Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Smári Hólm Kristófersson og Niels Bilde í bás Prolan á landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll. Niels var þarna mættur sem fulltrúi Denrex ASP í Danmörku, sem er umboðsaðili Prolan í Evrópu.
Smári Hólm Kristófersson og Niels Bilde í bás Prolan á landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll. Niels var þarna mættur sem fulltrúi Denrex ASP í Danmörku, sem er umboðsaðili Prolan í Evrópu.
Mynd / HKr.
Fréttir 11. desember 2018

Einhver albestu smur- og ryðvarnarefni sem þekkjast eru unnin úr ull af sauðfé

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslendingar þekkja vel afurðir íslensku sauðkindarinnar og þar er ullin og lopinn sem úr henni fæst í hávegum höfð. Færi vita þó að ull sauðkinda inniheldur líka önnur efni eins og ullarfitu eða lanolin, sem er eitthvert albesta ryð- og tæringarvarnarefni  sem hægt er að fá. 
 
Á landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll í október var fyrirtækið „Hjá Smára Hólm“ með bás þar sem kynntar voru vörur frá Prolan á Nýja-Sjálandi. Umboðsaðili Prolan í Evrópu er Denrex ASP í Danmörku.
 
Smári bendir á drifbúnað og ýmis holrúm undir bílnum sem passað er upp á að verði ekki út undan þegar Prolan-efninu er sprautað á undirvagninn. 
 
Rekur ryðvarnarverkstæði á Rauðhellu í Hafnarfirði
 
Smári Hólm Kristófersson, stofnandi og eigandi fyrirtækisins, hefur áratuga reynslu af bifreiðaviðgerðum og viðhaldi. Hann er reyndar sannkallaður þúsundþjalasmiður með menntun og reynslu í fjölda iðngreina og er þar á meðal lærður kjötiðnaðarmaður. Hann rekur nú ryðvarnarverkstæði á Rauðhellu 1 í Hafnarfirði. 
 
Í seinni tíð hefur Smári og fyrirtækið þó í auknum mæli farið að sérhæfa sig í viðgerðum og forvörnum á ryðmyndun. Við þá þróun sem átt hefur sér stað innan fyrirtækisins hafa starfsmenn þess leitast eftir nýjum og árangursríkum leiðum til þess að takast á við hið hvimleiða vandamál sem ryð getur leitt af sér.
 
Hann hefur fundið árangursríka lausn með notkun efnablöndu frá nýsjálenska fyrirtækinu Prolan. Efnið hefur reynst ákaflega árangursríkt auk þess sem notkun þess býður oft mun hagkvæmari lausnir en þær sem þegar eru til staðar, af þessu leiðir sparnað til kaupanda auk þess sem efnið er umhverfisvænt. Samt er þetta efni upphaflega ekki framleitt sem ryðvarnarefni heldur sem vistvænt smurefni í matvælaiðnaði. 
 
Lanolin sem unnin  er úr ull ástralskra og nýsjálenskra sauðkinda er nú notuð til að verja tól og tæki um allan heim fyrir tæringu. 
 
Byrjaði með Prolan fyrir 5 árum
 
„Ég byrjaði að nota Prolan-efni fyrir fimm árum og prófaði mig síðan áfram. Ég vildi vera viss um að þetta væri að virka eins og framleiðandi sagði og ég vildi að það virkaði. Enda hafði ég áður brennt mig á notkun annarra efna sem seld voru sem ryðvarnarefni og voru bara ekki að virka vel. 
 
Það var ungur maður sem kynnti Prolan fyrir mér og endaði það með því að við fórum í samstarf. Í framhaldinu óskuðu erlendu birgjar Prolan eftir því að ég tæki alfarið við sölu á efnum þeirra á Íslandi. Síðan fór þetta að rúlla eiginlega af sjálfu sér.“ 
 
Kemur í veg fyrir tæringu af brennisteinsvetni
 
„Ég hef ekkert verið að auglýsa, en menn hafa frétt af gæðum þessa efnis í gegnum reynslu annarra eins og rekstraraðila fjallabíla. Ég hef líka verið að gera tilraunir með virkni efnisins, m.a. til að verja keðjur, járn og ál. Ég setti upp rekka við Hellisheiðarvirkjun til að prófa hvort Prolan stæðist tæringu af völdum brennisteinsvetnis sem er eins og menn geta séð að tæra allar rafmagnssamstæður í flutningslínum á Hellisheiði. Ég setti þetta líka á bíla frá Vöku, Tempra og fleiri fyrirtækjum og einnig sem botnfarva á báta. Líka hef ég prófað þetta sem felgubón og fleira.“ 
 
Bændur sjá kosti Prolan sem viðkennt er fyrir matvælaiðnað
 
„Nú eru bændur farnir að taka við sér við að prófa Prolan til að verja sín tæki. Menn sjá það að fyrst sýran sem er í loftinu við Hellisheiðarvirkjun vinnur ekki á þessu þá vinnur maurasýra og önnur efni sem notuð eru í landbúnaði ekki heldur á þessu. Þar fyrir utan er þetta vottuð NSF vara af Evrópusambandinu sem vistvænt smurefni fyrir matvælaiðnaðinn. Vegna þessa sérstöku skaðleysis-eiginleika þá hafa íslenskir bændur sýnt Prolan-efnunum áhuga, þar sem óhætt er að nota þau sem ryðvörn á dráttarvélar og önnur tæki án þess að valda skaða í umhverfinu eða á framleiðsluvörum bænda,“ sagði Svavar Hólm í samtali við Bændablaðið. 
 
Lanolin – ullarfeiti
 
Eins og fyrr segir er lanolin virka efnið í Prolan. Orðið lanolin er samsett úr latnesku orðunum „lana“ sem merkir ull og „oleum“, eða olíu. Þetta efni hefur líka verið nefnt ullarvax eða ullarfeiti og myndast í fitukirtlum allra dýra sem hafa ullarfeld. Það er því líka að finna í ull af íslensku sauðfé, en þó í tiltölulega litlu magni, en mun meira í fé sem alið er á heitari slóðum, eins og í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins hefur ullarverksmiðjan Ístex kannað möguleika á að framleiða lanolin úr íslenskri ull, en það ekki talið borga sig. 
 
Lanolin er sannarlega mikið undraefni og er m.a. uppistaða í mörgum snyrtivörum, sem og sérhæfðum smur- og varnarefnum fyrir matvælaiðnað og flugvélar. Hafa lanolinvörur verið framleiddar undir ýmsum vörumerkjum sem eru eins ólíkar og merkin eru mörg. 
 
Efni sem nota má í matvælaiðnaði
 
Prolan á Nýja-Sjálandi hefur framleitt nokkrar gerðir af smur- og ryðvarnarefnum úr ullarfitu  og hafa fengið alþjóðlega viðurkenningu NSF (Nonfood Compounds Progarm Listed) og frá Matvælaöryggiseftirliti Nýja-Sjálands, eða New Zealand Food Safety Autority (NZFSA). Það þýðir að Prolan-efni undir heitunum Prolan Enduro HG, Prolan Enduro MG, Prolan Grease, Prolan Heavy, Prolan Light og Prolan Medium má nota á vélar og tæki í matvælaiðnaði, eins og í kjötvinnslum og fiskiðnaði. 
 
Þolir klór og þvott með miklum vatnsþrýstingi
 
Til að efnið standist kröfur sem smurefni í matvælaiðnaði verður það að þola ætandi efni eins og klór og sterk sápuefni. Þá verður það líka að þola vatnsþvott með háþrýstibyssum. Rannsóknir sýna að Prolan fer ekki af þó beitt sé vatnsþrýstingi upp á 170 bör. Þá má skítur ekki heldur loða við efnið. Það má heldur ekki skemma gúmmí. Allar þessar kröfur stenst Prolan eins og NSF vottunin vísar til. 
 
Vörurnar frá Prolan hafa þannig verið þrautprófaðar við hinar ýmsu aðstæður. Þrotlaus vinna hefur farið í vöruþróun og eru vörurnar í raun í stöðugri þróun þar sem unnið er að því að útbúa sérhæfðar lausnir fyrir krefjandi aðstæður. 
 
Ekki hættulegt fólki eða skepnum
 
„Prolan er hvorki hættulegt fólki né skepnum. Bændur geta því að skaðlausu úðað þessu efni yfir sínar heyvinnuvélar, dráttarvélar og önnur tæki á haustin. Þá virkar þetta bæði sem smurefni og tæringarvörn. Þegar vélarnar eru svo teknar í notkun á vori er óþarfi að þvo efnið af. Þó þetta fari á bremsudiska á bílum verða þeir ekki bremsulausir. Bremsu­dælur sem hætt er við að ryðga haldast fínar og flottar við að úða á þær Prolani. Þá þarf engar áhyggjur af‘ hafa af gúmmífóðringum, þær skemmast ekki.“
 
Svavar segir að þegar hann taki bíla í ryðvörn þá láti hann bílinn standa inni yfir nótt til að þurrka hann. Síðan taki hann öll dekk og hlífar undan bílnum og þrífi undirvagn áður en efninu er sprautað á. Þá er efninu líka sprautað inn í sílsa, alla bita og glufur og ef þess þarf eru boruð göt á bitana til að koma efninu inn í þá. Þannig á að vera tryggt að allir krókar og kimar undirvagnsins séu varðir af Prolan-efninu. 
 
Klaki festist ekki undir bílum sem úðaðir hafa verið með Prolan
 
Svavar segir að þegar búið er að úða Prolan-efni inn í bretti á bílum og á undirvagn, þá verði klakasöfnun aldrei til vandræða á veturna. 
 
„Jeppakarlarnir sem hafa notað þessi efni og eru að ösla í klaka og krapa og uppi á jöklum segja mér að það festist aldrei klaki undir bílana hjá þeim. Það eina sem hefur áhrif á Prolanið undir bílunum er barningur af sandi frá hjólbörðum sem virkar þá eins og sandblástur. Það er ekkert efni sem stenst það og þá er bara að úða þá álagsstaði aftur.
 
Þegar menn lenda í að gera við bíla sem úðaðir hafa verið með Prolan-efni, þá verða aldrei vandræði vegna þess að boltar og skrúfur hafi ryðgað fastar. Enda er þetta smurefni sem smýgur inn í allar glufur og gengjur. 
 
Felguhringir á vörubílum sem gjarnir eru á að ryðga fastir verða aldrei til vandræða ef Prolan er borið á þá. Í Danmörku eru vörubílstjórar mikið farnir að nota Prolan af þessum sökum.“
 
Leysir upp prótein eins og flugur
 
Þótt Prolan sé hannað sem smurefni og tæringavörn, þá er það líka nothæft sem hreinsiefni. Einn af eiginleikum þess er að það leysir upp prótein, eins og frá fiski og flugum sem gjarnan festast framan á bílum á sumrin. Segir Svavar að útgerðarfyrirtæki í Grindavík hafi uppgötvað þennan eiginleika og notað Prolan til að losna við slor á pöllum bíla sinna. Þá hafa menn líka verið að nota þetta efni til að stoppa ryðblettamyndun í lakki bíla og hreinsa ryð, líka af reiðhjólum.
 
Gæðin langt umfram væntingar
 
„Þetta efni er því búið að standa sig svakalega vel að mínu mati. Gæði efnisins og virkni eru langt fram yfir mínar væntingar,“ segir Smári Hólm Kristófersson. 
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...