Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á valdi Íslendinga hvort yfirstjórn orkumála í EES-ríkjunum fer til ACER eða ekki
Fréttaskýring 22. nóvember 2018

Á valdi Íslendinga hvort yfirstjórn orkumála í EES-ríkjunum fer til ACER eða ekki

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í Noregi hefur verið mikil umræða og gagnrýni á orkupakka 3 frá Evrópusambandinu og er m.a. í gangi hópur á Facebook sem nefnist STOPP ACER. Ein afleiðinga af þessu er innleiðing á AMS orkumælum, eða „smartmælum“ sem framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins hefur lagt ríka áherslu á að innleiða en mjög hafa verið gagnrýndir.
 
Stærsti ókosturinn af innleiðingu orkupakka 3 fyrir Noreg er talin vera að þá missi Norðmenn umráðaréttinn yfir öllum orkuauðlindunum sínum, rafmagni, gasi og olíu. Evrópusambandið muni í gegnum ACER ákveða allt varðandi stefnu þeirra í orkumálum. ACER ákveður stefnuna með 2/3 meirihluta atkvæða, þar sem hvert aðildarríki fer með 1 atkvæði. Noregur, Ísland og Liechtenstein hafa sem aðildarríki EES engan atkvæðisrétt, en aðeins rétt á að hafa áheyrnarfulltrúa. 
 
Líka krafa um endurskoðun EES-samningsins
 
Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin eru að heyrast æ sterkari raddir um að full þörf sé orðin á endurskoðun EES-samningsins. Hann hafi í upphafi verið gerður nánast sem hreinn viðskiptasamningur tveggja stoða, en sé orðinn mun víðtækari í dag og því kominn langt út fyrir upphaflegar forsendur. 
 
Bjørnar Moxnes í flokki Rauðra, eða Rødt, viðraði einnig þá skoðun í Norska stórþinginu undir lok síðasta árs. Sagði hann að fyrir tilstyrk þessa samnings hafi vald yfir eigin málum í stórum stíl verið flutt frá norskum stjórnvöldum til Evrópusambandsins. 
 
Orkupakki 3 var felldur inn í EES-samninginn 2017 með þeim fyrirvara að öll ríkin þrjú, Ísland Noregur og Liechtenstein, samþykktu hann. Að öðrum kosti öðlaðist hann ekki gildi. Hann hefur verið samþykktur í Noregi og líka í Lichtenstein að því er best er vitað, en gengur ekki í gildi nema Ísland samþykki hann líka. 
 
EES-samningurinn er ekki lengur tveggja stoða samningur
 
Jón Baldvin Hanni­balsson, fyrr­verandi utan­­ríkis­ráð­herra, sagði í viðtali á Útvarpi Sögu 1. nóvember að EES-samn­ingur­inn væri í dag ekki sá samn­ingur sem upphaflega hafi verið stofnað til á jafnræðisgrunni. Jón átti eigi að síður mikinn þátt í að Íslendingar tóku þátt í Evrópska efnahags­svæðinu, EES, í samfloti með öðrum EFTA-ríkjum fyrir aldarfjórðungi. Hann sagðist þó enn þeirrar skoðunar að upphaflegar forsendur fyrir EES-samningnum hafi verið lykilatriði í að byggja upp hagsæld á Íslandi í framhaldinu. Honum hafi í upphafi ekki fylgt valdaframsal né aðgangur að okkar helstu auðlindum og því engar forsendur til að taka upp orkupakka 3 eins og nú er krafist. 
 
Upphaflega samningur tveggja sterkra ríkjastoða
 
 „Þá var ráð fyrir gert að hann væri tveggja stoða samningur þar sem EFTA-ríkin sem að honum stóðu, öll Norðurlöndin nema Danmörk, síðan Austurríki og Sviss plús Liechtenstein. Þó þetta séu smáríki, þá voru þau öflug og höfðu meiri viðskipti við Evrópusambandið til samans en Bandaríkin og Japan. Þegar samningurinn er gerður er tveggja stoða lausn og þá held ég að það sé niðurstaða allra eftir á að hann hafi þá ekki brotið í bága við stjórnarskrá.“ 
 
Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón sagði að síðan hafi það gerst árið 1994–1995, þegar EES-samningurinn lá fyrir og Sovétríkin voru fallin, að hlutlausu ríkin, Finnland, Svíþjóð og Austurríki ákváðu að sækja um aðild að ESB. En Sviss hafi staðið áfram fyrir utan ásamt Íslandi, Noregi og Liechtenstein með ríflega 14 milljónir íbúa samanlagt. 
 
Sviss ákvað síðan að standa utan við EES-samninginn og gera þess í stað tvíhliða samning við Evrópusambandið og hefur vegnað mjög vel síðan. Þar með hafi ESS-samningurinn ekki lengur verið tveggja stoða samningur á jafnréttisgrunni, enda nær 500 milljónir manna í öðru  samningsliðinu, en einungis tæplega 6 milljónir í hinu.  
 
Búum við „E-mail lýðræði“
 
„Núna er þetta einfaldlega þannig að Ísland, Noregur og Liechtenstein búa við það á löggjafarsviði að fá löggjöfina senda í pósti. Þetta heitir e-mail lýðræði. [...] Að lögum er Ísland enn fullvalda ríki, en í reynd þá er stórt svið löggjafar sem birtist í póstinum og við erum líka háð eftirliti og dómsúrskurði EFTA-dómstólsins.
 
Segir ESB hafa verið gott þar til evran var tekin upp
 
Jón sagði einnig að stofnun Evrópusambandsins hafi að hans mati verið heillaspor. Hins vegar hafi stjórnvöldum þar fatast flugið, með stofnun sameiginlegs gjaldmiðils evrunnar. „Evrusvæðið er algjörlega misheppnað,“ sagði Jón.
 
„Það er vegna þess að það er kerfislægur galli í hönnuninni. Þetta er eins og hús sem er skakkt á grunninum og heldur hvorki vatni né vindum.“ – Hann sagðist líka þeirrar skoðunar að þótt íslenska krónan væri ónýt, þá fælist lausnin alls ekki í að taka upp evru. 
 
Evrópa með spillt og rotið fjármálakerfi
 
„Evrópa er í fjármálakreppu, með spillt og rotið fjármálakerfi. Hefur ekki tekið á því og hún er pólitískt forystulaus. Mamma Merkel hefur aldrei tekið eina einustu ákvörðun um að leysa mál út frá neinu öðru en skammtímahagsmunum Þýskalands.“ 
 
Jón Baldvin sagði einnig í viðtalinu á Útvarpi Sögu að innleiðing á orkupakka 3 frá ESB myndi hafa það í för með sér að orkuverð á Íslandi hækkaði. Bendir hann á að um leið og samþykki liggi fyrir vegna orkupakka 3 hafi um leið verið samþykkt að ekki megi mismuna þeim ríkjum sem selji orkuna og þar af leiðandi myndi hátt orkuverð í Evrópu leiða til hærra orkuverðs hérlendis. Á þetta sama hafa fjölmargir aðrir bent, eins og norski lagaprófessorinn Peter T. Örebech. Jón segir að Ísland eigi alls ekki að samþykkja aðild að sameiginlegri orkustefnu Evrópu. 
 
„Ísland á bara alls ekkert erindi þarna inn, orkupakkinn kemur okkur bara ekkert við og ég bara fullyrði það, lítið bara á landakortið, Ísland er enginn aðili að orkumarkaði Evrópu, bara alls enginn, við höfum engin tengsl við hann og höfum bara ekkert um hann að segja, svo einfalt er það,“ sagði Jón Baldvin Hannibalsson í viðtalinu á Útvarpi Sögu.
 
Rauðu línurnar sýna mögulegar nýjar tengingar við orkukerfi ESB sem rætt hefur verið um. Þar á meðal er IceLink strengur til Íslands sem Landsvirkjun hefur verið að kynna á undanförnum árum.  
 
Slæm áhrif á íbúa á norðlægum slóðum
 
Fyrir fólk almennt mun innleiðing orkupakka 3 þýða hækkun á orkuverði vegna þess að Evrópusambandið hefur það sem markmið að jafna verðið á orkunni, þannig að verðið verði svipað á sameiginlegum orkumarkaði í allri Evrópu. Þetta þýðir þó ekki að verðið verði í föstum skorðum, heldur sveiflist eftir framboði og eftirspurn. Það er staðreynd að Noregur hefur þurft í kjölfar tengingar sæstrengja að verðleggja orkuna á sama hátt á báðum endum strengjanna. Annað er hreinlega bannað. Í ljósi skorts á hreini orku er óhugsandi annað en að verð á raforku hækki á markaði. Þannig mun öll orkunotkun, svo sem til húshitunar, lýsingar, iðnaðar o.þ.h. verða mun dýrari en nú er. Það gildir ekki síst á Íslandi þar sem raforkuverð er með því lægsta sem þekkist, en orkan hefur þegar hækkað nokkuð í Noregi vegna tengingar orkukerfisins þar í landi við það evrópska. Hins vegar er um 90% af norsku húsnæði kynt með raforku, þannig að raforka vegur afar þungt í heimilisrekstri Norðmanna. Að sama skapi verður þar til í kerfinu mikil ónýtt orka yfir hlýjasta tíma ársins sem ekki þekkist á Íslandi vegna þess að hér eru um 90% húsnæðis kynt með jarðvarma. Hins vegar þá horfa ESB-löndin ekki bara á raforku þegar rætt er um orkupakka 3 heldur alla orku, líka jarðhita, olíu, gas, kol og kjarnorku.  Það þýðir að Íslendingar munu ekki njóta neinna sérréttinda hvað varðar jarðvarma eftir undirskrift orkupakkans. 
 
Miðað við kaldari loftslags­aðstæður á norðlægum slóðum þá mun innleiðing orkupakkans án nokkurs vafa geta haft alvarlegri afleiðingar fyrir fjölskyldur m.a. á Íslandi og í Noregi en hjá íbúum sem búa við hlýrri skilyrði sunnar í Evrópu. Ávinningur og sérstaða Íslands í þessum málum nú yrði þá úr sögunni, eins og Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur og norski lagaprófessorinn Peter T. Örebech og fleiri hafa bent á. 
 
Evrópska orkukerfið í dag. 
 
Allt veltur nú á samþykki eða synjun Íslendinga
 
Norsk yfirvöld samþykktu fyrir sitt leyti þann 22. mars 2018 að innleiða orkupakka 3 og þar með að gangast undir yfirstjórn ACER í orkumálum. ACER er skammstöfun fyrir Agency for the Cooperation og Energy regulators, eða skrifstofa samvinnu um orkueftirlit. Þessa ákvörðun studdu Arbeiderpartiet, Høyre, Fremskrittspartiet, Venstre og Miljøpartiet De Grønne, en á móti voru Senterpartiet, Sosialistisk venstreparti, Kristelig folkeparti, og Rødt. 
 
Samþykkt meirihlutans á Stórþingi Norðmanna á innleiðingu þriðja orkupakka ESB öðlast þó ekki gildi nema Íslendingar samþykki þetta líka. Þess vegna hefur verið sett mikil pressa á íslensk stjórnvöld að undirgangast þennan pakka, m.a. með heimsóknum ráðherra, þótt opinberlega hafi því verið neitað. 
Andstaða vegna samþykktar norska stórþingsins á orkupakka 3 fer vaxandi í Noregi, bæði meðal almennings og stéttarfélaga. Þá hefur reiði líka magnast gagnvart þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem samþykktu þessa innleiðingu. Andstæðingar þessa samkomulags reiða sig nú á að Íslendingar segi nei við ACER og innleiðingu orkupakka þrjú. 
 
Gríðarlegir peningahagsmunir í húfi á Íslandi
 
Ljóst er að innleiðing orkupakka 3 er ekki bara spurning um sameiginlegt eftirlit með orkumálum í Evrópu, því þarna eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir. Fákeppni og einokun ríkisrekinna orkufyrirtækja eða fyrirtækja sem rekin eru á vegum sveitarfélaga verður ekki liðin samkvæmt EES-samningum. Því er talið óhugsandi annað en að skipta verði upp fyrirtækjum eins og Landsvirkjun og opna þannig fyrir einkavæðingu þess í hlutum. 
 
Ágóðinn af fjárfestingum í slíkum fyrirtækjum gæti orðið ævintýralegur í takti við fyrirséð hækkandi orkuverð í Evrópu. Sem dæmi þá hafa rekstrartekjur Landsvirkjunar aldrei verið hærri en á árinu 2017 eða 483 milljónir dollara, eða nærri 59 milljarðar miðað við gengi í byrjun síðustu viku. Hagnaður af grunnrekstri fyrir óinnleysta fjármagnsliði hafði þá heldur aldrei verið meiri og nam 153 milljónum dollara eða sem svaraði rúmum 18,3 milljörðum króna. Þá var handbært fé Landsvirkjunar þann 31. desember 2017 hvorki meira né minna en 145 milljónir dollara eða sem nam rúmlega 17,4 milljörðum króna fyrir greiðslu arðs og annarra liða. Nettó lausafjárstaða var því upp á rúmlega 15 milljarða króna í plús. Það er því augljóslega eftir nokkru að slægjast ef Landsvirkjun yrði einkavædd.  
 
Mikil áhersla á innleiðingu „smartmæla“
 
Innleiðing nýrra Advanced Metering System (AMS) orkumæla sem nú er hafin í Noregi er hluti af stórauknu eftirlitskerfi ACER með orkunotkun í Evrópu. Hún auðveldar líka skjót viðbrögð við að rukka aukalega fyrir notkun á álagstímum eins og þegar fólk kemur heim úr vinnu á kvöldin. 
 
Í Noregi mun Norges vassdrags- og energidirektorat (NVE) fara með eftirlitið fyrir hönd ACER sem er með höfuðstöðvar í Ljubljana í Slóveníu, en væntanlega yrði slíkt í höndum Orkustofnunar á Íslandi samkvæmt frumvarpsdrögum til laga um breytingu á raforkulögum. 
 
Framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins hefur lagt mikla áherslu á að AMS mælar verði innleiddir samkvæmd „Europe-wide plan“ áætlun. Á vefsíðu EURACTIV kemur hins vegar fram að sendinefnd iðnrekenda í Evrópu hafi sagt það á fundi 2016 að engin þörf væri á að innleiða slíka mæla. Var sú umsögn sögð vera mjög vandræðaleg fyrir framkvæmdastjórnina, en eigi að síður hefur þessari innleiðingu verið haldið áfram þrátt fyrir að t.d. Þjóðverjar séu mjög tvístígandi í málinu. 
 
Enginn hagrænn ávinningur
 
Samkvæmt orkupakka 3 var markmiðið sett  árið 2009 að búið verði að skipta út 80% orkumæla innan orkukerfis Evrópu með AMS smartmælum fyrir árslok 2020. Grunnurinn að smartmælainnleiðingunni var þó lagður af yfirvöldum ESB mun fyrr, eða strax árið 2006. Það á bæði við mæla í íbúðarhúsnæði sem og í atvinnuhúsnæði. Samt er haft eftir Markus Merkel, ráðgjafa stjórnar dreifingarfyrirtækisins German distribution system operator (DSO), að enginn hagrænn ávinningur verði af uppsetningu smartmæla í Þýskalandi. Ítrekað hefur komið fram að helsti tilgangur með innleiðingu AMS smartmælanna sé að með þeim verði hægt að stjórna betur en ella breytilegri gjaldtöku og útreikningi orkureikninga. 
 
Smartmælir, Advanced Metering System (AMS).
 
Harðar deilur um AMS smartmælana víða um lönd
 
AMS-mælarnir eru þannig úr garði gerðir, að þeir senda þráðlaust gögn í báðar áttir. Stjórnun á þessu kerfi verður undir yfirstjórn ACER og Evrópusambandsins. Hefur uppsetningu þeirra ekki bara verið mótmælt í Noregi, heldur einnig í Þýskalandi, Frakklandi og í Hollandi. Notandi í Þýskalandi benti t.d. á að boðin væru send þrálaust með ótryggum hætti sem auðvelt væri að komast inn í. Þannig gæti t.d. innbrotsþjófar fylgst nákvæmlega með hvort fólk væri heima eða ekki. 
 
Hörð mótmæli gegn AMS mælunum hafa sprottið upp víða þar sem þeir hafa verið teknir í notkun. Það á m.a. við í Bandaríkjunum og í Kanada. Hefur fólk jafnvel verið handtekið og sektað fyrir að reyna að koma í veg fyrir uppsetningu slíkra mæla, eins og tvær konur í Naperville í Bandaríkjunum fengu að upplifa. Svo mikil er reiðin að einn húseigandi í Bresku Kólumbíu í Kanada hótaði meira að segja starfsmönnum orkufyrirtækis og lögreglumönnum með sprengju ef þeir dirfðust að nálgast hús hans. Voru þeir reyndar komnir til að fjarlægja mæli sem þar hafði verið settur upp í heimildarleysi. 
 
Mikill ótti við smartmælana
 
Þá hótaði kona starfsmönnum CenterPointEnergy í Houston í Bandaríkjunum með byssu ef þeir reyndu að setja mæli upp á hennar heimili. Sagði hún mælinn gera orkufyrirtækjum kleift að hnýsast í einkahagi fólks, m.a hvernig það nýtti heimilistæki eins og tölvur. 
 
Orkufyrirtækin geta með AMS mælunum mælt hvenær sólarhringsins fólk notar mest rafmagn og þau hafa enn fremur gefið út, að á þeim tímapunktum muni verðið á rafmagninu verða hærra. Þetta er mjög óheppilegt fyrir fólk sem er í fullri vinnu og þá sérstaklega barnafjölskyldur, sem eru háðar því að þurfa að nota meira rafmagn þegar vinnudeginum lýkur. Því að þá þurfa flestir að útbúa kvöldmat, þvo föt og fleira  áður en farið er í háttinn. Þá verður aukið álag á kerfinu sem búist er við að orkufyrirtækin rukki aukalega fyrir. Þá óttast gagnrýnendur að fólk muni eiga á hættu að fá himinháa bakreikninga fyrir rafmagnsnotkun á álagstoppum. 
 
Þvinguð innleiðing smartmæla
 
Þá er einnig gagnrýnt í Noregi að fólk hafi ekkert val og sé þvingað til að taka inn þessa mæla sem fylgjast síðan nákvæmlega með allri þeirra raforkunotkun. Talað er um að þvingunum hafi verið beitt vegna innleiðingar AMS-mælanna. Fullyrt er að orkufyrirtækin hafi farið hamförum  gagnvart viðskiptavinum sem settu sig upp á móti því að taka inn í sín hús slíka mæla. Dæmi séu um að þeir sem neituðu hafi fengið „hótunarbréf“ um aukagjald upp á 2.000 norskar krónur á ári.
 
Talið varasamt fyrir þjóðaröryggið 
 
Áætlað er að kerfið verði tilbúið í Noregi 1. janúar 2019. Þá munu orkufyrirtækin geta mælt og vakað yfir allri rafmagnsnotkun viðskiptavina sinna. Þau munu sjá nákvæmlega hvernig notkunin er og hvenær fólk er að heiman. Þetta er af mörgum  talið stórhættulegt vegna eðlis samskiptanna við þessa mæla. Bent hefur verið á að til samskipta við AMS-mælana er notast við net af grunnstöðvum sem settar verða upp úti um allt í samfélaginu. Þessi digital-lausn mun þess vegna verða viðkvæm fyrir árásum tölvuþrjóta og hefur m.a. verið bent á það í Noregi að óvinaríki geti stöðvað allan flutning á rafmagni í landinu með því að brjótast inn í þetta kerfi. Menn þurfi ekki lengur að fara í stríð með sprengjum og vopnum, en geta í staðinn stöðvað alla rafmagnsframleiðslu og á þann hátt lamað viðkomandi land algjörlega.
 
Ofan á þetta allt saman hefur verið fullyrt að notkun smartmæla geti verið hættuleg heilsu manna. Það er sagt vera vegna þess að þeir séu í stöðugum þráðlausum samskiptum við orkusala og af því stafi mikil geislun. Vísað er m.a. í viðvaranir Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO sem setji smartmæla á lista með öðrum tækjum sem gefa frá sér geislun samkvæmt staðli 2B og geti valdið krabbameini. Þetta er þó mjög umdeild skoðun, líkt og varðandi meinta skaðsemi af notkun farsíma og svipaðra tækja.  

6 myndir:

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...