Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Fiat 500 er lítill og bráðsnotur bíll. Þetta er hinn ákjósanlegasti borgarbíll fyrir þá sem ferðast með fáa farþega og lágmarks farangur, en vilja gera það með glæsibrag.
Fiat 500 er lítill og bráðsnotur bíll. Þetta er hinn ákjósanlegasti borgarbíll fyrir þá sem ferðast með fáa farþega og lágmarks farangur, en vilja gera það með glæsibrag.
Mynd / ÁL
Líf og starf 18. maí 2023

Gucci-veski á hjólum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hinn ítalski bílaframleiðandi hefur nú hafið framleiðslu á hinum smáa og knáa Fiat 500 rafmagnsbíl. Þetta er lítill borgarbíll þar sem hönnun og fegurð eru í öndvegi.

Helst keppir 500 á móti öðrum formfögrum rafmögnuðum borgarbílum, eins og Mini Cooper SE og Honda E. Bændablaðið tók til prufu Fiat 500 í vel útbúinni La Prima útgáfu.

Fiat endurvakti hinn klassíska 500 árið 2007 og hefur bíllinn meira og minna verið óbreyttur síðan þá. Þessi bíll er önnur kynslóð endurfædds 500 og verður einungis í boði sem rafmagnsbíll. Fyrri kynslóðin verður áfram framleidd fyrir þá kaupendur sem kjósa heldur bensínknúna bifreið.

Þegar bíllinn er skoðaður utan frá er erfitt að sjá hver munurinn er á þessum nýja, samanborið við þann gamla. Nýi bíllinn er stærri en forverinn á alla vegu, en hlutföllin eru þau sömu. Lítil ástæða er til að hverfa frá útlitinu, enda er Fiat 500 einn fallegasti bíll síðari tíma. Framljósin eru skýrasta útlitseinkennið til að þekkja þann nýja frá gamla. Í stað heils hrings, eru þau hálfhringur að neðan og LED bogi í húddinu. Á meðan gamli bíllinn er afar góðlegur á svipinn, þá má segja að sá nýi sé með ygglibrún.

Stór skotthleri bætir að hluta til fyrir lítið skottið.

Hásæti og vönduð innrétting

Fiat 500 er hugsaður sem borgarbíll og samkvæmt því er hann afar lítill. Þetta kemur sér sérlega vel þegar kemur að því að leggja í stæði. Útsýnið úr bílnum er afar gott á flesta vegu og skýr bakkmyndavél bætir upp það sem upp á vantar.

Þegar sest er inn fyrir taka á móti manni vönduð leðursæti og fríð innrétting. Stýrið og helstu snertifletir eru úr vönduðum efnum og áhugaverð áferð er á því sem blasir helst við. Neðri hlutar innréttingarinnar eru úr hörðu og svörtu plasti.

Framsætin eru þægileg og sessan nokkuð há, sem gefur gott aðgengi. Smæðin er þó áþreifanleg þegar setið er í bílnum. Hvirfillinn á undirrituðum straukst í ramma glerþaksins, þó sætið hafi verið í lægstu stöðu. Hæð þess sem skrifar er 191 sentímetri og má reikna með að hærri einstaklingar muni ekki geta komið sér vel fyrir.

Sessan á framsætunum er nokkuð há. Aftursætin henta farþegum undir 170 sentímetrum.

Auka farþegadyr

Þegar hurðin farþegamegin er upp á gátt er hægt að opna lítinn hlera sem gefur aukið aðgengi að aftursætunum. Segja má að þeir Fiat 500 sem eru útbúnir þessum aukahluti séu með tvær og hálfa dyr fyrir farþega. Þetta hjálpar líklega við að koma börnum í barnabílstóla, en skiptir ekki höfuðmáli fyrir létta og lipra farþega á eigin fótum – hurðirnar eru hvort eð er svo stórar.
Aftursætin eru tvö. Þau eru það lítil að ekki má reikna með að geta notað þau til mikilla farþegaflutninga. Undirritaður gat ekki með nokkru móti setið í þeim, en einstaklingur sem er 170 sentímetrar getur þröngvað sér inn og þraukað stuttar bílferðir. Bæði aftursætin, ásamt fremra farþegasætinu, eru með Iso-Fix barnabílstólsfestingar.

Áðurnefnt glerþak hleypir mikilli birtu inn í bílinn og er áhugavert að geta horft til himins þegar ekið er um stræti borgarinnar. Hliðargluggarnir að aftan eru nokkuð litlir og skert útsýnið fyrir aftursætisfarþega. Fiat 500 er með 185 lítra skott, sem rúmar vel nokkrar ítalskar handtöskur, eða fjóra fulla Hagkaupspoka. Skotthlerinn er stór, sem gefur möguleika á að flytja stærri hluti ef sætin eru lögð niður.

Hægt er að fá bílinn með aukadyrum farþegamegin.

Auðveldur í akstri

Allur akstur þessa bíls er eins einfaldur og kostur er. Akstursstefna er valin með að ýta á einn af fjórum tökkum í mælaborðinu, sem koma í staðinn fyrir gírstöng. Fiat 500 er vel hljóðeinangraður, og þar sem þetta er rafmagnsbíll, kemur enginn titringur frá vél.

Mótorinn gefur 118 hestöfl og er bíllinn afar kvikur – sérstaklega þegar kemur að hraðabreytingum á lægri hraða. Auðvelt er að skjótast inn í hringtorg og svína fyrir bíla þegar maður er í tímaþröng. Upplifunin er um margt lík akstri go-kart bíla.

Hægt er að keyra án þess að snerta bremsufetilinn, en þegar inngjöfinni er sleppt nemur bifreiðin alveg staðar. Sé bíllinn þannig stilltur er bremsan einungis notuð í neyðartilfellum. Mjög fullkomin akstursaðstoð er í La Prima útgáfunni. Bíllinn heldur sér sjálfkrafa á miðri akrein. Jafnframt heldur hann hæfilegri fjarlægð frá bílnum fyrir framan, ásamt því að stoppa og taka af stað. Akstur í mjög þungri umferð verður því áreynslulaus.

Skynjararnir sem eru nauðsynlegir fyrir akstursaðstoðina hafa þann ókost í för með sér að stór blindur punktur er í miðri framrúðunni. Við baksýnisspegilinn er stærðar-bákn og þarf að beygja sig fram til að sjá hvort gangandi vegfarandi eða bíll komi frá hægri. Þetta atriði er afar óþægilegt við akstur í íbúðagötum eða við gangbrautir.

Hinn nýi 500 er stærri en forverinn á alla vegu. Hlutföllin hafa haldið sér og erfitt að þekkja gamla og nýja í sundur.

Margmiðlunarskjár virkar vel

Skjárinn í miðju mælaborðsins er útbúinn fullkomnu margmiðlunarkerfi. Undirritaður tengdist þráðlaust við Android Auto á augnabliki við afhendingu bílsins, og fann kerfið símann á svipstundu í hvert skipti sem bifreiðin var ræst eftir það.

Undirritaður gat ekki stimplað inn símanúmer á ferð, heldur þurfti að fletta í gegnum tengiliðaskrá símans. Síðastnefnda atriðið virðist þó ekki alltaf eiga við.

Innréttingin er ítölsk hönnunarvara. Margmiðlunarskjárinn er eins og best gerist.

Tölur

Fiat 500 La Prima er með 42 kílóvatta rafhlöðu. Samkvæmt framleiðanda er hægt að aka 433 kílómetra á einni hleðslu. Sú tala næst aldrei og gaf aksturstölva bílsins upp 250 kílómetra drægni í þessum prufuakstri. Hann tekur allt að 85 kílóvatta hleðslustraum, sem þýðir að hægt er að ná 85 prósent hleðslu á 35 mínútum.

Samkvæmt verðlista Ísband kostar bíllinn nýr 5.850.000 krónur með virðisaukaskatti.

Að lokum

Fiat 500 er einn fallegasti bíll götunnar og er dæmi um bifreið sem vekur hjá manni sterkar tilfinningar vegna fríðleika. Í samanburði við helstu keppinauta sína frá Mini og Honda, þá er rafhlaðan í þessum bíl mun stærri, sem gerir bílinn að nothæfari kosti.

Veikasti hlekkur þessa bíls er þó hátt verðið, og þarf ekki að leita langt að mun praktískari rafmagnsbíl á betra verði.

Enginn þeirra er þó jafn fríður á velli.

Skylt efni: vélabásinn | prufuakstur

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...