Þá er komið langt fram í maí, síðan þarf að senda niðurstöður á fyrirtækin og þau þurfa að fá andmælarétt í fjórar vikur til geta sent sinn hluta sýnis í greiningu og andmælt niðurstöðum Matvælastofnunar. Þá er vissulega tími áburðargjafa liðinn. Síðan segir í reglugerðinni um birtingu niðurstaðna að það eigi að gefa fyrirtækjunum einn mánuð til að yfirfara sinn kafla í lokaskýrslunni. Skýrslan á einnig að innihalda yfirlit yfir áburðarmarkaðinn á árinu, þannig að ekki er unnt að birta hana fyrr en á nýju ári.“
 
Tilgangslaust að fá niðurstöður erlendis frá
 
Við höfum oft fengið fyrirspurnir varðandi sýnatöku erlendis, í því sambandi er best að benda á að flestir áburðarsalar skipta við fyrirtæki sem hafa gæðakerfi sem á að tryggja gæði áburðarins. Ábyrgð á framleiðslu – þar með talið efnainnihaldi og að fylgt sé kröfum um kadmíum – er á herðum viðkomandi innflutningsfyrirtækja. Sum senda niðurstöður úr innra eftirliti með innflutningstilkynningum. Ég tel að með tilkomu birtinga niðurstaðna þessa eftirlits hafi fyrirtækin bætt innra eftirlit. Þannig að mín tilfinning er sú að þetta hafi batnað með árunum. Af þessum átta áburðarsýnum sem féllu á síðasta ári voru sex frá nýjum framleiðanda. Sýni tekin erlendis þurfa ekki að vera af framleiðslu sem kemur hingað, við höfum enga tryggingu fyrir því.“ 
Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...