Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Bændur vilja leggja alúð við umhverfi sitt
Mynd / Bbl
Fréttir 24. febrúar 2020

Bændur vilja leggja alúð við umhverfi sitt

Höfundur: smh
Í nýrri skýrslu, sem Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins (RML) hefur unnið fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, kemur fram að íslenskir bændur séu almennt jákvæðir í garð náttúruverndar og sjá fyrir sér að hægt sé að vinna að náttúruvernd samhliða landbúnaði.
 
Vinna RML við verkefnið á rætur í viljayfirlýsingu um samstarf sem Sindri Sigurgeirsson, þáverandi formaður Bændasamtaka Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra undirrituðu á Hvanneyri 6. desember 2018. Samstarfinu var ætlað að ná til verkefna í náttúruvernd á jörðum bænda og var RML falið að standa að greiningarvinnu fyrir verkefnið.
 
Bændur vilja viðhalda náttúrugæðum
 
Í meðförum RML fékk verkefnið heitið LOGN, sem stendur fyrir Landbúnaður og náttúruvernd. Í skýrslunni kemur fram að bændur vilji leggja alúð við umhverfið til að viðhalda náttúrugæðum á bújörðum sínum og eru áhugasamir um þátttöku í slíkum verkefnum. 
 
Auk viðhorfskönnunar er í skýrslunni greining á samlegðar­áhrifum landbúnaðar og náttúru­verndar og fjallað um hvernig unnið er að samþættingu þessara þátta í öðrum löndum. Þar kemur fram að helstu verkefni og störf varðandi umhverfis- og náttúruvernd sem bændur fá greitt fyrir samkvæmt samningum í öðrum löndum séu:
 • Verndun á sérstökum náttúrufyrirbærum - náttúruvé og náttúruvættir
 • Verndun og vöktun á ósnertu eða lítið spilltu landi
 • Verndun og viðhald á landslags­einkennum mót­uðum af sambýli manns og náttúru
 • Endurheimt landgæða og sjálfbær landnýting
 • Verndun og viðhald á líffræðilegum fjölbreytileika
 • Endurheimt og verndun vistkerfa
 • Verndun búsvæða
 • Endurheimt, viðhald og verndun votlendis og vatnssvæða
Í öðrum löndum sem skoðuð voru, er einnig gjarnan greitt fyrir umhverfisvæna búskaparhætti sem bæði stuðla að heilbrigðari meðhöndlun jarðvegs og húsdýra og til að vernda og viðhalda lífbreytileika og búsvæðum.  Í skýrslunni eru eftirfarandi dæmi nefnd um slíkar greiðslur:
 
 • Ræktun og verndun staðbundinna tegunda, húsdýra og jurta
 • Lífræn ræktun
 • Ábyrg notkun áburðar- og eiturefna
 • Villtar gróðurrendur á milli eða í miðju túna eða akra, til skjóls fyrir dýralíf og síun áburðarefna
 • Umhverfisvæn meðhöndlun gróðurmoldar, s.s. sáðskipti, tegunda­fjölbreytileiki, vetrarsáning (green / winter cover)
Verkefnatengd náttúruvernd
 
Í skýrslunni kemur fram að bændur skiptust í tvo hópa varðandi viðhorf til friðlýsinga á landi, annaðhvort mjög andstæðir friðlýsingum – og töldu það veikja verðgildi jarðanna – eða þá mjög jákvæðir gagnvart þeim. Margir töldu sig þó skorta grunnþekkingu á friðlýsingarferlum til að vilja tjá sig um málefnið. Flestir bænda sem tóku þátt í skoðanakönnun og viðtölum sáu frekar tækifæri í að vinna verkefni í náttúruvernd á eigin forsendum frekar en að óska eftir að land verði sett í friðlýsingu. „Ef gera á átak í náttúruvernd á landbúnaðarsvæðum má álykta að bændur myndu almennt vera jákvæðari gagnvart verk­efnatengdri náttúruvernd en hefðbundnum friðlýsingum. Þannig má einnig álykta að meiri árangur náist í verkefnum þar sem þau yrðu unnin á forsendum bænda og/eða landeigenda og byggð að talsverðu leyti á þekkingu þeirra. Þarna yrði þ.a.l. sameinuð þekking bænda og sérfræðinga á sviði náttúruverndar.
 
Jafnframt má álykta að með svona verkefnum verði til aukin þekking á náttúruvernd á meðal bænda og jákvæðar viðhorfsbreytingar til friðlýsinga.“ 
 
Þar kemur einnig fram að verkefnatengd náttúruvernd sé algengt form á verndun svæða erlendis og víða verkefni sem eru á landbúnaðarlandi og bændur þátttakendur í þeim. „Verkefnatengd náttúruvernd hefði skilgreindan tímaramma, þar sem væru t.d. verkefni til fimm ára. Bændur fengju einhverja umbun fyrir þátttöku. Það fæli meðal annars í sér aðstoð við áætlanagerð og nýtingu á samlegðaráhrifum og seinna gæti e.t.v. komið umbun í formi peningagreiðslna fyrir að taka þátt og fyrir að vinna að settum markmiðum,“ segir enn fremur í skýrslunni.
 
Nýsköpun og náttúruvernd
 
Í skýrslunni segir að nýsköpun geti gegnt lykilhlutverki við samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar. „Víða erlendis má finna dæmi um vel heppnuð verkefni þar sem nýsköpun hefur gegnt lykilhlutverki. Í slíkum verkefnum hefur verið bent á að æskilegt sé að allar aðgerðir skili sjálfbæru umhverfi. Markmiðið er að finna leiðir til að viðhalda og endurheimta náttúrgæði án þess að skerða afkomu bóndans.“ 
 
Einnig segir að reynsla hafi sýnt að nýsköpun ýti undir efnahags- og samfélagslega sjálfbærni en mikilvægt sé að samfélagið sé opið fyrir innleiðingu á nýrri tækni  og að aukning í framleiðslu rýri ekki landslagseinkenni og náttúrugæði.
 
Verðmæta- og gæðaaukandi kerfi í stað framleiðsluhvetjandi
 
Áfram verður unnið að þróun verk­efnisins á þessu ári og er í skýrslunni lögð áhersla á að þróa fræðslu og ráðgjöf til bænda og skoða betur hvers konar verkefni koma til greina til að stuðla að betri samþættingu náttúruverndar og landbúnaðar við mismunandi aðstæður. Í seinni hluta skýrslunnar eru reifaðar hugmyndir um stefnu og framhald verkefnisins. „Landbúnaður er í eðli sínu frumframleiðsluatvinnugrein og löng hefð er fyrir að bændur selji áþreifanlegt hráefni sem notað er til frekari vinnslu matvæla og annarra neysluvara. Eins og fram hefur komið framar í þessari skýrslu þá er íslenskur landbúnaður að mestu leyti byggður á framleiðslumiðuðu stuðningskerfi og þ.a.l. hefur myndast löng hefð fyrir að þeir sem stunda landbúnað þurfi að framleiða eins og land þeirra býður upp á og jafnvel meir. Mikil hefð er fyrir að nýta land, rækta og skila af sér góðum afurðum. Þannig má færa rök fyrir að sú hugsun að stunda náttúruvernd og framleiða óefnislegar afurðir eins og t.d. bætt loftgæði eða viðhald á fjölbreytileika tegunda sé andstætt þeim kúltúr sem einkennir landbúnað hér á landi. Einnig eru bændur mjög háðir stuðningsgreiðslum sem myndar hvata til hámarksframleiðslu. Bændur hafa þó í gegnum tíðina verið duglegir að aðlagast breyttum aðstæðum. Má í því samhengi nefna þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum í heimavinnslu á afurðum og fjöldi bænda selur nú frá sér fullunnar vörur í stað hráefnis. 
 
Mögulega er hægt að tengja náttúruvernd þessari þróun með að tengja afurðir frá búi við verndaraðgerðir og önnur náttúruverkefni. Koma má þannig upp verðmæta- og gæðaaukandi kerfi sem er ekki eins framleiðsluhvetjandi og það sem nú er. Byggja má á upplýsingum úr grasrótinni og byrja á verkefnum sem bændur hafa á góða þekkingu og kunna t.d. uppgræðslu og endurheimt vistkerfa og tengja þeirri framleiðslu sem er á viðkomandi búum,“ segir í skýrslunni.
 
Fræðsla um tækifærin 
 
„Þegar búið verður að marka stefnu um framhald verkefnisins þarf að kynna niðurstöður og framhald vel fyrir bændum. Kynna þarf stefnur og kerfi sem vinna á eftir auk þess að varpa ljósi á þau tækifæri sem geta falist í hugmyndum,“ segir í skýrslunni.
 
Skýrsluna og upplýsingar um verkefnið má nálgast í gegnum vef RML, rml.is.
Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...

Bjórinn Naddi sló í gegn í London
Fréttir 28. maí 2024

Bjórinn Naddi sló í gegn í London

Fjórir íslenskir bjórar frá KHB brugghúsi á Borgarfirði eystra hlutu bresk bjórv...

Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Fréttir 27. maí 2024

Listeríusýkingar vaxandi vandamál

Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremu...

Göngustígar hjá Geysi
Fréttir 27. maí 2024

Göngustígar hjá Geysi

Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð ...

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Fréttir 27. maí 2024

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár

Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í...

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...