Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Æðarfuglinn er á þessum árstíma að gera sig kláran í að setjast upp og fara að huga að hreiðurgerð.
Æðarfuglinn er á þessum árstíma að gera sig kláran í að setjast upp og fara að huga að hreiðurgerð.
Mynd / Margrét Rögnvaldsdóttir
Fréttir 28. apríl 2022

Æðarræktendur og alifuglabændur uggandi vegna fuglaflensunnar

Höfundur: smh / HKr.

Æðarræktendur eru mjög uggandi vegna fuglaflensunnar sem borist hefur til landsins með farfuglum og fundist víða um land. Æðarfuglinn er villtur fugl og er því erfitt að verjast þessum vágesti.

Samkvæmt upplýsingum sem Matvælastofnun hefur nýlega gefið út er ljóst að þessi skæða fuglaflensa er útbreidd í villtum fuglum og mikil smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi manna.

Að sögn Margrétar Rögnvalds­dóttur, sem nýlega tók við sem formaður Æðarræktarfélags Íslands, þá er æðarfuglinn á þessum árstíma að gera sig kláran í að setjast upp og fara að huga að hreiðurgerð.

Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður Æðarræktarfélags Íslands, og Guðrún Gauksdóttir forveri hennar.

„Við æðarræktendur höfum rætt þessa hættu okkar á milli og höfum eðlilega áhyggjur af þessu. Við höfum ekki enn orðið vör við grunsamleg veikindi eða séð dauða fugla. Þótt æðarfuglinn sé staðfugl þá er þessi mikla smithætta til staðar. Farfuglarnir streyma auðvitað nú til landsins, einmitt þegar líður að varptíma æðarfuglsins, sem er í raun eini tíminn sem hann sest að uppi í landi,“ segir Margrét.

Farfuglar verpa oft inni í æðarvarpi

„Óhjákvæmilega er hann þar í nálægð við aðrar tegundir; eins og gæsir sem verpa oft inni í æðarvarpi og ýmsir mófuglar. Við tókum saman almennar leiðbeiningar fyrir æðarbændur vegna smitsjúkdómahættu og birtum á vef félagsins. Þær snúast mest um mikilvægi forvarna sem felast fyrst og fremst í því að gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við æðarfuglinn – að fólk beri sjálft ekki smit með sér. Einnig eru þar leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig að þegar grunur vaknar um smitsjúkdóma í varpinu,“ segir Margrét.

Hún áætlar að tæplega 400 vörp eða ræktunarsvæði séu á landinu, um allt land nema á söndunum á Suðurlandi, flest á Breiða­fjarðar­svæðinu. Í stærstu vörpu­num séu um sex til átta þúsund hreiður og því segir hún að mikið sé í húfi. „Ég vona að skæð flensan herji ekki á slík vörp þar sem þéttleikinn er mikill. Það er svolítið misjafnt eftir svæðum hvenær varp hefst, fyrst er það nú á Suðurlandi í byrjun maí en hjá mér á Melrakkasléttu er það ekki fyrr en í lok maí.“

 

Dreifing æðarvarpa um Íslands.

Getur borist í menn 

Fuglaflensa af stofni H5N6 hefur smitast í fólk í Kína. Samkvæmt vefsíðu Minnesotaháskóla þá hefur fólk smitast af fuglaflensunni i Cichuan-héraði í Kína. Þann 4. apríl var 56 ára gamall maður lagður illa haldinn inn á sjúkrahús, en hann hafði komist í snertingu við alifugla  áður en hann varð var við veikindi 31. mars. Alls hefur verið tilkynnt um 13 smit í fólk af völdum H5N6 veirunnar í Kína.

Samkvæmt gögnum Alþjóða-heilbrigðismála­stofnunarinnar WHO hafði verið tilkynnt um smit í 239 mönnum á heimsvísu þann 31. mars síðastliðinn af H5N1 stofni. Þar af hafa 134 látist. Það er auk smita sem greinst hafa í Asíu af H5N6 stofni, en 75 rannsóknastofur hafa tilkynnt um smit í fólki af þeim stofni á svæðinu við vestanvert Kyrrahaf síðan 2014. Af þeim hafa 32 látist. Ekki er þó enn vitað til að fuglaflensuvírusinn hafi smitast milli manna.

Tugir milljónir fugla aflífaðir

Fuglaflensan hefur verið að breiðast út í Evrópu og hefur þurft að aflífa milljónir alifugla af þeim sökum, m.a. í Noregi og Danmörku, sem flestir hafa smitast af H5N1 veirunni.  Þá  hefur fuglaflensu orðið vart í 126 sýslum í 29 ríkjum Bandaríkjanna. Þar hafa um 31 milljón fugla smitast af sama veirustofni, bæði villtir fuglar og alifuglar á stórum  fuglabúum og í bakgörðum hjá fólki sem þurft hefur að aflífa.

Í stöðugri viðbragðsstöðu

Jón Magnús Jónsson, bóndi á Reykjabúinu í Mosfellsbæ, segir að það séu talsverð tíðindi að flensan skuli vera þetta útbreidd. Enn sem komið er sé hún eingöngu í villtum fuglum en alifuglabændur hér á landi fylgja gríðarlega stífum verklagsreglum við sóttvarnir á búunum sem hjálpar til við að halda veirunni úti og að koma í veg fyrir mikið tjón.

Jón Magnús Jónsson, bóndi á Reykjabúinu í Mosfellsbæ

„Við erum auðvitað mjög áhyggjufullir en þá er ekkert annað í stöðunni en að skerpa á öllum sóttvörnum og umgengnisreglum í kringum búin,“ segir Jón Magnús.

Engin merki um veika fugla

„Engin merki um veika fugla hafa sést hjá alifuglabændum. Það er mikið í húfi fyrir okkur að passa eins vel upp á búin og kostur er, því ef smit berst inn í alifuglahús þá má segja að þetta sé búið spil,“ segir Jón Magnús.

Hann bætir við að alifuglabændur hafi fram til þessa ekki lent í hremmingum vegna skæðrar fuglaflensu og þakkar það þeim hörðu vinnureglum varðandi sóttvarnir sem hafa tíðkast á Íslandi, í þeim tilgangi að verjast salmonellu- og kampýlóbaktersýkingum. 

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu
Fréttir 4. júlí 2025

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu

„Kannski sýnir þessi samruni hversu gríðarlega stærðarhagkvæmni er í söfnun og v...