Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
China Modern Dairy er með 125 þúsund mjólkurkýr alls og er eitt af allra stærstu mjólkurframleiðendum í heimi. Í forgrunni sést afurðavinnslan, þar fyrir aftan er „mjólkurhúsið“. Hvort sínum megin við mjólkurhúsið er mjaltaaðstaðan og í hvorri byggingu er
China Modern Dairy er með 125 þúsund mjólkurkýr alls og er eitt af allra stærstu mjólkurframleiðendum í heimi. Í forgrunni sést afurðavinnslan, þar fyrir aftan er „mjólkurhúsið“. Hvort sínum megin við mjólkurhúsið er mjaltaaðstaðan og í hvorri byggingu er
Mynd / SS
Fréttir 1. mars 2018

China Modern Dairy – einn stærsti mjólkurframleiðandi í heimi

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Þó svo að mjólkurframleiðsla í Kína sé hreint ekki ný af nálinni þá hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á kúabúskap þar í landi undanfarna tvo áratugi. Hagvöxtur í landinu hefur verið umtalsverður og hagur íbúa landsins vænkast og samhliða því hafa neysluvenjur breyst verulega.
 
Þannig hefur t.d. sala bæði á mjólk og mjólkurvörum  aukist jafnt og þétt en enn er neyslan þó alllangt undir neysluviðmiðum stjórnvalda enda hafa kúabú og afurðastöðvar landsins engan veginn getað svarað eftirspurninni. 
 
Vegna mikillar eftirspurnar eftir mjólk og mjólkurvörum hafa skapast tækifæri á kínverska markaðinum fyrir innfluttar mjólkurvörur en samhliða hafa stjórnvöld í landinu ýtt undir uppbyggingu kínverskrar mjólkurframleiðslu, enda er það stefna stjórnvalda að tryggja matvælaöryggi landsins með sem mestri innlenndri framleiðslu.
 
China Modern Dairy
 
Vegna þessa stuðnings hafa skapast afar sérstakar aðstæður í Kína og hafa víða í landinu verið sett upp kúabú sem eru nánast landlaus, þ.e. hafa ekki annað land en það sem byggingarnar standa á. 
Þessi bú kaupa að allt fóður og selja svo bæði mjólk og mykju og vegna þessa sérstaka rekstrarforms á kúabúi hafa samhliða skapast tækifæri fyrir mjólkurframleiðslufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem eiga og reka mörg svona landlaus kúabú. Þessi fyrirtæki geta átt frá nokkur þúsund kúm og upp í tugi þúsunda kúa og stærsta fyrirtækið heitir China Modern Dairy og er með 125 þúsund mjólkurkýr alls og er eitt af allra stærstu mjólkurframleiðendum í heimi.
 
Kornungt fyrirtæki
 
China Modern Dairy Holdings Ltd., sem í daglegu tali í Kína er kallað Modern Dairy og mætti kalla á íslensku „Nútíma Kúabúskapur“, var stofnað árið 2005 af nokkrum viðskiptajöfrum. Þeir sóttu sér þekkingu á mjólkurframleiðslu bæði til Bandaríkjanna og Mið-Austurlanda og settu upp sitt fyrsta bú með afurðavinnslu á sama stað og var öll hönnun búsins miðuð við að ekki myndu líða nema tvær klukkustundir frá enduðum mjöltum þar til mjólkin væri komin í fernur. Áhugaverð leið til þess að vekja athygli á sínum mjólkurvörum í raun enda var enginn að bjóða upp á sambærilega mjólk á þessum tíma.
 
26 kúabú
 
Fyrirtækið byggði svo upp kúabúskap og afurðavinnslu á mismunandi stöðum í landinu á örfáum árum og nú er Modern Dairy með 26 kúabú í rekstri og með mjólkurframleiðslu á 15 búum og með uppeldi á hinum búunum. Þá er fyrirtækið í dag með 125 þúsund mjólkurkýr og framleiðir árlega rétt um 1,2 milljarða lítra af mjólk. 
 
Hvert kúabú Modern Dairy er staðsett á svæði þar sem gróf­fóðurframleiðsla er nokkuð góð og hafa verið gerðir samningar við bændurna í nágrenni kúabúanna um öflun gróffóðursins. Afgasaðri mykju hvers kúabús fyrirtækisins er svo ekið til viðkomandi bónda sem sér um gróffóðuröflunina og nýtist hún því afar vel. Segja má að öll kúabú Modern Dairy séu nokkuð nálægt hvert öðru og er staðsetning þeirra bæði valin út frá mögulegum kaupum á gróffóðri en einnig með tilliti til markaðssetningar mjólkurafurða. Búin eru því öll nokkuð nálægt Peking og staðsett í 7 mismunandi héruðum í austurhluta Kína. Líklega eru ekki nema um 1.500 km á milli þeirra kúabúa Modern Dairy sem eru lengst frá hvert öðru en rétt er að minna á í þessu sambandi að Kína er um 9,6 milljónir ferkílómetrar að stærð svo heimamönnum þykja t.d. þúsund kílómetrar ekki sérlega mikil vegalengd! 
 
Á hlutabréfamarkaði
 
Árið 2010 var fyrirtækið sett á almennan hlutabréfamarkað í Hong Kong og varð það þá fyrsta mjólkurframleiðslufyrirtækið í heiminum sem var á markaði. Síðustu árin hefur reksturinn verið í járnum og varð það til þess að fyrir tveimur árum keypti kínverska afurðafélagið Mengniu, sem er næststærsta afurðafyrirtæki Kína og að hluta í eigu afurðafélagsins Arla, meirihlutaeigana hlutafjárins í Modern Dairy. Mengniu er nú að breyta rekstrinum á Modern Dairy frá því að vera með litlar afurðastöðvar reknar á hverju kúabúi yfir í að reka búin sem hefðbundin kúabú. 
 
Mjólk er nú sótt á öll búin daglega og henni ekið yfir í næstu afurðastöð Mengniu. Þetta á þó ekki við um kúabúið Bengbu, en það er langstærsta kúabúið í Kína með 20 þúsund mjólkurkýr, þar sem stærðin gerir það að verkum að það er hagkvæmt að reka afurðastöð á sama blettinum og kúabúið.
 
Skipulögð eins
 
Það er afar áhugavert að heimsækja kúabú Modern Dairy enda eru þau öll byggð upp með svipuðum hætti og á svipaðri hugmyndafræði. Búin eru byggð þannig upp að gönguleiðir kúa til og frá mjaltaaðstöðu séu sem stystar og að auðvelt sé að aka vörum til og frá búunum. Skipulag Bengbu kúabúsins er dæmigert fyrir þá uppsetningu á fjósum og annarri aðstöðu sem hér um ræðir og sést þessi hönnun vel á meðfylgjandi mynd.
 
Ótal flokkar kúa
 
Þegar fjöldi kúa skiptir þúsundum eða tugum þúsunda á einu og sama kúabúinu liggur beint við að búa til mismunandi framleiðsluhópa og er kúnum á Bengbu kúabúinu bæði skipt upp í hópa eftir afurðastigi en einnig eftir stöðu á mjaltaskeiði. Þannig er einn hópur með kúm frá burði og fyrstu 21 dagana eftir burð, næsti hópur fram að staðfestu fangi og svo er næsti hópur megin framleiðsluhópurinn. Sá hópur heldur sér fram undir geldstöðu en svo eru kýrnar settar í tvo geldstöðuhópa eftir því hve langt er í væntanlegan burð. Innan hvers framleiðsluhóps er kúnum svo skipt upp í tvo flokka eftir daglegri nyt; yfir og undir 30 kílóum á dag.
 
Smitgát er mikilvæg
 
Það er alls ekki einfalt að vera með þúsundir af kúm á einu og sama kúabúinu enda í raun kjöraðstæður fyrir bakteríur að halda velli vegna þess hve gripirnir eru margir. Þessi þéttni á gripum getur verið erfið viðureignar og jafnvel þó svo að plássið sem hver gripur fær og hefur aðgengi að sé það sama og á minni búum þá vofir alltaf yfir ákveðin hætta á því að smitsjúkdómar geti komið upp. 
 
Vegna þessa er smitgát á kúabúum Modern Dairy afar mikil og t.d. fer enginn inn á kúabúið nema með því að skipta um föt og fara í sturtu og skiptir þar engu máli hvort er um starfsfólk að ræða eða þjónustuaðila. Allir fara í föt viðkomandi bús eftir að hafa farið í sturtu. Þá eru allir bílar stótthreinsaðir við komu á búið og strangt eftirlit haft með öllum aðföngum.
 
Margir fastráðnir dýralæknar
 
Modern Dairy er með rúmlega 5 þúsund starfsmenn í dag og vinna þeir bæði við kúabúskapinn sjálfan sem og við þá afurðavinnslu sem enn er starfrækt og vegna stærðar kúabúanna eru margir fastráðnir dýralæknar í vinnu og eru nokkrir við störf á hverju búi. Þessi staða gerir það að verkum að afar vel er staðið bæði að burðarhjálp og annarri aðstoð við skepnurnar og eru t.d. sólarhringsvaktir hjá dýralæknum á Bengbu kúabúinu svo viðbragðstími þeirra er afar stuttur ef einhver gripur þarf á læknisþjónustu að halda. 
 
Vegna umfangs rekstursins er Modern Dairy einnig með rannsóknastofur á þeirra vegum sem sjá um ræktun júgurbólgugerla og sjá auk þess um allskonar gæðaeftirlit innan búanna s.s. á mjólkurafurðum. Vegna stærðar landsins og dreifð kúabúa Modern Dairy er ekki hagkvæmt að vera einungis með eina rannsóknastöð og því er fyrirtækið bæði með rannsóknastöð norðan og sunnan við Peking.
 
Með eigin ráðgjafarþjónustu
 
Eins og gefur að skilja hafa ótal fyrirtæki sem eru í sölu og þjónustu mikinn áhuga á samstarfi við Modern Dairy enda eftirsóknarvert að geta getið þess við viðskiptavini sína að vera með eitt stærsta mjólkurframleiðslufyrirtæki heims í viðskiptum. Vegna þessarar stöðu, og stærðar Modern Dairy, er fyrirtækið með allmarga sérfræðinga í vinnu og segja má að þeir myndi sameiginlega eigin ráðgjafaþjónustu fyrirtækisins. Þannig er fyrirtækið t.d. með sinn eigin yfirdýralæknir sem sér um stefnumótun varðandi meðhöndlanir og sér um endurmenntun annarra dýralækna fyrirtækisins. Þá er sér fóðurráðgjafadeild sem sér um að gera allar heilfóðuruppskriftir fyrir hvert bú, gera fóðurathuganir og mælingar, innkaup á fóðri o.þ.h. Þá kaupir fyrirtækið ráðgjafarþjónustu á sviði kynbóta og frjósemi og nýtur auk þess ráðgjafar frá Mengniu og Arla varðandi mjólkurgæðamál og júgurheilbrigði.
 
Ekki frekari stækkun
 
Eins og áður sagði er Modern Dairy með 15 kúabú þar sem mjólkurframleiðsla fer fram og nemur dagleg framleiðsla fyrirtækisins 3,3 milljónum lítra og þar af framleiðir stærsta búið nærri hálfa milljón lítra.
Forsvarsmenn og eigendur fyrirtækisins hafa nú ákveðið að ekki verði um frekari stækkun að ræða í bráð og að á næstu 2–3 árum verði fyrst og fremst horft til aukinnar innri hagræðingar og eflingar þeirra framleiðslutækja sem nú þegar eru til staðar. Er þar sérstaklega horft til aukinna afurða kúnna en meðalnytin er ekki nema rétt rúmlega 9,5 tonn, sem þykir ekki mikið þegar Holstein kýr eru annars vegar sem mjólkaðar eru þrisvar á dag.

5 myndir:

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...