Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Verðlækkun til bænda dugi ekki til að stöðva tapið
Skoðun 9. september 2016

Verðlækkun til bænda dugi ekki til að stöðva tapið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í nýju fréttabréfi SS fjallar Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, um landbúnað á Íslandi, búvörusamninginn og afurðaverð til bænda. Þar segir hann meðal annars: Hefðbundinn landbúnaður byggir tilvist sína á stuðningi sem afmarkaður er í búvörusamningi auk innflutningsverndar. Fyrir liggur að útlagður kostnaður ríkisins við búvörusamning er um 14 milljarðar á ári og innflutningsvernd hefur verið metin á um 6 milljarða. 


Í umfjöllun Steinþórs segir að kostnaður ríkisins af búvörusamningi sé um 1,7% af ríkisútgjöldum sem er mikil lækkun frá liðinni tíð. Sem dæmi má nefna að árið 2000 var kostnaður ríkisins um 2,8% af ríkisútgjöldum.

Verðlækkun til bænda dugar ekki

Steindór segir að verðlækkun til bænda dugi ekki til að stöðva taprekstur af slátrun og sölu kindakjöts. Það er eðlilegt að spyrja sig hvert þetta muni leiða. Tap hefur þann leiðinlega eiginleika að hverfa ekki. Einhver borgar tapið að lokum. Tapþol fyrirtækja, sem eru verulega háð slátrun og sölu kindakjöts, er orðið mjög lítið og næsta víst að eitt eða fleiri sláturhús hætta slátrun á næsta ári. Hver ætlar að taka við þessari slátrun þegar tap er á hverju kílói og ekki fyrirséð að það sé að fara að breytast?

Verðlagning haustsins

Sláturleyfishafar hafa birt verðskrár haustsins sem í öllum tilfellum lækka frá fyrra ári. Bændur eru eðlilega ósáttir og gagnrýna verðið. Málefnaleg umræða er mikilvæg og að leita lausna til lengri tíma litið. Varast ber villandi eða ranga framsetningu upplýsinga sem afvegaleiðir umræðuna. Er ekki til gagns og getur jafnvel skapað óvild aðila sem efla þarf gott samstarf við. Samkvæmt nýjustu skýrslu frá MAST til loka júlí þá var samdráttur í sölu innanlands á 12 mánaða tímabili 0,7%. Það er því ekki rétt að sala hafi aukist. Vextir hafa vissulega lækkað en 0,5% lækkun vaxta vegur ekki þungt.

Erlendar hækkanir vega ekki upp styrkingu krónunnar

Því hefur verið haldið fram að verð erlendis fari hækkandi. Íslenska krónan hefur styrkst um nálægt 10% (gengi evru) frá síðasta hausti og um 25% gagnvart bresku pundi. Í flestum tilfellum er verð erlendis óbreytt í erlendri mynt og í þeim tilfellum sem verð hefur hækkað dugar það ekki til að mæta styrkingu krónunnar. Í viðbót við það sem hér er nefnt þá er hrun á gærumarkaði og mikil lækkun á afurðum eins og görnum. Útflutningur á kjöti og aukaafurðum mun því skila mun lægri tekjum í íslenskum krónum en fyrra ár.

Tap á slátrun í fyrra

Árið 2015 var tap á slátrun og sölu kindakjöts hátt í 100 krónur á kílóið. Af því sem áður er nefnt er ljóst að afkoma þessa árs verður mjög slæm. Fyrirtæki hafa mismunandi efnahagslegan styrk og þar með tapþol. SS hefur sem betur fer tekið farsælar ákvarðanir á liðnum árum og sauðfjárslátrun vegur ekki lengur jafn þungt í rekstri félagsins og áður var. Félagið getur því leyft sér til skemmri tíma að ganga skemur í verðlækkun en sumir aðrir sláturleyfishafar þurfa að gera.

Röng framsetning á tölum

Landssamtök sauðfjárbænda birtu á heimasíðu sinni útreikninga á hlut bænda í smásöluverði. Reiknað var út frá bændaverði og smásöluverði á hrygg og læri. Þessi framsetning er augljóslega röng. Ef sama aðferð væri notuð á sagaðan frampart úr búð eða slög mætti segja að hlutur bænda væri nálægt 100% eða jafnvel meira í sölu þessara afurða.

Ef reikna á hlut bænda af smásöluverði þá verður að reikna skrokkinn allan í réttum hlutföllum. Annað eru blekkingar sem afvegaleiða umræðuna auk þess sem bændur gefa höggstað á sér.

Ekki rétt að ásaka smásöluna

Margsinnis hefur komið fram að forsvarsmenn bænda telja smásöluna sökudólg í málinu og að smásalan skammti sér óeðlilega háa álagningu og lækki verð á kjöti. Það er sjálfsagt að ræða og skoða verðmyndun vara en rétt skal vera rétt og þetta er ekki rétt.

Verslanir geta ekki tekið sér neinar verðlækkanir heldur eru það söluaðilar sem bjóða verð niður þegar offramboð er á markaði. Öllu skiptir því að jafnvægi ríki. Bændur þurfa á góðu samstarfi við smásala að halda. Ómakleg gagnrýni er til tjóns og getur ýtt undir áhuga verslana á auknum innflutningi landbúnaðarvara.

Hvað er fram undan?

En hvers vegna er svo komið fyrir sauðfjárbændum og sláturleyfishöfum? Það er hægt að tala um lækkun á verði afurða, kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga, styrkingu íslensku krónunnar o.s.frv. Allt eru þetta staðreyndir en hin raunverulega ástæða og sú sem mestu skiptir er önnur.

Í búvörusamningi í ársbyrjun 2007 var sú afdrifaríka breyting gerð að útflutningsskylda kindakjöts féll niður! Útflutningsskyldan var undanþága frá samkeppnislögum sem gerði kleift að jafna ábyrgð og kostnaði við útflutning milli bænda og milli sláturleyfishafa. Þessi undanþága er ekki lengur til staðar og ólöglegt að hafa nokkurt samráð eða samstarf um það magn sem flutt er úr landi.

Vandinn í hnotskurn

„Það liggur í augum uppi að þegar flytja þarf út yfir 30% af framleiðslunni og verð erlendis er mun lægra en innanlands þá verður alltaf söluþrýstingur innanlands. Með öðrum orðum svokallaður kaupendamarkaður. Sláturleyfishafar bjóða hver niður fyrir öðrum til að þurfa að flytja minna út á lágu verði. Þetta er hin raunverulega ástæða stöðunnar sem nú er uppi.

Ef ekki tekst að finna slíkan markað blasir ekki annað við en vinna að því að minnka framleiðslu á kindakjöti. Sláturleyfishafar ráða með góðu móti við að koma 1.200 –1.500 tonn á viðunandi verði úr landi en ekki 3.500 tonn,“ segir Steinþór í fréttabréfi SS.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...