Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Egg, eplatré og býflugur
Viðtal 22. maí 2015

Egg, eplatré og býflugur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jörðin Elliðahvammur er smábýli Kópavogsmegin við Elliðavatn. Landið er þéttvaxið sitkagreni og ösp inni á milli grenitrjánna. Þar er einnig að finna hátt í fimmtíu mismunandi yrki af eplum sem Þorsteinn Sigmundsson ræktar. Auk þess sem Þorsteinn og fjölskylda eiga og reka Eggjabúið Hvamm ehf. í Elliðahvammi.

Þorsteinn hefur mikinn áhuga á ræktun eplatrjáa og hann ræktar líka býflugur sem sjá um að frjóvga trén. „Fyrir fimmtán árum kynntist ég mönnum sem voru og eru enn að prófa sig áfram með ræktun eplatrjáa og það vakti áhuga minn á að reyna ræktunina hér.“

Mest fengið á annað þúsund epli

Þorsteinn ræktar epli utandyra, í köldu gróðurhúsi og í skála sem er frostfrír allt árið. Í skálanum, sem einnig má nýta undir litla fundi og samkomur, eru um 20 ólík eplayrki sem flest eru í blóma í lok apríl. Allt í kringum okkur sveima býflugur milli blómanna af slíkum dugnaði og vinnusemi að eðlislatur blaðamaður verður þreyttur af því að horfa á þær.

„Flugurnar sem hér eru á sveimi eru innfluttar humlur og sérræktaðar til að hafa í gróðurhúsum. Þær eru ófrjóar, með nokkurra vikna líftíma og lifa ekki utandyra hér á landi.
Tré blómgast mjög vel í ár og lofar góðu um uppskeru en síðustu tvö ár voru heldur slök vegna sólarleysis. Mesta uppskeran sem ég hef fengið hér í skálanum eru á annað þúsund epli. Eplin af öllum trjánum í skálanum er mjög góð á bragðið en með ólíku bragði eftir því um hvaða yrki er að ræða. Þrátt fyrir  góðan vilja næ ég aldrei að borða öll eplin sjálfur og sum gef ég fjölskyldu og vinum. Undanfarin ár hafa býflugnabændur verið með uppskeruhátíð í Húsdýragarðinum á haustin og ég hef stundum verið með epli til sölu þar. Auk þess sem ég sel þau hér á staðnum.“

Þorsteinn segir gaman að sjá fólk borða epli beint af trjánum. „Margir eru að smakka lífrænt ræktuð og óvaxborin epli í fyrsta sinn og finna alvöru eplabragð í fyrsta sinn á ævinni. Enda eru eplin hér allt öðruvísi en plastlíku eplin sem víða eru seld í verslunum.“

Auk þess að rækta epli er Þorsteinn einnig að gera tilraunir með að rækta nokkurt yrki af vínvið í köldu gróðurhúsi og ekki annað að sjá en að sú ræktun lofi góðu.

Vetrarepli

Þorsteinn segist vera með eitt tré í skálanum sem er áhugavert að því leyti að þroski aldinsins er ólíkur því sem gerist venjulega. „Þetta er svo kallað vetrarepli vegna þess að ávextirnir geta hangið á trénu allan veturinn og það er borðað á vorin. Ávöxturinn er nánast óætur á haustin, harður og bragðvondur, en bragðgóður og safaríkur á vorin.“

Nokkur þúsund varphænur

„Ég er búinn að reka eggjabú hér í tæp fimmtíu ár,“ segir Þorsteinn, „reksturinn hefur verið misstór og nánast kofarekstur í byrjun. Í dag rek ég búið með börnunum mínum og við erum með nokkur þúsund varphænur af stofni sem kallast Loman í hátæknivæddu búi og framleiðum vel yfir tonn á ári. “

Eplarækt er langhlaup

„Ég er með um sjötíu eplatré utandyra en þori ekki enn að segja hvaða yrki koma til með að reynast best úti hér. Eplarækt er alveg á mörkunum að ganga á Íslandi, þolinmæðisvinna og langhlaup. Ég er til dæmis ekki farinn að sjá nein aldin að ráði af trjánum sem eru úti þrátt fyrir að þau blómstri á góðum sumrum.

Að mínu mati er nauðsyn­legt að tala opinberlega af skynsemi og ávaxtaræktun hér og ekki plata fólk og láta það halda að ræktunin sé auðveld. Þegar fólk kaupir innflutt tré er líklegt að tréð blómstri á fyrsta sumri og það getur hugsanlega myndað aldin. Eftir það geta liðið mörg ár þar til trén blómstra aftur hvað þá að þau myndi aldin nema á allra bestu stöðum.“

Býflugnarækt á jaðrinum

Auk eplatrjáa og hænsna ræktar Þorsteinn býflugur. Hann er með sex bú í yfirbyggðu skýli sem snýr á móti suður og þegar mest er fær hann um 75 kíló af hunangi á ári.

„Að rækta býflugur hér á landi er ekki ólíkt því að rækta epli að því leyti að við erum alveg á jaðrinum á að slíkt sé hægt vegna veðráttunnar. Þrátt fyrir það er um 120 manns að prófa sig áfram og rækta býflugur að staðaldri og áhuginn er gríðarlegur. Ég er búinn að vera í þessu í 12 eða 14 ár og árangurinn misjafn milli ára.“

Þorsteinn segir að flugurnar í búunum hans hafi byrjað að fara út skömmu fyrir síðustu mánaðamót þegar sólin var sterkust. „Fyrsta flug býflugna á vorin er kallað hreinsunarflug vegna þess að þær gera ekki þarfir sínar inni í búinu heldur safna úrganginum inni í sér yfir veturinn. Flugurnar geta því verið ansi stressaðar fyrst á vorin þangað til þær komast út þar sem búin myndu skemmast ef þær gerðu stykkin sín inni í þeim. Eftir hreinsunarflugið róast flugurnar mikið og slaka á eins og skiljanlegt er.“

Að sögn Þorsteins lifa þernurnar stutt. „Við flytjum inn flugur á hverju ári frá Álandseyjum þar sem er að finna hreinan og sjúkdómafrían stofn. Drottningarnar makast á flugi í sól og hita þannig að það er stundum á mörkunum að frjóvgun takist hér sum ár.

Býflugnaræktarfélagið er að gera tilraun með að framleiða nýj bú á Íslandi og hefur samið við tvo býflugnaræktendur um framkvæmdina. Þetta eru Egill Sigurgeirsson og Þorbjörn Andersen sem eru báðir mjög hæfir ræktendur.

Uppskeran af hunangi fer alveg eftir árferði og ég ákvað í fyrrasumar, sem var blautt og leiðinlegt, að framleiða ekki hunang og dekra frekar við flugurnar og láta þeim líða vel. Skilyrðin voru slæm og ef maður leggur of mikið á flugurnar getur búið hrunið en við góð skilyrði getur bú eins og ég er með, með milli 10 og 30 þúsund flugum, gefið um 20 kíló hvert.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...