Kýrin Svana í Flateyjarbúinu var afurðamest yfir landið á síðasta ári og skilaði 14.345 kílógrömmum.
Kýrin Svana í Flateyjarbúinu var afurðamest yfir landið á síðasta ári og skilaði 14.345 kílógrömmum.
Mynd / Vilborg Rún Guðmundsdóttir
Líf og starf 31. janúar

Skilaði rúmum 14,3 tonnum af mjólk

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Samkvæmt skýrsluhaldi Ráð­gjafar­miðstöðvar landbúnaðar­ins (RML), þá var kýrin Svana frá Flateyjar­búinu í sveitarfélaginu Hornafirði afurðahæst allra kúa á Íslandi 2019. Skilaði hún 14.345 kg afurðum til eigenda sinna og var jafnframt sú eina sem mjólkaði yfir 14 tonn á árinu.

Í öðru sæti var kýrin Spurning frá Birtingarholti í Hrunamannahreppi og kýrin Rækja frá Flateyjarbúinu var svo í þriðja sæti.

Birgir Freyr Ragnarson, bústjóri í Flatey, og Vilborg Rún Guðmundsdóttir fjósameistari. 

Tóku við rekstrinum 2016

Birgir Freyr Ragnarson er bússtjóri í Flatey, en hann er frá Akurnesi í Nesjum, skammt frá flugvellinum í Hornafirði. Þar er rekið sauðfjárbú með um 450 til 500 fjár auk þess sem stunduð er umfangsmikil kartöflurækt. Hann tók við rekstri Flateyjarbúsins haustið 2016 ásamt kærustu sinni, Vilborgu Rún Guðmundsdóttur, frá Vatnsleysu í Biskupstungum. Hún kemur frá bæ þar sem stundaður er blandaður búskapur með kýr, sauðfé og hross til skemmtunar.

Drauma-„djobbið“

„Okkur hefur líkað mjög vel hér og höfum bæði brennandi áhuga á kúm og þetta er því drauma-„djobbið“. Það er mjög gaman að fá tækifæri til að vinna við þetta og hér öðlast maður mikla reynslu. Auðvitað felur þetta þó í sér miklar áskoranir, enda segir það sig sjálft að það að vera með 200 kýr útheimtir mikla vinnu og útsjónarsemi.“

Flateyjarbúið er eitt stæsta kúabú landsins með um eða yfir 220 kýr, en húsin rúma um 240 kýr. 

Með 190 til 200 mjólkandi kýr

„Það er mjög gaman þegar vel gengur og í raun er allt búið að vera okkur í hag,“ segir Birgir Freyr. Hann segir að í fjósi séu að jafnaði 190 til 200 mjólkandi kýr en árskýr rúmlega 220. Allir nautkálfar sem fæðast eru seldir frá búinu til áframeldis á bæi í nágrenninu og austur á Hérað.

Fjósið hannað fyrir 240 kýr

Birgir Freyr segir að þau hafi verið að leggja inn í mjólkurbú um 1,5 til 1,6 milljónir lítra á ári. Húsin eru þó hönnuð fyrir um 240 kýr og um tveggja milljóna lítra framleiðslu. 

Hafa einblínt á að eignast góðar kýr

„Við höfum verið að einblína á að eignast góðar kýr og höfum því ekki mikið verið að kaupa kýr hjá bændum undanfarið sem eru að hætta bara til að bæta við okkur. Við viljum frekar rækta upp góðar kýr.
Hjá Flateyjarbúinu eru nú fimm starfsmenn, en þar af er einn þar í hálfu starfi meðfram skóla. Birgir Freyr bússtjóri segir að í heild séu við búið um fimm ársstörf þar sem fjölgað er um einn yfir sumarið þar sem þau sjá um allan heyskap sjálf en ráða ekki verktaka til þess.

Flateyjarbúið með þrjár af tíu afurðahæstu kúnum

Það vekur óneitanlega athygli að mjólkurbúskapur í Flatey skuli nú státa af þrem af tíu afurðahæstu kúm landsins og reyndar fjórar af sautján afurðamestu kúnum. Auk Svönu í fyrsta sæti og Rækju í þriðja sæti, var kýrin Aría í níunda sæti yfir afurðahæstu kýr á Íslandi 2019. Síðan kemur Sjón frá Flatey í sautjánda sæti.

Í fjórða sæti á listanum yfir tíu afurðahæstu kýrnar var kýrin Píla frá garði í Eyjafjarðarsveit. Þá var nafnlaus kú númer 1377801-0643 frá Lyngbrekku í Dalabyggð í fimmta sæti. Síðan kom Muska frá Grund í Svarfaðardal í sjötta sæti og Hera frá Smjördölum í Árborg í sjöunda sæti. Djassa frá Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var svo í áttunda sæti og Aría frá Flatey var eins og áður sagi í níunda sæti. Í tíunda sæti var svo Lokka frá Berustöðum 2 í Ásahreppi. 

Með gestastofu og sýningaraðstöðu fyrir gesti

Flateyjarbúið er vel hannað með tilliti til þess að sýna almenningi starfsemina sem þar fer fram. Birgir Freyr segir að yfir vor- og sumartímann og fram á haust, eða frá apríl og út september, sé þar tekið á móti gestum.
„Við erum hér með gestastofu og veitingastað þar sem fólk getur komið í heimsókn. Inn af honum eru svalir þar sem fólk getur horft yfir fjósið. Við höfum ekki heimilað fólki að fara niður á gólf eða inn í sjálft fjósið vegna sjúkdómahættu. Við höfum verið mjög ströng á því að gestir komist ekki í beina snertingu við gripina. Það þarf að hafa smithættuna í huga því hætturnar leynast víða.“ 

Flateyjarkýr á beit og njóta veðurblíðunnar í skjóli Vatnajökuls. 
 

Náðu góðum og miklum heyjum þrátt fyrir þurrka í sumarbyrjun

Birgir Freyr segir að þrátt fyrir mikla þurrka framan af síðasta sumri þá hafi þau náð saman góðu og miklu heyi á síðasta ári.

„Þetta kom mjög vel út og heyin voru góð. Það voru samt skelfilegir þurrkar framan af sumri. Mönnum leist bara ekkert á þetta og tún voru farin að brenna. Þá slógum við allt og fengum bara brotabrot af þeirri uppskeru úr fyrri slætti en annars hefði verið í eðlilegu árferði. Á móti fengum við mjög góð hey. Við bárum síðan á túnin aftur til að reyna að fá góðan seinni slátt. Það kom rigning seinni part sumars með miklum hita og alveg ævintýralegt magn fékkst því í seinna slætti. Þau hey voru mjög góð og með allra besta móti sem hefur svo skilað sér í góðri nyt.  Enda er það lykillinn að þessu að vera með góðar kýr og gott fóður.

Það er alveg sama hvað maður gefur mikið af kjarnfóðri, maður nær takmörkuðum árangri með því ef maður er ekki með gott gróffóður líka. Það skiptir líka máli varðandi gott heilsufar kúnna.“
Birgir Freyr segir að til að viðhalda kjarngóðum heyjum sé vel passað upp á að endurrækta tún.

„Við erum stöðugt með tún í endurræktun á hverju ári. Við plægjum alltaf eitthvað upp og setjum í það korn, rýgresi eða annað í skiptiræktun.“

Bifröst hefur skyldum að gegna gagnvart nærumhverfi sínu og landsbyggðinni allri
Líf og starf 18. september

Bifröst hefur skyldum að gegna gagnvart nærumhverfi sínu og landsbyggðinni allri

Skólahald í Norðurárdal í Borgar­firði má rekja allt aftur til ársins 1955 þegar...

Smölun og réttir, er það eitthvað ofan á brauð?
Líf og starf 4. september

Smölun og réttir, er það eitthvað ofan á brauð?

Vestfirska ærin og lambið hér á mynd virð­ast álíka áhyggjulaus og kindurnar á F...

Flokkun sorps til fyrirmyndar
Líf og starf 31. ágúst

Flokkun sorps til fyrirmyndar

Þeir sem eiga leið um eða hafa átt leið um Grímsnes- og Grafningshrepp hafa efla...

Nýr glæsilegur útsýnispallur við Hrafnagjá á Þingvöllum
Líf og starf 28. ágúst

Nýr glæsilegur útsýnispallur við Hrafnagjá á Þingvöllum

Nýlega hittust Guðmundur Ingi Guðbrands­son umhverfisráðherra, Vilhjálmur Árna­s...

Búseta á Bifröst
Líf og starf 13. ágúst

Búseta á Bifröst

Löng hefð er fyrir skólastarfi á Bifröst í Borgarfirði en sögu þess má rekja all...

Bændur hafa borið tilbúinn áburð á 3.635 hektara lands til gróðurstyrkingar
Líf og starf 5. ágúst

Bændur hafa borið tilbúinn áburð á 3.635 hektara lands til gróðurstyrkingar

Bændur í Holta- og Landsveit hafa verið ákaflega samstarfsfúsir við Landgræðslu ...

Hrönn Jörundsdóttir nýr forstjóri MAST
Líf og starf 22. júlí

Hrönn Jörundsdóttir nýr forstjóri MAST

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað doktor Hrönn Jörundsdóttur í ...

Sveitahótel við Elliðavatn
Líf og starf 21. júlí

Sveitahótel við Elliðavatn

Hótel Kríunes er fallegt sveitahótel og falin náttúruperla við Elliða­vatn á Vat...