Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Ég á erfitt með að skilja hugsun margra í umræðunni. Það virðast margir vera orðnir svo sjálfhverfir og horfi einungis í aurinn og það að eitthvað kunni að sparast í augnablikinu og að útf rá þessum aurum sé í lagi að ganga frá íslenskum landbúnaði dauðu
„Ég á erfitt með að skilja hugsun margra í umræðunni. Það virðast margir vera orðnir svo sjálfhverfir og horfi einungis í aurinn og það að eitthvað kunni að sparast í augnablikinu og að útf rá þessum aurum sé í lagi að ganga frá íslenskum landbúnaði dauðu
Mynd / HKr.
Líf&Starf 13. janúar 2016

„Besta náttúruverndarráðstöfunin er falin í því að laga vegina“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Trausti Valsson lætur af störfum nú um áramótin sem prófessor í skipulagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hann er að verða sjötugur. Hann er ekki síst þekktur fyrir djarfar hugmyndir sínar um tengingar landshluta með vegum þvert yfir hálendi Íslands.  
 
Víst er að hugmyndir Trausta hafa ekki fallið öllum í geð og fullyrt hefur verið að þær stangist á við náttúruvernd. Þessu vísar Trausti alfarið á bug og segir mikinn misskilning í slíkum fullyrðingum. Hann hefur nú gefið út bók sem er eins konar yfirlit yfir hugmyndir hans og feril og ber titilinn Mótun framtíðar.  
 
Það eru nú þegar vegir yfir hálendið
 
„Kannski er fyrst til að taka að sennilega átta sig ekki allir á því að það eru þegar komir vegir víða um hálendið og á sumum stöðum allgóðir vegir. Ef við tökum til dæmis Kjalveg, þá hefur Vegagerðin smám saman verið að bæta þann veg og búið er að brúa einu ána á leiðinni sem er Seyðiskvísl. Landsvirkjun lagði líka veg á sínum tíma upp að Blöndulóni og dálítið suður á sandinn vegna efnisflutninga við virkjanaframkvæmdir. Sunnan frá náði vegurinn fyrst upp að Gullfossi en teygðist svo lengra til norðurs.“
Trausti segir að í dag sé Kjal­vegur mjög mikið nýttur af ferðaþjónustuaðilum, bæði sumar og vetur. Mikið sé farið þessa leið með ferðamenn á Hveravelli, í Kerlingarfjöll og í vélsleðaferðir á Langjökul. Þessir aðilar hafi ýtt mjög undir kröfur um að vegurinn væri lagfærður, enda hefur sunnanverð leiðin oft á tíðum verið eitt samfellt þvottabretti.
 
„Það er kominn allgóður vegur langleiðina upp að Bláfellshálsi. Það eru ekki nema 80 kílómetrar eftir af Kjalvegi sem þarf að endurbæta og á þeirri leið þarf enga brúargerð,“ segir Trausti.
 
Kjalvegur í dag er hættulegur heilsu manna og ökutækjum
 
Hann bendir á að á meðan vegurinn sé sums staðar mikið niðurgrafinn verði hann alltaf til vandræða. Í bleytutíð sé oft eina leiðin fyrir vegfarendur að aka upp úr grafningunum og búa þá til nýjar slóðir utan vegar.
 
Í þurrviðri sé stöðugur rykmökkur á þessari leið sem sé lítið augnayndi fyrir náttúruunnendur auk þess sem nýjustu rannsóknir sýni að slíkt ryk sé stórhættulegt við innöndun. Ástæðan er einkum hversu smágerð kornastærð er í vegaryki sem leitar þá niður í lungnablöðrurnar og situr þar fast.
 
Vegarykið er stórhættulegt
 
„Vegaryk er því stórhættulegt fyrir lungun. Auk þess sem varla sést til fjalla í rykmekkinum. Því finnst mér alveg þess virði að hugleiða hvort ekki megi eitthvað draga úr þessu ryki. Ég held að besta aðferðin til þess sé að leggja olíumöl á veginn.“
 
Trausti vísar til ráðstefnu sem haldin var um hálendisvegi á Hótel Sögu fyrir tveim árum. Þar lýsti fulltrúi rútubílafyrirtækisins Sterna þeim hörmungum, sem rútuútgerðir, sem gera út á akstur um Kjalveg, eigi við að etja. Mikið tjón verði á rútunum eftir hverja ferð vegna lélegs ástands vegarins. Þá sé fjöðrunarbúnaðurinn í nýjum rútum ekki hannaður fyrir slíka óvegi.   
 
Segir Trausti að skynsamlega uppbyggður vegur með bundnu slitlagi bæti úr öllum þessum atriðum. Segir hann lykilatriðið að vegirnir séu ekki niðurgrafnir heldur byggðir aðeins upp úr yfirborðinu úr góðu efni þannig að þeir losi sig við vatnið. Einnig sé nauðsynlegt að lyfta veginum aðeins upp úr lægðum þar sem skaflamyndun sé mest á vetrum. 
 
Vanþekking
 
„Ég held að fólk sem mest stýrir umræðunni gegn slíkum framkvæmdum skilji ekki, eða vilji ekki gefa sér tíma í að kynna sér um hvað málið snýst.“  
 
Trausti segist sjálfur hafa mikinn áhuga á náttúruvernd. Í þeim hópi sé þó fólk sem lætur mikið í sér heyra í gagnrýni á vegagerð og aðrar framkvæmdir, en virðist oft ekki hafa tæknilega þekkingu á því sem það er að tala um.
 
„Mér finnst að þegar slíkt fólk er farið að stjórna umræðunni, þá séum við komin í svolítið slæm mál. Oft er þetta líka mjög sjálfhverft fólk sem er að reyna að afla sér vinsælda í ákveðnum hópum.“
 
Segir Trausti að þetta sé þó ekki algilt í málflutningi náttúruverndarsinna, sem upp til hópa sé ágætis fólk. Dæmi um það sé t.d. dr. Þorleifur heitinn Einarsson, prófessor, jarðfræðingur og náttúruverndarsinni, sem alla tíð hafi verið mjög praktískur í sínum rökfærslum. Hann sat m.a. í náttúruverndarráði á áttunda áratug síðustu aldar og var virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands. 
 
Trausti segir að vönduð vegagerð um hálendið og víðar séu grundvallarhagsmunir, ekki síst fyrir byggðir sem fjærst eru þéttbýlinu.
 
„Fyrir það fólk er mjög mikilvægt að vegasambandið stystu leið milli landshluta verði bætt. Það eru fyrst og fremst vegabætur sem geta bætt búsetuskilyrði þessa fólks.
Þvert á þetta liggja nú fyrir Alþingi tillögur að svokallaðri landsskipulagsstefnu sem er ótrúlega slæmt plagg. 
 
Ef komist væri út úr þessu kræklótta, slæma og ófrágengna vegakerfi, sem landsskipulagsstefnan vill festa í sessi, þá væri hægt að stytta leiðina úr Reykjavík til Norðausturlands um 200 kílómetra með því að fara um Sprengisand. 
 
Á þessari leið eru vegslóðar, sem ég hef stúderað mjög mikið. Sú leið sem stytta myndi vegalengdir langmest yrði vegur yfir hálendið og niður austan við Skjálfandafljót og beint niður að Mývatni, en ekki niður Bárðardal og niður með Goðafossi. Þetta myndi stytta leiðina um 80 kílómetra til viðbótar miðað við að fara um Bárðardalinn. Þannig eru margar leiðir til styttingar sem fólki er ekki kunnugt um. 
 
Hálendið aðeins fyrir ríka fólkið á stóru jeppunum?
 
Þetta er ekki spurning um að leggja nýja vegi alfarið um ósnortið land, heldur að endurbæta þá vegi sem fyrir eru. Eitt finnst mér nokkuð mótsagnakennt í umræðunni um túrisma. Margir sem kveðið hafa sér hljóðs í þeirri umræðu vilja leggja aukna áherslu á ferðamennsku en segja um leið að hálendið sé svo dýrmætt að þar eigi helst að takmarka aðgengi. Mér finnst mikil mótsögn falin í því að segja að þetta svæði sé mikilvægt, en tala svo á móti því að það sé gert aðgengilegt fyrir venjulegt fólk, en verði aðeins fyrir ríka fólkið á stóru jeppunum. Þetta fólk hefur notið þess fram til þessa að vera með hálendi Íslands meira og minna út af fyrir sig og vill helst hafa það þannig áfram.   
 
Besta náttúruverndin falin í lagfæringu veganna
 
Mér finnst að almenningur og erlendir ferðamenn eigi að hafa kost á því að komast inn á þetta svæði á venjulegum bílum, sem ekki er hægt í dag. Þess í stað er fólk að skrönglast þetta eftir illfærum slóðum og utan vega og eyðileggja landið. 
 
Ég hef haldið því fram að með aukinni umferð ferðamanna, þá sé einhver besta náttúruverndarráðstöfun falin í því að laga vegina til að koma í veg fyrir utanvegaakstur.“
 
Sjálfbærni landbúnaðar afar mikilvæg
 
Trausti hefur áhuga á mörgum öðrum málum sem tengjast landnýtingu, eins og landbúnaði, og fjallar líka um þau í hinni nýju  bók sinni, „Mótun framtíðar“. 
 
„Mér finnst mjög áhugaverð umræðan á seinni árum um sjálfbæra þróun. Ég og Birgir Jónsson, samkennari minn við Háskóla Íslands, efndum til samstarfs við Ernu Bjarnadóttur, hagfræðing hjá Bændasamtökum Íslands, um rannsóknir á hvernig það væri ef landinu yrði skipt í ákveðna fleti út frá hugsuninni um sjálfbærni.
 
Almennt má segja að sjálfbærni byggist á því að ná sem mestri hagkvæmni. Allt sem er hagkvæmt fer vel með viðkomandi starfsgrein og þar með þjóðfélagið. Í þessum vangaveltum könnuðum við ýmislegt, m.a. hvar hentugustu aðstæðurnar væru fyrir landbúnað á Íslandi. Hér á landi eru margar góðar forsendur fyrir þessa grein, m.a. gnægð vatns, möguleikar tengdir jarðhita, næg landbúnaðarlönd, hlýnandi loftslag, meiri frjósemi, möguleiki á stækkun svæða, lítil þörf á notkun tilbúins áburðar, gott rými og litlar áveitur. Þó margt gott sé um áveitur að segja, sérstakleg í þurrari löndum, þá skilja þær eftir salt í jarðveginum þegar þær þorna upp. Það er orðið stórt vandamál víða í landbúnaði.“
 
Nauðsynlegt að tryggja fæðuöryggi til að geta mætt áföllum
 
Bendir Trausti á að þegar lögmál markaðarins fái ein að ráða ferðinni, þá sé farið að horfa á hagsýnissjónarmið út frá mjög þröngum skilningi. Þegar menn vilji byggja upp starfsemi eins og landbúnað í einhverju landi, eða í heimsálfum eins og Evrópu, þá megi sú hugsun aldrei vera allsráðandi að einblína á fljóttekinn og mikinn hagnað fyrir rekstraraðila heldur verði sú uppbygging að byggja á skynsemi út frá heildarsjónarmiðum.
 
„Mér þykir slæmt að heyra það varðandi mögulega tollasamninga ef Evrópu­sambandið reynir ekki að passa upp á að hafa hlutina þannig að framtíðarsjónarmið í þágu heildarinnar ráði í reglugerðarsmíð og löggjöf.
 
Síðan er annað sem þarf að hafa í huga, þegar verið er að huga að skipulagningu atvinnuvega. Það er að krísuástand getur alltaf komið upp. Þá þurfum við að vera með þannig starfsemi að hún sé sem mest sjálfbær og þoli áföll. Þetta varðar notkun á innlendum áburði, orku og alla aðra hluti.  Síðasta dæmið um mikilvægi þess að vera með sterkan íslenskan landbúnað sáum við í kreppunni sem skall á 2008. Þá snarlækkaði verðið á íslensku krónunni þannig að allur innfluttur matur varð mjög dýr. Ef við hefðum þá ekki verið með okkar íslenska landbúnað, þá hefði höggið orðið mun meira. Það er því nauðsynlegt að við séum sjálfbær um okkar grunn-matvælategundir.  Þetta er alveg það sama og gerðist í kreppunni miklu um 1930. Þá voru ekki til peningar til að flytja inn dýr erlend matvæli. Þá gat þjóðin komist af með því að lifa á íslenskum landbúnaðarafurðum og fiski. Það bjargaði þjóðinni þá. 
 
Það væri góð stefna fyrir framtíðina að við gætum í viðlögum og alvarlegum tilfellum komist með góðu móti af án mest alls innflutnings. Í það minnsta hvað varðar grunn-matvælategundir  þ.e. að við eigum nóg af þeim til að halda lífinu í fólkinu.“
 
Of sjálfhverf og þröngsýn umræða
 
Trausti segir að Íslendingar geti ekki leyft sér að halda að heimsmyndin verði í framtíðinni eintóm hamingja. Fólk eigi að vera minnugt þess að á síðustu öld voru tvær heimsstyrjaldir þar sem landið lokaðist að allverulegu leyti fyrir innflutningi, t.d. vegna of hás verðs. 
 
„Mér finnst að framtíðarstefna þjóðarinnar þurfi að taka mið af stærri viðburðum af þessum toga. Ég á erfitt með að skilja hugsun margra í umræðunni. Það virðast margir vera orðnir svo sjálfhverfir og horfi einungis í aurinn og það að eitthvað kunni að sparast í augnablikinu og að út frá þessum aurum sé í lagi að ganga frá íslenskum landbúnaði dauðum. Þetta lýsir mikilli þröngsýni og þröngum sjóndeildarhring fólks. Það virðist ekki skilja að það geti borgað sig að kosta töluverðu til að tryggja hér öryggi, þannig að við getum búið hérna í hættuástandi, á því sem landið gefur. 
 
Við þurfum ekkert að búast við að hér komi ekki aftur upp alvarleg krísa í heiminum, líkt og var á 20. öld, sem geti lokað landinu, nú eða komi stór eldgos eins og svo oft hefur gerst í Íslandssögunni,“ segir Trausti Valsson prófessor.  (Faeebook-síða bókarinnar heitir eins og hún „Mótun framtíðar“.
 
 
Úr bókinni Mótun framtíðar:
Ef ekki hefði verið ráðist í miklar vegabætur og ef landið hefði ekki upplifað þann geysilega vöxt í ferðaþjónustu sem varð við upphaf 21. aldar, þá hefði ferðaþjónustan ekki verið eins tiltæk sem stór hjálp þegar landið lenti í hruninu 2008.
 
Það sem enn vantar mest í vegakerfinu – og hefði átt að vera komið fyrir löngu – er að ljúka hálendisvegum. Nokkuð hefur þó samt áunnist þar í vegabótum, því Kjal-, Sprengisands- og Vatnajökulsvegir eru nú komnir að hálfu. En afgangurinn er aðeins slóðar sem gerir að þessir hálendisvegir, sem eru komnir að hálfu, nýtast ferðaþjónustunni mjög lítið.
 
Þegar vegakerfi landsins fór að myndast í byrjun 20. aldar, var það eðlileg stefna að tengja helstu bæi á ströndinni, og urðu þannig til frumdrög að hringveginum í útjaðri landsins. Næst var farið í að tengja landsvæði. T.d. kom vegtengingin til Austurlands 1934. Skaftafellssýslur voru tengdar með brúm á Skeiðarársandi 1974 og var þá fyrst hægt að aka hringinn í kringum allt landið. Varð það mjög til að auka hringflæði ferðamennskunnar.
 
Jafnframt var unnið að því að leggja vegi inn til sveitanna, inn til landsins, en þetta voru allt botnlangavegir og hafa þeir því enn nýst lítið fyrir ferðaþjónustu. Stóri möguleikinn í að auka flæði ferðaþjónustunnar í uppsveitum felst í því að ljúka hálendisvegum og tengja botnlanga-sveitavegina inn á þá, sem fengju því fleiri ferðamenn. Með hálendisvegum mundu byggðarlög t.d. á Suður-, Norður- og Austurlandi tengjast beint, en í dag þarf að taka krókinn um Vesturland/Reykjavík,  eða Suðurland/Austfirði til að fara þarna á milli.
 
Einn mikilvægasti ávinningur sem kæmi með hálendisvegum væru fjölmargar nýjar stuttar hringleiðir um landið, en hringvegurinn með ströndinni er of langur, eða tæpir 1400 km.
 
Um landskipulagsstefnuna í bókinni Mótun framtíðar:
Þeir sem unnu lands­skipulags­­stefnuna hafa þá sýn að miðja landsins verði einskonar þjóðgarður, sem heimsóttur er frá jöðrunum. Áherslan á verndun og „ósnortin víðerni“ er svo víðtæk, að lagðir eru margir steinar í götu orkuvinnslu og vegagerðar á hálendinu. T.d. er talað um „sumarvegi“ sem verði opnir 4-6 mánuði á ári og er þá ekki tekið tillit til þess að hlýnunin mun þýða að miklu auðveldara verður, vegna minni snjóa, að halda vegum á þessum slóðum lengur opnum. Og fjallvegir á miðhálendinu eru ekki mikið öðruvísi en aðrir fjallvegir í landinu, nema að þeir eru lengri.
 
Það sem er þó undarlegast við ofangreinda stefnu í vegamálum á Miðhálendinu – og kemur fram í landsskipulagsstefnunni – er að hún tekur lítið tillit til þess að þegar árið 2002 mótaði Alþingi þá stefnu að lagðir yrðu fjórir stofnvegir (sem þýðir mjög góðir vegir) á hálendinu: Tveir þeirra, Kjalvegur og Sprengisandsvegur, mundu færa uppsveitir Norður- og Suðurlands hundruð kílómetra hverjar nær annarri. 
 
Tæplega er hugsanleg áhrifameiri aðgerð í byggðarmálum, enda mundi flæði ferða-mennskunnar geta náð miklu betur út fyrir SV-land með þessu. Hringleiðir sem hér yrðu til, yrðu einnig mjög dýrmætar, og með að opna ferðastraumum betri leið norður og austur, léttist á umhverfisálagi ferðamennsku á SV-landi. 
Hálendisvegir mundu líka gegna miklu öryggishlutverki í náttúruhamförum og hefur stofnvegurinn Fjallabaksleið nyrðri þar mestu hlutverki að gegna sem varaleið, t.d. þegar Kötlugos kemur, en það gæti rofið hringveginn í marga mánuði.
 
Svo gæti virst að andstaða við hálendisvegi væri mikil, en í skoðanakönnun Bylgjunnar 20/4 ´15 var spurt: Viltu að hálendisvegur verði lagður er tengi Suður- og Norðurland? Á móti voru 28,6%, en 71,4% voru með því að hálendisvegur yrði lagður.

8 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...