Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Verðbólga reynir á hagkerfi Evrópu
Lesendarýni 6. október 2022

Verðbólga reynir á hagkerfi Evrópu

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni

Þann 30. september sl. birti Eurostat niðurstöður verðbólgumælinga í ESB í september. Í fyrsta skipti mælist verðbólga á evrusvæðinu með tveggja stafa tölu, 10,0%.

Erna Bjarnadóttir

Þetta er meiri verðbólga en spár hagfræðinga sem Bloomberg fréttaveitan leitaði til gerðu ráð fyrir, en miðgildi þeirra reyndist vera 9,7%.

Í Þýskalandi stærsta hagkerfi
Evrópu, hækkaði verð mun meira en búist var við og er verðbólga þar nú 10,9%. Eystrasaltslöndin þrjú tróna á toppnum á evrusvæðinu en verðbólga í þeim er yfir 22%, hæst í Eistlandi. Þá vekur óneitanlega athygli 17,1% verðbólga í Hollandi. Þrátt fyrir sameiginlegan gjaldmiðil er mikill munur á verðbólgu milli landa sem öll eru þar að auki hluti af innri markaði ESB.

Hvaða orsakir búa að baki verðbólgunni?

Þegar litið er á helstu orsakir verðbólgu á evrusvæðinu er 12 mánaða hækkun langmest á orku sem hafði hækkað um heil 40,8% frá því í september í fyrra. Næstmesta hækkunin varð á matvöru og áfengi, 11,8%, en aðrir liðir hækka minna, þó allir meira m.v. 12 mánaða tímabil en mæling ágústmánaðar sýndi. Engan þarf því að undra að Evrópubúar kvíði komandi vetri með slíkri hækkun á orkureikningi sínum og engar batahorfur á því sviði í sjónmáli.

Á sama tíma er verðbólga á Íslandi á niðurleið og mældist 9,3% í september. Hér á landi hækkaði matur og drykkjarvörur um 8,4% á 12 mánaða tímabili, rafmagn og hiti um 7,1% og bensín og olíur um 29,8%.

Þrýstingur á Seðlabanka Evrópu um að hækka vexti hefur því enn aukist en næsta vaxtaákvörðun þar á bæ verður 27. október nk. og búast sérfræðingar við 75 punkta hækkun. Verðbólgumarkmiðið er 2% en spár hníga að því að verðbólga verði áfram mikil út árið. OECD hefur einnig hækkað spá sína um verðbólgu á evrusvæðinu á næsta ári um 1,6 prósentustig í 6,2%. Vart þarf að orðlengja að Ísland á mikið undir að efnahagur í nágrannalöndum okkar, þar með talið ESB, sé sterkur. Þetta eru okkar helstu viðskiptalönd bæði fyrir vöru og þjónustu, að ferðamannaþjónustu meðtalinni.

Staðan innan Evrópusambandsins

Engum getur blandast hugur um að ESB á nú við mikinn vanda að etja. Margt hefur komið til. Í fyrsta lagi hafði Covid-19 faraldurinn gríðarleg áhrif. Hann truflaði verulega flæði vinnuafls með takmörkunum á landamærum og dró úr virkni innri markaðarins þegar hvert land valdi sín eigin viðbrögð og reglur. Þannig sýndi faraldurinn glöggt fram á að þegar í harðbakkann slær treystir hver þjóð á eigin þjóðaröryggishagsmuni og eru ákvarðanir teknar á þeim grundvelli en ekki samkvæmt heildarhagsmunum ESB.

Í framhaldinu hefur sá veikleiki ESB að reiða sig á óhindraðar hnattrænar framboðskeðjur fyrir lykilaðföng komið skýrt fram. Þetta á ekki hvað síst við um orku- og umhverfisstefnu ESB sem hefur gert aðildarríkin mjög háð framboði hráefna og orku frá öðrum ríkjum.

Önnur markaðssvæði glíma við sambærilegar áskoranir, t.d. Bandaríkin. Spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Kína hefur nú þegar haft áhrif á ákvarðanir stórfyrirtækja. Þannig hefur Apple fyrirtækið ákveðið að hefja framleiðslu á nýjum farsíma, iPhone 14, á Indlandi. Er þetta fyrsta raftæki Apple sem framleitt er utan Kína í nær tvo áratugi.

Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu

Þegar litið er á þann ólgusjó sem leikur nú um ESB og raunar flest ríki heims, má segja að Íslandi sé að farnast tiltölulega vel. Hagkerfi okkar hefur mikla sérstöðu, og hagvaxtarhorfur eru fremur góðar. Ísland á einnig í miklu samstarfi í alþjóðasamfélaginu til dæmis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, NATO, Norðurlandaráðs, Evrópu- ráðsþingsins, Alþjóðaviðskipta- stofnunarinnar, EES, EFTA, auk ótal tvíhliða samninga um viðskipti og þróunarsamvinnu.

Landið trónir einnig í efstu sætum á flestum alþjóðlegum mælikvörðum um lífskjör. Í nýlegri skýrslu Katrínar Ólafsdóttur fyrir Þjóðhagsráð kemur fram að kaupmáttaraukning hér á landi er mikil á síðustu árum, en þar segir m.a. „[e]f við horfum eingöngu á tímabilið frá 2012 þá er kaupmáttaraukning á Norðurlöndunum á bilinu 2-10% samanborið við 57% á Íslandi.“

En veldur hver er á heldur, fram undan er vetur hér á norðurhveli jarðar. Kjarasamningagerð fer í hönd á komandi mánuðum og fjárlög sem marka bæði tekju- og útgjaldaramma ríkisins eru til meðferðar fyrir Alþingi. Mikið liggur við að vel takist til svo viðhalda megi þeirri stöðu sem tekist hefur að byggja upp á undanförnum misserum.

Nýtt Bændablað kom út í dag

Skylt efni: verðbólga

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...