Borað eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli
Sveitarfélagið Árborg er nú að láta bora eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli til að mæta meiri þörf í vaxandi samfélagi.
Íbúar Selfoss fá allt sitt kalda vatn úr Ingólfsfjalli. Borunin fer fram á vegum Selfossveitna en það er fyrirtækið Vatnsborun sem sér um borunina. Holurnar eru um 100 metra djúpar með stálfóðringu niður á 30–50 metra.
„Borunin er enn í gangi og því ekki komið mat á magnið en við höfum borað reglulega á þessu svæði í gegnum árin. Sveitarfélagið vinnur eingöngu kalt vatn af þessu svæði en við erum að nálgast vinnslugetu svæðisins og þurfum því að fara að leita á önnur mið,“ segir Sigurður Þór Haraldsson veitustjóri. Borun við hverja holu getur kostað allt frá fimm til tíu milljónir króna.
