Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Guðlaugur Agnar Ágústsson, útvegsbóndi í Steinstúni í Norðurfirði.
Guðlaugur Agnar Ágústsson, útvegsbóndi í Steinstúni í Norðurfirði.
Líf og starf 23. ágúst 2016

Bóndi og sjómaður á strandveiðum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Auk sauðfjárbúskapar stundar bóndinn í Steinstúni strandveiðar. Hann er ánægður með fyrirkomulag veiðanna og markaðskerfið í sjávarútvegi og segist vilja auka markaðsvæðingu sauðfjárafurða og stórlega bæta vegasamgöngur við Árneshrepp.

„Ég flutti aftur að Steinstúni 2003 og er með um 300 kindur og geri út trillu, Gísla ST,“ segir Guðlaugur Agnar Ágústsson, útvegsbóndi í Steinstúni í Norðurfirði. Guðlaugur er á strandveiðum og segir veiðarnar verulega búbót við búskapinn.

Sauðburður og strandveiðar fara illa saman
„Yfirleitt gengur vel að vera með fjárbú og stunda strandveiðar nema á vorin þegar sauðburður stendur sem hæst og ég kemst aldrei á sjóinn fyrr en undir 10. júní. Strandveiðarnar byrja 1. maí þannig að ég missi fyrsta mánuðinn úr. Veiðin hér fyrir utan er góð og mér hefur gengið vel að ná skammtinum, sem er 770 kíló á fjórtán tímum eftir að ég byrja veiðar.“

Guðlaugur segir að hann sé ánægður með reglurnar í strandveiðikerfinu og hann væri til í að hefja veiðar fyrr ef hann gæti. „Yfirsetan í sauðburðinum er mikil og maður kemst einfaldlega ekki yfir allt.“

Markaðskerfið með fisk til fyrirmyndar
„Ég landa aflanum í Norðurfirði og þaðan er honum ekið á markað í Hafnarfirði sem er að mínu mati frábært og ég væri alveg til í að selja lambakjötið mitt í sams konar kerfi. Að mínu mati er markaðskerfið með fisk miklu betra en fjandans skrifræðið í landbúnaðinum og þessum kerfum ekki saman líkjandi. 
Rekstrarafgangurinn af bátnum er meiri en af búinu og ég gæti ekki stundað búskap með góðu móti ef ég gerði ekki út bátinn líka. Ef strandveiðikerfið yrði lagt niður mundi ég pakka niður og flytja burt sama daginn.“

Lélegar samgöngur hindra uppbyggingu
Þegar Guðlaugur er spurður um ástæðu fækkunarinnar í hreppnum segist hann ekki vita hvað veldur og fólk í sveitinni ekki á einu máli um ástæðuna. „Ef ég á að benda á það sem ég tel líklegustu skýringuna þá eru það lélegar samgöngur. Það er alveg sama hvað talað er um í sambandi við uppbyggingu í atvinnumálum hér, hvort sem það er aukin ferðamennska, fiskveiðar yfir vetrarmánuðina eða eitthvað annað, það strandar allt á lélegum vegasamgöngum.“

Sauðfjárræktin er hryggjarstykkið
„Undirstöðuatvinnuvegurinn í sveitinni er sauðfjárbúskapur og hægt að stunda hann með núverandi vegasamgöngum en bændum hér er að fækka og ég sé ekki fram á að hingað sé að flytja fólk sem ætlar að hefja búskap.

Við verðum því að hugsa um annars konar atvinnustarfsemi en það er nánast sama hvaða hugmyndir koma upp, allar krefjast þær betri samgangna.

Að mínu mati er tvennt sem er hægt að gera hér í dag, allt árið, án þess að bæta vegasamgöngurnar, og það er að stunda sauðfjárrækt og þurrka harðfisk.“

Vegurinn ekki þjónustuhæfur á veturna
Guðlaugur hrósar Isavia fyrir hvað þeir hafa staðið sig vel með flugsamgöngur í Árneshrepp og Orkuveitunni fyrir áætlanir um að leggja þriggja fasa rafmagn í hreppinn.

„Vegagerðin stendur sig því miður ekki eins vel. Vegurinn hingað er alls ekki vondur sumarvegur og ég geri mér grein fyrir því að eins og ástandið á honum er í dag þá er hann ekki þjónustuhæfur yfir vetrarmánuðina. Það verður því að byrja á því að byggja hann upp og gera hann þjónustuhæfan allan ársins hring.“

Þurfa að landa á Hólmavík
Vegna ástands vegarins, hversu seint hann er opnaður á vorin og hversu lengi eru á honum þungatakmarkanir, þurfa bátar á grásleppuveiðum hér fyrir utan að sigla með aflann til Hólmavíkur eftir að farið var að landa grásleppunni heilli. Auðvitað væri betra fyrir alla ef hægt væri að landa í Norðurfirði og keyra þaðan með aflann til vinnslu,“ segir Guðlaugur Ágústsson að lokum. 

Skylt efni: Strandir | Norðurfjörður

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...