Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Afleiðingar tollasamnings við ESB
Mynd / BBL
Lesendarýni 3. apríl 2018

Afleiðingar tollasamnings við ESB

Höfundur: Margrét Jónsdóttir, bóndi á Syðra-Velli í Flóahreppi
Haustið 2015 var skrifað undir tollasamning við ESB sem kveður á um heimildir til innflutnings á ákveðnu magni af kjöti og mjólkurvörum, en samningurinn á að taka gildi nú í vor.
 
Íslendingar geta þar með flutt inn jafnmikið og þeir flytja út af umræddum vörum, sem sagt kíló á móti kílói. Þetta á að vera tækifæri fyrir bændur, í það minnsta voru það orð þáverandi landbúnaðarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, það sagði hann í mín eyru þegar ég hitti hann skömmu eftir undirskrift umrædds samnings. Mér er það mjög til efs að þetta skapi íslenskum bændum tækifæri, 500 milljóna manna Evrópumarkaður er yfirfullur af kjöti og hvernig við eigum að komast þar inn með nokkurn hlut get ég ekki með nokkru móti séð, í það minnsta yrði verðið ekki hátt.
 
Matvælaframleiðsla kostar peninga
 
Það kostar að framleiða mat, ódýr matur er ekki eftirsóknarverð vara, sé hann ódýr er hann mjög líklega framleiddur við aðstæður sem Íslendingar geta tæplega sætt sig við, verksmiðjuframleiðsla þar sem lyfjum er dælt í skepnurnar með fóðrinu og aðstæður ekki boðlegar. 
 
Mikil sýklalyfjanotkun í land­búnaði er orðið mikið vandamál víða um heim og upp eru komnar bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og á þetta vandamál aðeins eftir að magnast ef ekki verður tekið í taumana. 
 
Lyfjanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því allra minnsta sem gerist í heiminum, íslensku kúa- og sauðfjárstofnarnir eru lausir við dýrasjúkdóma sem eru landlægir víða annars staðar og mikill árangur hefur náðst í bæði svína- og kjúklingarækt svo eftir er tekið. Þetta eru mikil verðmæti, en því miður virðist ekki vera mikill skilningur á þeirri staðreynd meðal þeirra sem vilja gefa innflutning á kjöti og mjólkurafurðum frjálsan, flytja inn hrátt ófrosið kjöt og ógerilsneyddar mjólkurvörur.
 
En víkjum aftur að tolla­samningnum. Hann kveður á um innflutning á ákveðnu magni af kjöti og mjólkurvörum. Þetta getur þýtt að álíka margir og framleiða mjólk í sveitum Flóans myndu hætta búskap, vandi sauðfjárbænda myndi aukast, svína- og kjúklingabú yrðu fyrir miklum skaða og framleiðendur detta út. Þeir sem myndu líklega detta fyrst út eru minni framleiðendur þar sem rekin eru hóflega stór fjölskyldubú, einmitt þær einingar sem eru kjarninn í hverri sveit. 
 
Svo ég haldi áfram að taka Flóann sem dæmi þá eru hér rekin bæði kjúklinga- og eggjabú, hér er nokkur fjöldi sauðfjárbænda, milli 30 og 40 mjólkurframleiðendur og nautakjötsframleiðendur fjölmargir. Þessir bændur skapa mikla undirstöðu og mynda ásamt öðru það samfélag sem fólki þykir gott að búa í og hefur verið eftirsóknarvert. Verði þessi bú fyrir miklu tapi vegna óþarfs innflutnings yrði þetta samfélag fyrir miklu áfalli bæði efnahagslega og menningarlega. 
 
Þannig er staðan um allt land, ekki aðeins í Flóanum, hann tek ég sem dæmi um samfélag sem ég þekki og sem byggir að stórum hluta á landbúnaði. Ef framleiðsla bænda skerðist eða verð á bæði mjólk og kjöti lækkar meira en orðið er, er vandséð hvernig á að takast á við það. Mjólkurverð til bænda hefur ekki hækkað í neinum takti við hækkanir á aðföngum og bændur hafa ekki hækkað í launum undanfarin ár eins og aðrar stéttir í landinu hafa gert, við bændur eigum bara að framleiða meira og vinna lengur. Verð á lambakjöti hefur lækkað það mikið að launaliður bænda er hreinlega horfinn. Ég get ekki séð hvernig þetta getur gengið til lengdar og ég óttast að margir fari út úr búskap verði engin breyting á. 
 
Tollasamningurinn er svo ekki til að bæta ástandið, verði hann látinn óáreittur og hingað hellist yfir aukinn innflutningur mun landbúnaðurinn holast það mikið innan að ekki verður lífvænlegt að framleiða kjöt eða mjólk. 
 
Hver vill vinna alla daga ársins og fá lítið eða ekkert kaup? Bændur geta ekki gert það frekar en aðrar stéttir. Það er býsnast yfir því að hingað sé flutt inn fólk sem ekki er borgað nógu hátt kaup, en í landinu er stétt sem á að vinna við að framleiða mat ofan í þjóðina í samkeppni við erlenda framleiðslu og hafa ekkert út úr því. Þetta er skrýtið. Svo vill kaupmannastéttin flytja hér inn mat í stórum stíl sem framleiddur er af fólki sem ekki fær mikið borgað fyrir sína vinnu. Nei, vitleysan ríður ekki við einteyming.
 
Hart sótt að bændastéttinni
 
Það er hart sótt að bændastéttinni, til okkar eru eðlilega gerðar miklar kröfur um aðbúnað dýra en maturinn sem við framleiðum má helst ekkert kosta. Það er endalaus jarmur um það í þjóðfélaginu að matur á Íslandi sé mjög dýr. Ég fullyrði að hann er ekkert dýrari en annars staðar, það fer nú oft saman matarverð og launakjör fólks í viðkomandi landi. Það eru auglýst lambalæri hér í búðum á innan við 1.000- kr kílóið. Þetta er gjafverð og er í raun til háborinnar skammar. Bóndinn er ekki að fá mikið í sinn hlut, svo mikið er víst. Íslendingar eyða u.þ.b. 12 % af sínum launum í mat og þar af er aðeins helmingur af því sem fer í að kaupa íslenskan mat. Þetta er lægra hlutfall en víðast hvar annars staðar.
 
Atvinnuöryggi bænda í hættu
 
Atvinnuöryggi bænda er stefnt í mikla hættu, bæði vegna tollasamningsins og ekki síður vegna úrskurðar EFTA-dómstólsins varðandi innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum, sem getur ógnað okkar hreinu dýrastofnum. Það er alveg með ólíkindum ef þjóðinni er sama, til þess eins að mega flytja inn meiri mat. 
 
Það er látið í veðri vaka að þetta sé gert fyrir neytendur, til að fólk eigi kost á ódýrari matvælum og hafi val um hvað og hvaðan það kaupir. Það er látið eins og neytendur séu einhver afmarkaður hópur í þjóðfélaginu, en við erum öll í sama bát og eigum að róa í sömu átt. Neytendur eru öll þjóðin, það hlýtur að vera okkar hagur að framleiða hér allt sem við getum, hvort sem það eru dýraafurðir eða grænmeti, í því felst öryggi og varan sem íslenskir bændur framleiða er gæðavara sem stendur fremst vegna heilnæmi hennar og ferskleika. Hvers eiga íslenskir bændur að gjalda að vera í eilífu stríði við verslunarauðvaldið sem vill ná hér öllu undir sig? Það fara saman hagsmunir bænda og þjóðarinnar allrar, en því miður er hópur manna sem skirrist ekki við að brjóta niður þessa framleiðslu í nafni frelsis og neytendaverndar.
 
Það er raunveruleg hætta á því að landbúnaðurinn verði fyrir miklum skaða gangi þetta eftir sem ég hef drepið á. Íslenska sveitin er hluti af þjóðarsálinni, þar verður dauflegt um að litast ef fólki fækkar enn sem hefur yndi af og vill vinna við landbúnað á Íslandi. Það er almannahagur og á að vera okkur Íslendingum kappsmál að framleiða í okkur sem mest af þeim mat sem við þurfum og handa þeim ferðamönnum sem hingað sækja. Hvað ætlum við að sýna okkar gestum og hvaða sérstaka mat ætlum við að bjóða þeim ef við hættum að framleiða hér t.d. lambakjöt? Svari hver fyrir sig.
 
Ábyrgð stjórnmálamanna á þessu öllu saman er mikil. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki vera líkleg til að standa með íslenskum sveitum, frekar en sú sem fór frá í vetur. En að það skyldi vera dýralæknirinn og bóndasonurinn Sigurður Ingi Jóhannsson sem skrifaði undir þennan tollasamning er hreint með ólíkindum. Ég held að kratarnir hefðu varla þorað þetta. Það þarf að rifta þessum samning svo ekki hljótist af stórslys. Vandinn blasir við og íslendingar gætu vaknað upp við það einn daginn að ekki fáist nýmjólk í búðinni vegna þess að það er eldgos á Íslandi sem stöðvar flugumferð.
 
Margrét Jónsdóttir,
bóndi á Syðra-Velli í Flóahreppi og ullarvörukaupmaður í Þingborg í sömu sveit.
Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...