Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bakkakotskindur í vænni töðu.
Bakkakotskindur í vænni töðu.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 2. mars 2016

Áhrif heygæða á afurðir og heilsufar sauðfjár – grein 1: yfirlit

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson
Þessi grein og fleiri með sömu yfirskrift sem ætlunin er að birtist hér í Bændablaðinu á næstu vikum eru skrifaðar í tilefni af óvenju miklum vanhöldum sauðfjár á vissum landsvæðum veturinn 2014-15. Fóðrun, heilsufar og afurðir tengjast á marga vegu og verður leitast við að skýra það samhengi. 
 
Þessi fyrsta grein verður yfirlit um viðfangsefnið en síðari greinar munu taka betur fyrir afmarkaðri hluta þess. Lesendur ættu ekki að reikna með að hér verði sett fram ein allsherjar kenning um ástæður vanhalda. En vonandi fræða þessi skrif eitthvað bæði um sértæk og almenn atriði er snerta fóðrun sauðfjár til góðra afurða og heilsufars.
 
Áhrif veðurfars á heyskapartíma á fóðurgildi gróffóðurs
 
Þegar jarðrækt og fóðuröflun er eins og best verður á kosið, getur heimaaflað gróffóður og beit farið mjög langt með að uppfylla allar fóðurþarfir á íslenskum sauðfjárbúum. Það sem helst þyrfti þá að huga að væri að uppbót á vissum steinefnum, snefilefnum og vítamínum, og mögulega einhver viðbót í formi kjarnfóðurs af orku og próteini á síðustu vikum meðgöngu og fyrst eftir burð, þar til féð er komið á næga og góða beit.
 
Séu skilyrði til gróffóðuröflunar ekki með besta móti, verður framleiðslugildi gróffóðursins (fóðrunarvirði) undir væntingum, og afleiðingarnar geta orðið bæði skertar afurðir og lakara heilsufar fjárins. Gott dæmi um erfið heyskaparskilyrði var einmitt sumarið 2014, þegar saman fóru  hlýindi, vætutíð og sólarleysi vikum saman. Veltum aðeins fyrir okkur hvaða áhrif þetta hefur á gæði og þar með fóðrunarvirði gróffóðursins:
 
Þegar saman fara raki og hlýindi spretta grös hratt, tréna hratt, og fóðurgildið fellur því hratt.  Styrkur orku, próteins og sumra steinefna í grösunum fellur hraðar en í meðalári og því væri æskilegt að slá snemma til að fóðurgildið verði ekki of lágt.
 
En rigning tefur fyrir slætti og verkun, þegar þurrkdagarnir loks koma er grasið orðið úr sér sprottið og/eða hrakið. Svo að jafnvel þó að hægt sé að bjarga miklu fóðri á stuttum tíma með nútíma heyskapartækni er hráefnið það lélegt að fóðurgæðin verða mun minni en almennt er stefnt að.
Sólarleysi veldur því að sykruinnihald grasanna verður lágt. Hátt sykruinnihald er einn af þeim þáttum sem skiptir hvað mestu máli varðandi góða niðurstöðu úr votheysverkun. Þegar það fer saman að sykruinnihaldið er lágt og óvenju mikil þörf á að votverka heyið þá verður verkunin ekki sem best. Hlutfall óæskilegra efna eins og ammóníaks og smjörsýru verður hátt í fóðrinu eftir verkun. 
 
Nokkuð er af D-vítamíni í gróffóðri sem þurrkað er í sól en lítið D-vítamín er að fá úr gróffóðri sem verkað er í óþurrkum og sólarleysi. Útfjólubláir geislar sólar virkja forstigsefni D-vítamíns í húð, þannig að birgðastaða D-vítamíns í líkama dýra er einnig slök eftir sólarlaus sumur miðað við þau sólríku. Á innistöðunni þarf D-vítamínið að koma úr líkamsforða og/eða fóðri. Af þessum sökum er mikil hætta á D-vítamín-skorti eftir sólarlaus sumur, og þarf að bæta upp með viðbótarfóðri.
 
Fóðrunarvirði gróffóðursins er margfeldi fóðurgildis og áts
 
Algengasti mælikvarðinn á fóðurgildi er orkustyrkurinn, mældur sem fóðureiningar (FEm) í hverju kg þurrefnis (þe). Því hærra gildi á þessari stærð (FEm/kg þe), því meiri nýtanleg orka (nettóorka) í hverju kg þe af fóðrinu. 
 
Átgeta fullorðinna íslenskra áa í tilraunum hefur oftast verið á bilinu 1,4 til 1,9 kg þe/dag yfir vetrartímann en fer í 2,0–2,5 kg þe/dag fyrst eftir burð og trúlega um og yfir 3 kg þe/dag á beit fyrri hluta mjólkurskeiðsins. Fóðurgæðin hafa veruleg áhrif á átgetuna, því meiri sem þau eru, því meira verður átið. Þarna koma bæði orkugildi og verkunarþættir við sögu. Við gjöf á þurrheyi eða þurrlegu rúlluheyi mestan part vetrar (ekki þó eftir burð) má nota eftirfarandi þumalputtareglu um gróffóðurát hjá fullorðnum ám: 
Gróffóðurát, kg þe/dag = 2 x orkustyrkur (FEm/kg þe)
 
Taka verður fram að þessi formúla gefur aðeins grófa nálgun, hún er lauslega byggð á niðurstöðum ýmissa tilrauna.  Niðurstöður fengnar með þessu móti má sjá í 1. töflu:
 
Orkuþarfir tvílembu í lok meðgöngu eru um 1,45 FEm/dag, og úr töflunni má lesa að besta heyið (0,85 FEm/kg þe) þarf til að uppfylla slíkar orkuþarfir. Sé aðeins í boði hey með orkustyrk 0,70 FEm/kg þe innbyrðir ærin 0,47 FEm/dag minna. Það þýðir að ærin þarf að tálga af sér ca. 85 g á dag af fitu. Nánar síðar um áhrifin af því. 
 
Áætlað át skv. 1. töflu miðast við þurrt eða þurrlegt hey, sem er mjög nálægt hráefninu (grasi) að efnasamsetningu. Sauðfé étur þurrt hey betur en votverkað.  Samanburður á áti áa yfir vetrartímann á þvölu og þurrlegu rúlluheyi sýndi mun á áti sem nam 9% fyrri hluta vetrar en 15% á vormánuðum, þurrlega rúlluheyinu í vil (Bjarni Guðmundsson, 1996).  Munur í áti milli þurr- og votverkaðra heyja verður meiri eftir því sem verkun votheysins er lakari. Og eins og áður var vikið að verður verkunin lakari eftir því sem hráefnið er lakara.
 
Af öllu þessu má ráða að þegar saman fer að grös eru úr sér sprottin og verkunarskilyrði slæm getur orkujafnvægi áa orðið verulega neikvætt þegar líður á meðgönguna, einkum ef eingöngu er treyst á gróffóður.
 
Gjafatækni
 
Aðferð eða tækni við fóðrun getur haft nokkur áhrif á gróffóðurátið. Sjálffóðrun á gjafagrindum er orðin mjög útbreidd aðferð í íslenskum fjárhúsum og hefur sparað bændum mjög mikinn tíma og bakraunir síðustu 15-20 árin. Þegar heygæði eru eðlileg fóðrast fé vel  með þessari aðferð að því gefnu að í það minnsta þriðjungur fjárins hafi aðgang að fóðrinu á hverjum tíma og að grindin sé ekki látin standa tóm nema í örstuttan tíma á milli gjafa. Eftir því sem heygæði eru lakari reynir meira á að:
 
a) Flokka fé í fóðrunarhópa þannig að yngra féð og gamalær fái aðgang að jafnbetra heyi en ær á besta aldri.
b) Að stilla grindurnar nægilega oft þannig að aðgengi fjárins að fóðrinu sé sem best.
c) Að fjarlægja moð og grófa stöngla úr grindunum reglulega, ekki bara þegar ný rúlla er sett inn. 
 
Í fjárhúsum með gjafagrindum er aðstaða til kjarnfóðurgjafar víða af skornum skammti. Það er nokkuð sem þarf að reyna að bæta úr og er efni í sérstakt þróunarverkefni að prófa og kynna góðar lausnir í þessu sambandi.
 
Efnaskiptasjúkdómar eru afleiðing af ójafnvægi milli næringarefnaþarfa og fóðrunar
 
Dæmi um efnaskiptasjúkdóma í sauðfé:
  • Doði– truflun á efnaskiptum kalsíum (Ca) – stundum vegna D-vítamínskorts, þar sem D-vítamín er nauðsynlegt í Ca-efnaskiptum. Offóðrun á Ca um miðjan vetur getur einnig valdið doða, þá verður nýting þess smám saman lakari þegar líður að burði og þarfirnar aukast. 
  • Graskrampi – truflun á efnaskiptum magnesíum (Mg), t.d. vegna of mikils styrks kalí (K) í beitargróðri, sem truflar upptöku Mg.
  • Fóstureitrun (súrdoði)  - skortur á orku/ glúkósa. Sjá nánari umfjöllun síðar í greininni.
  • Of lítil broddmjólkurmyndun vegna ófullnægjandi næringar móður; leiðir af sér skort á næringarefnum og mótefnum sem aftur hefur í för með sér auknar líkur á bæði efnaskipta- og smitsjúkdómum hjá lömbum.
 
Það er samhengi milli efnaskorts og sjúkdóma af völdum smits og sníkjudýra
 
Mótefnastaða og þar með líkur á smitsjúkdómum er mjög tengt næringarástandi. Nokkur dæmi um slíkt samspil:
  • Samhengi er milli tíðni júgurbólgutilfella og ójafnvægis í snefilefnastöðu.
  • Skortur á próteini í fóðri getur valdið auknu tjóni af völdum ormasýkinga.
  • Ef næring er ekki í nægilegu jafnvægi við þarfir verður mótefnastaða lakari og líkur aukast að mun á skaða af völdum ýmissa smitsjúkdóma sem ekki næðu sér á strik við eðlilegar aðstæður þó svo að smitefnið væri fyrir hendi. 
Nokkur efni í fóðri sem hafa áhrif á mótefnastöðu:
 
Mörg efni hafa áhrif á ýmsa mælikvarða mótefnastöðu í búfé, þar á meðal vissar amínósýrur og fitusýrur (t.d. línólsýra), hin fituleysanlegu A-, D- og E- vítamín, hin vatnsleysanlegu C- og B-vítamín (am.k. fólínsýra, B6 og B12) og snefilefni á borð við zink, kopar, járn, selen, króm og kóbalt. Í gegnum tíðina hafa zink og E-vítamín verið hvað mest rannsökuð í þessu sambandi, en sameiginleg virkni selens og E-vítamíns er einnig þekkt t.d. varðandi mótstöðu gegn júgurbólgu. Á síðari árum hafa komið fram ýmsar rannsóknir sem sýna mikilvægi D-vítamíns fyrir ónæmiskerfið. Þó að líkur bendi til að meira og minna sömu efnin séu mikilvæg fyrir ónæmiskerfið í mismunandi tegundum spendýra, hefur kerfi meltingar og efnaskipta í ólíkum dýrategundum nokkuð um það að segja hver þessara efna þurfa að koma beint úr fóðrinu. Jórturdýr framleiða sjálf C-vítamín og örverur vambarinnar sjá skepnunni fyrir nægu af B- vítamínum og helstu amínósýrum.
 
Samspil efna varðandi mótefnastöðu er oft flókið. Framangreind upptalning efna gefur aðeins hugmynd um mikilvægi þeirra. Um mörg efnanna (þó ekki öll) gildir að bil á milli skortsmarka (lágmark) og eiturmarka (hámark) í fóðri er býsna breitt og því oft ódýrara að gefa nokkuð ríflega af þessum efnum en að eiga hættu á að þau skorti. Leiðirnar til að koma þessum efnum í gripina eru margar og misdýrar. Mörg þessara efna er að finna í nægum mæli í góðu gróffóðri. Til þess að átta sig á þörf á aðkeyptum efnum á einhverju formi er æskilegt að þekkja innihald gróffóðursins.  Þegar gróffóðurgæði af einhverjum ástæðum eru með lakara móti er sérstök ástæða til að huga að þessum þáttum. 
 
Veikburða einstaklingar þola verr léleg heygæði
 
Ær með lausar tennur eða jaxlavandamál geta verið fljótar að dragast aftur úr í fóðrun.  Aðrar ástæður eins og fótavandamál, eða bara elli, geta leitt til þess að kindur eru ekki alveg samkeppnisfærar. Ef svona kindur eru teknar sér og settar á betra hey og gjarnan kjarnfóður með er oft hægt að fóðra þær ágætlega svo framarlega að önnur og alvarlegri vandamál standi þeim ekki fyrir þrifum. Tíðni svona tilvika fer vaxandi þegar fóðurþarfir aukast eftir því sem líður á meðgönguna, sérstaklega þó ef hey eru gróf, ólystug og orkusnauð.
 
Sauðfé er minna viðkvæmt fyrir beinum meltingartruflunum en nautgripir
 
Það liggur að hluta til í því að mikil kjarnfóðurgjöf sem oft er orsakavaldur meltingartruflana hjá nautgripum er ekki algeng hjá sauðfé. Hins vegar er sauðfé viðkvæmara en nautgripir fyrir meltingarsjúkdómum af völdum smits, svo sem af völdum Clostridium gerla (bráðapest, garnaeitrun o.fl.)
Skipti á milli gróffóðurgerða eru ekki sérlega áhættusöm hjá sauðfé, svo lengi sem heildarfóðrunin byggir á að uppfylla heildarþarfir fjárins eins vel og hægt er. Þannig á að vera í góðu lagi að gefa orkuríkt og orkusnautt fóður saman, t.d. í sitthvort málið ef gefið er á garða eða í sitthvorn endann á gjafagrindinni ef um sjálffóðrun er að ræða. Þetta gengur vel upp (líka á gjafagrind) ef hvorttveggja fóðrið er sæmilega lystugt. Þar ræður hráefnið (grastegundin) miklu um hvernig til tekst.
 
Sauðfé er viðkvæmara fyrir efnaskiptasjúkdómum fyrir burðinn en minna viðkvæmt eftir burðinn en nautgripir.
 
Góð dæmi um þetta eru doði og súrdoði, hvort tveggja er algengara eftir burðinn hjá kúm en fyrir burðinn hjá sauðfé, þar sem súrdoðinn heitir reyndar meðgöngueitrun (pregnancy toxemia/twin lamb disease). 
 
Hvað er meðgöngueitrun?
 
Ástæður þessa efnaskiptasjúkdóms eru hratt vaxandi orkuþarfir á síðustu vikum meðgöngu og eftir burð, sem næst sjaldnast að mæta fyllilega með fóðri. Því meira (neikvætt) bil sem er á milli þarfa og fóðrunar, því meiri hætta! Orkusnautt og ólystugt gróffóður er uppskrift að þessu vandamáli, fleira getur þó ýtt undir, svo sem: snöggar fóðurbreytingar; óregluleg fóðrun, ormasýkingar, hnjask og rask af ýmsu tagi.
 
Meginvandamálið er skortur á glúkósa (blóðsykri) en glúkósi er nauðsynlegur m.a. fyrir heilastarfsemina, mjólkurmyndun og ekki síst fyrir fóstrin, sem hafa forgang á glúkósann og því er líklegra að ærin lendi í glúkósaskorti heldur en lömbin. Glúkósaskortur leiðir til aukins fituniðurbrots, sem skaffar bæði fitusýrur til brennslu og glyseról til glúkósanýmyndunar; sem fer fram í lifrinni. Hratt fituniðurbrot leiðir til uppsöfnunar á ketónefnum í blóði og þvagi, sem veldur lækkuðu sýrustigi (pH), með eituráhrifum á borð við andnauð, truflanir í miðtaugakerfi, ofþornun og skerta meðvitund. 
 
Hratt fituniðurbrot leiðir einnig til uppsöfnunar á fitu í lifur (fitulifur) sem getur tekið langan tíma að jafna sig og veldur almennri truflun á starfsemi lifrarinnar og þar með ýmsum mikilvægum efnaskiptaferlum.
Glúkósaskortur (blóðsykurfall) veldur truflunum í heila/miðtaugakerfi. Ærnar verða daufar, fjarlægar, drepast innan 10 daga án meðhöndlunar. Meðhöndlun felst í því að gefa propylen glycol og saltlausn, einnig getur verið ráð að kalla til dýralækni til að fjarlægja lömb með með keisaraskurði.
 
Ær sem hafa verið vel feitar á miðri meðgöngunni en leggja hratt af á síðustu vikum meðgöngunnar eru hvað líklegastar til að verða fyrir meðgöngueitrun. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að geta gefið betra fóður á síðasta hluta meðgöngunnar til að dempa fallið í orkujafnvæginu eins og hægt er.
 
Ef orku-/glúkósaskortur er jafn og langvinnur, eins og líklegt er þegar gróffóðurgæði eru mjög jafnléleg stóran hluta vetrar, þá er ekki líklegt að fitulifur myndist, vegna þess að fituniðurbrotið er hægara. Glúkósaskorturinn sem slíkur hefur hins vegar sömu afleiðingarnar að öðru leyti, þ.e. truflun á miðtaugakerfi, mjólkurmyndun o.fl. Það fer svo eflaust eftir því hve langt þetta ferli gengur hvort einstakir gripir ná að jafna sig að fullu þegar betri tíð kemur. Hætt er við að erfið tíð vorið 2015 hafi gert útslagið með að sumar ær náðu því ekki þá þó að þær hefðu átt möguleika á því í betri vorum.
 
Áætlanir og greining vandamála
 
Til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum lélegra heyja þarf að beina sjónum að því hvernig við getum gert heyin betri, jafnvel í óþurrkasumrum. Það er efni í annan pistil. En þegar haustið kemur hverju sinni þá verður að vinna út frá þeim heyforða sem til er. Jafnframt má fullyrða að reglulegt eftirlit og árvekni geti fyrirbyggt mörg vandamál. Hér verða nefnd nokkur atriði sem vert er að hafa í huga. 
 
Skráning á uppskeru í gegnum vefforritið jord.is sem mjög margir bændur hafa aðgang að er einföld í framkvæmd og gefur gott yfirlit um heyforðann ef skráningin er vönduð. Þarna er gert ráð fyrir að flokka heyforðann eftir gæðum. Slíkar upplýsingar er síðan hægt að nýta við áætlanir um fóðrun vetrarins. 
Efnagreiningar á heyinu hjálpa til við að gera sér enn betur grein fyrir gæðum heyjanna heldur en hægt er að gera út tilfinningunni einni saman, þó hún skuli ekki vanmetin. E.t.v. má líka segja að efnagreiningarnar hjálpi mönnum smám saman til að fá betri tilfinningu fyrir heygæðunum. 
 
Til að skráning heyforðans og efnagreiningar komi að sem bestu gagni er mikilvægt að raða heyforðanum til vetrargeymslu á sem skipulegastan hátt. Ekki er verra að hafa einhverja hugmynd um það þegar sú röðun fer fram hvaða hey er líklegt að verði gefið hvaða hópi á hvaða tíma. Þegar þessi röðun fer fram væri gott ráð að taka til hliðar t.d. 2 rúllur af hverri heytegund og hafa aðgengilegar til að taka úr þeim sýni að haustinu, til að senda í efnagreiningu. Jafnvel mætti prófa að gefa þessar prufurúllur fljótlega að haustinu til að fá betri tilfinningu fyrir því hvort heygæðin standast væntingar. 
 
Ótvíræðasti mælikvarðinn á fóðurgildi heyjanna er hvernig féð þrífst af þeim. Glöggt fjármannsauga meðtekur töluverðar upplýsingar um það, en til að styrkja það mat og sannreyna er vigtun ágæt aðferð. Í fjárræktarfélögunum var á árum áður gjarnan haft það vinnulag að vigta féð þrisvar á vetri. Slíkar vigtanir lögðust smám saman af á flestum bæjum, mögulega hafa menn haft minni áhyggjur af fóðruninni eftir að heygæði bötnuðu almennt með bættri heyskapartækni. 
 
Það kann að hafa verið afturför.  Hér skal a.m.k. hvatt til þess að nota fjárvigtina oftar en bara að haustinu. 
 
Ef vigtað er þrisvar á vetri væri líklega rökrétt að fyrsta vigtun væri við ásetning og flokkun ánna að haustinu, um það leyti sem féð væri tekið inn. Önnur vigtun væri svo hæfilega tímasett í janúar/febrúar, eftir að fengitíð er vel um garð gengin. Flokkun ánna í fóðrunarhópa væri endurskoðuð með hliðsjón af þeirri vigtun og með tilliti til niðurstaðna úr fósturtalningu. Þriðja vigtunin væri svo eðlilegt að færi fram u.þ.b. mánuði fyrir burð, þ.e. nógu snemma til að hún valdi ekki óþarfa hnjaski. Þessi vigtun ætti að gefa góðar vísbendingar um áherslur í fóðruninni á síðustu vikum meðgöngunnar.
 
Hvaða aðferðir sem notaðar eru þá er mikilvægt að fylgjast með bæði hjörðinni sem heild og einstökum gripum.  Fjöldi vandamálatilfella geta gefið vísbendingar um það í hvaða átt hjörðin í heild er að stefna. 
 
Lokaorð
 
Vetrarfóðrun sauðfjár hérlendis byggist að langstærstum hluta á heimaöfluðu gróffóðri.
Ræktunarmarkmið fyrir íslenska sauðfjárstofninn felur í sér að stefnt er að tveimur vænum lömbum eftir hverja fullorðna á og einu slíku eftir hverja lambgimbur. Til að gróffóður og beit standi undir þessum væntingum þarf árangur í jarðrækt og fóðuröflun að vera framúrskarandi góður. Sveiflur í veðurfari og fleiri þáttum gera þetta reikningsdæmi nokkuð snúið en jafnframt áhugavert. 
 
Við höfum í dag ýmsar aðferðir til að búa okkur sem best undir slíkar sveiflur, og við þurfum að nýta þær markvisst til að árangurinn verði sem jafnastur og bestur. Þessi pistill og aðrir sem á eftir koma verða vonandi innlegg í það mál. 
 
Jóhannes Sveinbjörnsson, Landbúnaðarháskóla Íslands
 
Helstu heimildir:
Árni B. Bragason, 2013. Sjúkdómar og sauðfé. 10. kafli (bls. 192-224) í: Sauðfjárrækt á Íslandi. Uppheimar 2013.
Bjarni Guðmundsson, 1996. Verkun heys í rúlluböggum handa ám. Rit búvísindadeildar nr. 17. Bændaskólinn á Hvanneyri.
Morgante, M., 2004. Digestive disturbances and metabolic- nutritional disorders. Kafli 10 í Dairy Sheep Nutrition (ritstj. G. Pulina & R. Bencini). Cabi Publishing.

6 myndir:

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...