Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Holdakýrnar á Reykjum.
Holdakýrnar á Reykjum.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 24. janúar 2025

Afar góður árangur Reykja í Tungusveit

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í niðurstöðum skýrsluhalds í nautakjötsframleiðslu má sjá að Reykir í Tungusveit í Skagafirði hafa náð eftirtektarverðum árangri í sínu ræktunarstarfi og nautaeldi, m.a. í vaxtarhraða ungneyta, miklum þunga gripa, kjötgæðum og góðri flokkun.

Dagur Torfason og Rebekka Rún Helgadóttir.

Í niðurstöðunum sést til dæmis að af þeim 31 grip sem slátrað var voru þeir að meðaltali 528 daga gamlir, sem þykja óvenju ungir gripir með meðalvöxt upp á 622 grömm á dag. Þá var meðalflokkunin óvenjugóð, eða 10,1.

Að minnsta kosti 50 prósent Angus

Ábúendur á Reykjum eru þau Rebekka Rún Helgadóttir og Dagur Torfason, en Dagur tók við búskapnum af móður sinni árið 2018.

„Ég kem svo inn í þetta árið 2020,“ segir Rebekka. Við erum með tæplega 60 holdakýr sem bera núna í vor og við stefnum á að hafa þær um 60. Núna eru allir kálfarnir okkar orðnir í það minnsta 50 prósent Angus, en við höfum verið að rækta Angus-holdablendinga frá 2021 og keypt naut frá Stóra-Ármóti á uppboðum. Við erum komin með fjögur naut í félagi við aðra bændur og skiptumst á að nota þau.

Það gengur bara mjög vel hjá okkur. Kálfarnir fæðast frekar snemma hjá okkur á vorin, við reynum að láta kýrnar bera í apríl,“ útskýrir Rebekka þegar hún er spurð hverju hún þakki þennan góða árangur.

Frjáls aðgangur að byggi

„Við reynum að hafa burðartímann sem stystan svo að þær eru flestar að bera á tímabilinu frá því í lok mars og þangað til í byrjun júní, þannig að það teygist smá á þessu. En mesti þunginn í burðinum er í apríl, þá eru kálfarnir orðnir frekar stálpaðir þegar góð beit er komin,“ heldur Rebekka áfram.

„Við tökum kálfana undan kúnum svona fimm til sex mánaða og síðan hafa þeir frjálsan aðgang að byggi meðan verið er að venja þá undan. Við ræktum sjálf okkar bygg og ræktum alltaf rúmlega það sem við teljum okkur þurfa og náum þá að selja eitthvað smá.

Við leyfum þennan frjálsa aðgang að bygginu í svona tvo mánuði, eða þar til þeir eru orðnir í mesta lagi átta mánaða. Þá tökum við þá úr hálmstíum og í fjósið heima sem er með bitum, þar fá þeir skammtað bygg og kjarnfóður. Síðan er áhersla lögð á gott gróffóður.“

Reksturinn orðinn ágætur

Rebekka segir að þau séu eingöngu með holdakýrnar en svo sé hún sjálf með nokkrar kindur. „Síðasta ár var það fyrsta sem kannski mætti segja að hafi verið ágætt afkomulega,“ segir Rebekka spurð um hag nautakjötsframleiðenda í dag og þrengingarnar sem voru á tímabili í greininni. „Núna er þetta orðinn ágætisrekstur en það er kostnaðarsamt að fjölga. Núna getum við farið að slátra fleiri kvígum, en við höfum sett þær allar á hingað til. Þannig að á næsta ári getum við farið að velja okkur þær kvígur sem við viljum eiga og ættum að geta slátrað þá árlega um 10 til 15 kvígum.“

Að sögn Rebekku fara gripirnir þeirra til slátrunar og vinnslu hjá Norðlenska. „Ég veit að Kjötkompaníið hefur fengið kjöt frá okkur, en þeir eru með mjög góðar upprunamerkingar þar sem hægt er að sjá frá hvaða bæ viðkomandi kjötafurð er komin.“

Fjölmennum eigendahópum fjölgar
Fréttir 26. mars 2025

Fjölmennum eigendahópum fjölgar

Undanfarin ár hefur orðið veruleg fjölgun jarða í fjölmennri sameign. Sé miðað v...

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver
Fréttir 26. mars 2025

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver

Í byrjun mars var rekstrarfélag stofnað utan um starfsemi á lífgas- og áburðarve...

Ætlunin að jafna leikinn
Fréttir 25. mars 2025

Ætlunin að jafna leikinn

Markmið nýs jarðhitaátaks er að jafna leikinn á milli þeirra 90% landsmanna sem ...

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr
Fréttir 25. mars 2025

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr

Matsáætlun um vindorkuver á Þorvaldsstöðum í Borgarbyggð er nú í skipulagsgátt. ...

Jóhannes nýr bústjóri
Fréttir 24. mars 2025

Jóhannes nýr bústjóri

Jóhannes Kristjánsson hefur verið ráðinn bústjóri Hvanneyrarbúsins.

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...