Dilkakjötsframleiðsla dróst saman um 12%
Dilkakjötsframleiðsla var 12% minni nú í september en í sama mánuði á síðasta ári.
Þetta sést í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands þar sem einnig kemur fram að heildarkjötframleiðslan í september var 6% minni.
Svínakjötsframleiðsla var 6% meiri og kjúklingakjötsframleiðsla 10% meiri. Þá var nautakjötsframleiðslan 1% meiri miðað við september 2024.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru framleidd dilkakíló mun færri nú í september en undanfarin ár. Miðað við september á síðasta ári voru framleidd tæplega 400 þúsund kílóum minna. Rúmlega 26 þúsund færri dilkar komu nú til slátrunar í september miðað við sama tíma á síðasta ári.
Ef horft er aftur til ársins 2021 sést að um 890 þúsund kílóa minni framleiðsla var nú í september.
Miðað við undanfarin ár má búast við að svipuðum fjölda dilka hafi verið slátrað í október og september, en tölur um októberframleiðsluna eru ekki komnar inn í gagnasafn Hagstofu Íslands.
