Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Í aðdraganda kosninga: landbúnaðaráherslur framboðanna
Mynd / ghp
Fréttir 24. september 2021

Í aðdraganda kosninga: landbúnaðaráherslur framboðanna

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði í alþingiskosningum næstu helgi virðast vera frekar sammála þegar kemur að nokkrum meginaðgerðum landbúnaði í hag á komandi kjörtímabili.

Þau vilja öll beita sér fyrir skilvirkum leiðum til að bændur geti tekið virkan þátt í verkefnum tengdum loftslagsmálum. Öll vilja þau styðja betur við landbúnaðarrannsóknir og tæknivæðingu í landbúnaði, auka jarðrækt og lækka verð á raforku til garðyrkjubænda og flest nefna breytingu á styrkjaumhverfinu sem forsendu fyrir bættum hag bænda.

Þetta kom meðal annars fram í viðtölum við fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningar 2021 á landsvísu og nálgast má á Hlöðunni, hlaðvarpi Bændablaðsins. Allir viðmælendur fengu sendan sama spurningalista með 15 spurningum. Svör þeirra endurspegla þær stefnur og skoðanir sem þau og þeirra flokkur ætla að beita sér fyrir á næsta kjörtímabili.

Hægt er að hlusta á þættina hér.

Hér verður tæpt á svörum viðmælenda við spurningum um hvaða aðgerðum, bændum í hag, framboðin hyggjast beita sér fyrir á næsta kjörtímabili.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi

Sóknarfæri eru mörg og við styðjum við nýsköpun framsækinna og hugmyndaríkra bænda. Á hinn bóginn er það staðreynd að við búum í fámennu og harðbýlu landi þannig að landbúnaður mun alltaf þurfa stuðning, eins og raunin er í kringum okkur.


Við eigum að líta á styrki til bænda eins og laun annarra stétta sem hlúa að framtíðinni, eins og t.d. kennara, hjúkrunarfræðinga og listamanna.


Við eigum ekki að horfa á þetta eins og bændur séu einhver baggi á samfélaginu. Það er ekki rétt. Þeir eru að vinna fyrir okkur. Þeir eru að tryggja okkur matvæli.


Við viljum að búvörukerfið verði endurskoðað frá grunni, þannig að afurðaverð skili sér til bænda mun betur en nú er. Það er vinna sem bændur þurfa að koma að í samvinnu við ríkið. Það hlýtur að vera allra hagur að framleiðsluverð með sanngjarnri álagningu bænda skili sér til neytenda án þess að milliliðir maki krókinn um of. Fækkun milliliða er augljós leið til að lækka verð til neytenda.


Flokkur fólksins leggur áherslu á samvinnu við bændur í öllum aðgerðum sem snúast um landbúnað og kjör þeirra. Það þarf að efla og styðja við nýsköpun í landbúnaði í nánu samráði við bændur sjálfa. Einnig þarf að tryggja samfellu í verði til bænda þannig að stéttin búi við stöðugleika. Svo þarf að lækka orkuverð til bænda. Orkuverð til bænda á aldrei að vera hærra en orkuverð til stóriðjunnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi

Það liggja tækifæri í því að hætta að líta á loftslagsvanda sem vanda landbúnaðar og landnýtingar heldur sjá sóknarfæri þar, auka tekjur landbúnaðarins og byggða um allt land í gegnum þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til.

Við viljum breyta lögum um samkeppnisumhverfi og auka heimildir til frelsi til athafna. Jafnframt að koma til með einhvern nýstárlegan öðruvísi stuðning við fjölbreyttari landnýtingu og landnot í því skyni að bæði kolefnisbinda en líka framleiða vöru sem skortur er á á Íslandi. Heimila þarf afurðastöðvum aukið samstarf í anda þess sem er hjá mjólkurframleiðendum og að frumframleiðendur hafi meiri rétt til samstarfs og samvinnu. Heimila þarf athafnafrelsi fyrir bændur í kjötgeiranum, heimila slátrun og vinnslu að undangengnum ákveðnu áhættumati og hugsanlega námskeiðum og leyfum.


Við stefnum að því að segja upp tollasamningnum við Evrópu­sambandið vegna forsendu­brests. Annars vegar vegna þess að við á Íslandi höfum eiginlega ekki nýtt neitt af þeim sóknarfærum sem landbúnaðurinn sóttist eftir þegar samningurinn var gerður upphaflega og hins vegar sú staðreynd að Bretland er farið út, með sín 15% af markaðnum. Núverandi ríkisstjórn kallaði eftir endurskoðun á samningnum, en til þess að draga Evrópusambandið að borðinu þá verðum við að segja honum upp. Það er það sem við ætlum að gera.

Guðmundur Franklín Jónsson, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður

Ég er búinn að marka mér skýra stefnu hvað þarf að gera peningalega séð. Mér finnst bændur ekki fá nógu mikið fyrir vinnuna sína.

Ég vil koma upp sjóði og hafa hann inni í Seðlabankanum og innkalla allar skuldir bænda, alveg sama hvar þær eru. Þeir geta komið með allar skuldir inn og við umpökkum þeim í lán sem eru mun ódýrari á miklu lægri vöxtum, bara um 1% og óverðtryggð.

Við erum með svo stórt lífeyrissjóðskerfi, þar eru 6.200 milljarðar kr. og þá vantar fjárfestingar á Íslandi. Seðlabankinn gæti selt þessi skuldabréf til lífeyrissjóðanna, öll í einum pakka. Bændur gætu farið inn í þennan sjóð og fengið ódýrari lán á lágum vöxtum, óverðtryggðum og fengið eins og þeir þurfa. Þannig að þessi sjóður yrði stór og mikill og ríkið yrði að koma með mótframlag
í hann.


Ég vil draga úr milliliðunum en til þess að byrja með þá myndum við auka framlög til bænda um 10-20% sem færi beint á lögbýlin sem þyrftu þá aámóti að skapa t.d. eitt ársverk. Mikilvægt er að bændurnir sem búa á lögbýlunum myndu algjörlega ráða því í hvað þeir myndu nota peningana.

Erna Bjarnadóttir, 2. sæti í Suðurkjördæmi fyrir Miðflokkinn

Það þarf með einhverjum ráðum að auka tekjur margra bænda. Ég horfi fyrst og fremst til þess að taka til í tollverndinni og milliríkjasamningum.


Það þarf að stoppa í tollverndina hér og þar, tollar á kjöti voru lækkaðir gagnvart Evrópusambandinu um 40% árið 2007 og þetta er komið þangað að hún varla heldur lengur. Aðgangsheimildir í formi tollfrjálsra kvóta fyrir Evrópusambandið inn á íslenskan markað eru hlutfallslega margfaldar á við það sem íslenskir bændur hafa inn á markað Evrópusambandsins. Þetta tel ég að þurfi að taka allt til endurskoðunar.


Síðan er fjölmargt sem þarf að líta á gagnvart landbúnaði hér innanlands. Það eru mjög áhugaverð verkefni í gangi hjá BÍ varðandi loftslagsmál og bindingu kolefnis. Þar eru tækifæri fyrir íslenska bændur sem stjórnmálin og Alþingi þurfa að styðja við. Síðan þarf að kynna gæði íslenskra landbúnaðavara, taka á í innkaupastefnu hins opinbera þannig að íslenskur landbúnaður fái réttar áherslur þar. Hægt er að skapa bændum ný tekjutækifæri t.d. með kolefnisbindingu og öðru því tengt. Þar þarf ríkið að koma til aðstoðar, skilgreina markmið, skilgreina hvernig binding fer fram, þannig að bændur geti aflað sér tekna sem eru með viðurkenndum aðferðum.

Magnús D. Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi

Það mætti hugsa sér að lögfest sé einhver lágmarksframfærsla bænda og þeirra sem vinna í landbúnaði, í ætt við borgaralaun.Við viljum leggja mikla áherslu á nýsköpun.
Við þurfum að auka frelsi þannig að bændur geti gert annað og meira en nú er gert, en samt sem áður fengið styrki til þess. Við sjáum bara hvað er verið að gera utan styrkjakerfis í dag, þar sem bændur eru í berja- og baunarækt, kornrækt, rækta hunang og hamp. Alls konar svið nýsköpunar í landbúnaði eru því utan styrkjakerfis. Ef við hugsum okkur að þetta væri allt inni í því kerfi þá væri hægt að sjá mikla framþróun í þessum iðnaði, okkur öllum til heilla.
Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Við höfum engan áhuga á að draga úr fjárframlögum til landbúnaðar á Íslandi en teljum tímabært að ráðast í róttæka endurskoðun á landbúnaðarkerfinu í góðu samráði við bændur. Stuðningurinn við landbúnaðinn verður að fagna fjölbreytileikanum á sterkari hátt en nú er. Markmiðið hlýtur að vera að nýta styrki hins opinbera vel, gera það með það fyrir augum að auka frelsi og bæta hag bænda og neytenda, stuðla að nýsköpun og fjölbreytni, til dæmis aukinni grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu.


Ég held að eitt af því sem þarf að gera til að bæta afkomu bænda sé að auka frelsi þeirra og að hverfa frá því að einskorða styrkjakerfið í landbúnaði við tvær framleiðslugreinar. Það er tími til kominn að hugsa það upp á nýtt, skoða hvort væri ástæða til að styrkja fleiri landbúnaðar- og atvinnugreinar sem fólk hefur áhuga á að stunda í sveitum landsins, einfaldlega með því að styðja fólk til búsetu. Bændur hafa margir sýnt mikla hugvitssemi við að fullvinna sjálfir sínar vörur, selja beint frá býli, og við höfum séð hvað skýrar upplýsingar um hreinleika og uppruna vörunnar skipta miklu máli. Það þarf að gera bændum kleift að nýta eigið hugvit til framfara og að þróa eigin framleiðslu.


Haraldur Benediktsson, 2. sæti í Norðvesturkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Afkoma í kjötgreinum verður að vera betri til að viðhalda framleiðsluvilja. Ég horfi til þess að það sé hægt að ná meiri hagkvæmni með samstarfi milli afurðastöðvanna. Við verðum að átta okkur á því að það hefur orðið grundvallarbreyting á íslenskum búvörumarkaði. Við erum ekki lengur lokaður innlendur markaður, heldur erum við í samkeppni við miklu stærri markað erlendis. Því verður að skapa matvælaiðnaði og úrvinnslu á landbúnaðarvörum, sem er ein stærsta iðngrein á Íslandi, eðlileg samkeppnisskilyrði.


Það er það sem hefur vantað upp á á undanförnum árum. Það mun algerlega ráða framtíð kjötgreina hér á landi, hvernig okkur tekst að breyta þessari umgjörð á næstu árum. Til viðbótar við það eru sóknarfæri í að gera búskapinn hagkvæmari og skilvirkari. Þar horfi ég ekki síst á eflingu RML og þjónustu við bændur, meiri rekstrarráðgjöf og rannsóknir í landbúnaði sem og til loftslagsmála. Íslenskur landbúnaður á að vera hluti af því verkefni. Íslenskur landbúnaður getur verið búbót, það er hægt að kaupa ákveðna þjónustu af bændum í loftslagsmálum sem mér finnst að eigi að flétta með eðlilegum hætti við byggðastefnu og/eða landbúnaðarstefnu.

Guðmundur Auðunsson, oddviti Sósíalista í Suðurkjördæmi

Við lítum svo á að það þurfi að stokka upp styrkjakerfið. Staðar- landbúnaðurinn er að breytast, við erum að færast frá því að vera hreinir kjötframleiðendur, yfir í meiri grænmetisræktun og með hækkandi hitastigi þá eru möguleikar á kornrækt sem myndi minnka innflutning, sérstakleg á dýrafóðri. Styðja þarf við framleiðslu garðyrkjubænda með niðurgreiðslu á raforku.

Við viljum vinda ofan af milliliðakerfinu sem við teljum að sé að taka alltof mikið út úr kerfinu. Auka þarf aðgengi að ódýru lánsfé. Það þarf að vera með einhvers konar stuðningsjóð, lánasjóð á vegum ríkisins.

Við sjáum fyrir okkur að það væri hægt að setja á fót nýsköpunarsjóð sem hægt væri að ganga að, ekki bara varðandi umhverfisvernd, þar sem bændur geti nálgast fjármagn til að koma fram með nýjungar. Við teljum að bændur hafi sýnt það og muni sýna það að þeir geta aðlagast nýjum tímum.

Axel Sigurðsson, 5. sæti í Suðurkjördæmi fyrir Viðreisn

Við erum ekki sammála því að standa þurfi vörð um núverandi afkomu bænda. Í fyrra settum við tvö Evrópumet sama dag, bændur fengu lægsta afurðaverðið og neytendur hæsta verð. Það er óboðlegt fyrir bændur og neytendur. Við viljum breyta þessu og ætlum að gera það.Við ætlum að gera það með framsýni, með auknum tækifærum fyrir bændur til að framleiða fjölbreyttari og hagkvæmari vöru. Við ætlum að auka fjölbreytnina og innri samkeppni meðal bænda þannig að þeir geti selt betur og nær til neytenda. Við ætlum að tryggja aukinn sveigjanleika til að mæta breyttum kröfum sem neytendur eru að kalla eftir. Við ætlum að aðstoða bændur að nálgast markaðinn betur svo þeir geti svarað kalli neytenda eftir breyttum landbúnaðarafurðum.


Við viljum auðvelda bændum að hámarka sína eigin afkomu með aukinni vinnslu og auknum sveigjanleika í framleiðslu með einföldun á íslensku reglugerðarverki. Við ætlum að umbreyta búvörusamningnum úr framleiðslutengingu og yfir í umhverfisvænni framleiðslu. Við ætlum að leggja aukið fé til útiræktunar.


Við viljum leggja aukna áherslu á lífrænan landbúnað. Við viljum leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni og við viljum sjá mikið meira fé renna í jarðræktarstyrki. Við viljum leggja aukna áherslu á möguleika til heimavinnslu.

Bjarkey Olsen, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Það hefur ekki verið skýrt hver stefna ríkisins er en nú eru komin drög að lLandbúnaðarstefnu sem er mjög mikilvægt fyrsta skref. Þar er m.a. talað um að draga úr framleiðslutengingu stuðningsins en auka hann við fasta búsetu, auk þess að efla jarðræktarstyrki.


Við þurfum að bæta afkomu og efla innlenda framleiðslu og styðja við ræktun á fleiri tegundum, t.d. í grænmeti.
Við þurfum að tryggja að bændur fái raforku á viðunandi verði þannig að þeir geti haft einhvern arð af því sem þeir eru að gera. Við þurfum líka að skapa afurðastöðvunum stöðu til þess að vera í samstarfi í sama mæli og við sjáum í nágrannalöndunum okkar.


Við hljótum að geta gert slíkt hið sama og þetta hefur verið gert í mjólkuriðnaðinum. Við verðum að tryggja nauðsynlega aðkomu bænda að lausnum í loftslagsmálum, að þeirra framlag til loftslagsmarkmiða skapi þeim tekjur þannig að þeir sjái hag sinn í því.

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...