Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Býflugur – einstaklega iðin kvikindi
Fréttir 27. maí 2016

Býflugur – einstaklega iðin kvikindi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Pöddur, sem oft kallast randa­flugur, býflugur, hunangsflugur og geitungar, hér á landi eru af ætt býflugna en tilheyra mismunandi ættkvíslum. Býflugur eru ræktaðar víða um heim til framleiðslu á hunangi.

Nokkur ruglingur er í greiningu á hunangs- og býflugum en flestir þekkja geitunga eða vespur strax og þær birtast. Þrátt fyrir að þekktar séu ríflega 20 þúsund tegundir af býflugum í heiminum lifa þær ekki villtar hér á landi en ræktun þeirra hefur færst í aukana. Býflugur (Apis mellifera) í ræktun eru stundum kallaðar hunangsbý og flokkast í 29 undirtegundir.

Hér á landi finnast fimm tegundir hunangsflugna (Bombus sp.) eða humla, móhumla (B. jonellus), garðhumla (B. hortorum), húshumla (B. lucorum), rauðhumla (B. hypnorum) og ryðhumla (B. pascuorum).

Móhumla hefur verið hér lengi en hinar tegundirnar seinni tíma viðbót við fánu landsins. Húshumla sem barst til landsins um 1980 vaknar til lífsins skömmu eftir miðjan apríl og því yfirleitt fyrsta stóra randaflugan sem við sjáum á vorin. Fyrst á vorin nærast humlur alfarið á frjókornum og hunangi víðitegunda.

Fjórar tegundir geitunga eða vespa hafa fundist hér á landi. Húsageitungur (Paravespula germanica), holugeitungur (P. vulgaris), roðageitungur (P. rufa) og trjágeitungur (Dolichovespula norwegica). Allt eru þetta nýtilkomnar tegundir en fyrsti geitungurinn fannst hér á landi í Reykjavík árið 1973. Það var húsageitungur.

Bolur hunangs- og býflugna er bústinn en geitungar eru mjóslegnari. Bolur allra randaflugan hér á landi er loðinn og dökkur með gulum eða rauðum rákum og greinileg skil eru milli fram- og afturbols. Þær hafa stór margskipt augu, fjóra vængi og sex loðnar lappir. Sumar tegundir hafa hvassan stungubrodd aftast á afturbolnum.

Áætluð heimsframleiðsla 1,7 milljón tonn

Hunang er sú afurð býflugna sem flestir þekkja og er vinsælust. Býflugur vinna hunang með því að safna sætuefni úr blómum og flytja það í býflugnabúið þar sem því er safnað sem forða. Allar tegundir býflugna framleiða hunang sem menn hafa nýtt sér frá ómunatíð en aðeins ein, A. mellifera, er ræktuð í stórum stíl.

Áætluð framleiðsla á hunangi í heiminum er samkvæmt  Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) 1,7 milljón tonn. Árið 2013 var framleiðslan í Kína 470 þúsund tonn, 90 tonn í Tyrklandi, 80 tonn í Argentínu og 70 tonn í Úkraínu og Rússlandi.

Helsti útflytjandi hunangs í heiminum hvað magn varðar er Kína. Kína er einnig í fyrsta sæti hvað varðar útflutningsverðmæti hunangs en Nýja-Sjáland í öðru sæti, Argentína í því þriðja, Mexíkó í fjórða sæti og Þýskaland því fimmta.

Bandaríkin eru aftur á móti það land í heiminum sem flytur inn mest af hunangi.

Tæpt tonn í góðu ári

Hér á landi er framleiðsla á hunangi tæpt tonn í þokkalegu ári. Undanfarin tvö ár hafa verið fremur óhagstæð í býflugnarækt og framleiðslan verið talsvert minni. Gott bú hér á landi með 30 til 40 þúsund flugum á í góðu ári að geta gefið milli 50 og 60 kíló á ári.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var innflutningur á náttúrulegu hunangi árið 2015 rúm 142 tonn.

Marg- og einblóma hunang

Hunang er oftast flokkað eftir blómunum sem sætuefnið er sótt í. Sætuefnið í margblómahunangi er sótt í engi eða svæði þar sem vaxa margar tegundir blómjurta. Bragð margblómahunangs er breytilegt eftir svæðum og hvaða blóm vaxa og blómstra á hverjum stað á hverjum tíma.

Einblómahunang verður til þegar flugurnar safna sætuefninu á svæði þar sem ein blómstrandi planta ræður ríkjum. Dæmi um þetta eru svæði þar sem sólblóm, lavender eða bláber eru ræktuð í stórum stíl. Þess konar hunang ber sterkan keim og oft lit plöntunnar sem sætuefnið er úr.

Bývax mikið notað í snyrtivörur

Auk hunangs framleiða býflugur bývax sem þær nota sem byggingarefni í búin en það er einnig notað í snyrtivörur, matvæli og til lyfjaframleiðslu og til að búa til kerti, skóáburð og húsgagnaolíu. Indland er stærsti framleiðandi bývax í heiminum, tæp 25 tonn á ári.

Iðnar þernur

Verkaskipting innan býflugnabúa er mikil og er staða flugnanna ákveðin af aldri þeirra. Drottningar eðla sig tveimur vikum eftir að þær klekjast og við allt að 20 drunta, karlbýflugur,  og safna þannig sæði sem þær nota yfir sumarið. Eftir mökun verpa þær eggjum og frjóvga þau eftir þörfum.Vitað er til að drottningar hafi lifað í átta ár.

Karlflugur klekjast úr ófrjóum eggjum og því með sama erfðamengi og drottningin. Helsta hlutverk þeirra er að fljúga milli búa og makast við drottningar. Kvenflugurnar, þernur og tilvonandi drottningar klekjast aftur á móti úr frjóvguðum eggjum.

Þernurnar ná ekki kynþroska í búinu vegna lyktarefna sem drottingin gefur frá sér og kallast ferómon. Þernurnar, sem að jafnaði lifa þrjátíu daga, eru vinnudýr búsins. Þær stækka búin og þrífa og sjá um að safna blómasafa, framleiða hunang og fæða lirfurnar.

Býflugur eru einstaklega iðin kvikindi og sagt er að fluga í söfnunarleiðangri fljúgi á 20 til 25 kílómetra hraða í eins til átta metra hæð eftir veðri. Þær geta heimsótt allt frá 50 og upp í nokkur þúsund blóm í einni og sömu söfnunarferðinni, allt eftir því hvernig safnast. Yfirleitt eru býflugur ekki utan búsins nema í hálfa til eina klukkustund.

Flókið samskiptakerfi

Býflugur hafa þróað með sér flókið samskiptakerfi sem byggist á efnum og lykt sem þær gefa frá sér. Samskiptin byggjast einnig á hegðunarmunstri og eins konar dansi sem söfnunarþernur nota til að segja öðrum sér líkum hvar sæturík blómaengi sé að finna.

Því er stundum haldið fram að vegna byggingar sinnar og þyngdar sé það brot á náttúrulögmálum að humlur skuli fljúga. Flugtækni humla byggist á annarri tækni en dýr með tvo vængi. Humlur eru með fjóra stutta vængi sem þær blaka frekar í takt við þyrluvængi og vængi fugla og gengur prýðilega að fljúga með þeim.

Býflugnabú

Bú ræktaðra býflugna eru oftar en ekki kassi sem hægt er að opna að ofan. Í kassanum eru vaxhólf með sexhyrndu munstri og sama munstur er að finna í búum villtra býflugna. Munstrið á klæðningu Hörpu í Reykjavík líkist að mörgu leyti munstri í býflugnabúi.

Hellaristur sýna menn safna hunangi

Áhöld eru uppi um hvort forverar alibýflugna, A. mellifera, séu upprunnar í hitabelti Afríku eða í Suðaustur-Asíu og frá hvorum heimshlutanum þær hafi dreifst um heiminn. Steingerðar minjar flugna af ættkvíslinni Apis hafa fundist í Evrópu og taldar vera um 34 milljóna ára gamlar. Blómaplöntur komu fram fyrir um 200 milljónum ára og forverar býflugna þróuðust með þeim.

Talið er að áar okkar hafi fyrst safnað hunangi sem fæðu úr búum villiflugna og til eru hellaristur í Afríku, Evrópu og Ástralíu sem sýna slíka söfnun. Elstu minjar um ræktun býflugna eru frá því um 5000 fyrir upphaf okkar tímatals en talið er að hún hafi hafist í frumstæðri mynd 15 þúsund árum fyrr.

Fornleifarannsóknir á Krít og á Grikklandi hafa dregið fram í dagsbirtuna 3.000 ára gamlar ofnar strákúpur og kúpur úr brenndum leir. Í Egyptalandi eru til 3.500 ára myndir sem sýna menn annast býkúpur. Kínverjar hófu snemma að rækta býflugur og gáfu út kennslubók um býflugnarækt nokkrum öldum á undan Vesturlandabúum.

Fyrir nokkru fundust við fornleifauppgröft í Ísrael þrjátíu þriggja hæða og ríflega 3.000 ára gamlar býkúpur. Talið er að um milljón býflugur hafi getað hafst við í kúpunum og framleitt um hálft tonn af hunangi á ári.

Aristóteles, sem var uppi um 350 árum fyrir Krist, fjallaði um býflugur í einu af ritum sínum og Rómverjar stunduðu umfangsmikla býflugnarækt á blómaskeiði Rómaveldis.

Býflugnarækt hefur verið stunduð í Evrópu í að minnsta kosti þrjú þúsund ár en býflugnarækt barst vestur yfir Atlantshafsála eftir að Kólumbus og kónar hans römbuðu á Suður-Ameríku.

Talið er að fyrstu alibýflugurnar hafi verið fluttar til Norður-Ameríku 1622. Mormónar fluttu þær með sér yfir Klettafjöllin í Norður-Ameríku um miðja nítjándu öld og þær voru fluttar sjóleiðis til Kaliforníu-ríkis um svipað leyti.

Hunang var helsta sætuefni manna áður en sykur kom til sögunnar.

Býflugur í skáldskap

Shakespeare vísar oft til býflugna í verkum sínum og notar hegðun þeirra til að lýsa kostum og löstum í samfélagi manna. Þegar Sherlock Holmes sest í helgan stein flytur hann til Sussex í Devon og leggur stund á býflugnarækt.

Býflugur eru viðfangsefni vinsællar teiknimyndar sem heitir Bee Movie.

Trú og goðsagnir

Samkvæmt grískum goðsögnum var það gyðjan Melissa sem kenndi mönnum að nýta sér hunang og til er gullnæla frá sjöttu öld fyrir Krist sem sýnir hana í býflugnalíki. Í Austurlöndum nær var býflugan talin vera tengiliðir við undirheima. Í guðatali Mayar í Suður-Ameríku er að finna guðinn Ah Musen Kab sem var nátengdur villtum býflugum.

Samkvæmt sköpunarsögu San-fólksins í Kalaharí-eyðimörkini ætlaði býfluga að fljúga með engisprettu yfir stórt fljót sem aðskildi tvo heima. Býflugan þreyttist á fluginu og varð að skilja engisprettuna eftir á blómi sem flaut í ánni miðri. Engisprettan drapst skömmu síðar en áður en býflugan yfirgaf hana sáði hún fræi í líkama hennar og upp af því fræi álaði fyrsti maðurinn.

Í egypskum goðsögum segir að býflugur hafi orðið til þegar tár guðsins Ra féllu í eyðimerkursandinn og gyðjan Kamadeva í hindúasið á boga sem gerður er úr býflugum.

Hunang gegnir veigamiklu hlutverki í helgihaldi margra trúarbragða og ákveðin uppsett hártíska kvenna minnir einna helst á býkúpu.

Býflugum í heiminum fækkar hratt

Fækkun villtra býflugna víða um heim undanfarin ár er alvarlegt áhyggjuefni þar sem þær sjá um frjóvgum stórs hluta blómstrandi plantna í heiminum og eru gríðar­lega mikilvægar þegar kemur að aldinrækt og aldinframleiðslu. Humlur eru einnig mikið notaðar til frjóvgunar í gróðurhúsum og fluttar inn frá Hollandi í sérstökum kössum í þeim tilgangi.

Nýjar rannsóknir benda til að ein af hverjum tíu býflugnategundum kunni að deyja út á næstu árum. Áhuga- og fræðimenn um býflugur hafa sett fram ýmsar hugmyndir um hvers vegna býflugur drepast í tug og hundruðum milljónum saman án viðhlítandi skýringa. Sumir kenna loftslagsbreytingum um en aðrir óhóflegri notkun skordýraeiturs og aukins landbúnaðar.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur komið í ljós að sníkill sem leggst á innyfli blýflugna og veldur dauða þeirra er farinn að breiðast út með miklum hraða. Sníkillinn, sem er upprunninn í Asíu, gerir nú víðreist um heiminn og hefur meðal annars fundist í býflugum á Bretlandseyjum. Hann er reyndar kominn út um allan heim nema til Íslands og Álandseyja.

Býflugur á Íslandi

Samkvæmt upplýsingum sem er að finna á byflugur.is eru ekki til neinar heimildir um býflugnarækt hér á landi fyrr en á tuttugustu öld.

Árið 1934 gaf Þjóðvinafélagið út bókina Býflugur eftir Maurice Maeterlinck í íslenskri þýðingu. Tæpum fjórum áratugum seinna gaf Hið íslenska bókmenntafélag út aðra merkilega bók um býflugur sem heitir Bera bý þar sem Karl von Frisch, einn af frumkvöðlunum í atferlisfræði dýra, segir frá rannsóknum sínum á býflugum. Frisch var maðurinn sem áttaði sig á og greindi frá dansi býflugna sem orkar sem vegvísir á gjöful blómaengi.

Samkvæmt byflugur.is voru flutt til landsins býflugnabú frá Noregi árin 1936 og 1938. Búin gáfu um 10 kíló af hunangi en flugurnar lifðu ekki veturna af. Árið 1951 flutti Melitta von Urbancic, frá Austurríki, inn bú frá Skotlandi og tvö næstu ár þar á eftir frá Noregi og hélt býflugur í Reykjavík í nokkur ár.

Melitta von Urbancic og Geir Gígja stofnuðu Býræktarfélag Íslands árið 1953. Árið 1960 var Melittu gert að drepa flugurnar sínar og fjarlægja búin vegna óánægju nágranna.

Árin 1975 og 1976 flutti Olgeir Möller inn bú frá Danmörku en þau bú lifðu ekki veturna af.

Býflugnarækt í dag

Aldamótaárið 2000 var ­stofnað nýtt félag um býflugnarækt á Íslandi og fékk það heitið Býflugnaræktendafélag Íslands. Egill Rafn Sigurgeirsson, formaður félagsins, segir að meðlimir félagsins séu um 120 og að um 100 séu virkir ræktendur. Meðlimir félagsins eru dreifðir um allt land en fæstir á Austfjörðum og flestir á suðvesturhorninu.

„Í mjög grófum dráttum fer býflugnarækt þannig fram að fólk fer á námskeið hjá félaginu og kaupir síðan bú í gegnum það. Félagið flytur inn bú frá Álandseyjum vegna þess að það er eina landið í heiminum sem er með sjúkdómalausar bý­­flugur fyrir utan Ísland. Búin koma hingað í seinni hluta júní og eru sett í þar til gerðar kúpur eða kassa með römmum og vaxi og gefur flugunum fóður, sykur og frjódeigsfóður fyrstu vikurnar til að hjálpa þeim af stað. Ef allt fer vel og sumarið er gott geta byrjendur í býflugnarækt fengið allt að tólf kíló af hunangi úr einu slíku búi fyrsta árið.

Á haustin er flugunum í hverju búi gefinn sykur, 20 til 30 kíló, sem er leystur upp í vatni og er vetrarforði þeirra í staðinn fyrir hunangið sem við tökum frá þeim. Síðan er beðið fram á vor og vonað að flugurnar lifi veturinn af.

Egill segir að gott skjól sé eitt það allra mikilvægasta til að býflugnarækt heppnist vel og að búin þurfi helst að vera staðsett í hitapolli. 

Skylt efni: Nytjadýr | býflugur

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.