Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tróndur Leivsson, yfirmaður Landbúnaðarstofnunar Færeyja og forseti samtakanna Circumpolar Agricultural Association (CAA).
Tróndur Leivsson, yfirmaður Landbúnaðarstofnunar Færeyja og forseti samtakanna Circumpolar Agricultural Association (CAA).
Mynd / ghp
Fréttir 25. október 2021

Beina sjónum að jaðarsvæðum landbúnaðar á norðurheimskauti

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Framlag bænda á norðurslóðum til áskorana sem fylgir loftslagsbreytingum geta skipt sköpum bæði fyrir kolefnisbindingu jarðar og fæðuframleiðslu í framtíðinni. Þótt áskoranir landbúnaðar á jaðarsvæðum í norðri séu fjölþættar munu veðurfarsbreytingar opna fyrir möguleika og tækifæri sem rýna þarf í.

Tróndur Leivsson, yfirmaður Landbúnaðarstofnunar Færeyja og forseti samtakanna Circumpolar Agricultural Association (CAA), var á dögunum staddur hér á landi til að taka þátt í pallborðsumræðum um fæðuöryggi á norðurslóðum í ljósi loftslagbreytinga á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu.

„Sama hver ber ábyrgð á loftslagsbreytingum, þá verðum við að horfast í augu við þær. Það kom mér á óvart þegar ég sótti Arctic Circle árið 2018 að þar var nær engin umræða um landbúnað í því ljósi. Það er hins vegar ljóst að veðurfarslegar breytingar munu hafa áhrif á bæði plöntur og dýr, en þær munu einnig leiða af sér möguleika sem vert er að kanna,“ segir Tróndur og tekur dæmi um fóðurplöntur.

„Þær eru ein áhrifaríkasta kolefnisbinding sem við vitum um. Þær nota sólarljósið, binda kolefni, framleiða fóður sem dýrin nota sem mennirnir nýta. Þá er ljóst að nýtt landflæmi kallar á aðgerðir sem geta byggt á aldarlangri reynslu okkar í grasnytjum. Norðurslóðir ættu að geta orðið leiðandi svæði í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir.“

Þverfaglegur samstarfsvettvangur

Samtök jaðarsvæða landbúnaðar í norðri, Circumpolar Agricultural Association (CAA), voru stofnuð árið 1995 en markmið þeirra er fyrst og fremst að skipuleggja reglulegar landbúnaðarráðstefnur.

Næsta samkoma mun fara fram í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja, í byrjun júlí á næsta ári. Yfirskrift ráðstefnunnar snýr að framlagi búskapar á norðurslóðum til sjálfbærra staðbundinna lífhagkerfa.

Skapaður verður umræðuvettvangur um þá möguleika sem opnast þegar ný landflæði skapast vegna loftslagsbreytinga. Einnig mun dagskráin innihalda málþing um samspil ferðaþjónustu og staðbundinnar framleiðslu, möguleika tæknivæðingar á aukið aðgengi að mörkuðum sem og lýðfræðilega dreifingu á norðurslóðum út frá jafnrétti kynjanna.

Meðal aðalefnisþátta ráðstefnunnar eru plöntukynbætur og genafjölbreytileiki. Tróndur segir það nokkurt hitaefni enda sé nauðsynlegt að viðhalda og vernda erfðaefni frá villtum forfeðrum þeirra nytjaplantna sem jarðrækt byggir á í dag.
Ráðstefnan verður opin öllum en Tróndur segist búast við að um 200 manns verði þar samankomin. „Þetta er hvorki stíf vísindasamkoma né pólitískur vettvangur, heldur góð samsuða sem hefur það að markmiði að stuðla að áhuga á landbúnaðarmálum á norðurslóðum.“

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.