Betri heimur með bættum landbúnaði
Mannfjöldi í heiminum fer ört vaxandi með tilheyrandi aðsteðjandi vandamálum um hvernig eigi að fæða fólkið til framtíðar litið. Samhliða er ógnin um yfirvofandi loftslagsbreytingar sem gætu leitt til þess að stór landbúnaðarsvæði verði óhæf til matvælaframleiðslu og í einhverjum tilvikum óbyggileg.
Landbúnaður getur leikið lykilhlutverk í því að mæta þessum áskorunum. Þrátt fyrir að vera í dag stór valdur að hluta umhverfisvandamálanna sem heimsbyggðin þarf að mæta getur hann með skilvirkari og umhverfisvænni landbúnaðarkerfum orðið mikilvægur hluti af lausnunum.
Á síðustu árum hefur nálgun á landbúnað sem kallast „regenerative farming“ náð sífellt meiri athygli í alþjóðlegri umræðu um þau vandamál sem landbúnaður á heimsvísu þarf að takast á við. En með þeirri nálgun er leitast við að bæta hag bænda og leysa ýmis viðvarandi umhverfisvandamál um leið sem fylgja hefðbundnum aðferðum við búfjár- og jarðrækt.
Auðgandi áhrif á jarðveginn
Í 9. tölublaði Bændablaðsins hefur íslenska hugtakið „auðgandi landbúnaður“ verið nokkuð til umfjöllunar í kjölfar málþings sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica 2. apríl, þar sem það var til umræðu. Það er þýðing Kristínar Völu Ragnarsdóttur, prófessor emirita í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, á regenerative farming, sem flutti erindi á málþinginu þar sem hún útskýrði hugmyndafræðina á bak við þessa nálgun. Í erindinu bar hún saman þau auðgandi áhrif sem aðferðin hefur á ástand jarðvegs, við þær mögulegu hnignandi afleiðingar sem hefðbundinn landbúnaður getur haft til lengri tíma.
Grunnhugmyndin er þannig að auðga jarðveginn svo hann geti orðið að sjálfbæru landbúnaðarlandi. Raunin hefur orðið sú að ekki einungis getur landið orðið sjálfbært – og óháð tilbúnum áburði – heldur geta afurðirnar af landinu aukist verulega. Auk þess sem tækifæri gefast með þessari nálgun á hærra afurðaverði.
Náskylt lífrænum landbúnaði
Á Íslandi er þessi nálgun rétt að skjóta rótum meðal bænda. Fáir íslenskir bændur beinlínis gefa sig út fyrir að stunda auðgandi landbúnað, en hugmyndafræðin er þó náskyld lífrænum landbúnaði – en innan þess ramma skilgreina sig þó mun fleiri bændur.
Bændur á þremur bæjum, sem aðhyllast hugmyndafræðina og vilja breiða hana út, stóðu að skipulagningu málþingsins. Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson stunda blandaðan búskap á Tyrfingsstöðum í Ásahreppi, meðal annars með kindur, nautgripi, svín og hænur, Haraldur Guðjónsson og Þórunn Ólafsdóttir rækta hvítlauk með þessari nálgun undir vörumerkinu Dalahvítlaukur og þau Ævar Austfjörð og Ása Tryggvadóttir á Litla búgarðinum, eru með naut, grísi, hænur og endur.
Auðgandi landbúnaður á alls staðar við
Auðgandi landbúnað er hægt að stunda á litlu landsvæði, eins og gert er hjá hvítlauksbændum í Dölunum, en einnig á miklum víðáttum með stórar hjarðir á bandaríska vísu.
Einn af gestafyrirlesurum málþingsins var bandaríski bóndinn og búvísindamaðurinn Allen Williams, sem er með doktorspróf í erfðafræði búfjár og meistaragráðu í dýrafræðum. Hann hefur leiðbeint meira en fjögur þúsund bændum í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Suður-Ameríku, Írlandi og fleiri löndum, um bætta búskaparhætti með þessari nálgun – á jörðum sem spanna allt frá fáum hekturum upp í meira en milljón hektara.
Í erindi sínu sagði hann að búið væri að sýna fram á að auðgandi landbúnaður ætti alls staðar við, hann virkaði sem skyldi í öllum heimsins löndum þar sem landbúnaður væri á annað borð stundaður. Hann skilgreindi þessa nálgun þannig að með henni væri áhersla á búfjár- og jarðrækt í samhljómi við náttúruna í þeim tilgangi að laga og endurlífga virkni vistkerfanna, þar sem byrjað sé á lífinu í sjálfum jarðveginum og en svo útvíkkað yfir í lífið sem vex úr honum.
Sex grundvallaratriði
Allen stillti fram sex grundvallaratriðum auðgandi landbúnaðar, í átt að heilbrigðum jarðvegi. Nauðsynlegt sé að þekkja ástand jarðvegsins hverju sinni, mikilvægt sé að jarðvegurinn haldist óraskaður og ómengaður – og þekjugróður má rækta sem vörn fyrir viðkvæmt jarðvegslífið. Brýnt sé að nota fjölbreyttan gróður í ræktarlöndum, halda rótarkerfum óspilltum og rækta búfé og jarðveg heildstætt saman með beitarstýringu – sem sé nauðsynlegt til örvunar á örveru-, skordýra- og plöntulífi. Með auknum líffræðilegum fjölbreytileika jarðvegsins aukist hæfni hans til að binda kolefni sem gerir jarðveginn frjósamari.
Hulda heimfærði svo, í sínu erindi, ávinninginn af þessum grundvallaratriðum upp á búskap þeirra Tyrfings, en þau byrjuðu á þessari nálgun með markvissri hólfaskiptri beitarstýringu árið 2019. Upphaflega bara á nautgripina, en síðan á sauðfé, hænur og svín með mjög góðum árangri á jarðveginn, afurðir og afurðasöluna, en eingöngu er selt beint frá býli á Tyrfingsstöðum.
Eftir að þau fóru að selja eingöngu beint frá býli hefur innkoman fyrir vörurnar aukist mikið. Selja þau nú allt sem framleitt er og komast færri að en vilja.
Hún sagði að mælt sé með að dregið sé úr notkun á tilbúnum áburði í skrefum. Það hafi þau gert en hættu alveg að nota slíkan áburð fyrir þremur árum, en nota í staðinn lífrænan áburð og moltu. Þau sjái árangur af þessum aðferðum, sérstaklega hvað varðar landnýtingu en einnig á fallþunga lambanna síðasta haust.