Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Gunnar Kristinn Guðmundsson, bóndi á Göngustöðum, við glænýjan hollenskan mjaltaþjón af gerðinni Fullwood Merlin.
Gunnar Kristinn Guðmundsson, bóndi á Göngustöðum, við glænýjan hollenskan mjaltaþjón af gerðinni Fullwood Merlin.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 2. janúar 2018

Ákvað að slá til og byggja hátæknivætt og vandað fjós

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mikil gróska hefur verið í uppbyggingu kúabúa í Svarfaðardal. Þar er búið að reisa fjölmörg ný fjós og bændur eru hver af örðum að taka í notkun hátæknimjaltaþjóna. Þar er Gunnar Kristinn Guðmundsson, bóndi á Göngustöðum, engin undantekning.
 
Í byrjun desember byrjaði Gunnar að flytja kýrnar á bænum úr gamla fjósinu í nýtt og glæsilegt lausagöngufjós sem keypt var hjá Landstólpa. Þegar blaðamaður Bændablaðsins kom við á bænum í fyrri viku var Gunnar í óða önn að gera klárt fyrir kýrnar í fjósinu, en mörg handtökin voru þó eftir. Var hann m.a. að fara að taka inn glænýjan sköfu-róbot og setja upp flokkunarhlið og burðarstíur. Á veggi og gólf lét hann setja epoxy plastefni sem kemur til með að auðvelda öll þrif í fjósinu. 
 
Byggingartíminn aðeins hálft ár
 
„Ég held að þetta komi skemmtilega út þegar allt verður klárt,“ sagði Gunnar. 
„Það er frábært að gera þetta á svona stuttum tíma. Það var búið að gera grunninn kláran í lok apríl og ég ætlaði að byrja á þessu í maí en tafir urðu á teikningum. Það var svo sem ágætt, því þá gat ég klárað sauðburðinn áður en smiðirnir komu. Fyrsti smiðurinn kom hér 3. júní og við byrjuðum að steypa í mykjuhúsinu 6. júní. Svo var byrjað að mjólka hér í nýju fjósi þriðjudaginn 28. nóvember. 
 
Tekur við búinu af foreldrum sínum
 
Gunnar er smám saman að taka við rekstrinum á búi foreldra sinna, Guðmundar Gunnlaugssonar og Margrétar Gunnarsdóttur. Þau keyptu Göngustaði fyrir 41 ári. Þau hófu síðan framkvæmdir fyrir 38 árum til að hefja þar mjólkurframleiðslu. Byrjuðu þau frá grunni en þá var engin kýr á bænum. Keyptu þau 7 kvígur og hófu mjólkurframleiðslu í kjölfarið. Þar hafa þau síðan rekið hefðbundið básafjós með brautakerfi. Var stígandi í rekstrinum og ljóst undir það síðasta að ráðast þyrfti í miklar endurbætur ef halda ætti áfram. Sagði Gunnar að þá hafi líka komið til greina að hætta búskapnum alveg.
 
Einum hádegisverði frá því að hætta
 
„Það var einum hádegismat frá því að ég flytti í burtu og hætti. Málið snerist um að auglýsa þetta til sölu og fara, eða að fara í þessa uppbyggingu. Vorum við farin að búa okkur undir að hætta en létum lifa eitthvað af nautum meðan við kláruðum kýrnar út. Það var svo ákveðið að stökkva út í þetta og ég sé ekki eftir því í dag,“ segir Gunnar. 
 
Með 40 mjólkandi kýr og er að stækka stofninn
 
„Við erum með rétt rúmlega 40 kýr og í heild 110 nautgripi. Það er mikið af óbornum kvígum hjá okkur og svo hefur gengið vel að kaupa inn kvígur til að stækka stofninn. Ég á eftir að sækja 15 kvígur sem ég er búinn að kaupa og eiga að bera um og eftir áramót. Ég stefni á að vera með 64 mjólkandi kýr í húsi í byrjun mars,“ segir Gunnar. 
 
Hann segir að ótrúlega mikið hafi verið af lausum gripum til sölu að undanförnu og því gengið vel að fá kvígur. Hann sagði skýringuna frekar vera offramboð af kvígum frekar en að bændur séu að hætta í greininni.
 
„Að vísu tók ég 6 kvígur af bæ sem hætti í fyrra og ég er að fá þær inn núna.“
 
Kýrnar hugsi yfir nýrri tegund af mjaltaþjóni
 
Eitt af fyrstu verkunum við að koma kúnum fyrir í nýju og tæknivæddu lausagöngufjósi er að kenna þeim á græjurnar. Gunnari fórst það verk vel úr hendi og var m.a. að kenna kúnum á nýja mjaltaþjóninn. Kannski ekki skrítið að þær væru hugsi yfir tækinu, því þær höfðu örugglega ekki séð þessa tegund áður á nokkrum bæ í Svarfaðardal. 
 
Kaup á mjaltaþjónum líkt við trúarbrögð
 
„Við pössuðum okkur á því að vera örugglega ekki með eins „róbot“ og nágrannarnir,“ sagði Gunnar brosandi. Nágranni hans, aðeins neðar í dalnum, Karl Ingi Atlason á Hóli, var þá nýbúinn að benda blaðamanni á að ef menn vildu skoða þær tegundir sem í boði eru á mjaltaþjónamarkaðnum, þá væri best að skreppa í Svarfaðardalinn. Þar gætu menn séð allar tegundirnar á litlu svæði. Sagði hann að vissulega mætti líkja afstöðu bænda til vals á róbotum við trúarbrögð, svona líkt og þegar bændur taka ástfóstri við ákveðnar tegundir af dráttarvélum. Gunnar var ekki frá því að nokkuð væri til í þeirri skýringu nágrannans.   
 
Átta mjaltaþjónar komnir í Svarfaðardal á þrem árum
 
Á þrem árum hefur tæknin heldur betur haldið innreið sína í Svarfaðardalinn með innleiðingu mjaltaþjónanna. Fljótlega voru komnir þrír á bæi í dalnum og nú á einu ári hafa verið settir upp fimm til viðbótar. Þar má sjá allar tegundirnar sem í boði eru hérlendis. Það eru Lely mjaltaþjónar frá VB landbúnaði ehf., Delaval frá Bústólpa ehf., GEA frá Líflandi ehf. og Fullwood Merlin frá Landstólpa ehf. 
 
Á Hóli hjá Karl Ingi Atlasyni er nýlegt fjós og Delaval róbot og á Búrfelli austan við ána gegnt Hóli er verið að byggja nýtt fjós sem kemur frá BYKO. Þar kemur væntanlega enn einn mjaltaþjónninn. Hjá Sveini Kjartani Sverrissyni á Melum, sem líka er austan ár var settur upp GEA róbot sem tekin var í notkun í haust. Þá var líka tekinn í notkun nýr róbot hjá Trausta Þórissyni á Hofsá neðar í austanverðum Svarfaðardal seinnipartinn í haust. Hjá Gunnsteini Þorgilssyni bóndi á Sökku verður svo tekin í notkun enn einn mjaltaþjónninn eftir áramótin. Þá er einnig verið að byggja upp hjá Þorleifi Kristni Karlssyni á Hóli á Upsaströnd, skammt norðan við Dalvík og við mynni Svarfaðardal. Verða þá líklega aðeins þrjú kúabúa eftir í Svarfaðardal áður en langt um líður sem ekki eru með róbot. 
 
Með Fullwood mjaltaþjón og mjólkurkæli
 
Mjaltaþjónninn hjá Gunnari er glænýr hollenskur „róbot“ af gerðinni Fullwood Merlin sem Landstólpi er með umboð fyrir. Fyrsti róbotinn af þeirri gerð hér á landi var settur upp í september hjá Erni Óla Andréssyni á Bakka í Víðidal. 
 
„Við erum líka með 5.000 lítra Fullwood Packo mjólkurtank sem er með ískæli. Hann er líka frá Landstólpa og er eini mjólkurtankur sinnar tegundar á Íslandi. Hann virkar þannig að í neðri hlutanum er vatn sem er við frostmark.“
 
Samkvæmt upplýsingum frá Landstólpa fer mjólkin frá mjaltaþjónum fyrst í gegnum forkæli sem kældur er með neysluvatni. Þaðan fer mjólkin í gegnum forkæli númer tvö sem tilheyrir mjólkurkælinum, en í gegnum hann rennur 0 gráðu heitt vatn úr kælitanknum sem kælir mjólkina niður í 7 gráður. Síðan fer vatnið í hringrás um tankinn og heldur hitastiginu stöðugu í 7 gráðum. Þessi tankur á að gefa betra geymsluþol og halda fitusýru niðri auk þess sem ekki á að vera hætta á að það frjósi í tanknum. 
 
„Ástæðan fyrir kaupunum á þessum Fullwood mjaltaþjóni og Fullwood Packo mjólkurtank, er að ég keypti húsið af Landstólpa. Þeir buðu mér til Hollands til að skoða Fullwood róbot sem mér leist vel á. Fyrst ég var að taka húsið, innréttingar og allt annað frá Landstólpa, þá fannst mér liggja beinast við að klára dæmið og taka líka allt annað í fjósið frá þeim. Þessi róbot mjólkar eins og allir hinir. Það er því allt sem kemur hér ofan á steypu frá Landstólpa.“  
 
Heldur sauðfé sem áhugamál
 
Gunnar Kristinn segist hafa það fyrir áhugamál fyrir utan kúabúskapinn að halda sauðfé. 
 
„Ég er með 240 kindur á fóðrum. Menn hafa verið að gera grín að mér fyrir að vera með kindur. Ég segi á móti að þetta sé eins og að vera með hesta. Þetta er mitt áhugamál í stað þess að vera með hesta, en þetta er vissulega ekki að skila miklu til búsins. Ég hugsa að það hafi vantað 1,2 milljónir upp á reksturinn á sauðfénu nú í haust miðað við það sem við fengum í fyrra vegna afurðaverðsverðlækkunar. Það er því alveg ljóst að það er ekki hægt að vera eingöngu með sauðfé.
 
Það leiðinlega í þessari stöðu er að líklega deyja mörg af þessum flottu sauðfjárbúum fyrir vestan og í Þistilfirðinum sem hafa verið að gera mjög góða hluti í ræktunarmálum. Þar hafa margir verið í sauðfjárbúskap af miklum metnaði,“ segir Gunnar Kristinn Guðmundsson. 

4 myndir:

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...