Afurðamestu sauðfjárbúin
Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í blaðinu, kemur fram að enn og aftur trónir Gýgjarhólskot í Biskupstungum efst á listanum yfir afurðamestu bú landsins eftir hverja fullorðna á.
Í umfjöllun Eyjólfs Inga Bjarnasonar, ráðunautar hjá RML, kemur fram að á síðasta ári hafi sjö bú náð meira en 40 kílóum eftir hverja á. Langefst standi Gýgjarhólskot með 47,1 kíló, en búið hafi verið efst á þessum lista frá árinu 2015 og alltaf náð meira en 40 kílóum eftir ána.
Bæirnir í öðru og þriðja sæti hafa sætaskipti frá 2022. Nú skipa Efri-Fitjar í Fitjárdal annað sætið með 44 kíló eftir hverja á og Kiðafell í Kjós það þriðja með 43,9 kíló. Í annað sinn birtir RML lista yfir mestar afurðir eftir allar ær, veturgamlar og fullorðnar, og er Gýgjarhólskot einnig efst á þeim lista með 43,7 kíló eftir hverja á.
„Fullorðnu ærnar eru 285 en þær veturgömlu eru 69 og eru þetta algerlega frábærar afurðir eftir hjörðina,“ segir Eyjólfur Ingvi í sinni umfjöllun.
Sjá nánar á bls. 4 og 44 í 8. tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag.