Um áveitur og endurheimt mýra
Nýverið gekk ég yfir götuna á Hvanneyri og heimsótti Bjarna Guðmundsson, fyrrverandi prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ég hef átt erindi við hann í nokkurn tíma því mig langaði að sýna honum loftmyndir frá 1965 af Mýrum í Borgarbyggð en á þeim myndum er auðvelt að greina engjaslátt.
Það sem ég skildi illa var tilgangur þess að bleyta upp í forblautum mýrum með áveitum. Bjarni útskýrði fyrir mér á sinn listilega hátt þangað til ég sá ljósið og heimur áveitna opnaðist fyrir mér. Sú jarðræktarlist tapaðist að mestu leyti þegar framræsla mýranna hófst. Með framræslu hófst mikil framför fyrir landbúnað og samgöngur en gekk svo helst til of langt og standa nú fjöldamargir skurðir aleinir og yfirgefnir og leita að tilgangi sínum. Umræðan um endurheimt votlendis á síðustu árum hefur verið eins og hnútur sem hertist og hertist en aldrei tókst að leysa úr. Nú er ég enginn sérfræðingur að sunnan til að leysa þennan hnút og af vondu fólki komin af Snæfellsnesi. Þrátt fyrir það sit ég uppi með þann áhuga að langa til þess að opna heim mýranna fyrir fólki, rétt eins og Bjarni hjálpaði mér að skilja betur áveitur.
Flestir eru meðvitaðir um það að landið sé að fjúka burt þegar við stöndum á gróðursnauðu landi og horfum á rofabarðið sem stendur eitt eftir. Í rauninni er landið líka að fjúka burt sem framræst mýri en vandinn er sá að það er okkur ósýnilegt. Því þegar vatnið lækkar kemst súrefnið niður í jarðveginn og örverurnar byrja að brjóta niður lífræna efnið sem þar býr og afurðirnar úr því eru gastegundir sem leysast svo upp í andrúmsloftið. Þó gróður sé gróskumikill og heillegur í framræstum mýrum þá er það vatnsstaðan sem skiptir öllu máli og í hvaða mæli jarðvegurinn nær að þorna. Við erum í raun að tapa landinu upp í loftið.
Eins og endurnýting er ofar endurvinnslu er vernd mýra ofar endurheimt þeirra. Fyrsta friðun votlendis á Íslandi var gerð að frumkvæði svarfdælskra bænda sem sáu það að með þurrkun lands eyðilögðust m.a. lífsskilyrði fuglanna, sambýlinga þeirra. Í Evrópu keppast menn nú við að búa til vinjar í eyðimerkur ræktarlands með endurheimt lítilla tjarna. Hér á landi, með smá fyrirhyggju, væri hægt að vernda votlendissvæði fyrir frekari eyðileggingu en til þess þarf fræðslu um mikilvægi þeirra og réttan forgang í skipulagsmálum.
Endurheimt mýra sem verkefni hjá Landi og skógi byggist á óskum landeiganda og sýn þeirra á framtíðar landnýtingu. Markmið landeigenda sem hafa endurheimt mýrar með Landi og skógi hafa verið margþætt og sem dæmi má nefna: endurheimt fugla- og fiskalífs, endurheimt landslags og endurheimt mýrar til þess að minnka sveiflur í aðliggjandi stöðuvatni.
Verklagið við endurheimt mýra hefur verið í þróun frá árinu 2016 og er enn í þróun. Við grúskum í heimildum og skoðum gamlar loftmyndir til að afla upplýsinga um ástand mýra fyrir framræslu. Við höfum samband við minjaverði og fáum upplýsingar um minjar í mýrunum sem við merkjum fyrir og komum í veg fyrir að raskist við framkvæmdir. Við spáum fyrir breytingum á rennsli vatns eftir endurheimt og áhrif þess á nærliggjandi jarðir. Við metum hversu virk framræslan er og mælum dýpt lífræns jarðvegs. Við gáfum út leiðbeiningar fyrir framkvæmdaaðila með aðferðum við endurheimt votlendis og höfum tvisvar haldið sérstakt kvöldnámskeið fyrir verktaka sem var vel sótt í bæði skiptin. Það er nefnilega list að loka skurðum.
Nú veit ég ekki hvort þessi skrif mín skili nokkru inn í umræðu um endurheimt mýra en ef einhver þarna úti hefur áhuga á að skoða hvort vit sé í því að varðveita jarðveginn, með sinni næringu og kolefni, á meðan vaðfuglarnir syngja, þá er hægt að sækja um styrk til Lands og skógar til þeirrar framkvæmdar sem greidd er að fullu. Athuga skal að með þessari leið er ekki hægt að fá útgefnar vottaðar kolefniseiningar. Land og skógur, í samstarfi við International Carbon Registry (ICR), vinnur nú að útgáfu viðurkenndrar opinnar aðferðafræði sem nýta má við endurheimt votlendis til að búa til vottaðar gæðakolefniseiningar sem standast háar gæðakröfur. Kjósi landeigendur að fara þá leið greiðist allur útlagður kostnaður af landeigendum sjálfum.
Hvaða leið sem fólk kýs að velja má ekki gleymast að þau sem vita hvað mest um endurheimt mýra starfa hjá Landi og skógi og eru yfirleitt boðin og búin að ræða þau mál á hvaða vettvangi sem er. Máttur fræðslu og tengsl okkar við fortíðina skipta miklu máli og það sem okkur skortir helst í dag er að hlusta með auðmýkt og reyna að skilja hvert annað.