Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Unga parið Alejandra Soto Hernández og Vífill Eiríksson og á milli þeirra hjónin Eiríkur Gunnarsson og Inger Steinsson.
Unga parið Alejandra Soto Hernández og Vífill Eiríksson og á milli þeirra hjónin Eiríkur Gunnarsson og Inger Steinsson.
Mynd / Syðra-Holt
Líf og starf 7. nóvember 2022

Útirækta lífrænt grænmeti og undirbúa sauðamjólkurframleiðslu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Það vekur jafnan athygli þegar fréttist af nýjum garðyrkjubændum, ekki síst ef þeir stunda lífræna ræktun.

Í Syðra-Holti í Svarfaðardal hafa þau Eiríkur Gunnarsson, Inger Steinsson, Vífill Eiríksson og Alejandra Soto Hernández komið sér fyrir með útiræktun á margvíslegu grænmeti og ætla sér ekki eingöngu að stunda þar garðyrkju heldur stefna þau einnig á lífræna sauðamjólkurframleiðslu á næstu árum.

„Við tókum við jörðinni hér fyrir tveimur árum síðan og erum hægt og rólega að fikra okkur áfram með þessa útiræktun, en ætlum okkur svo meira í nánustu framtíð – við köllum þann búskap mjólkurfé og sauðaostaframleiðslu,“ segir Eiríkur um forsögu þeirra í Syðra- Holti, en þau eru á seinna árinu í aðlögunarferlinu að lífrænni vottun.

Nýting lífrænna áburðarefna

Um miðjan september úthlutaði matvælaráðuneytið þróunarfé búvörusamninga fyrir þetta ár. Á meðal þeirra sem fengu styrk úr garðyrkjuhlutanum voru einmitt bændurnir í Syðra-Holti, fyrir verkefnið Nýting lífrænna áburðarefna úr nærsamfélaginu í lífræna garðyrkju.

„Við erum búin að finna allt það efni sem við viljum nota, eins og hrossatað úr nágrenninu og fiskúrgang frá fiskvinnslu á Dalvík,“ segir Eiríkur.

Hugmyndin er því sú að gera tilraunir við að moltugera þetta hráefni sem ekki hefur áður verið nýtt til verðmætasköpunar.

Nýlagður haugur sem inniheldur hálm, hrossatað, gamalt hey og fiskislóg. Eiríkur segir að af þessu sé engin ólykt, þetta ilmi bara vel.

Forsendan að eiga mikið til af moltu

„Ég kláraði nám mitt í búfræði á Hvanneyri 1986, síðan fór ég þremur árum síðar til Svíþjóðar og lauk námi í lífrænni ræktun. Síðan hef ég bara verið að fást við aðra hluti og það er ekki fyrr en núna, og ég orðinn sextugur, sem draumurinn um eigin lífrænan búskap verður að veruleika,“ segir Eiríkur, spurður um reynslu hans úr landbúnaði.

Undanfarin tvö sumur hafa nýbúarnir í Syðra-Holti verið að prófa sig áfram með ræktun á ýmiss konar grænmeti en sem stendur rækta þau kál, fennel, kartöflur og gulrætur, auk þess að framleiða meðal annars sýrt grænmeti. Þau halda einnig námskeið í slíkri úrvinnslu.

„Við erum líka að vinna að sérstakri ræktunaraðferð, sem við fengum styrk úr Matvælasjóði til þess að þróa. Hún kallast „no dig“ – og felst í því í grundvallaratriðum að það er ræktað í beðum án þess að bylta jarðveginum – og forsendan fyrir þessari ræktunaraðferð er einmitt að eiga mikið til af moltu,“ segir Eiríkur.

Áttatíu mjólkandi ær

Eiríkur segir að verið sé að standsetja fjárhúsin til að geta tekið á móti gripum.

„Við ætluðum að reyna að taka inn gripi núna í haust, en við urðum að fresta því um eitt ár. Við sjáum fyrir okkur að vera með allt að 80 mjólkandi ær. Við höfum heimsótt nokkra bæi í Svíþjóð og Noregi sem eru með mjólkurfé og sauðaostaframleiðslu. Þar er gjarnan austur-frísískt fé, sem gefur þó nokkuð meira af sér en það íslenska. En miðað við þær tilraunir sem hafa verið gerðar með sauðaostaframleiðslu hér á Íslandi þá ætti þetta að geta orðið eining sem getur rekið sig. Þá erum við að tala um að sauðfjárbúskapurinn sé á forsendum mjólkurframleiðslunnar. Auðvitað verða kjöt og ull meðafurðir sem maður nýtir.“

Frá námskeiði á Syðra-Holti í sýringu grænmetis.

Syðra-Holt gæti orðið fyrsti bærinn á Íslandi þar sem sauðfjárbúskapur verður stundaður á forsendum mjólkurframleiðslunnar.

„Mér vitanlega eru einungis tveir bæir með sauðamjólkurvinnslu á Íslandi, en þá sem hliðarbúgrein.“

Óumflýjanleg þróun í landbúnaði

Í styrkumsókninni til matvælaráðuneytisins er lýsing á markmiðum verkefnisins. Þar kemur fram að ætlunin sé að þróa og byggja upp aðstöðu til moltugerðar úr lífrænum úrgangi og miðla hagnýtri þekkingu um slíka moltugerð. Markmiðið er einnig að hanna og útbúa aðstöðu til moltugerðar þar sem notaður verður lífrænn úrgangur eða áburðarefni sem ónýtt eru í nærsamfélaginu og eru jafnframt samþykkt sem áburðarefni í lífrænni ræktun.

Verið að bylta safnhaugnum sem gert er á fjögurra daga fresti í 4-5 skipti. Markmiðið er að halda 50-60 gráðu hita í haugnum í a.m.k. tvær vikur. Þá er efnið orðið vel niðurbrotið, illgresisfræ dautt og fjölbreytt örverulíf til staðar.

Væntingar umsækjenda séu að verkefnið stuðli ekki aðeins að vistvænni búrekstri og vistvænni nýtingu lífræns úrgangs, heldur muni einnig sýna fram á hagkvæmni þess að nýta þann lífræna úrgang sem aðgengilegur er á hverjum stað sem áburðarefni í garðyrkju. Fyrirhugað er að nota verkefnið til fræðslu og kynningar um nýtingu lífræns hráefnis. Ætlunin sé að byggja upp aðstöðu til moltugerðar sem annar að minnsta kosti 70 tonnum af tilbúinni moltu. Notast verður við þá aðferð að blanda fiskúrgangi við hrossatað og hálm. Gera þurfi tilraunir með hlutfall þessara efna til þess að fá rétta blöndu milli kolefnis og köfnunarefnis.

Í umsókninni kemur fram að fiskislóg innihaldi mikið af köfnunarefni á meðan hálmurinn leggi til kolefnið. Til þess að halda hitamynduninni hæfilegri þurfi að bylta haugnum og vökva hann. Með aðferðinni, sem sé smækkuð útgáfa af moltugerð hjá Moltu ehf. og Terra, verði hægt að umbreyta fiskislóg á þremur til fjórum vikum í næringarríkan og örveruríkan jarðveg, sem verður notaður sem áburðarefni í garðyrkju. Þar kemur enn fremur fram að þegar farið var af stað með grænmetisræktun á Syðra-Holti var gert ráð fyrir að nota moltu frá Moltu ehf. á Akureyri. Í ljós kom að moltan var ekki samþykkt af vottunarstofunni TÚN til lífrænnar ræktunar þar sem í henni reyndist vera of hátt gildi af kopar og zinki auk þess sem mikið var af plastögnum í moltunni.

Mikið hafi verið rannsakað og ritað um nýtingu lífrænna áburðarefna sem falla til og eru lítt eða ekki nýtt. Til mikils sé að vinna að koma sem mestu af lífrænum úrgangi aftur inn í hringrásina og sjá umsækjendur tækifæri til að sýna í verki óumflýjanlega þróun í landbúnaði framtíðarinnar, bæði garðyrkju og akuryrkju. Þá er þess getið að umsækjendur vilji freista þess að sýna fram á hagkvæmni þess að nýta ýmis lífræn áburðarefni í garðyrkju þar sem ávinningurinn er vistvænni landbúnaður og vistvænni nýting úrgangshráefna. Umsækjendur vilji þannig hvetja garðyrkjubændur, sem og aðra bændur, til þess að líta til þeirra áburðarefna sem falla til í nærumhverfinu og nýta þau til þess að byggja upp frjósaman og örveruríkan jarðveg.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...