Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Að tengja hestamenn nánar við náttúruna
Fréttir 8. desember 2015

Að tengja hestamenn nánar við náttúruna

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hagsmunaaðilar hafa tekið höndum saman um að marka stefnu og gera aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að styrkja ímynd íslenska hestsins með samhæfðum skilaboðum, markaðsaðgerðum og kynningarstarfi.

Áhersla verður lögð á verðmætasköpun og gjaldeyrisaukningu tengda greininni en fjármögnun verkefnisins stendur nú yfir.

„Markaðsumhverfi íslenska hestsins hefur dalað, bæði hérlendis og erlendis. Hestamennskan er í samkeppni við aðra ólíka afþreyingu sem og við önnur hestakyn. Uppsveifla var í Íslandshestamennskunni fram að hruni, en eftir 2008 hefur hrossasala farið dvínandi og markaðurinn gefið eftir. Þetta stóra verkefni snýst um að beina kastljósinu að hestamennskunni í sinni breiðustu mynd,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, en hann situr í verkefnastjórn viðamikils markaðsverk­efnis um uppbyggingu vörumerkis íslenska hestsins.

„Við höfum farið í allsherjar naflaskoðun til að komast að því hvað Íslandshestamennskan stendur í raun og veru fyrir. Verkefnið er alþjóðlegt, og er hugsað til að verja hlut íslenska hestsins í hestaheiminum. Við ætlum þó einnig að horfa á markaðinn innanlands, efla það sem betur má fara. Þannig á ímyndin ekki síst að höfða til hins almenna hestamanns og leggjum við megináherslu á að örva nýliðun og fjölga í hópi hestamanna,“ segir Sveinn.

Byggja á víðtækri reynslu

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og vinnur í samstarfi við verkefnisstjórn sem skipuð er, auk Sveins, Hallveigu Fróðadóttur fyrir Félag hrossabænda, Rúnari Þór Guðbrandssyni og Jónu Dís Bragadóttur fyrir Landssamband hestamannafélaga, Heimi Gunnarssyni fyrir Félag tamningamanna, Sveini Ragnarssyni fyrir háskólana, Eysteini Leifssyni fyrir útflytjendur, Bergljótu Rist fyrir Samtök ferðaþjónustunnar, Hönnu Dóru Hólm Másdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Karitas Gunnarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, hefur stýrt verkefninu. Íslandsstofa hefur haldið utan um markaðsverkefni á borð við „Inspired by Iceland“ en markmið fyrirtækisins er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

„Við byrjuðum á að setjast niður í desember í fyrra, kynna aðferðafræðina og hvað hefur gefist vel. Í framhaldi vorum við beðin um að setja saman verkefnaáætlun í samstarfi við verkefnastjórn,“ segir Guðný og bætir við að með verkefnastjórninni sé komin saman þekking og reynsla sem er lykill að góðum árangri.

Reynsla Íslandsstofu af ólíkum markaðssóknarverkefnum hafi sýnt að þau verkefni sem ná árangri eru samstarfsverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem stefnan kemur frá grasrótinni. Það á einnig við nú.

„Í dag erum við að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins og við erum í því að kynna þetta fyrir hestaheiminum. Búið er að kortleggja verkefnið, forgangsraða markhópum og mörkuðum og drög eru komin að aðgerðaráætlun og áherslum. Nú erum við í þeim fasa að kynna þetta af alvöru og fá samstarfsaðila til að sameinast um þetta verkefni og fjármagna það,“ segir Guðný en fyrir liggur loforð ríkissjóðs upp á 25 milljónir á ári á næstu fjórum árum gegn jafnmiklu framlagi frá greininni.

Fjármögnun möguleg ef margir taka þátt

Sveinn telur fjármögnun vel mögulega ef breið aðkoma verður að verk­efninu.

„Við erum svo mörg sem höfum hagsmuni af hestinum með beinum eða óbeinum hætti. Þetta byggir á því að fjöldinn komi að. Félögin sem standa að þessu verkefni, Landssamband hestamannafélaga og Félag hrossabænda, ætla að tryggja ákveðna fjármuni. Síðan verður leitað til stórra og smárra aðila innan ferðaþjónustu og landbúnaðar  og svo dæmi séu tekin, svo sem flugfélaga, fóðursala, hnakka- og reiðtygjaframleiðenda, hestaferðafyrirtækja og hrossaræktarbúa svo eitthvað sé nefnt.“

Sveinn segir góðan róm hafa verið gerðan að verkefninu þar sem það hefur verið kynnt, en kynning verk­efnisins hefur m.a. verið í höndum verkefnisstjórnar. „Við biðlum til fyrirtækja sem hafa hagsmuni af hestinum með einhverjum hætti að taka þátt. Tekið hefur verið vel í að styðja við það og við erum bjartsýn og teljum að fjármögnun verði okkur ekki erfið.“

Tilgerðarlaus og kraftmikill reiðhestur

Aðgerðaráætluninni verður hrint úr vör af alvöru þegar fjármögnun verður tryggð. Skapa á sameiginlega ímynd íslenska hestsins sem vörumerkis. Ímyndin byggir meðal annars á því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem hesturinn sem færir fólk nær náttúrunni, kraftmikill, ævintýragjarn, tilgerðarlaus og ósvikinn hestur sem tekur þér opnum örmum.

Stoðir vörumerkisins byggja á tengslum hans við sögu Íslands og menningu, ævintýri og félagsskap, sem og nálægð við náttúruna. Strax á næsta ári er stefnt að því að auka sýnileika íslenska hestsins á Íslandi, byggja upp vef- og samfélagsmiðla tengda íslenska hestinum, búa til myndefni og segja sögur af íslenska hestinum.

Tiltrú á verkefninu

Með góðri samvinnu félagasamtaka kringum íslenska hestinn og þeirra sem hafa hagsmuna að gæta er vonast til að verkefnið muni bæta arðsemi greinarinnar bæði hérlendis og erlendis. Telur Guðný það vel mögulegt miðað við þá góðu vinnu sem farið hefur fram að undanförnu. Hún segir verkefnastjórn hafa unnið vel saman og bendir á að mikil nýliðun hafi átt sér stað í forystu félagasamtaka hestamennskunnar á síðasta ári.

„Fólkið sem nú er komið í forystu hestamennskunnar skilur gildi þess að vinna saman og að byggja á reynslu og því sem gert hefur verið áður.“

Sveinn tekur undir orð Guðnýjar. „Sú vinna sem búin er að eiga sér stað hefur verið einkar skemmtileg og fróðleg og andinn í verkefnastjórninni góður. Það ríkir mikil tiltrú á verkefninu.“ Sveinn segir þó að um langhlaup sé að ræða.

„Það að við séum að fara í þetta verkefni núna þýðir ekki það að við klárum nokkurn tímann að markaðssetja íslenska hestinn. Við þurfum stöðugt að vera í markaðssetningu. Þetta er vonandi aðeins upphafið að markvissu markaðsstarfi.“

Skylt efni: Hestar | markaðsmál

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...