Skaði asparglytta myndaður með dróna
Rannsóknarsvið Skógræktarinnar á Mógilsá verður með spennandi verkefni í sumar, sem byggir á drónamyndum.

Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Skógræktinni á Mógilsá.
Markmið verkefnisins er að kanna hvort hægt sé að nota dróna til að meta þann skaða sem meindýr og aðrir skaðvaldar valda í íslenskum gróðurvistkerfum.
Sjónum verður sérstaklega beint að bjöllutegundinni asparglyttu sem hefur valdið skaða á trjágróðri á tveimur svæðum á Suðurlandi. „Við munum láta drónann fljúga yfir rannsóknarsvæðin og taka myndir með vissu millibili. Myndirnar skarast og verða settar saman í eina stóra upprétta loftmynd. Við munum svo greina þær skemmdir sem koma fram á myndunum, bæði sjónrænt og með ákveðnu forriti sem greinir skaða á gróðri. Þetta verður síðan allt borið saman við niðurstöður hefðbundinna mælinga sem verða líka framkvæmdar á sömu svæðum til þess að kanna hversu mikil nákvæmni kemur fram í drónamyndunum,“ segir Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá. Ef niðurstöður úr drónamyndatökunum verða álíka nákvæmar og hefðbundnar mælingar niðri á jörðinni mun þessi aðferð verða mjög gagnleg fyrir framtíðar úttektir. „Drónamyndataka er hraðvirkari og því hagkvæmari en venjulegar mælingar. Auk þess kemst dróninn á svæði þar sem annars erfitt er að komast að til að mæla gróður,“ segir Brynja.
Grímsnes og Skaftafell
Í sumar mun dróninn fara á tvö svæði sem hafa orðið illa úti af völdum asparglyttu, annað í Grímsnesi og hitt í Skaftafelli. Brynja segir verkefnið mjög spennandi. „Það er ótrúlega mikið nýtt og spennandi að gerast í mælingum með drónum og öðrum fjarkönnunarbúnaði. Það er því spennandi að byrja að notast við þessa tækni í rannsóknum á skógum og öðrum gróðri. Ef allt gengur upp erum við komin með hraðvirka og hagkvæma leið til að meta ástand á skógum landsins. Það verður líka mjög gagnlegt að bera þessar myndir saman við myndir sem verða teknar af sömu svæðum í framtíðinni,“ segir Brynja. Verkefnið er m.a. styrkt af Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar og RANNÍS.

Heillaðist strax af asparglyttu
Ásókn asparglyttu í mismunandi klóna alaskaaspar er yfirskrift meistararitgerðar sem Kristín Sveiney Baldursdóttir varði frá Landbúnaðarháskóla Íslands þann 19. maí síðastliðinn.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á náttúrunni og draumurinn var lengst af að verða bóndi. Hins vegar kviknaði skordýraáhuginn í BS náminu mínu þar sem ég skrifaði lokaverkefni mitt um birkihnúðmý,“ segir Kristín, en hún er búfræðingur með BS gráðu í landgræðslufræðum og nú með MS gráðu í skógfræði. Samhliða námi hefur hún unnið hjá Landbúnaðarháskólanum og Landgræðslunni.
Lítið rannsökuð bjalla
Kristín sá asparglyttu í fyrsta skipti árið 2010, eða fimm árum eftir að hún uppgötvaðist. „Ég heillaðist strax af þessari bjöllu, enda falleg og áhugaverð. Þegar kom að því að velja mér verkefni í meistaranáminu kom í raun ekkert annað til greina en að skoða asparglyttuna. Mér fannst mikilvægt að skoða asparglyttuna á Íslandi enda engar rannsóknir verið framkvæmdar hérlendis á henni. Við vitum að hún hefur verið að valda töluvert miklum skaða á bæði ösp og víði og þar sem alaskaösp er það tré sem við erum að horfa einna mest til varðandi kolefnisbindingu þá ákvað ég að skoða alaskaasparklóna í þessari rannsókn,“ segir Kristín.
Hún framkvæmdi áttilraunir, bæði í rannsóknarstofu og utanhúss, auk þess sem hún framkvæmdi úttektir á skemmdum í klónasöfnum í Hrosshaga í Biskupstungum og á Mógilsá í Kollafirði. „Ég fylgdist með lífsferli asparglyttunnar og sendi spurningalista á aðila tengda garð- og skógrækt víðs vegar um landið og fékk þaðan upplýsingar um útbreiðslu og skaðsemi hennar almennt. Ég fór einnig sjálf í ferð um landið og leitaði að asparglyttu til þess að útbúa útbreiðslukort,“ segir Kristín.
Engir náttúrulegir óvinir
Kristín segir asparglyttu valda miklum skoða og usla. „Í Skaftafelli hafa til að mynda geisað asparglyttufaraldrar undanfarin ár og eru allar líkur taldar á að dauða gulvíðis þar megi rekja til þeirra en gulvíðir er lykiltegund í mörgum vistkerfum hérlendis. Þar sem hér virðast ekki vera neinir náttúrulegir óvinir asparglyttu verður að teljast líklegt að hún nái að valda meiri skaða í framtíðinni. Einnig er líklegt að með aukinni hlýnun muni stofnstærð hennar aukast og útbreiðslusvæði hennar á Íslandi stækka,“ segir Kristín.
Matarolía og vatn
Kristín er innt eftir ráðum til að forðast bjölluna eða að drepa hana. „Garðeigendur geta skolað asparglyttuna af blöðum trjánna ofan í fötur og fargað henni. Sumir hafa brugðið á það ráð að spreyja á laufblöð blöndu af matarolíu og vatni og þá kafnar bjallan. Aðrir hafa lagt blöð undir trén og þannig náð að safna lirfunum sem láta sig falla til jarðar áður en þær púpa sig. Í skógrækt væri hægt að gróðursetja lítið næma klóna og helst klónablöndur og þannig auka um leið líffræðilegan fjölbreytileika sem vitað er að minnkar líkur á skaða af völdum skordýra.”