Traust fyrirkomulag kolefnismarkaða og aukið fjármagn
Tækifæri eru í íslenskum landbúnaði í tengslum við ýmis náttúrutengd verkefni sem snúa að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og/eða binda GHL til lengri eða varanlegs tíma. Þau eru ekki síst fjárhagslegs eðlis þar sem hægt er að fá greitt fyrir að vernda náttúruna og búa um leið til loftslagsávinning og er að finna fjölmörg dæmi um slíkt erlendis frá.
Til að slíkt raungerist hér á landi þá þarf að móta betur framtíðarfyrirkomulag fyrir íslenskan kolefnismarkað, tryggja gæði og gagnsæi verkefna, auka við fjármögnunarúrræði og tilgreina ábyrgð lykilaðila í ferlinu. Slíkt mun styðja við loftslagsmarkmið Íslands undir Parísarsamningnum og hraða framvindu hágæða loftslagsverkefna og verndun og endurheimt náttúru hér á landi. Til að mæta þeim kostnaði sem hlýst af við slíkar aðgerðir er mikilvægt að tengja saman hagsmuni atvinnulífsins og hins opinbera útfrá sameiginlegum markmiðum um langtíma kolefnishlutleysi og nýta til þess einkafjármagn til viðbótar við opinbera sjóði.
Um árabil hefur átt sér stað uppbygging skóga og endurheimt votlendis víða um land bæði af hendi hins opinbera og ekki síst frá einkaaðilum. Fæst þessara verkefna hafa farið í gegnum vottað ferli sem hefur rýrt fjárhagslegt virði og trúverðugleika þeirra og mögulega dregið úr áhuga á frekari vexti. Tvær af helstu hindrunum fyrir árangri hafa einkum verið:
- Aðgengi að alþjóðlegum stöðlum, vottunum og skráningu
- Skortur á fjármagni til að ráðast í stór loftslagsverkefni
Hvað varðar fyrri liðinn þá hefur orðið þó nokkur breyting síðan að sérfræðingahópur á vegum Staðlaráðs Íslands gaf út Tækniforskrift fyrir ábyrga kolefnisjöfnun árið 2022 sem setti fram gæðakröfur fyrir loftslagsverkefni í samræmi við alþjóðlega staðla og ábyrgar yfirlýsingar aðila um kolefnisjöfnun. T.a.m. hefur Skógarkolefni gert framkvæmdaraðilum kleift að sækja sér vottun sem síðar meir er hægt að nýta til að skrá kolefniseiningar í loftslagsskrá. Fyrirtæki og stofnanir geta svo keypt þessar einingar sem hluta af sínum loftslagsaðgerðum gagnvart þeirri losun sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. Ennfremur hefur Land og skógur verið með í undirbúningi aðferðafræði fyrir votlendisverkefni sem sérfræðingar Deloitte og International Carbon Registry (ICR) hafa komið að í samstarfi við sérfræðinga Lands og skóga. Vonast er til að sá staðall verði aðgengilegur á sumarmánuðum og muni nýtast landeigendum sem vilja bjóða til sölu vottaðar kolefniseiningar. Hægt er að þróa fleiri tegundir af loftslagsverkefnum í landbúnaði s.s. í tengslum við jarðveg og hafa mörg slík litið dagsins ljós og má sjá dæmi um slíkt hjá ICR. Snemma á árinu hlaut ICR alþjóðlega viðurkenningu frá International Carbon Reduction and Offset Alliance (ICROA) sem eru ein virtustu samtök á sviði viðurkenningar á vottunarkerfum og kolefnisskrám. Opnaði þessi viðurkenning nýja markaði fyrir ICR og verkefni sem skráð eru hjá ICR. Einnig hefur samstarf Skógarkolefnis og ICR þróast, en unnið er að því að koma Skógarkolefninu undir ICROA viðurkenningu ICR. Vert er að nefna nýlega skýrslu stjórnvalda um kolefnismarkaði þar sem farið er yfir landslagið hvað varðar innlendan valkvæðan kolefnismarkað.
Þrátt fyrir ágætan framgang við að bæta gæði og gagnsæi innlendra loftslagsverkefna með hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum, vottunum og skráningu, þá hefur aðgengi að fjármagni verið af skornum skammti. Þetta á bæði við um fjármögnun verkefnanna sjálfra frá fjármögnunaraðilum (bæði lánfjármögnun og fjárfesting) sem og við sölu vottaðra kolefniseininga til fyrirtækja. Ljóst er að hagsmunir íslenska ríkisins við að sjá markað með innlend hágæða loftslagsverkefni vaxa og dafna eru þó nokkrir. Til þess þarf að tryggja fjármagn enda stuðlar virkur kolefnismarkaður að árangri Íslands undir Parísarsamningnum. Líkt og kemur fram á vef ríkisstjórnarinnar um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum eru töluvert af aðgerðum enn ófjármagnaðar og eða á hugmyndastigi og þá sérstaklaga í tengslum við landnotkun. Í Danmörku eru flestar aðgerðir fjármagnaðar af ríkinu og í Kosta Ríka er kolefnisskattur notaður til að styðja við loftslagsbændur. Annars staðar, líkt og í Japan, Singapore og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum hafa ríki farið í að skattleggja fyrirtæki vegna kolefnislosunar en boðið þeim að borga skattinn að hluta með kaupum á innlendum vottuðum kolefniseiningum. Í Evrópu hafa t.d. stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi gefið það út að þau ætli að auka við fjárfestingar í loftslagsverkefnum. Í Bretlandi hefur verið um langt skeið haldið úti sambærilegu vottunarkerfi og Skógarkolefni að nafni Woodland Carbon Code (WCC). Í raun er Skógarkolefnið íslenska heimfærsla á hinu breska WCC. Það sem bresk stjórnvöld áttuðu sig á var að landeigendur þurfa tryggingu um sölu sinna eininga til að geta farið í stórar aðgerðir. Var því komið á fót 50m GBP sjóði sem hefur þann tilgang að þjóna sem kaupandi að einingum sem gefnar eru út undir WCC. Landeigendum býðst líka að selja einingarnar á frjálsum markaði en þarna er óvissunni um sölu eytt. Eftir að þessari tryggingu var komið á hefur áhugi stóraukist á kolefnisskógrækt.
Ein leið til að koma á skilvirkum kolefnismarkaði hér á landi væri að greina hver heildarfjármögnunarþörf ríkisins er fyrir náttúrutengd verkefni (t.d. fyrir skógræktar og votlendisverkefni) um allt land og þá sérstaklega m.t.t. landbúnaðar. Einnig þyrfti að ræða hvernig fjárfestar/ lánastofnanir (innlendar og erlendar) geti fjármagnað verkefni, með hvaða hætti (lán, styrkir, fjárfestingar) og hver aðkoma ríkisins þyrfti að vera til að draga úr áhættu og auka áhuga þeirra t.d. í formi lánatrygginga (e. guarantees), fjárfestinga (e. co-investment), skattaafslátta eða fyrirfram kaupa í verkefnum í gegnum opinbera sjóði. Að lokum þyrfti að skoða eftirspurnarhliðina og skilgreina samspil hins opinbera og atvinnulífsins varðandi loftslagsmarkmið hvoru tveggja og hvaða hlutverk kolefnismarkaðir geti gegnt þar og hvort draga megi lærdóm af þeim aðgerðum sem áðurnefnd ríki hafa gripið til.