Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Aukin framlög til skógræktar og landgræðslu skapa mikil tækifæri fyrir bændur
Fréttir 20. september 2018

Aukin framlög til skógræktar og landgræðslu skapa mikil tækifæri fyrir bændur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Samkvæmt hugmyndum ríkis­stjórnarinnar á aukin skógrækt og landgræðsla að leika veigamikið hlutverk á aðgerðum til að auka kolefnisbindingu hér á landi á næstu árum og áratugum.

Í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands kemur fram að markmiðið með áætluninni sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið sín í loftslagsmálum. Alls verður 6,8 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum.

Í svari Skógræktarinnar við fyrirspurn Bændablaðsins um hvernig aðgerðaáætlunin líti við þeim segir:
„Við hjá Skógræktinni fögnum auðvitað þessari nýju áætlun enda höfum við talað fyrir því árum saman að skógrækt yrði aukin á ný, meðal annars til að auka bindingu landsins. Framlög ríkisins til skógræktarverkefna voru skorin niður um helming eftir hrun en meðan flest annað sem skorið var niður hefur jafnað sig aftur hafa skógræktarframlögin staðið í stað og heldur rýrnað þó með hækkandi verðlagi.
Nú hillir undir breytta tíma og við finnum strax fyrir miklum spenningi hjá skógræktarfólki, meðal annars skógarbændum og bændum sem ekki hafa stundað skógrækt til þessa. Margir hafa hringt í okkur og viljað velta fyrir sér möguleikunum sem þessi nýja staða gefur. Samkvæmt áætluninni má gera ráð fyrir að hægt verði að spýta verulega í lófana árið 2020 í bændaskógræktinni.“

Tækifæri fyrir bændur

Skógræktin segir að vænst sé aukins samstarfs Skógræktarinnar við Landgræðslu ríkisins. „Þegar er starfandi hópur forystufólks þessara tveggja stofnana sem leggur línurnar um samstarfið og nú er gullið tækifæri til að samræma aðgerðir og nýta til skógræktar svæði sem hafa verið grædd upp. Með samstarfinu verður betur hægt að skipuleggja skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis með hliðsjón af því hvar loftslagsávinningurinn er mestur í hverju tilviki.

Þarna sjáum við líka mikil tækifæri fyrir bændur og vonandi verða kolefnisverkefni til þess að styrkja stöðu bænda og byggðar í sveitum landsins. Bændur eru ræktunarfólk og hafa þekkingu og tæki sem þörf er á til þessara verkefna. Skógræktin vonar að þetta verði til þess að fjölga atvinnutækifærum til sveita og ef til vill geta kolefnisverkefni gert einhverjum bændum kleift að búa áfram sem sjá sér ekki lengur fært að halda áfram hefðbundnum búskap eða vilja minnka við sig. Fyrir skógrækt í landinu er mjög mikilvægt að sterk byggð verði áfram í sveitum landsins. Þörf er fyrir vinnuaflið bæði við landbótastarfið sjálft og í framtíðinni við að hirða um og nytja skóginn. Svo verður landið auðvitað betur fallið til hvers kyns landbúnaðar ef það er vel gróið og nýtur skjólsins og gróskunnar sem skóginum fylgir.“

Efla þarf trjáplönturæktina

„Fyrir Skógræktina sem stofnun þýða þessi auknu framlög að ráðast þarf í talsverða naflaskoðun. Vafalaust verða ýmis skógræktarverkefni endurskoðuð og þegar hafa komið upp vangaveltur um tegundaval, þéttleika gróðursetninga og fleira sem kynni að breytast þegar meginmarkmið skógræktar er kolefnisbinding. Þetta þýðir þó ekki að hætt verði að rækta skóga til timburnytja í framtíðinni. Þetta þarf að flétta saman eins og unnt er.

Svo þarf líka að rækta trjáplönturnar, bæði þær tegundir sem sáð er fyrir eins og lerki, furu, greni og birki en líka tegundir sem ræktaðar eru upp af stiklingum eins og ösp og víðitegundir. Við þurfum fræ og þessa dagana er einmitt verið að hvetja starfsfólk Skógræktarinnar til að fara út og tína fræ til að við eigum nóg í aukna ræktun. Áhyggjuefnið er hins vegar að gróðrarstöðvum sem sérhæfa sig í trjáplönturækt hefur fækkað. Nú þarf að örva þá atvinnugrein á ný. Þar er hlutverk stjórnvalda mikilvægt, að tryggja fullvissu um að staðið verði við aukninguna svo að gróðrarstöðvar fáist til að fjárfesta til komandi ára í mannvirkjum, búnaði og mannafla sem kann til verka.“

Áhersla á gjöfular tegundir

„Heyrst hefur að lögð verði áhersla á birkirækt í þessu nýja verkefni og gagnrýnisraddir hafa heyrst um að það sé ekki skynsamleg ráðstöfun enda bindi birkið ekki mikið. Þetta er á misskilningi byggt. Auðvitað verður megináherslan lögð á sem mesta bindingu og hvað varðar skógrækt verður án efa leitast við að rækta tegundir sem binda mikið. Þau verkefni fara fram á láglendi, meðal annars á löndum bænda en einnig á löndum í eigu ríkisins og á löndum sem Landgræðslan hefur þegar breytt úr auðnum í gróið land.
En mikilvægt er líka að efla gróðurvistkerfin ofar í landinu og þar vonum við að hægt verði að láta birkið breiðast út af sjálfu sér með þeirri hugmyndafræði sem notuð er í Hekluskógum. Þá er birki gróðursett í bletti eða „eyjar“ og reynt að efla landið í kring þannig að birkið geti dreifst í það. Þetta er mjög mikilvægt að gera á gosbeltinu því land sem gróið er kjarri eða skógi þolir miklu betur áföll vegna öskufalls í stórgosum en land sem einungis er vaxið lággróðri. Í þessum efnum er samstarf stofnana eins og Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og fleiri mikilvægt en einnig samstarf við bændur og aðra landeigendur.“

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...