Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Eitt af því sem sjónum hefur verið beint að undanfarið erlendis er svokölluð burðarstreita, sem einnig mætti einfaldlega kalla kúastress, en séu kvígur eða kýr haldnar streitu um burð getur það haft alvarleg áhrif á kálfinn og jafnvel leitt til dauða hans
Eitt af því sem sjónum hefur verið beint að undanfarið erlendis er svokölluð burðarstreita, sem einnig mætti einfaldlega kalla kúastress, en séu kvígur eða kýr haldnar streitu um burð getur það haft alvarleg áhrif á kálfinn og jafnvel leitt til dauða hans
Mynd / HKr.
Fréttir 15. október 2015

Burðarstreita

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Broddmjólk er öllum smákálfum nauðsynleg enda séu gæði hennar í lagi þá fær kálfurinn gnótt mótefna sem hann býr svo að næstu vikurnar. Það er þó mun meira sem hefur áhrif á lífsskilyrði kálfsins en sjálf broddmjólkin og ýmsir þættir í lok geldstöðunnar og við burðinn sjálfan hafa þar mikil áhrif. 
 
Eitt af því sem sjónum hefur verið beint að undanfarið erlendis er sk. burðarstreita, sem einnig mætti einfaldlega kalla kúastress, en séu kvígur eða kýr haldnar streitu um burð getur það haft alvarleg áhrif á kálfinn og jafnvel leitt til dauða hans. Streituvaldar í umhverfi kúnna og kvíganna geta verið margir og hér verða nokkrir þeirra raktir.
 
Ekki flytja of seint
 
Í nútímafjósum eru kýr og kvígur oft fluttar í burðarstíur skömmu fyrir burð og oftar en ekki ætti slíkur flutningur ekki að hafa slæm áhrif en það getur þó gerst, sér í lagi séu kýrnar eða kvígurnar fluttar of seint, þ.e. þegar burður er í raun hafinn. Séu kýrnar eða kvígurnar fluttar þá stoppar burðurinn oft og getur það hæglega valdið smákálfadauða. Ástæða þess að burðurinn stöðvast er m.a. talin vera af völdum streitu enda kýrnar og kvígurnar undir miklu álagi við burðinn, svo ekki sé nú verið að bæta við álaginu sem fylgir því að færa sig um set.
 
Erlend rannsókn sýndi áhrif flutninga á burð kúa en ef kýr voru fluttar þegar burður var hafinn en ekki var farið að sjást í klaufir þá tók mun lengri tíma fyrir þær að leggjast að jafnaði (77 mínútur miðað við 33 mínútur) auk þess sem burðurinn sjálfur tók margfalt lengri tíma (3,7 klst. að jafnaði miðað við 1,1 klst.). Þá stórjókst þörf fyrir burðaraðstoð auk þess sem hlutfall dauðfæddra kálfa jókst úr 12% í 24% við það eitt að færa kýrnar of snemma í burðarstíu.
 
Fært með góðum fyrirvara
 
En hvenær á þá að færa kýr eða kvígur í burðarstíu? Afar gott er að notast við skýrsluhaldið og miða við væntanlegan burðardag miðað við sæðingu. Auðvitað víkja kýrnar og kvígurnar frá þessum ætlaða degi en gott er þó að miða við hann og færa þær í burðarstíu 2 dögum fyrir ætlaðan burðardag. Sé burðardagurinn ekki þekktur þarf að notast við atferli kúnna eða kvíganna en oftast breytist atferlið verulega í aðdraganda burðar. Þannig er þekkt að 12–24 tímum fyrir burð þá standa þær oftar upp og leggjast oftar niður en venjulega, auk þess sem þær losa sig við oftar bæði þvag og skít. Þá slaknar á liðböndum  á þessum tíma. Reynslan erlendis frá sýnir reyndar að 10–20% kúnna og sér í lagi kvíganna sýna engin merki um breytt atferli, því er enn mikilvægara að þekkja ætlaðan burðardag. Hvaða aðferð sem notuð er, þá er aldrei ráðlegt að láta kýr eða kvígur standa í einangrun í langan tíma í einu og alls ekki lengur en í 3 daga.
 
Fært með skömmum fyrirvara
 
Hafi kýrnar eða kvígurnar ekki sýnt breytt atferli með góðum fyrirvara er almennt mælt með því að færa þær ekki í burðarstíu fyrr en sést í klaufir. Tilfellið er að séu klaufirnar komnar, þá virðist fátt eitt geta stöðvað burðinn og því í raun ekki vandamál að flytja kýrnar eða kvígurnar til.
 
Gott burðarsvæði
 
Þegar burðarsvæði er hannað þarf að huga að ýmsu en fyrst og fremst að því að gera það þægilegt fyrir kýrnar og kvígurnar og þannig staðsett að þær sjái vel út til annarra kúa, svo þær fái ekki óþarfa streitu af þeim völdum. Þá þarf burðarsvæðið einnig að vera þannig staðsett að auðvelt sé að fylgjast með burðinum án þess að vera ofan í kúnni eða kvígunni. 
 
Kýrnar velja sjálfar að bera í hálmi og síður á gúmmímottum svo ef þess er nokkur kostur er um að gera að bjóða upp á slíka aðstöðu. Þá þarf að huga að því að stundum þarf að grípa inn í burðarferilinn og því mikilvægt að geta athafnað sig allauðveldlega svo unnt sé að aðstoða kúna eða kvíguna sem best. Eftir burðinn er nauðsynlegt að geta þrifið svæðið vel og hugsanlega sótthreinsa það einnig, sér í lagi ef eitthvað hefur komið upp á við burðinn.
 
Nýtt umhverfi
 
Annað atriði sem getur hæglega valdið streitu hjá kúm og sér í lagi kvígum eru flutningar skömmu fyrir burð í nýja gripahópa og sérstaklega séu kvígur fluttar til kúa.Við slík umskipti eykst seyting adrenalíns út í blóðið og veldur þeim streitu. Adrenalínið dregur nefnilega úr kraftinum við burðinn og hamlar því að burðarferillinn haldi rétt áfram. 
 
Séu kýr eða kvígur undir miklu álagi í marga daga, s.s. vegna eineltis, þá er hlutfall adrenalíns í blóði þeirra hærra en venjulega sem getur þá haft fyrrgreind áhrif. Til þess að koma í veg fyrir þessi áhrif er mikilvægt að hafa kýrnar og kvígurnar sem lengst í sínum hópi og/eða færa þær nógu snemma í nýjan hóp að þær hafi vanist hinum nýju nágrönnum í tíma. Þá er mikilvægt að rýmið sé nægt svo þær lendi ekki í óþarfa árekstrum við hærra setta gripi.
 
Fylgjast með úr fjarska
 
Návist fólks er enn eitt atriðið sem vitað er að getur haft slæm áhrif á kýrnar eða kvígurnar og valdið þeim burðarstreitu. Þetta kann að virka hálfundarlegt en sýnt hefur verið fram á að séu kýr í burðarstíu vaktaðar með vefmyndavélum eða álíka búnaði, þá hefur það síður áhrif til hækkunar á adrenalíni í blóði kúnna eða kvíganna miðað við að burður sé vaktaður með hefðbundnum hætti. Hér er rétt að muna að við erum að eiga við skepnur sem eru viðkvæmar í kringum burð og undir miklu álagi. Það eitt gerir þær óöruggar og viðkvæmar og því er upplagt að notfæra sér nútímatækni við eftirlit, allra vegna.
 
Burðarhjálp
 
Þegar svo loks kemur að burði þarf vonandi ekki að aðstoða kúna eða kvíguna en sé þörf á slíku þarf að vanda til verka. Í því sambandi má benda á útgáfu Landssambands kúabænda á fræðsluritinu „Burður og burðarhjálp“ sem dreift var endurgjaldslaust til allra nautgripabænda í fyrra. Í þeim bæklingi eru greinargóðar lýsingar og leiðbeiningar á því hvernig best er að standa að burðarhjálp.
 
Snorri Sigurðsson
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
sns@seges.dk
Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...