Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis, fjármála og matvælaráðuneyta fer yfir tjónaskráningar vegna kuldakastsins sem reið yfir landið í byrjun síðasta sumars.
Engar greiðslur hafa átt sér stað þar sem ekki hefur verið gengið frá útfærslu þeirra, en áðurnefndur starfshópur mun skila inn tillögum til matvælaráðherra fljótlega. Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúmur milljarður króna á 375 búum. Frá þessu er greint í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bændablaðsins.
Bjargráðasjóður annast greiðslur styrkja vegna kaltjóns á túnum bænda veturinn 2023 til 2024. Bændur sem urðu fyrir hvað mestu tjóni gátu sótt um og hafa fengið fyrirframgreiðslu upp í væntanlegan styrk. Stefnt er að uppgjöri og greiðslum styrkja vegna kaltjóns í janúar, en fyrirframgreiðslur koma til frádráttar við uppgjör.