Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Eignarhald á landi og umfang gróður-  og jarðvegseyðingar á miðöldum
Fréttir 24. ágúst 2015

Eignarhald á landi og umfang gróður- og jarðvegseyðingar á miðöldum

Höfundur: Vilmundur Hansen
Kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000 og kaþólsk trú var við líði fram að siðaskiptum árið 1550. Tals­verðar breytingar urðu á eign­ar­haldi á landi í kjölfar kristnitökunnar með þeim hætti að jarðir færðust frá bændum í hendur klaustra og biskupsstóla. 
 
Egill Erlendsson.
Egill Erlendsson landfræðingur og lektor við Háskóla Íslands hélt í sumar erindi sem hann kallaði „Var þeim sama um moldina“ og fjallaði um breytingar á eignarhaldi  á landi og umfang gróður- og jarðvegs­eyðingar á miðöldum.
 
Í erindinu velti Egill fyrir sér hvort yfirfærsla á eignarhaldi á landi frá bændum til klaustra hafi verið ein af ástæðunum fyrir aukinni gróður- og jarðvegseyðingu sem hófst skömmu eftir að kristni var lögtekin.
 
„Eignaskrár klaustra og biskups­stóla sýna að þær stofnanir eignast tals­vert af jörðum fljótlega eftir að kristni er tekin upp eða í kringum 1100 og fram að siðaskiptum. 
 
Með eignatilfærslunni urðu marg­ir sjálfseignarbændur að leigu­lið­um. Spurningin er sú hvort eignar­halds­breyting af þessu tagi hafi haft áhrif á viðhorf bændanna til landsins og þeir hafi einfaldlega hætt að hugsa eins vel um það. Í stað þess að vera metnaðarfullir sjálfseignabændur hverra börn erfðu landið voru þeir leiguliðar klaustranna og ekkert endi­lega að leggja á sig mikla vinnu til jarðar­bóta. Margir hafa því eflaust reynt að komast sem einfaldast í gegn­um lífíð og vinna sem minnst þar sem aukin vinna var ólíkleg til að bæta hag þeirra.“
 
Aukin sauðfjárbúskapur
 
„Sauðfjárrækt með vetrarbeit er mun auðveldari búskapur en að vera með nautgripi enda minna fyrir sauðfénu haft.“ 
 
Fornleifarannsóknir sýna að frá árinu 1000 til 1300 eykst hlutfall sauðfjárbeina í öskuhaugum við bæi en nautgripabeinum fækkar og sýnir svo ekki verður um villst að hlutur sauðfjár eykst á móti nautgripum. 
Án þess að fullyrða að það séu bein tengsl milli breytinga á eignar­haldi jarða og aukins sauðfjárhalds er áhuga­vert að velta tengslunum fyrir sér,“ segir Egill.
 
Þegar Egill er spurður hvort breyt­ingin geti ekki stafað af kóln­andi veðurfari eftir landnám segir hann það geti að sjálfsögðu haft sitt að segja. „Flest bendir til að kólnun­in hafi byrjað í kringum 1250 og því nokkru síðar en aukningin í sauð­fjár­haldi hófst.“
 
Hnignun skóga og jarðvegseyðing
 
„Rannsóknir á gróðurbreytingum og gróðureyðingu sýna að fyrsta stórfellda breytingin verður við land­nám. Það er í sjálfu sér skiljanlegt í kjölfar þess að landnámsmenn eru að koma sér fyrir og hefja búskap, skapa sér búsetuskilyrði og hefja land­búnað.
 
Hnignunin virðist síðan ná nokkru jafnvægi en á árabilinu milli 1150 og 1200 virðist hún aukast á nýjan leik. Upp frá þessum tíma verður hörfun skóganna hraðari og í kjölfarið herðist á jarðvegs­rofinu þegar svörðurinn situr óvarinn eftir. Sem dæmi má nefna að frá u.þ.b. 1200 til 1500 hverfa skógar og kjarr úr Mosfellsdal og svipað má lesa úr gögnum frá Mývatnssveit og Borgarfirði. 
 
Þannig að breyting á eignarhaldi jarða og fjölgun sauðfjár getur alla­vega verið einn hluti skýringarinnar fyrir aukinni jarðvegseyðingu á miðöldum.“
 
Leiga borguð í osti
 
„Annað sem tengir aukningu í sauð­fjárhaldi við klaustrin er að íslensk klaust­ur borguðu gjald til biskupsins í Niðarósi í osti og hann gjald til Róm­ar. Leiguliðar klaustr­anna borg­uðu því að hluta til leiguna í osti og það getur hafa ýtt undir aukna sauðfjárrækt í landinu til að framleið ost. Sauðfé var kannski tryggari bústofn til að standa undir gjaldheimtunni.
 
Ég hef reyndar ekki skoðað þessa hlið málsins nógu vel til að vita hversu mikið af leigunni var greitt í osti en mér skilst að það hafi verið talsvert og það er áhugaverður vinkill.“
 
Klaustrin sett upp í pólitískum tilgangi
 
Egill segir að þrátt fyrir að klaustrin á Íslandi hafi oft verið talin lítil og ómerkileg hafi þau verið stofnsett í pólitískum tilgangi. Eignasöfnun klaustranna og biskupsstólanna sýnir að tilvera þeirra skipti máli og rökrétt að álykta að þau hafi haft töluverð áhrif á samfélagslega þróun á fyrstu öldum byggðar í landinu. 
„Klaustur víða í Evrópu voru miðstöðvar umbóta, meðal annars í landbúnaði, og spurning hvort yfir­menn kaþólsku kirkjunnar hafi talið að Ísland hentaði betur til sauð­fjárræktar en nautgriparæktar og beitt áhrifum til að auka hana hér með smjörgjaldinu.“
 
Að lokum segir Egill að allar þessar vangaveltur séu enn á hug­mynda­stigi og ekkert fast í hendi með þær. „Þetta er tilgáta og eins og með allar tilgátur verður að byggja þær upp og prófa áður en hægt er að segja til um niðurstöður með frekari vissu.“ 

6 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...