Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dýralæknaþjónusta er dýravelferðarmál
Viðtal 26. janúar 2015

Dýralæknaþjónusta er dýravelferðarmál

Höfundur: smh

Um tvö ár eru liðin frá því að Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir tók við embætti. Starfssvið yfirdýralæknis eru dýraheilbrigði og dýravelferð. 

Sigurborg Daðadóttir.

Óhætt er að segja að starfsumhverfi yfirdýralæknis hafi tekið nokkrum stakkaskiptum á þessum tíma, en ný lög um velferð dýra tóku gildi fyrir um ári síðan, auk þess sem verkefni búfjáreftirlitsmanna sveitarfélaga voru færð yfir til Matvælastofnunar (MAST) á sama tíma. 

Niðurskurður dýralæknaþjónustu byrjar 2011

Halldór Runólfsson hafði gegnt embættinu í um 15 ár á undan Sigurborgu og fékk það verkefni í fangið árið 2011 að taka við alveg nýju skipulagi dýralæknaþjónustu, sem fól í sér skerta þjónustu við bændur. Birtingarmynd skerðingarinnar er núna að koma fram, þannig að ekki fást dýralæknar til að þjónusta bændur á Norð-Austurlandi og Mið-Austurlandi miðað við þau kjör sem í boði eru.  

„Ég tók til starfa 1. febrúar 2013, en áður starfaði ég sem forstöðumaður Áhættumats- og gæðastjórnunarsviðs hjá MAST. Á því sviði var m.a. fengist við sjúkdóma sem berast milli manna og dýra – svokallaðar „súnur“ – en það eru til dæmis salmonella og fuglaflensa,“ segir Sigurborg. „Meginþungi í starfi mínu sem yfirdýralæknir hefur verið á sviði dýravelferðar – vegna hinna nýju laga um velferð dýra.  Samfara þessum nýju lögum urðu breytingar á starfinu, því samhliða var lögum um búfjárhald breytt. Nú eru aðeins ein lög í landinu sem fjalla um líðan dýra. Samhliða voru gerðar breytingar á öðrum lögum, meðal annars um dýralækna, svo hægt væri að koma öllum skyldum málum fyrir á sama stað.“

Uppstokkun á skipulagi dýrlæknaþjónustu

„Í nóvember árið 2011 var skipulagi dýralæknaþjónustu í landinu gjörbreytt. Þá var gengið skrefið til fulls; við að skilja að opinbert eftirlit með dýrahaldi og framleiðslu matvæla annars vegar og læknisþjónustuna hins vegar. Áður fyrr var þetta á hendi sama aðila. Það gafst að ýmsu leyti mjög vel því aðgengi bænda að dýralæknaþjónustu var gott, en hafði þann annmarka að það gat komið til hagsmunaárekstra, þannig til dæmis að viðkomandi hefði eftirlit með lyfjanotkuninni en um leið að gefa lyfin og ávísa þeim. 

Ég kem heim úr námi 1985 og þá voru hér starfandi 28 héraðsdýralæknar í jafnmörgum umdæmum og á jafnmörgum vaktsvæðum. Líklega hefur það verið skömmu fyrir árið 2000 sem byrjað var að skilja að opinbera eftirlitið og dýralæknaþjónustuna. Þá var komið á skipulagi þannig að búin voru til þrjú stór héraðsdýralæknisumdæmi á landsvæðum þar sem ekki var talin þörf á að ríkið styddi við dýralæknaþjónustu. Það voru þá Suðurland austur, höfuðborgarsvæðið og Skagafjörður/Eyjafjörður sem voru undanskilin stuðningi við dýralæknaþjónustu. Einn héraðsdýralæknir var á viðkomandi svæði í opinberu eftirliti og mátti ekki sinna dýralæknaþjónustu við bændur, en með þeim störfuðu eftirlitsdýralæknar. Sjálfstætt starfandi dýralæknar sinntu allri almennri dýralæknaþjónustu á þessum svæðum. Á öðrum svæðum landsins voru héraðsdýralæknar áfram í tvöföldu hlutverki og sinntu dýralækningum og eftirliti. Á þessum tíma var þar með búið að fækka héraðsdýralæknum í 14.“

Strjálbýlum svæðum skipt upp í níu stuðningssvæði

„Þannig var fyrirkomulagið alveg til í nóvember 2011, en þá var hætt stuðningi við dýralæknisþjónustu í Borgarfirði og landinu öllu var skipt upp í sex umdæmi með samsvarandi fjölda héraðsdýralækna, en enginn þeirra má sinna dýralækningum. Um leið  var strjálbýlum svæðum skipt upp í níu stuðningssvæði – svokölluð þjónustusvæði – og ákveðið að styðja við dýralæknaþjónustu á þeim svæðum. Þannig fá dýralæknar þóknun frá ríkinu gegn því að vera á viðkomandi svæði og stunda sínar dýralækningar þar. Á þéttbýlissvæðunum hafa ekki orðið teljandi vandræði með dýralæknaþjónustu, nema í Borgarfirðinum, en þar hafa komið upp alvarleg mál.“ 

Aðgengi að dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum hefur hrakað

Þjónustusvæðin eru níu en ættu að mati Sigurborgar að vera í það minnsta tíu. „Svæði eitt er Snæfellsnes og það hefur alltaf verið þannig. Dalirnir eru áfram eitt svæði og þar hefur Ströndunum verið bætt við, en á árum áður var héraðsdýralæknir á Hólmavík. Svæði þrjú er nú allur Vestfjarðakjálkinn, en áður var Barðaströndin með héraðsdýralækni. Húnavatnssýslurnar eru nú svæði númer fjögur en voru áður tvö svæði, einn á Hvammstanga og annar á Blönduósi. Samtals á þessum svæðum voru áður sjö héraðsdýralæknar en eru nú fjórir. Á landsvæðinu austan Eyjafjarðar og norðan Fáskrúðsfjarðar hafa verið vandræði með dýralæknaþjónustu frá því að nýja fyrirkomulaginu var komið á. Áður voru tveir héraðsdýralæknar fyrir Þingeyjarsýslurnar, báðir staðsettir á Húsavík, einn á Þórshöfn og einn til tveir á Egilsstöðum. Á þessu stóra landsvæði voru þannig alltaf fjórir eða fimm dýralæknar á launum frá ríkinu. Nú er þetta landflæmi sem þekur nær fjórðung landsins orðið að tveimur svæðum. Þrjú svæði eru svo frá Fáskrúðsfirði að Mýrdal, með búsetu dýralækna á  Breiðdalsvík, Höfn og Kirkjubæjarklaustri. Af þessum níu þjónustusvæðum, þá hafa fimm af þeim verið stækkuð verulega.  

Það verður að segjast eins og er að ýmislegt í þessu skipulagi er ekki eins og best verður á kosið. Fyrir utan vandamálin í Borgarfirðinum og á Norðaustur- og Miðausturlandi, má nefna að í Húnavatnssýslum hefur ekki verið ánægja með þjónustuna. Dýralæknir þar hefur kvartað yfir því að komast hreinlega ekki yfir að sinna þeim dýrafjölda sem þar er. Á öðrum svæðum hafa hlutirnir gengið nokkuð vel, en viðveruskylda dýralæknanna er mikil og vart ásættanleg til lengri tíma og því er hætta á að þeir gefist hreinlega upp og fari.“  

Tvær stöður á Norðausturlandi auglýstar í þrígang 

Árið 2011 var gerður samningur við dýralækna á þessum níu svæðum – til þriggja ára – um að sinna dýralæknaþjónustu á svæðunum. „Þessir samningar runnu út síðastliðið haust. Þá var allt auglýst upp á nýtt og svo fór að samningar voru endurnýjaðir hjá öllum til fimm ára, nema á Norð-austurlandi og Miðausturlandi,  þ.e. frá Ljósavatnsskarði niður í Fáskrúðsfjörð, en eins og áður sagði er aðeins fjármagn til að greiða fyrir tvo dýralækna. Þetta er gríðarlega umfangsmikið svæði og erfitt yfirferðar, sérstaklega á vetrum. Við stóðum því frammi fyrir því að manna þetta svæði og tókum ákvörðun um að gera það með tilliti til viðbragðstíma dýralæknis, sumsé hversu hratt væri hægt að bregðast við gagnvart sjúkdómum í kúm og hrossum. Því þrátt fyrir allt þá eru það viðkvæmustu skepnurnar gagnvart sjúkdómum sem krefjast bráðra viðbragða í aðstæðum sem þessum; þegar löng vegalengd er í læknisþjónustu og mikil hætta á ófærð. Minna mál er til dæmis að fara með kind eða gæludýr til dýralæknis en hross eða kýr, þ.e. að því gefnu að ekki sé ófært. Ég mat það þannig að það væri rétt að styrkja dýralækni á þessu svæði sem er búsettur á Vopnafirði; en hann þjónar afskekktasta hluta landsins, Þistilfirði, Langanesi, Bakkafirði og Vopnafirði. Því urðum við að taka helming fjármagnsins af hvoru svæði, fimmtíu prósent frá dýralækninum á Húsavík og fimmtíu prósent frá þeim sem er á Egilsstöðum og freista þess að dýralæknarnir fengjust til að starfa gegn skertri þóknun. Reglugerðin skiptir þessu svæði í tvennt en það er nauðsynlegt að mínu mati að skipta því í þrennt að lágmarki þannig að viðunandi þjónusta sé tryggð. Við höfum óskað eftir því við ráðuneytið að einu þjónustusvæði verði bætt þarna við og við komum því á framfæri á fundum í nóvember síðastliðnum – og skrifuðum svo formlegt bréf í kjölfarið. Við höfum hins vegar ekki fengið svar frá ráðuneytinu enn þá, en ég veit þó að málið er í skoðun þar. 

Það hefur svo komið í ljós að það er ekki eftirsóknarvert að sækja um að sinna dýralæknaþjónustu fyrir þessi svæði í kringum Húsavík og Egilsstaði gegn skertri þóknun og hef ég fullan skilning á því þar sem skyldurnar á dýralæknunum eru miklar. Frá því að hlutfallið var skert hefur enginn sótt um þær stöður – þrátt fyrir að þær hafi í þrígang verið auglýstar lausar á undanförnum mánuðum. Reyndar féllst dýralæknir á Húsavík á að sinna þjónustu í desember síðastliðnum í þeirri von að varanleg lausn fyndist, en frá áramótum er hins vegar engin trygging fyrir þjónustu, hvorki frá Húsavík né Egilsstöðum. 

Reyndar eru tveir sjálfstætt starfandi dýralæknar á báðum þessum stöðum, en þeir hafa engar skyldur og geta farið hvenær sem er. Þeir á Egilsstöðum tóku sér frí frá miðjum desember og fram yfir áramót og var þá engin dýralæknaþjónusta fyrir svæðið í boði á dagvinnutíma. Þetta er auðvitað ömurlega staða, sérstaklega í ljósi þess að það er lagaleg skylda á dýraeigendum að sjá dýrunum sínum fyrir hjálp og læknisaðstoð, en þeim er gert það ókleift í þessari stöðu.“ 

 

Vaktsvæðum fækkað um helming

„Vaktsvæðin eru svo annar hlutur, en þau eru 14 talsins en voru þegar best lét 28, vaktsvæðin ná yfir allt landið, jafnt þéttbýli sem dreifbýli. Þá er um að ræða tímann frá klukkan 17 til 08 – og á frídögum. Þá greiðir ríkið dýralæknum fyrir að vera á bakvöktum. Þarna á Norðausturlandi eru vaktsvæðin líka of stór. Eitt vaktsvæði er til dæmis frá Bakkafirði niður aðFáskrúðsfirði. Þetta getur verið mjög erfitt svæði að fara yfir, Hellisheiði eystri lokast við fyrstu snjóa og Vopnafjarðarheiði lokast oft auk heiðanna á Austfjörðum. Eins teljast báðar Húnavatnssýslurnar og Skagafjörður vera eitt vaktsvæði, sem er óhemju víðfeðmt, frá Hrútafjarðarboti út í Fljót. Það getur leitt til þess að bændur veigri sér við að kalla í dýralækni og voni að dýrið hafi það af fram að dagvinnu, eða að bændur ná ekki í vakthafandi dýralækni sem getur verið upptekinn í öðrum bráðaútköllum. Þetta ástand er líka ógn við almennt dýraheilbrigði í landinu. Það er mitt mat að dýralæknaþjónustu hafi hrakað verulega í dreifðum byggðum landsins frá því ég kom til landsins árið 1985, en batnað mjög í þéttbýli. 

Hluti af því vandamáli sem nú birtist varðandi dýra-læknaþjónustuna er að sú samfélagslega breyting hefur orðið að nú sætta dýralæknar sig ekki lengur við, í sama mæli og áður, að vera alltaf til staðar. Nú eru konur orðnar stór hluti stéttarinnar og ef þær eru barnshafandi eða eru með ung börn, þá geta þær til dæmis ekki sinnt dýralæknaþjónustu eins og henni var sinnt á árum áður. Ekkert bendir til annars en að meirihluti dýralækna verði konur næstu árin, þar sem mun fleiri konur en karlar útskrifast úr námi. Það þarf því að byggja upp nýtt kerfi með þessar breytingar í huga. 

Varanleg lausn við skortinum á dýralæknaþjónustu á áðurnefndum svæðum er ekki að láta bændur hafa sýklalyf til að gefa skepnum sínum. Aðhlynning að sjúkum dýrum felur svo miklu meira í sér. Það eru strangar reglur um afhendingu sýklalyfja og það er ekki að ástæðulausu. Þær eru settar til að takmarka heilbrigðisógnina sem lyfjaónæmi er. Varanleg lausn felst í því að það verður að auka aðgengi bænda að dýralæknaþjónustu.“

Ný hugsun með nýjum lögum um velferð dýra

„Við setningu nýrra laga um velferð dýra voru mín fyrstu verkefni í starfi ákvörðuð. Ég hafði setið í nefndinni sem gerði drög að því frumvarpi sem síðar varð að lögum.  Lögin tóku gildi 1. janúar 2014 og það þurfti auðvitað að undirbúa þau á árinu 2013 sem lenti á mér og mínu sviði. Svo þurfti að hrinda þessu öllu í framkvæmd í fyrra. Auk nýrra laga þurfti að endurskoða allar reglugerðir sem lutu að velferð dýra, alls átta talsins, og við komum auðvitað að þeirri vinnu. Nú hefur ráðuneytið gefið út þrjár reglugerðir, að afloknu umsagnarferli. Fyrst kom reglugerð um velferð hrossa, nú í haust, og síðan voru reglugerðir um velferð nautgripa annars vegar og sauðfjár og geitfjár hins vegar, gefnar út í desember síðastliðnum. Ég hefði viljað sjá að þetta gengi hraðar fyrir sig, en ég hef skilning á að ekki sé hægt að vinna þetta hraðar, svona mikil endurskoðun krefst tímafrekrar og vandaðrar vinnu.“

Sigurborg segir það ekki rétt að segja að það hafi verið réttarfarsleg óvissa frá því lögin tóku gildi, þó að reglugerðir hafi ekki verið tilbúnar um svipað leyti og ný lög tóku gildi. „Þetta gerir okkur þó erfiðar fyrir í einhverjum tilvikum. Gömlu reglurnar eru auðvitað enn í fullu gildi, í þeim tilvikum þegar lögin ganga lengra en reglugerðirnar þá gilda lögin því þau eru vitanlega rétthærri. Sem dæmi má nefna að í eldri reglugerðum er gerð krafa um útivist nautgripa, en í lögunum er kveðið á um að þeim sé tryggð beit á sumrin. Reglugerðaákvæðið er mjög opið og því væri hægt að komast af  með að setja nautgripina út í gerði og uppfylla þannig ákvæðið. Sama má segja með geldingu grísa. Lögin segja að það eigi að deyfa fyrir skurðaðgerðir þegar grísir eru geldir og að aðeins dýralæknar megi framkvæma slíka aðgerð. Reglugerðin leyfði að aðrir en dýralæknar mættu gera það.“  Um tíma síðastliðið vor deildu svínabændur við Sigurborgu um réttmæti þess að þeir geldu grísi sína sjálfir, en þá höfðu þeir fengið tilmæli frá MAST að þeir hættu því. Í kjölfarið lýstu svínabændur því yfir að þeir myndu framvegis eftirláta dýralækni þessa aðgerð. Sigurborg staðfestir nú að þetta hafi gengið eftir og sé rétt. 

Ágætt samstarf við bændur

„Annars gengur samstarf við bændur bara ágætlega. Ég er að sinna minni vinnu og reyna að gera það af samviskusemi. En maður þarf auðvitað að taka óvinsælar ákvarðanir. Gömlu dýraverndarlögin gáfu stjórnvaldinu svo lítil úrræði. Þá urðu þvinganir eins og til dæmis vörslusviptingar að fara fram í gegnum sýslumann, ef svo má segja, og þá aðeins þegar um mjög svæsin tilfelli var að ræða. Hitt úrræði var að kæra til lögreglunnar, en það var alveg bitlaust tæki. Nýju lögin gefa stjórnsýslunni miklu fleiri úrræði til að þvinga eftirlitsþega til úrbóta ef hann skirrist við að bæta úr. Bændur eru auðvitað matvælaframleiðendur og þurfa þess vegna að lúta sömu skilyrðum og aðrir matvælaframleiðendur – og þeir eru kannski ekki vanir því að líta á sjálfa sig með þeim formerkjum. Við hjá MAST erum eins og mögulegt er að reyna að samræma matvælaeftirlit. Bæði innan hverrar greinar og eins milli greina, þannig að það sé samræmi í opinberu eftirliti. Það má kannski segja að eftirlitið hafi orðið ópersónulegra en áður var. Formlegar skýrslur eru gerðar, kröfur um úrbætur settar fram og gefinn andmælaréttur á grundvelli stjórnsýslulaga. Það er því farið að vinna miklu betur í samræmi við stjórnsýslulög en áður var gert og ég held að bændum finnist þetta vera þeim framandi. Matvælafyrirtækjunum er þetta hins vegar ekki eins framandi. Auðvitað er mikill munur á eftirliti með bændum – einyrkjunum – sem vinna fyrir sitt fjölskyldubú og svo eftirliti með dýrahaldi sem er stórt í sniðum – og rekið af fyrirtæki. Við sem önnumst þetta eftirlit þurfum líka  að líta í eigin barm og huga að því að nálgast einyrkjana öðruvísi en fyrirtækið.“

Vald er mjög vandmeðfarið

„Það hefur gengið alveg ágætlega, en vald er mjög vandmeðfarið,“ segir Sigurborg spurð um hvernig tekist hafi til með nýfengið vald og aukin þvingunarúrræði gagnvart vanrækslu í dýrahaldi. „Það er auðvitað ekki gripið til róttækra þvingunarúrræða nema eitthvað mikið hafi gengið á. Þá hefur eftirlitsþeginn eða bóndinn haft nokkra fresti til að bæta úr og koma með andmæli. En þá má líka benda á að fyrir marga er orðið andmælaréttur framandi. Ég vil líka segja að kannski hefði mátt standa betur að því að útskýra fyrir bændum þetta vinnulag okkar. Við vorum búin að útskýra þetta í skrifum í Bændablaðið og á fundum – en ég hefði viljað fara á fleiri fundi, mér hefur alltaf þótt gaman að hitta bændur. Ég sakna þess að hafa ekki haft tíma til að komast í betra samtal við bændur um þessi mál og önnur.“

Í kjölfar nokkurra mála á síðasta ári, þar sem grípa þurfti til róttækra aðgerða gagnvart bændum og þeir sviptir sínu búfé, kom upp gagnrýni á að bæjarnöfn voru birt í fréttum um málið. „Ég skil ósköp vel þá gagnrýni,“ segir Sigurborg. „Það er samt þannig að í landinu er eitthvað sem heitir „upplýsingalög“ og við verðum að fara eftir þeim. Á vegum MAST eru starfandi lögfræðingar sem hafa skoðað þetta og þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að okkur sé ekki stætt á öðru en að láta upplýsingarnar af hendi sé um þær beðið. Hins vegar látum við þessar upplýsingar ekki frá okkur að fyrra bragði, til að mynda í fréttatilkynningum. 

Það er alþekkt að oft má rekja vanrækslu við dýr til einhverra veikleika í fólkinu sjálfu – gjarnan er það eitthvað andlegt. Það getur verið margvíslegt; elliglöp, andleg veikindi, alkóhólismi, eiturlyfjafíkn eða eitthvað annað. Svo eru sumir sem bera hreinlega ekki skynbragð á vanræksluna – oft er þá fólkið orðið samdauna því ástandi sem er viðvarandi. Þeir skilja ekkert í því að verið sé að gera eitthvað í málum núna, því þau hafa „alltaf verið svona“.

Það er alltaf ömurlegt að þurfa að koma dýrum til hjálpar með því að lóga þeim, eins og þurfti að gera síðastliðið haust.“

Þegar gerðar eru kröfur um úrbætur þarf að bregðast við

Sigurborg segir að almennt megi segja að bændur umgangist skepnur sínar vel. „Það er þó víða að gera mætti betur. Aðbúnaður dýra hefur batnað á mörgum sviðum. Til dæmis hefur hestahald batnað mikið, öll umhirða og húsakostur, mjólkurkúahald er líka orðið mun betra; öll þessi nýju fjós með legubásum er bylting frá því sem var þegar kýr voru bundnar á bása níu mánuði ársins og gátu ekki hreyft sig. 

Núna er meirihluti kúa í lausagöngufjósum, geta farið í mjaltagryfjur og mjaltaþjóna og allt það. Enn þá er þó víða pottur brotinn. Það má segja að fleiri dýr hafi það betra nú en höfðu á árum áður. 

Á hinn bóginn er líka kominn fram búskapur sem ekki þekktist áður, með miklum fjölda dýra. Hús voru byggð með ákveðnum forsendum, eins og í svína- og alifuglaræktinni, og það er mikið mál að endurinnrétta básafyrirkomulag í svínahúsum. Þetta á líka við í alifuglaeldinu, þar sem varphænur eru haldnar í búrum, en í framtíðinni mun slíkt leggjast af. Gyltur eru líka orðnar stærri og básar í mörgum tilvikum orðnir of litlir. Að þessu leyti hafa mál þróast á verri veg. En allt tekur tíma og fyrst þarf að gera sér grein fyrir því að eitthvað sé ekki eins og það á að vera eða nýjar kröfur eru settar með reglum og síðan þarf að vinna að úrbótum. Bændur og þeir sem halda dýr þurfa að átta sig á að þegar gerðar eru kröfur um úrbætur, þá þurfa þeir að bregðast við. Ég ætla að sinna mínu starfi og skyldum í að sjá til þess að lögum og reglum sé fylgt. Aðalatriðið er að dýrunum líði vel, ég er ekki svo kassalaga að ég geti ekki horft í gegnum fingur mér með eitthvað annað sem er ekki alveg í lagi, svo fremi að dýrin líði ekki fyrir það.“

3 myndir:

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...