Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Beta, rófa, beðja eða blaðka
Fræðsluhornið 10. júlí 2015

Beta, rófa, beðja eða blaðka

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Við strendurnar umhverfis Miðjarðarhaf, út til Asóreyja og allt norður í Oslóarfjörð í Noregi vex stórvaxin og blaðmikil jurt víða í fjörukömbum. Þar myndar hún blaðmikla beðju með þykkri og kröftugri stólparót. Hún lætur það lítið á sig fá þótt brimrótið gangi yfir hana og dafnar ágætlega í söltum jarðveginum.

Þetta er strandbetan, strandbeðjan eða strandblaðkan, Beta vulgaris og venjulega er var. maritima bætt við hið fræðilega tegundarheiti. Það tengir hana við sjávarstrendur. Heitið beta er komið úr forngrísku. Það birtist fyrst í ritum Aristótelesar drjúgum þrem öldum fyrir vort tímatal og er notað í flestum málum Evrópu líkt og orðið kirkja, með nokkrum frávikum þó.

Pýramídar og steinaldarbyggðir

Elstu heimildir benda til þess að hin ræktaða beta hafi upphaflega verið tekin til ræktunar í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Fyrst framan af voru það einkum matarmikil blöðin sem nýtt voru til manneldis. Samkvæmt þeirra tíma læknavísdómi þótti jurtin einnig heilsusamleg þeim sem þjáðust af sótthita. Því stór og safarík blöðin voru að sjálfsögðu svalandi. Því voru þau sögð bæta meltingu og allt yfirbragð fólks sem var langt niðri vegna harðlífis. Og blöðkurnar þótti líka gott að leggja við opin sár líkt og gert var með græðisúru.
Í fornleifauppgreftri víða um lönd hafa fundist vísbendingar um að betan hafi skipt máli í fæðuöflun, læknisdómum eða átrúnaði. Þetta svæði spannar fornaldargrafir í Austurlöndum nær, egypska pýramída og alveg norður í rústir steinaldarbyggða í norðanverðu Hollandi. Því getur verið nokkuð erfitt að finna upphafspunktinn.

Blaðbeta og stilkbeta

Beinn afkomandi þessara fyrstu ræktunarnota er blaðbetan. Af henni eru tveir stofnar. Hin venjulega blaðbeta, blaðbeðja, silfurbeðja, strandblaðka eða á sumum málum „mangold“ hefur verið í ræktun frá örófi alda. Ræktuð sem einær jurt og í stórum dráttum matreidd og notuð eins og spínat. Blaðbeturækt er mikil um alla Suður-Evrópu og norður til Þýskalands. Í norðurálfunni er hún ræktuð í fremur litlum mæli í heimagörðum núorðið. Önnur gerð, öllu nýrri, er sá stofn blaðbetu sem nefnist stilkbeta eða stilkbeðja. Sá er orðinn öllu vinsælli.
Stofninum mun fyrst hafa verið lýst á átjándu öld. Á enskri tungu dregur hann nafn sitt af því og kallast „Swiss Char“, þótt hann hafi ekki önnur tengsl við það land en þau að náttúrufræðingurinn sem það gerði var Svisslendingur, Gaspard Bauhin að nafni. Bauhin þessi lýsti líka gulrófunni sem tegund og sagði hana vera sænska. Báðum í sömu bók. Enska heitið er yfirfært af franska heitinu á ætiþistli. Þótt útlitið sé ólíkt er bragðið svipað og því mátti nota stilkbetuna í ætiþistils stað – líkt og sojakjöt í borgfirskum nautabökum. Stilkbetan hefur litfagra og skrautlega blaðleggi sem taka sig vel út í matjurtagarðinum. Blöðin eru líka með litsterkum æðum. Við suðu tapast liturinn nokkuð en fyrir þá sem líkar vel við grænmetissalöt í regnbogalitunum er hún sannkallaður fjársjóður.

Fóðurbeta eða fóðurrófa

Fóðurbetan er eitt af hinum ræktuðu afbrigðum betunnar. Það er óvíst hvaðan hún er upprunnin eða hvar. Líklega hefur hún verið Rómverjum kunn við upphaf okkar tímatals. Og til hennar vísað þegar sagt var í rómverskum ritum að safi úr beturótum tæki ólyst úr fólki og bætti samgang kynjanna. Að auki lagaði hann öndunarerfiðleika og losaði slím úr lungum.

Fóðurbetan er líka kölluð fóðurrófa og er fyrst og fremst ræktuð til skepnufóðurs, sáð að vori og uppskorin að hausti sem vetrarforði fyrir búfé, einkum kýr og svín. Þær verða gífurlega stórar og ekki góðar til átu vegna þess hve fljótt þær tréna. En á meðan þær eru á stærðinni milli hænueggs og eplis hefur trénunin ekki náð yfirhöndinni. Þá er kreistur úr þeim safinn. En sem matjurt er hún ekkert sérlega spennandi. Þó er af henni nokkur sætukeimur. Og þessi sæti keimur átti eftir að hafa mikil pólitísk, efnahagsleg og söguleg áhrif sem brenglaði valdastrúktúrinn í Vestur-Evrópu varanlega á átjándu öld og í upphafi þeirrar nítjándu.

Sykurbetan og morgunverður með Friðriki mikla

Því það var árið 1747 að þýski efnafræðingurinn Andreas Margraf fann upp aðferð til að einangra sykurkristalla úr fóðurrófum með því að rífa þær niður og leysa þær upp í alkóhóli. Sá sykur var í engu eftirbátur þess sykurs sem unninn var úr sykurreyr í hitabeltisnýlendum Breta, Spánverja og Portúgala. Nemandi hans, Frans Karl Achard, fann upp mun betri og skilvirkari aðferð til að vinna sykurinn úr beturófunum. Frans Karl var í sérlegu uppáhaldi hjá Friðriki öðrum, sem venjulega er kallaður Friðrik mikli, Prússakóngi og sat með honum morgunverð vikulega um leið og hann las honum skýrslu um nýjustu framfarir og vísindi í ríkinu.

Að undirlagi Friðriks mikla voru svo valdar út 23 fóðurbetur með sérlega miklu sætubragði. Frá þessum 23 einstaklingum er svo sykurbetan eða sykurrófan komin eftir miklar víxlanir og kynbætur fram og aftur til að auka sykurmagnið og bæta lögunina fyrir vélvædda úrvinnslu. Um aldamótin 1800 voru fyrstu sykurverksmiðjurnar komnar í fullan gang í Þýskalandi og Frakklandi. Þar með var einokun sykurveldanna rofin endanlega. Og líklega er þar upphafið að hinu gegndarlausa og óholla sykuráti nútímafólks.

Rauðbetan – ekki bara rauðrófurauð!

Rauðrófan eða rauðbetan (rauðbeða upp á dönsku!) rekur lestina í þessari upptalningu. Eiginlega veit enginn hvaðan hún kom eða hvernig hún varð til. Um það eru margar ráðgátur. Rómverjinn Plíníus getur þeirra á fyrstu öld okkar tímatals. Sumir telja hana hafa orðið til í Egyptalandi á dögum faraóanna. Aðrir giska á að hún sé blendingur við aðra betutegund sem vex við strendur Atlasfjalla og á Kanaríeyjum. Fyrstu heimildir sem lesa má um hana í Vestur-Evrópu eru frá Þýskalandi 1558. Í þeim heimildum er hún kölluð rauð rófa og um 1780 er búið að skrifa um hana í enskar garðyrkjubækur. Þar er hún kölluð rauð rómversk rófa. Til Norðurlanda var hún komin til að vera um miðja nítjándu öld. Rauðrófan býður upp á fjölda litbrigða. Fyrir utan að vera rauðrófurauð eru til afbrigði með hvítum, gulum, órans og röndóttum rótum.

Líklega þekkjum við rauðbetuna best sem innlagðar rauðrófur í edikslegi. Eða í hinni rómuðu, rússnesku bort-súpu. En litarefnið í rauðrófum (betanín, E-númerið er 162) kemur víða við og er nánast í öllum rauðlituðum matvælum og varalit. Rauðrófusafi er sagður lækka blóðþrýsting og oft ráðlagður fólki sem hefur við háan blóðþrýsting að stríða. Eitt til tvö glös af safanum á að bæta ástandið undrafljótt. Og svipað magn eflir líka styrk til átaka við erfið verkefni.

Skylt efni: Garðyrkja | beðja | beta | rófa | blaðka

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...