Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ekki gera ekki neitt
Lesendarýni 22. janúar 2015

Ekki gera ekki neitt

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, fyrrverandi ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, ritaði grein í síðasta tölublað Bændablaðsins, sem bar heitið „Verndum íslensku mjólkurkúna og framleiðslu mjólkur á fjölskyldubúum“. 
 
Þar sem Ólafur lét af störfum hjá Bændasamtökum Íslands um síðustu áramót, vil ég þakka honum fyrir samstarfið innan samtaka bænda á undanförnum árum og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
 
Stóraukin eftirspurn
 
Baldur Helgi Benjamínsson.
Nautgriparæktin á Íslandi stendur um þessar mundir á mestu tímamótum í áratugi. Því veldur einkanlega mjög mikil aukning eftirspurnar eftir nautgripaafurðum; bæði mjólk og kjöti. Á skömmum tíma hefur greiðslumark mjólkur verið aukið um 24 milljónir lítra, úr 116 milljónum í 140 milljónir lítra á yfirstandandi ári. Innlend framleiðsla nautgripakjöts var tæplega 3.500 tonn og selst allt það kjöt jafnharðan. Það skal ítrekað að hér er um að ræða 3.500 tonn af skrokkum. Því til viðbótar voru flutt inn á síðasta ári yfir 1.000 tonn af nautgripakjöti; án beina. Verðmæti þessa innflutnings var hátt í einn milljarður króna. Vitanlega er misjafnlega mikið flutt inn af einstaka skrokkhlutum, en almennt má gera ráð fyrir að nýtanlegar afurðir séu um 60% af fallþunganum. Til að fá 1.000 tonn af kjöti þarf því tæplega 1.700 tonn af skrokkum. Það er því ekki fjarri lagi að nautakjötsmarkaðurinn hér á landi sé um 5.200 tonn ár hvert. Til samanburðar má benda á að heildarsala kindakjöts á innanlandsmarkaði er um 6.200 tonn á ári.
 
Ein af meginröksemdunum fyrir þeirri starfsumgjörð sem landbúnaði er sköpuð hér á landi, er að innanlandsmarkaði sé sinnt í öllum meginatriðum. Óþarfi er að rekja í löngu máli, hvaða áhrif smávægilegir hnökrar á því hafa haft. En það er ekki nóg að uppfylla þarfir markaðarins; framleiðslan þarf líka að gefa afkomu fyrir bændur. Að öðrum kosti leggst hún af. Það er í þessu ljósi sem Landssamband kúabænda hefur unnið að því samfleytt í rúmlega fimm ár, að bændum standi til boða öflugri og hagkvæmari kjötframleiðslugripir en raunin er í dag. Í því verkefni hafa fáir aðrir lagt hönd á plóg. Heildarhagsmunir landbúnaðarins felast því í að sinna innlendum markaði með hagkvæmri, innlendri framleiðslu.
 
Öflugar smitvarnir
 
Tryggar smitvarnir eru lykilatriði í innflutningi á erfðaefni búfjár; gildir þá einu hvort um er að ræða innflutning á holdanautasæði, svínasæði, lifandi minkum eða frjóvguðum eggjum. Því fékk Landssamband kúabænda Veterinærinstituttet í Noregi til að vinna vandað og mjög ítarlegt áhættumat vegna innflutnings á nautgripasæði frá Noregi til Íslands. Niðurstaða þess er sú, að í langflestum tilfellum er sjúkdómaáhætta ekki til staðar, þar sem viðkomandi sjúkdóma hefur ekki orðið vart, ýmist aldrei eða þá ekki svo árum eða áratugum skiptir. Í þeim tilfellum þar sem áhætta er til staðar, er hún í öllum tilfellum metin hverfandi lítil. Þá kemur Landssamband kúabænda að vinnu við mótun á sóttvarnarreglum vegna innflutnings á holdanautasæði, ásamt Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Þar mætti horfa til þeirra krafna sem Nýsjálendingar gera til innflutnings á t.d. nautgripasæði. Það er að mínu mati villandi málflutningur sem kemur fram í forsíðufrétt síðasta Bændablaðs að innflutningur á búfé til Nýja-Sjálands sé „nánast bannaður“. Til landsins eru fluttir fósturvísar og sæði, að uppfylltum ítarlegum skilyrðum.
 
Virk stofnstærð 63 gripir
 
Ólafi verður í grein sinni nokkuð tíðrætt um „eyðingu erfðaefnis“. Það hugtak er notað í allvíðu samhengi; allt frá því að taka til einstakra erfðavísa yfir heilu dýrategundirnar. Hér á landi hefur í áratugi verið unnið kerfisbundið að því að eyða „hyrnda“ erfðavísinum út úr íslenska kúastofninum, með því að taka ekki inn á nautastöð kálfa undan hyrndum kúm. Sama gildir um erfðavísa sem valda síðu júgri, útstæðum spenum eða hvaða öðrum eiginleikum sem óæskilegir teljast í nútíma mjólkurframleiðslu; unnið er markvisst að útrýmingu þeirra. 
 
Í Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins 2014–2018 kemur fram, að virk stofnstærð íslenska kúastofnsins hafi fallið úr 115 gripum árin 2000–2005, niður í 63 árin 2005–2010. Þessi hefur þróunin orðið, þrátt fyrir að talsvert hafi verið gert til að halda aftur af aukningu skyldleikaræktar á þeim 40 árum, sem núverandi kynbótaskipulag íslenska kúastofnsins hefur verið í gildi. Innan fárra ára verður stofninn því kominn á svipaðar slóðir og kúastofnarnir Holstein og Jersey, þar sem virk stofnstærð er á bilinu 40–50 gripir. 
 
Ólafur leggur einnig til í grein sinni, að nautgripabændur setji kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að göllum íslenska stofnsins og þeim takmörkunum sem stofnstærðin setur mögulegum framförum í kynbótum. Það getur auðvitað verið notalegt um stund að koma sér hjá því að ræða það sem manni þykir óþægilegt, en á endanum verður ekki hjá því komist. Sú bylting sem er að eiga sér stað í kynbótastarfi nágrannaþjóðanna með kyngreindu sæði, úrvali á grunni erfðamarka o.s.frv. er efni í aðra grein. Íslenska ríkið undirgekkst sáttmála um líffræðilega fjölbreytni fyrir tæplega aldarfjórðungi, því leiðir af eðli máls að á herðum þess hvílir að vinna verndaráætlun fyrir íslensku búfjárkynin.
 
Bústærðin fimmfaldast
 
Það eru loksins aftur farin að heyrast hamarshögg í sveitunum, eftir stöðnun í þeim efnum allt frá því að viðskiptabankarnir fóru afvelta haustið 2008. Þegar litið er yfir þróun í fjósbyggingum hér á landi undanfarna áratugi, má greina ákveðna toppa með nokkurra áratuga millibili; mikið var byggt á áttunda áratugnum og var þá oft byggt fyrir 30–40 kýr. Talsvert var byggt á fyrsta áratug þessarar aldar og þá fyrir 60–70 kýr, eða einn mjaltaþjón. Þróunin er um það bil sú, að núverandi kynslóð byggir tvöfalt, jafnvel þrefalt stærra en kynslóðin á undan; árið 1978, um það leyti er Ólafur hóf störf hjá samtökum bænda, lagði meðal kúabóndinn inn 45.000 lítra en á þessu ári verður meðal innleggið nálægt 215.000 lítrum. Það er tæplega fimmföldun á rúmlega aldarþriðjungi. Þessari þróun er fjarri því lokið; þó svo áræðnir aðilar hugsi sér að taka þetta skrefinu lengra og byggja fyrir rúmlega 200 kýr, þá er beinlínis fjarstæðukennt að líkja slíkum áformum saman við landlausan búrekstur í fjarlægum löndum, sem kaupir allt fóður, fargar mykjunni í nærliggjandi eyðimörk og heldur tugi þúsunda gripi.
 
Byggingarkostnaður hér á landi er hár, fjármagnskostnaður enn hærri. Lætur nærri að hver legubás og tilheyrandi uppeldisaðstaða fyrir ungviði kosti um tvær milljónir kr. Að óbreyttu dreifast afskriftirnar og fjármagnskostnaðurinn á miklu færri framleiddar einingar hér en í nálægum löndum. Opinber stuðningur við greinina hefur dregist saman um 20% á einum áratug. Það er því ljóst að kúabændur fara ekki í slíkar framkvæmdir nema að vandlega yfirlögðu ráði; það er óhætt að segja að ekki hafi verið offramboð af slíkum aðilum undanfarin ár. Í ljósi þess er satt að segja með miklum ólíkindum, að starfsmaður samtaka bænda skuli sjá sóma sinn í því að setja ofan í við bændur sem eru að endurnýja framleiðsluaðstöðuna; atyrða þá fyrir að leita leiða til að kljúfa fjárfestinguna og tryggja afkomu sína. 
 
Það er líka mjög áleitin spurning hvort hið íslenska fjölskyldubú, þar sem bústörfin hvíla árið um kring á herðum eins eða tveggja einstaklinga, er sérstaklega eftirsóknarvert fyrirkomulag þegar til framtíðar er litið. Í nútíma samfélagi er lögð vaxandi áhersla á frítíma, m.a. til að sinna félagsstarfi og margvíslegum hugðarefnum fólks. Kúabændur eru þar ekkert undanskildir. Til að skapa aðstæður fyrir slíkt, þurfa búin að vera af þeirri stærð að þau standi undir launuðum starfskröftum sem geta gengið í öll verk. 
 
Vinna við nýjan mjólkursamning er (of) skammt á veg komin, það liggur því ekkert fyrir um hvaða skilyrði verða sett vegna stuðningsgreiðslna við greinina. Í því samhengi er þó rétt að minna á, að einu gripirnir sem njóta „sérkjara“ í núverandi stuðningskerfi, eru kýr af holdakynjunum sem flutt voru hingað til lands á síðustu öld. Samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda eru greiddar tvöfalt hærri gripagreiðslur út á þær en mjólkurkýrnar. Vel má hugsa sér að beita gripagreiðslunum til að stuðla að viðgangi íslenska kúastofnsins til framtíðar.
 
Kaup LK á Nautastöðinni
 
Undanfarna mánuði hafa staðið yfir samningaviðræður milli LK og BÍ um kaup Landssambands kúabænda á Nautastöð BÍ. Bæði búnaðarþing og aðalfundur LK hafa veitt stjórnum samtakanna umboð til þessa með ályktunum sínum. Markmið LK með kaupunum, ef af þeim verður, er að tryggja faglega og fjárhagslega ábyrgð greinarinnar sjálfrar á ræktunarstarfinu, auk þess að glæða áhuga og metnað umbjóðenda samtakanna á þessu sviði. Það er að mínu mati óboðlegt að starfsmaður samtaka bænda, geri málefnaleg áform þeirra tortryggileg í málgagni samtakanna og grafi með því undan þessum fyrirætlunum. Það má líka spyrja sig; hverjir aðrir en kúabændur á Íslandi eiga að sjá um ræktunarstarf íslenska kúastofnsins? 
 
Nautgriparæktin stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum; eftirspurn eftir afurðum hennar eykst, mikil uppsöfnuð þörf er á endurnýjun framleiðsluaðstöðunnar, kröfur til samfélagsins til greinarinnar breytast og aukast hratt. Við þær aðstæður er eðlilegt að íhuga alla valkosti með opnum huga. Það er ekki í boði að gera ekki neitt.

Skylt efni: nautgriparækt | Kúabændur

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...